21.03.1972
Sameinað þing: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í D-deild Alþingistíðinda. (4184)

46. mál, öryggismál Íslands

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég hef auðvitað ekkert við það að athuga, að þessar tvær till. séu ræddar undir einum dagskrárlið. Það rifjast að vísu upp fyrir mér, að þeir sögðu það í frönsku stjórnarbyltingunni, að þeir óskuðu þess, að sem allra flest höfuð væru á einum hálsi vegna verka hagræðingar, en það er nú ekki þess vegna, sem ég lít svona til. því að hér er vissulega um mjög misjafnar till. að ræða, eins og ég mun kannske koma að í þessu sambandi. Ég held, að ég muni þó kjósa að gera að umtalsefni framsöguræður beggja:flm. hvora fyrir sig, og ég mundi þá leyfa mér að byrja á framsöguræðunni um till. til þál. um fyrirkomulag viðræðna um öryggismál Íslands, sem flutt er af allmörgum þm. Sjálfstfl.

Það er rétt, sem hv. frsm. þeirrar till., hv. 2. þm. Reykv., sagði hér áðan í sinni ræðu, að þessi till. var nokkuð rædd við umr. hérna 23. nóv. 1971, og ég er honum alveg sammála um það, að það er svo sem við engan einstakling að sakast um það, þó að þessi umr. hafi dregizt eins og raun ber vitni. Það vildi alltaf eitthvað til, ýmist voru flm. ekki tiltækir eða ráðh. ekki tiltækir eða önnur þingstörf meira aðkallandi. Ég tel æskilegt, að við komum þessum till. áfram í dag og mun ekki þess vegna tefja fyrir því með löngum ræðuhöldum, heldur segja hér aðeins örfá orð um þessa till. Í þeim umr., sem fram fóru þarna í nóv., þá lýsti ég afstöðu minni til þessarar till. þm. Sjálfstfl., og hún var í stuttu máli þannig, að ég teldi þessa till. algjört vantraust á mig sem utanrrh., þar sem í tillgr. er sérstaklega farið fram á það, að Alþ. tilnefni einn fulltrúa frá sumum þingflokkanna, þó ekki öllum, til þess að starfa með utanrrh. í viðræðum við Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir Atlantshafsbandalagsins um endurskoðun á varnarsamningi, eins og þar segir. Ég held og veit raunar, að það mundi vera algjört einsdæmi í þingsögunni, ef Alþ. sæi sig knúið til að samþykkja till. eins og þessa. Ég minnti á það hér í nóv. s.l., að einu sinni áður hefur alþm. eða hluta þeirra dottið í hug að viðhafa sams konar málsmeðferð. Það var 1956, þegar Sjálfstfl. var, eins og hann er núna, utan við stjórn, og taldi þá, eins og nú, að enginn gæti með nokkru móti farið með málefni Íslands annar en þeir. Þessi till. var þá felld, og ég vonast til þess, satt að segja, að þessi till., sem hér er fram komin, verði einnig felld. Þó voru þessar till. ekki eins, vegna þess að 1956 var þó gerð till. um hlutfallskosningu í nefnd, en nú er ekki einu sinni verið að hafa slík ákvæði, heldur berum orðum tekið fram, að hluta af alþm. skuli haldið utan við hluta af málefnum þjóðarinnar. Ég tel, það ekki lýðræðisleg vinnubrögð. Annars gleður það mig að heyra það hjá hv. 2. þm. Reykv., að hann hefur haft tíma til þess að endurskoða þessa till. og er nú ekki eins hrifinn af henni, skildist mér, eins og hann var í nóv., því að hann gerir því núna skóna, að henni verði breytt, jafnvel að till. Alþfl. komi þarna í staðinn. Ég ætla að víkja að till. Alþfl. á eftir, en aðeins að gera ræðu hv. 2. þm. Reykv. örlítið meira að umtalsefni.

Ég ætla nú ekki að fara út í þessa túlkun á stjórnarsáttmálanum og þá mismunandi túlkun, sem mjög var gerð að umræðuefni hér 23. nóv., en ég fullyrði það, að hvernig sem bæði hv. 2. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Reykn. leita í því, sem ég hef sagt um túlkun á þessu tiltekna ákvæði málefnasamningsins, þá munu þeir ekki finna þar ósamræmi, ef undan er skilin frásögn í dagblaðinu Vísi 15. júlí s.l., sem ég gerði hér sérstaklega að umtalsefni, þegar þessi mál voru hér síðast til umr. Þess vegna er mér alveg ósárt um það, þó að þeir hv. þm. geri leit í mínum ummælum. Ég bara vorkenni þeim þá fyrirhöfn, sem ekki leiðir til neins árangurs, og vil segja þeim þetta í góðu skyni til að spara þeim vinnu. Það var enn fremur rætt hér um þá vinnunefnd, sem sett hefur verið í utanríkismálin og tveir ráðh. með mér skipaðir í. Það hefur ekki heldur verið gert hér að meginmáli, og ég skal þá ekki heldur gera það, aðeins endurtaka það, sem ég sagði að gefnu tilefni snemma á þingi og aftur 23. nóv., að það hefur engin breyting orðið á verkaskiptingu í ríkisstj. Utanríkismálin heyra eftir sem áður og hafa alltaf gert í tíð þessarar ríkisstj. undir utanrrh„ og svo er enn.

Hv. 2. þm. Reykv. spurði að því, hvort vænta mætti þess, að samningsviðræðurnar við Bandaríkjamenn yrðu lagðar fyrir Alþ. á þessu þingi, — ég tók það svo, —- eða ekki fyrr en næsta haust. Því get ég algjörlega þegar í stað svarað neitandi, eða játandi líklega, ég man ekki, hvernig setningin byrjaði, en ég skal þá bara lýsa því yfir, að þessi mál verða ekki lögð fyrir Alþ. á þessu þingi, þannig að menn geta alveg verið rólegir fyrir því.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að samráðið í landhelgismálinu hefði ekki verið eins og það ætti að vera. Mér þykir nú leitt að heyra þetta, þar sem ég hef nú fyrir mitt leyti og ég held flestir, ef ekki allir, sem að þessum málum hafa unnið fyrir ríkisstj. hönd, gengið mjög langt og gert það, sem í þeirra valdi stóð, finnst mér nú, til þess að ná samstöðu um landhelgismálið, og hún náðist. Ég hef áður flutt stjórnarandstæðingum þakkir fyrir þau vinnubrögð, sem þeir hafa viðhaft í landhelgismálinu, og ég get alveg endurtekið það hér, en þess vegna finnst mér nú ekki alls kostar rétt að lýsa því hér yfir úr ræðustóli, að samráðið í landhelgismálinu hafi ekki verið eins og skyldi, en samt tók hv. þm. það fram, að það hefði verið til bóta, — ég er út af fyrir sig ánægður með þá umsögn, — og hann sagði, að þingflokkarnir ættu að vera með í ráðum. Þetta vil ég líka taka alveg undir, en till. hv. 2. þm. Reykv. gengur ekki út á það, að þingflokkarnir eigi að vera með í ráðum. Hún gengur alveg í þveröfuga átt. Hún gengur út á það, að tiltekinn þingflokkur eigi ekki og megi ekki vera með í ráðum um tiltekið stórmál. Ég hygg, að hv. sjálfstæðismenn hefðu talið samráðið í landhelgisnefnd miklu síðra en vera ætti, ef þannig hefði verið staðið að því, að þeim hefði verið haldið þar fyrir utan. Það kom vitanlega aldrei til greina að gera það, því að um það mál þurfti að nást og náðist þjóðarsamstaða, en mér finnst till. hv. sjálfstæðismanna á þskj. 47 síður en svo benda til þess, að það sé þeirra raunverulega hjartans meining, að þingflokkarnir skuli hafa samráð um mikilsverð mál. Till. verður þá að lesast öðruvísi en hún er prentuð á þskj. 47, ef sú á að verða niðurstaða hennar.

Þá sagði hv. 2. þm. Reykv., að meiri samstaða innanlands um utanríkismál væri nauðsynlegri nú en nokkru sinni fyrr. Af hverju skyldi vera að hans mati enn þá meiri ástæða til þess nú en nokkru sinni fyrr, að innlend samstaða sé um utanríkismál? Hann nefndi eina ástæðu. Hann nefndi þá ástæðu, hvernig umhorfs er í heiminum. Það eru sömu ástæður, það eru nánar tiltekið fjórar ástæður, sem hann nefndi, og þær ástæður nefndi ég allar, þegar ég gaf skýrslu til hv. Alþ. um utanríkismál. Það eru viðræðurnar í Berlín, sem virðast benda til þess, að nú í fyrsta skipti eftir styrjöldina náist samvinna og samstarf milli Austur— — og Vestur—Þýzkalands. Hann nefndi fyrirhugaða ferð Brosios til Rússlands, sem er árangur viðræðna, sem byrjuðu hér í Reykjavík. Hann nefndi öryggismálaráðstefnu Evrópu, sem þessi ríkisstjórn, sem nú situr, hefur sérstaklega tjáð sig samþykka og gert nokkrar tilraunir til þess að koma á ásamt öðrum þjóðum, sem áhuga hafa fyrir henni, og hann nefndi SALT—viðræðurnar, sem fara fram til skiptis í Helsinki og Vín. Þessar ástæður nefndi ég líka 23. nóv., en ég dró bara af þeim aðrar ályktanir en hv. 2. þm. Reykv. gerði hér. Ég dró þær ályktanir af því, að friðvænlegar horfir í heiminum en gert hefur um langt skeið, að það væri einmitt núna tækifæri til þess að endurskoða varnarsamninginn við Bandaríkin, en hv. 2. þm. Reykv. dregur þá ályktun, að því er mér virtist, af því, að friðvænlegar horfir í heiminum en gert hefur um skeið, að ekki megi hrófla við neinu og það sé þess vegna ekki hægt að endurskoða neitt eða breyta neinu í varnarsamningnum. Menn verða að hafa á þessu þær skoðanir, sem þeim sýnist, ekki ætla ég að segja mönnum fyrir verkum um það. En það er mín bjargföst sannfæring, að ef við getum ekki endurskoðað varnarsamninginn, þegar friðvænlega horfir í veröldinni, þá getum við það miklu síður, þegar ófriðvænlega horfir. Þess vegna held ég, að það tækifæri, sem nú er að koma, sé það, sem við höfum kannske ýmsir verið að bíða eftir, tækifæri, sem gerir það kleift að fá endurskoðun á varnarmálum Íslendinga, þannig að við getum losnað við herinn án þess að rjúfa samstarf við NATO—þjóðirnar og vestrænar þjóðir, en því takmarki hafa allir nú lýst sem sínu. Nú stendur enginn maður hér lengur upp til þess að segja það, að við viljum ekki losna við herinn. Það viljum við allir og fyrst við allir viljum það, eigum við þá ekki að sameinast í því að gera þessa könnun, gera þessa endurskoðun og stefna að því að losna við herinn t.d. á kjörtímabilinu? Ef einhverjir vilja fyrr, þá verður sjálfsagt samkomulag um það.

Það er alveg rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að sú ákvörðun, sem verður tekin um hermálin og þessi mál, hún er okkar sjálfra. Við verðum að taka hana, við eigum að taka hana, það er okkar réttur, og það er okkar, skylda. Ég er alveg sammála því, sem kom fram í máli hans hér áðan, að það gerir náttúrlega málið erfiðara fyrir stjórnarvöld, fyrir Alþ. og fyrir almenning að átta sig á því, að engir innlendir sérfræðingar eru, sem við getum stuðzt við og það er vissulega atriði, sem vel er til athugunar, hvort hér ætti ekki að koma á fót einhvers konar stofnun, sem hefði þá það verkefni öðru fremur og kannske eingöngu að fylgjast með í veröldinni frá sambúðarlegu sjónarmiði séð og jafnvel hernaðarlegu, þó að við hefðum hér ekki neina hernaðarsérfræðinga. Það er náttúrlega mjög þungt að byrja slíka athugun sem þá, sem hafin er, með nánast tvær hendur tómar og takmarkað starfslið. Þannig að ég tek alveg undir það, að það væri mjög gott bæði fyrir almenning og fyrir þá, sem sérstaklega eru falin þessi mál, að einhver slík stofnun væri til. Hún er nú ekki til, og þá er það spurning, sem menn verða að svara, hvort koma eigi henni upp. Ég tel fyrir mitt leyti, að það geti verið mjög til athugunar, annaðhvort að það yrði starfsmaður í einhverju tilteknu rn., sem hefði það með höndum, eða eins og tíðkast t.d. hjá Norðmönnum og reyndar Svíum líka og ég held Dönum einnig, að þar eru sjálfstæðar stofnanir, sem vinna þessi verk. Þær eru að einhverju leyti kostaðar af ríkinu, en þær eru samt ekki beint undir stjórn ríkis eða ráðuneyta, heldur hafa þær sjálfstæða stjórn og vinna sjálfstætt.

Ég vil svo segja það um þær grg. erlendra sérfræðinga og álitsgerðir frá NATO, sem gerðar voru hér að umtalsefni, að ég mun, þegar þær hafa borizt, —nokkuð hefur borizt, annað ekki, — en ég mun gera ráðstafanir til þess að gera utanrmn. grein fyrir því, sem borizt hefur. Ég hef ekki talið, að það væri tímabært eða þörf á því að gera það alveg strax, vegna þess að þessi mál hafa, eins og hér hefur komið fram, nokkuð dregizt, nokkuð verið lögð til hliðar vegna landhelgismálsins, sem aðallega hefur verið starfað að í ríkisstj. og þá í utanrrn. alveg sérstaklega, en ekki mun þó á löngu líða, þar til samningaviðræður við Bandaríkjamenn verða upp teknar, og þegar meiri upplýsingar liggja fyrir hjá rn., þá mun ég fúslega láta utanrmn. þær í té. Flest af því er þannig vaxið, á þessu stigi a.m.k. að ég tel hepplegra og eðlilegra að útbýta því meðal utanrmn.—manna, en skýra frá því hér í heyranda hljóði, a.m.k. að svo stöddu.

Hv. 2. þm. Reykv. taldi, að ákvæði málefnasamnings ríkisstj., sem lúta að þessum varnarmálum, hefðu mjög skaðað Ísland út á við. Þessu vil ég algjörlega mótmæla, og satt að segja veit ég ekki, hvaðan hv. 2. þm. Reykv. hefur þær upplýsingar. Það hefur enginn af þeim útlendu valdamönnum, sem ég hef átt tal við og þeir eru margir, þó að ríkisstj. hafi ekki setið nema í 8 mánuði, látið að því liggja með svo mikið sem einu orði, að þeir teldu óeðlilegt, að íslenzk ríkisstj. færi fram á endurskoðun á varnarsamningi, sem gilt hefur nær óbreyttur í 20 ár og ég hef ekki þá trú, að erlendis, þar sem ég þekki til a.m.k., væri það talið landi til vanvirðu að vilja hafa sjálfstæða skoðun á því, hvaða varnir og hvaða fyrirkomulag sé haft á utanríkismálum og reynt sé að mynda sér sjálfstæða skoðun um það, hvernig utanríkismálunum eigi að haga, en taki ekki við því annars staðar frá og framkvæmi óbreytt og óathugað. Þetta hef ég ekki orðið var við, og ég mótmæli því, og ég lýsi þá eftir þeim sönnunum, sem hv. 2. þm. Reykv. hefur fyrir þessari fullyrðingu sinni.

Þá vil ég segja það, að ég álít, að af þeim atriðum, sem fram eru sett í grg. fyrir till. á þskj. 47 og eru fjögur, séu þrjú þeirra ekki rétt. Þess vegna sé till. að verulegu leyti byggð á röngum forsendum. Þar segir í fyrsta lagi, að allt frá því að Ísland hafi gerzt aðili að Atlantshafsbandalaginu hafi verið leitazt við að hafa sem nánast samráð milli lýðræðisflokkanna um framkvæmd varnarmála og starfsemi Íslands í bandalaginu. Ég segi það, að ef Framsfl. er talinn til lýðræðisflokka, sem stundum hefur nú verið, þá hefur þetta samráð ekki verið haft við hann. Samráðið í varnarmálanefnd við Framsfl. var þannig, að tveir af hans fulltrúum, Tómas Árnason og Hannes Guðmundsson, sem þá voru starfandi í varnarmáladeild, voru látnir víkja úr varnarmálanefnd og enginn framsóknarmaður hefur þar nálægt komið, þar til nú í vetur, að ég setti þar inn menn. Þetta er því ekki rétt.

Þá segir í öðru lagi, að eðli málsins samkv. sé útilokað, að þeir, sem eru andvígir áframhaldandi aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, taki þátt í viðræðum við það og Bandaríkjamenn um varnarmál. Þeir hafi sjálfir lýst því yfir, að um þau mál hafi Íslendingar ekkert að ræða við Atlantshafsbandalagið, því að það eigi þegar að slíta öll tengsl við það og hverfa úr samtökunum. Þetta er ekki heldur rétt, vegna þess að í málefnasamningi ríkisstj. margnefndum er einmitt sérstaklega tekið fram: Að óbreyttum aðstæðum skal þó núgildandi skipan haldast. Núgildandi skipan er sú, til upplýsingar fyrir þá, sem ekki vita, að Íslendingar séu áfram í NATO. Þess vegna er þetta ekki rétt, að það sé flokkur á þingi og hluti af ríkisstj., sem telji, að við eigum ekkert vantalað við NATO.

Í þriðja lagi segir, að það hafi verið upplýst, að ríkisstj. hafi ákveðið að setja tvo ráðh. við hlið utanrrh. til að fjalla um endurskoðun varnarsamningsins. Þetta er ekki heldur rétt. Ég upplýsti í byrjun þings, — ég man ekki dagsetninguna, því miður, þegar hv. 1. þm. Reykv. gerði fsp. utan dagskrár, af því að mikið lá nú við að vita hið rétta, — þá upplýsti ég það, að ég mundi fara með þessa endurskoðun og þessa samningsgerð ásamt starfsmönnum utanrrn. Það gildir enn. Það hafa nú hv. sjálfstæðismenn ekki tekið gilt og flutt þessa till. og slegið þessu föstu.

Um fjórða atriðið hef ég svo sem ekkert að segja. Ber að líta á það sem tilboð af hálfu Sjálfstfl. um að taka þátt í samstarfi við utanrrh. um endurskoðun varnarsamningsins og heilbrigða skipan varnarmála Íslands, segir þar. Ég er þakklátur fyrir það að fá að hafa samstarf við þessa ágætu menn, og þetta tilboð mun ég áreiðanlega nota mér í gegnum utanrmn. Það eru tveir valinkunnir fulltrúar sjálfstæðismanna, sem eiga þar sæti, og við þá er ágætt að hafa samstarf hér eftir eins og hingað til, og það mun verða gert, hvort sem Alþ. telur ástæðu til þess að samþykkja þessa till. eða ekki.

Þá er það till. Alþfl., sem er auðvitað með allt öðrum blæ. Já, mig minnir, að Mannkynssaga fyrir byrjendur eftir Stein Steinarr endi svona: „7.000 árum síðar komst þú, komst þú.“ Ég vona nú, að þennan mannkynssögu fyrirlestur hv. 5. þm. Reykn. beri ekki að skilja svo, að með NATO sé sá kominn, þar sem mannkynssagan geti endað. En mér fannst á honum, að við ættum að halda áfram að vera í NATO, — hann nefndi nú ekki tímasetningu, — en löngu eftir að það hefði nokkurt hernaðarlegt gildi, vegna þess að það væri svo margt annað, sem þeir hefðu gott á sinni stefnuskrá. Þó að ég sé nú NATO—sinni og hafi alltaf verið, þá er ég ekki svo mikill NATO—sinni, að ég geti hugsað mér það, að við þurfum á NATO að halda um eilífð alla og eftir að hernaðargildi þess er úr sögunni. Þegar hernaðargildi NATO er úr sögunni, þá eru ýmis ríki, sem ég gæti mjög vel hugsað mér að eiga fremur bandalag með heldur en sum þau ríki, sem eru í NATO. Ég tek það fram, að ég hef alltaf verið hlynntur því, að Íslendingar stæðu nærri Vestur—Evrópuþjóðunum, Norðurlöndunum og engilsaxnesku þjóðunum og Beneluxlöndunum og Frakklandi. Þetta læt ég allt saman vera. En svo ætla ég ekki að telja upp fleiri, sem mig langi sérstaklega til þess að hafa um aldur og ævi bandalag með. Og ég geri mér þá von og el þá von í brjósti, að hernaðarbandalög geti orðið óþörf, en ég hygg, að sú stund sé ekki runnin upp nú. Þess vegna er ég hlynntur því, að við verðum áfram í NATO, en ég meina það, sem segir í málefnasamningi ríkisstj., að ég óska þess, að sú stund geti komið, að hernaðarbandalög verði óþörf og þjóðir geti skipað sínum málum öðruvísi. Þess vegna er nú það, að enda þótt ég, eins og ég segi, sé hlynntur NATO og dvöl Íslands þar að svo stöddu, þá vil ég ekki skuldbinda mig til þess um aldur og ævi.

Það er aðeins eitt atriði í þessari upprifjun Jóns Árm. Héðinssonar, hv. 5. þm. Reykn., sem ég vil gera hér að umtalsefni í örstuttu máli. Annars ætla ég ekkert að fara út í þessa sögu. En það er það, að hann sagði, að frá hernámsdegi hefði verið her á Íslandi. Ég held, að þetta sé nú ekki rétt, og ég rifja þetta upp vegna þess, að það vill oft gleymast, að þegar NATO—samningurinn var undirritaður af Íslands hálfu 1949, þá var það einmitt alveg sérstaklega tekið fram, að Íslendingar vildu ekki hafa her og þyrftu ekki að hafa her, og það varð líka þannig, a.m.k. 1949—1951, þá var hér ekki her. En árið 1951 gerðist það, sem hér hefur oft verið rifjað upp og allir sjálfsagt muna, að styrjöld brauzt út í Kóreu og NATO—þjóðirnar sannfærðu þáv. íslenzk stjórnvöld um það, að vegna ófriðlegs útlits í veröldinni væri óhjákvæmilegt að hafa her á Íslandi. Og þá var þessi varnarsamningur gerður, samningurinn um það, að Bandaríkin tækju að sér varnir Íslands og varnir NATO á Íslandi og það er það lið, sem hér hefur verið til þessa dags. Það er það lið, sem þessar umr. allar spinnast út af.

Mér fannst rétt að gera þessa aths., vegna þess að það hefur svo oft viljað brenna við, að menn gerðu ekki greinarmun á NATO—sáttmálanum annars vegar frá 1949 og varnarsamningnum við Bandaríkin frá 1951 hins vegar, en þetta eru vitanlega tveir sérstakir og aðskildir samningar. Þetta eru tvö aðskilin mál og það er vegna þess, sem ýmsir, þ.á.m. ég, höfum þá skoðun og þá trú, að við getum uppfyllt upphaflegar skyldur okkar við NATO án þess að þurfa að hafa hér her á friðartímum.

Hv. 5. þm. Reykn. gerði að umtalsefni nokkuð þá endurskoðun eða þá upplýsingasöfnun, sem yfir stendur á vegum utanrrn., og talaði um efnahagsleg áhrif af dvöl varnarliðsins og beindi til mín áskorun um að upplýsa tölur í því efni. Ég bjó mig nú ekki undir það hér við þessar umr., þegar til umr. eru till. um fyrirkomulag á endurskoðun varnarsamnings, að ræða þá upplýsingasöfnun, sem fram hefur farið og ég er þess vegna ekki með neinar upplýsingar eða tölur í þessu efni. Ég sé heldur kannske tæpast ástæðu til þess að fara að greina frá því hér á hv. Alþ. nú eins og stendur, en nokkur athugun hefur farið fram á þessu og hún stendur raunar enn þá yfir, þ.e. endurskoðun á þeim tölum, sem komið hafa til mín, og ég get sagt, eins og ég sagði áðan, að það er velkomið að upplýsa utanrmn. um það á t.d. næsta fundi, hvaða tölur hafa verið nefndar í þessu sambandi. Ef ósk um það kemur fram í utanrmn., þá mun ég að sjálfsögðu reyna að verða við henni. Ég vona, að hv. þm. geti fellt sig við þessa tilhögun, ekki sízt þar sem hans skoðun er sú, að hv. utanrmn. eigi helzt að hafa þessi mál öll með höndum.

Hv. þm. sagði svo í lok ræðu sinnar og það fannst mér nú eiginlega vera framsagan fyrir till., að það væri réttur gangur mála, að utanrmn. vinni þessi verk, sem till. greinir. Ég get strax mjög vel fallizt á það, að það sé sjálfsagt, að þessi till. fari til utanrmn. og hún fái þar gaumgæfilega skoðun. Og vissulega er það fyrirbrigði, sem mjög er þekkt frá ýmsum grannlöndum okkar og ýmsum löndum, að þingnefndir vinni sjálfstæðar en verið hefur hér. Og það getur vel verið, að hv. Alþ. vilji taka það fyrirkomulag upp, ekki einungis í varnarmálum, heldur í fjölmörgum öðrum málum, að þingnefndir starfi allt árið og þær hafi ákveðin verk að vinna, þær hafi starfslið og fleira, sem auðvitað þarf til þess, ef slíku fyrirkomulagi á að vera hægt að koma við. Þetta er auðvitað til athugunar. Þetta væru þá breyttir starfshættir Alþ. Það er talað um það, að breyta þurfi störfum Alþ. á ýmsa vegu. Og ég vil ekkert að óathuguðu máli neita því, að þetta gæti verið hugsanleg tilbreytni í störfum Alþ. En ég álít þá, að það þurfi að athuga það á breiðari grundvelli, þannig að það sé ekki bara í einhverju tilteknu máli, af því að menn eru óánægðir með, hvernig að því er unnið, þá sé breytt starfsreglum Alþ., til þess að menn komist þar að með sínar athuganir.

Ég hef alltaf sagt það frá því að ég byrjaði í því starfi, sem ég gegni nú um stundarsakir, að ég vildi hafa gott samstarf við utanrmn., enda er mér það fyrirlagt í málefnasamningi ríkisstj. Ég hef leitazt við að hafa þetta góða samstarf við utanrmn., og ég hygg, að því verði tæpast haldið fram af utanrmn.—mönnum, að utanrrn. hafi ekki fúslega veitt þær upplýsingar, sem um hefur verið beðið, meira að segja reynt að koma til utanrmn. upplýsingum, sem ekki hefur þó enn þá unnizt tími til að taka við, þannig að ég á ekki von á því, að hv. utanrmn.—menn beri mér það á brýn að hafa viljað sniðganga þá nefnd. Og ég get enn þá endurtekið þá yfirlýsingu, að ég vil ekkert frekar en að hafa mjög gott samband og samstarf við utanrmn., og ég hef áður sagt það, að ekkert spor yrði stigið í endurskoðun þessara samninga, án þess að umsagnar Alþ. yrði um það leitað. Það mun ég standa við. Og ég mun auðvitað gera það á þann hátt að bera málin undir utanrmn. fyrst og sýna henni það, sem um er að tefla. Ef hins vegar nefndin sjálf og meiri hl. Alþ. er ekki ánægður með það fyrirkomulag, heldur vill setja upp sjálfstætt skrifstofuhald, sjálfstæða starfsemi til þess að rannsaka þessi mál í átta liðum, sem hér er sérstaklega frá greint, þá hef ég út af fyrir sig ekkert við það að athuga. Það er þá Alþ. að ákveða það og undir þá ákvörðun mun ég að sjálfsögðu beygja mig. En þá finnst mér ekki nema eðlilegt, að þessi mál yrðu, eins og ég áðan sagði, skoðuð í miklu stærra ljósi, þannig að það yrði ekki bara tiltekinn þröngur málahópur, sem yrði tekinn út úr og unninn af sérstöku starfsliði utan við rn., heldur yrði það þá upphafið að því a.m.k., að þingnefndir Alþingis yrðu miklu sjálfstæðari og ynnu miklu meira en þær fram að þessu hafa gert. En eitt get ég fullyrt, og það er það, að fjárhagslega verður þetta ekki hagkvæmara en það fyrirkomulag, sem verið hefur, að rn. reyni að vinna málin með því starfsliði, sem þau hafa, og niðurstöðurnar verði á einum og öðrum tíma sýndar utanrmn. og lagðar fyrir þar til skoðunar.

Mikil breyting hefur nú orðið í Alþfl. á undanförnum átta mánuðum, þegar hann er nú kominn að þeirri niðurstöðu, að öll þessi varnarmál og öryggismál eigi auðvitað að vinnast fyrir opnum tjöldum af fulltrúum allra flokka í utanrmn. Þetta er þó flokkurinn, sem hefur farið með utanríkismálin undanfarin 15 ár, þar af í 9 ár þannig, að utanrmn. var aldrei kölluð til og ekki sýnt eitt einasta plagg, sem utanríkismálum viðkom. Það hefur oft verið sagt og það má gjarnan rifja það hér upp, að fyrrv. utanrrh., Emil Jónsson, bætti samstarfið við utanrmn. og starfsemi hennar varð miklu meiri í hans utanrrh.—tíð, en verið hafði í tíð fyrirrennara hans. Og ég vil endurtaka þá yfirlýsingu hér og rökstyðja hana með títtnefndu ákvæði í stjórnarsáttmála, að þetta samstarf á að auka. Það er okkar meining að auka þetta samstarf og ég meina, að það höfum við gert. Utanrmn. hefur komið á föstum fundum, að vísu ekki nema einu sinni í mánuði, en þó reglulega einu sinni í mánuði, þar sem ráðuneytisstjóri utanrrn. og ráðh. hafa mætt til þess að gera nm. grein fyrir því, sem verið er að vinna í utanrrn. á hverjum tíma, til þess að svara þeim fsp., sem nm. hafa gert um þessi störf og til þess að efla það samstarf, sem á að vera milli þessara tveggja aðila.

Ég hef ekkert nema gott um það að segja, að Alþfl. menn hafi áttað sig á því, að undanfarin ár og áratugi hafi verið óeðlileg leynd og hula yfir utanríkismálum og þá varnarmálum alveg sérstaklega. Það er vissulega alveg rétt, sem Alþýðublaðið benti á hér í haust, að svo hefur það verið og það er æskilegt, að sú hula þurfi ekki að vera yfir þessu áfram. En mín skoðun er sú, að sú hula þurfi ekki að vera yfir þessum málum og sé ekki lengur, jafnvel þó að utanrmn. fari ekki að ráða sér starfslið og vinna sjálfstætt að þeirri athugun, sem nú fer fram í utanrrn., heldur gæti hún látið sér nægja að fá aðgang að þeim gögnum, sem þar er aflað, og fá vitneskju þar í gegn. En eins og ég segi, það er auðvitað meiri hl. Alþ., sem hefur úrskurðarvaldið um það, hvernig þessum málum verður fyrir komið. Ég legg þess vegna til og ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni, að báðar þessar till. fái nú skoðun í utanrmn., en ég undirstrika það að lokum, að á þeim tel ég mjög mikinn mun, því að till. Alþfl.–manna er um breytt fyrirkomulag, sem að mínu viti kemur vissulega til greina, en till. sjálfstæðismanna er þannig, að ég álít hana ódulbúið vantraust á mig sem utanrrh.