21.03.1972
Sameinað þing: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í D-deild Alþingistíðinda. (4185)

46. mál, öryggismál Íslands

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Hér fyrr á árum var sunginn gamanslagari, að vísu með alvarlegum bakgrunni, sem hét: „Það er draumur að vera með dáta“, og muna sennilega flestir, hverjar það voru, sem þótti þetta draumur. Í hvert sinn, sem hin svokölluðu varnarmál hefur borið á góma hér á hinu háa Alþingi, hefur mér dottið þessi slagari í hug, því að ekki er annað sýnilegt en sérstökum þjóðfélagshópum þyki líka draumur að vera með dáta áfram á Vellinum, svo mikill draumur, að forustumenn íhaldsaflanna hér á landi hafa í tíma og ótíma verið að blaðra um þau atriði stjórnarsáttmálans, sem fjalla um brottför hersins af okkar landi. Svo langt hefur þetta gengið, að einn hv. þm. kvaddi sér hljóðs utan dagskrár í tilefni af fréttaflutningi útlendra blaðasnápa, þar sem rangtúlkuð voru ummæli ráðh., blaðasnápa, sem aldrei geta haft eitt eða neitt rétt eftir um íslenzk málefni og kannast flestir Íslendingar við frettaflutning útlendinga af landhelgismálinu hér um árið, það sem ekki var bjagað, var lygi. Samt gat þessi hv. þm. verið þekktur fyrir að tala um þetta bull langt mál. Kannske hefði maður getað haldið, að ekki væri þörf langrar umr. um þessa till., sem hér liggur fyrir, og þar á ég við till. sjálfstæðismannanna, einfaldlega vegna þess, að þeir hv. íhaldsmenn ættu að hafa fengið tækifæri til að rasa út í áður nefndum síbyljuköstum um varnarmálin. En þeim sýnist ekki enn nóg að gert. Þeir vilja nú sýnilega fá sig dæmda endanlega fylgjendur ólýðræðislegra vinnubragða með þessu dæmalausa plaggi. Mér er nær að halda, að flestum sæmilegum mönnum hafi fyrir löngu þótt nóg komið af svo góðu.

Þessir l0 hv. þm. Sjálfstfl., sem telur sig lýðræðisflokk, bera hér fram á hinu háa Alþingi till., sem er ólýðræðisleg í sjálfu sér. Með þessu framferði hafa þeir í fyrsta lagi gert sig hlægilega í augum alþjóðar, einkum með tilliti til ýmissa atriða í grg., ef höfð er hliðsjón af fyrri frammistöðu þessa flokks í utanríkismálum. Í öðru lagi gera þessir l0 þm. sig bera að ólýðræðislegum þankagangi og síðast en ekki sízt er virðingu hins háa Alþingis stórlega misboðið með því að láta þennan ólýðræðislega þankagang birtast í tillöguformi í sölum þingsins. Í ályktuninni er beinlínis farið fram á, að til athugunar ákveðins máls skuli einvörðungu valdir fulltrúar þeirra flokka, sem fyrir fram er vitað að hafa öldungis sömu stefnuna í málinu, að því er manni skilst. Allir sjá, hvert stefndi, ef slík vinnubrögð yrðu ráðandi í öllum öðrum málum, sem þinginu ber að fjalla um. Þetta plagg er að mínu mati ekki síður lágkúrulegur pappír vegna þeirra fullyrðinga, sem grg. er samsett úr. Þar er hlutum slegið föstum, sem vægast sagt eru vafasamir, ef ekki beinlínis rangir. Tímenningarnir virðast slá því föstu, að einungis þeir flokkar, sem fylgjandi eru aðild að NATO, séu lýðræðisflokkar. Hvaðan og hvernig í ósköpunum geta þeir fengið þá útkomu? Öðrum þm. er síðan ætlað að lesa þetta í málið, eins og þeir hefðu nú tileinkað sér þann hugsunarhátt, sem svífur yfir ofstækisfullum áróðursvötnum Morgunblaðsmanna á borð við Eyjólf Konráð Jónsson.

Hæstv. utanrrh. flutti hér áðan ágæta ræðu. Hann fer með utanríkismálin. Það vita flm. þessarar till. ofur vel, og ekki veit ég betur en Framsfl. sé lýðræðisflokkur. Hins vegar hafa hv. þm. Sjálfstfl. verið ákaflega taugatrekktir yfir viðræðunefnd um utanríkismál, sem komið var á laggirnar innan ríkisstj., þar sem auk hæstv. utanrrh. eru tveir hæstv. ráðh., einn úr hvorum hinna stjórnarflokkanna. Þessir hæstv. ráðh. eru auðvitað einnig fulltrúar lýðræðisflokka. Auk þess man ég ekki betur en hæstv. utanrrh. hafi gert aths. við einn stað a.m.k. í grg., þar sem fullytt er, að þessir þremenningar eigi að fjalla um endurskoðun varnarsamningsins. Hæstv. ráðh. leiðréttir mig þá, ef mig misminnir. Ef einhver flokkur verðskuldaði það að teljast ekki til lýðræðisflokka, þá er það að mínu áliti Sjálfstfl. Það getur verið, að hv. þm. þessa flokks geti kinnroðalaust kallað sig fulltrúa lýðræðisflokks, eftir að hafa borið fram till. til þál. um ólýðræðisleg vinnubrögð, sem þeir hafa nú reyndar áður stundað. Ber það vitni sérstakri lýðræðisást að hafa uppi málflutning hér í þinginu varðandi það réttlætismál, að Pekingstjórnin fari með umboð Kína hjá Sameinuðu þjóðunum, þess eðlis, að ef farið hefði verið að ráðum hv. sjálfstæðismanna, hefðum við skipað okkur á bekk með örgustu fasistastjórnum Evrópu, í Portúgal og Grikklandi, eða þá lent í hópi hreinna taglhnýtinga Bandaríkjanna við atkvgr.? Í þeim hópi höfum við raunar haldið okkur á undanförnum árum og ekki þótt meiri menn fyrir vikið og sízt í Bandaríkjunum. En jafnvel þótt ég kæmist að þeirri niðurstöðu eftir þessum leiðum eða öðrum, að Sjálfstfl. væri ekki lýðræðisflokkur, þá dytti mér ekki í hug að reyna að útiloka hann á einn eða annan hátt frá áhrifum eða störfum að utanríkismálum í hæstv. utanrmn., svo sem þeim ber samkv. þeim þingstyrk, sem þeir hafa, og eins og sjálfsagðar lýðræðis— og þingræðisreglur krefjast. Slíkt væri ekki lýðræðisleg afstaða og ekki í samræmi við skoðanir okkar Alþb.—manna. Hins vegar kæmi okkur sennilega bezt á erlendum vettvangi að láta ekki bera allt of mikið á fyrri ráðamönnum. Menn gætu þá í útlöndum ályktað autómatískt, að við værum enn við sama heygarðshornið og áður.

Hinn eðlilegi aðili að utanríkismálum er auðvitað utanrmn. þingsins. En hæstv. utanrrh. tekur síðan ákvarðanir í málunum, eins og hann hefur verið kjörinn til. Til þess treysti ég hæstv. utanrrh. fullvel, en einu aðilarnir, sem ekki sýna honum traust hér í þingsölum, eru einmitt hv. þm. Sjálfstfl. Hv. þm. þessa flokks virðast ekki enn hafa skilið, hver fer með þessi mál og hafa haldið uppi allra handa málþófi með margendurteknum spurningum, þrátt fyrir ítrekuð svör og skýr. Slíkar aðferðir eru ekki óþekktar í umr. um pólitík á Íslandi. Þær eru greinilega kenndar í stjórnmálaskóla Heimdallar. Jafnvel hafa þeir gengið svo langt að þykjast vera ólæsir eða skilningsvana, þegar þeir taka til við að lesa stjórnarsáttmála núv. stjórnarflokka. Síðan hefur Morgunblaðið tekið til við að snúa út úr orðum andstæðinga sinna hér á þingi á hinn herfilegasta hátt, svo sem mörg dæmi sanna.

Í umr. hér á Alþ. um utanríkismálin, einkum í þeim spurningaþáttum, sem sjálfstæðismenn hafa sett á svið, hefur sífellt verið klifað á orðunum varnarlið, varnarmál og öryggismál Íslands, þótt hverjum viti bornum manni sé augljóst, að liðið hér á vellinum er ekki nein vörn okkur Íslendingum, nema síður sé, í hugsanlegri stórstyrjöld, heldur aðeins hlekkur í aðvörunarkerfi Bandaríkjanna. Þá hefur ekki síður heyrzt orðasambandið „vestrænar lýðræðisþjóðir“, og það glumdi í eyrum hv. þm. hér áðan. En það hefur engum dottið í hug að skilgreina með nokkrum hætti það orðasamband nánar. Auk þess sem þessu hefur verið stillt upp þannig, að látið er að því liggja, að þær þjóðir, sem ekki eru í NATO eða styðjandi NATO, séu einfaldlega ekki í þeim hópi. Svíar og margar aðrar þjóðir eiga greinilega ekki upp á pallborðið hjá málpípum Morgunblaðsins né hv. þingliði því, sem endurómar ofstækisskrif þess hér í þingsölum.

Tyrkir t.d. teljast auðvitað lýðræðislegir með því að berja niður raunverulegt lýðræði í landi sínu og ofsækja róttæka námsmenn með fleirum. Og vestrænir, þó að í Asíu séu, verða þeir um leið og þeir leyfa Könum að hafa vopnaðar eldflaugar í landinu með gínandi trjónu sína í átt til Sovétríkjanna.

Portúgal stendur sig býsna vel í hlutverkinu með því að reka stórstyrjöld gegn þjóðfrelsishreyfingum í Angóla og Mósambík auðvitað með bandarískum dollurum og vopnum frá Washington. Þar með eru þeir líka í hópi vestrænna lýðræðisþjóða.

Vagga lýðræðisins stóð í Grikklandi, en henni hefur nú verið hrundið af Papadapoulosi og félögum hans. Valdataka herforingjaklíkunnar í Grikklandi er nákvæmlega sama eðlis og innrásin í Tékkóslóvakíu að öðru leyti en því, að í Grikklandi fundust lepparnir fyrir fram og voru látnir framkvæma skítverkið, en í Tékkóslóvakíu fundust þeir ekki fyrr en eftir á. Valdatakan var framkvæmd með vitund og tilstyrk Bandaríkjanna. Hvað sagði Papadapoulos sjálfur í íslenzka sjónvarpinu? Þrátt fyrir þetta eru þeir taldir með vestrænum lýðræðisþjóðum að mati þeirra hv. sjálfstæðismanna, auðvitað vegna þess, að þeir eru undirdánugir sínum herra.

Um hernaðaryfirgang Bandaríkjamanna mætti flytja langt mál, t.d. um árásarstríð Bandaríkjamanna í Víetnam, aðstoð við Frakka í styrjöld þeirra í Indó—Kína og síðar í Alsír, yfirgang þeirra í Dóminíku og þrælahald þeirra í Suður-Ameríku og mörg fleiri atriði mætti telja í þessum efnum og í sama anda, t.d. um herstöð NATO á Spáni, þar sem enn ræður ríkjum Francisco Franco, sem studdur var til valda af hernaðarofbeldismönnum þess tíma. Pólitískum flokksbræðrum sínum, þeim Mussolini og Hitler þeim, sem Mogginn varði með oddi og egg á sínum tíma, þegar einn ágætur íslenzkur rithöfundur brigzlaði nefndum Adolfi um pólitískar ofsóknir og kynþáttaofsóknir. Gott ef rithöfundurinn var ekki dæmdur fyrir vikið. Sennilega nægir samvinnulipurð Francos til þess, að hann teljist í senn vestrænn og lýðræðislegur í augum þessara hv. 10 sjálfstæðismanna.

Það er ljóst af því, sem ég hef hér sagt, að ég er eins og aðrir Alþb.—menn á móti NATO—aðild. Á hinn bóginn verðum við áfram í NATO, og hljótum við Alþb.—menn að bíta í það súra epli, en vonandi verður þar um stefnubreytingu að ræða, þótt síðar verði og vott af þeirri stefnubreytingu mátti heyra í ræðu hæstv. ráðh. hér áðan. Hins vegar get ég engan veginn séð, að sú afstaða okkar geti komið í veg fyrir, að við ræðum til jafns við aðra við útlendinga um herstöðvamálið og önnur skyld mál, ef viðræðufundirnir eiga ekki fyrir fram að verða eins konar hallelúja samkomur áður nefndra vestrænna lýðræðisþjóða, og alls ekki að hún geti skaðað málstað landsins, nema málstaður landsins sé að þeirra dómi sama og málstaður íhaldsins.

Ekki getur nokkur maður komizt hjá því að brosa, með tilliti til þess, hverjir flm. eru, þegar lesin er þessi setning í grg., með leyfi hæstv. forseta: „að skaða mjög orðstír landsins á erlendum vettvangi.“ Hvernig var nú þessi orðstír, áður en núv. stjórn tók við völdum? Það voru sjálfvirk viðbrögð erlendra sendimanna hjá Sameinuðu þjóðunum að reikna atkvæði Íslands með fylgiríkjum USA, viðbrögð, sem voru studd margfaldri reynslu, enda var sama, hvar maður kom til útlanda, þá varð vart þeirrar skoðunar, að Íslendingar væru hreinir leppar Ameríkana, annað væri ekki sjáanlegt og auk þess amerísk herstöð í landinu. Margir vissu næstum ekkert um Ísland annað en það, að hér væri amerísk herstöð.

Viðreisnarstjórnin kórónaði vitleysuna í utanríkismálum með samningunum við Breta og Vestur-Þjóðverja 1961, eftir að fullur sigur var unninn í landhelgismálinu. Þennan samning kalla þeir sinn stærsta stjórnmálasigur og hefur víst öðru eins verið logið. Bretar viðurkenndu sjálfir réttmæti útfærslunnar, þegar þeir höfðu vitkazt nokkuð, með því að færa sjálfir út í 12 mílur einhliða, eins og við og höfðu þar ekki samninga við einn eða neinn og afsöluðu sér engum réttindum. eins og viðreisnin sáluga gerði. Vonandi verður sá draugur aldrei vakinn upp á ný í íslenzkum stjórnmálum.

Orðstírnum var sem sagt ekki fyrir að fara. En nú hefur hækkað hagur Strympu. Nú hefur í raun verið tekin upp sjálfstæðari stefna í utanríkismálum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þar hafa okkar lágu hlutabréf nú hækkað í verði, enda kominn tími til. Enn á ný er ráðizt í stórvirki í landhelgismálinu, og þarf greinilega vinstri stjórn til, eins og fyrr, en landhelgismálið hefur fengið að sofa værum svefni undir undansláttar— og þægðarrauli viðreisnarinnar. Svo leyfa þessir herrar sér að koma með yfirboðstillögur um landhelgismál, rétt eftir að búið er réttilega að reka þá frá stýrinu. Þvílíkur mórall.

Því miður er ekki samstaða innan ríkisstj. hvað snertir aðild að hernaðarbandalaginu NATO. Hins vegar er afstaðan til hersetunnar sameiginleg og ljós, eins og þeir geta lesið, sem læsir eru, í stjórnarsáttmálanum margnefnda eða vilja skilja hann. En það er víðar en í ríkisstj., sem afstaðan til hersetunnar er skýr og ótvíræð. Unga fólkið í landinu, meiri hluti þess, lítur svo á, að hersetið land sé ekki sjálfstætt land. Íslenzkir stúdentar stóðu löngum í fremstu röð þeirra, sem börðust gegn erlendri ásælni og fyrir sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar. Hátíðisdagur þeirra 1. des., fullveldisdagurinn, hefur verið haldinn hátíðlegur og minnzt þeirra manna, sem börðust til sigurs í fullveldismálinu. Íslenzkir stúdentar minntust fullveldisins nú s.l. haust sem fyrr, en samþykkt yfirgnæfandi meiri hluta stúdenta var fyrir því að helga daginn baráttunni fyrir brottför hersins. Þeir líta svo á, að sjálfstæðismál smáþjóðar sé sílifandi barátta og ekki nóg að minnast afreka forfeðranna í því efni og það væri skilyrði fyrir fullkomnu sjálfstæði að hafa ekki erlendan her hér á Íslandi. Mig langar í tilefni af þessum síðustu ummælum að rifja upp orð tveggja stjórnmálamanna frá þeim tíma, þegar Keflavíkursamningurinn var samþykktur 5. okt. 1946 með margumtöluðum 32 atkv. á móti 19 eftir mikinn þrýsting frá Bandaríkjamönnum, sem sviku það loforð að fara með herinn burt að styrjöldinni lokinni. Þá sagði einn þeirra, sem vörðu gerð Keflavíkursamningsins, Ólafur heitinn Thors forsrh., með leyfi hæstv. forseta: .

„Hins vegar töldu Íslendingar, að réttur til herstöðva á Íslandi erlendu ríki til handa væri ekki samrýmanlegur sjálfstæði Íslands og fullveldi.“

Annar stjórnmálamaður, hv. þm. Gunnar Thoroddsen, sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég taldi og tel, að herstöðvar erlends ríkis í landi voru væru ósamrýmanlegar sjálfstæði þess.“

Sex dögum áður en Ísland var drifið af mikilli skyndingu og að mínum dómi með mjög hæpnum aðferðum, svo að vægt sé að orði komizt, inn í NATO, sagði Bjarni heitinn Benediktsson í blaðagrein, með leyfi hæstv. forseta:

„Við skýrðum rækilega sérstöðu okkar sem fámennrar og vopnlausrar þjóðar, sem hvorki gæti né vildi halda uppi her sjálf og mundum því aldrei samþykkja, að erlendur her né herstöðvar væru á landi okkar á friðartímum.“ Og síðar í sömu grein: „Er því allur ótti um það, að fram á slíkt verði farið við okkur, ef við göngum í bandalagið, gersamlega ástæðulaus.“

Þetta sagði Bjarni heitinn Benediktsson. En allt þetta reyndist blekking. Allt var svikið. Herinn sat og sat og situr enn. Áróðurinn fyrir því magnaðist stöðugt í Morgunblaðinu. Að lokum var svo hörmulega komið, að baráttufundur stúdenta á fullveldisdaginn var í Morgunblaðinu kallaður landráð. Blaðinu hefur sem sagt algerlega verið snúið. Þessi þróun er hörmuleg og sérstaklega ömurleg með tilliti til þess, að allir Íslendingar hafa lesið af áhuga um aldalanga frelsisbaráttu, sem lauk með sigri þeirra, sem vildu sjálfstæði þessa lands og lýstu á fullveldisdaginn yfir hlutleysi Íslands. Nú hefur hin gamla barátta verið eyðilögð og þeir, sem muna lýðveldisdaginn, geta ekki litið á þjóðina sem sjálfstæða fyrr en við erum laus við erlendan her úr landinu. Svo er a.m.k. farið um þá, sem eru raunverulegir sjálfstæðismenn. Þeir vilja herinn burt, og unga fólkið vill herinn burt.

Mig langar til að gera orð hv. þm. Gunnars Thoroddsen að mínum, sem eru þess efnis, að herstöðvar erlends ríkis í landi voru séu ósamrýmanlegar sjálfstæði þess. Vonandi komast menn með slík viðhorf til nokkurra umtalsverðra valda í Sjálfstfl. Þá gæti sá flokkur borið nafn sitt með sóma, en ekki skömm. En því miður eru slíkir tímar ekki enn upp runnir, heldur þvert á móti, svo að til viðræðna um varnarmálin svokölluðu vilja hinir flokksþægu tímenningar velja einhverja fulltrúa lýðræðisflokkanna, sem þeir nefna, eins og ég vék að í byrjun. En slík nefnd manna er til, utanrmn. Samkv. því er till. algerlega óþörf og fyndist mér réttast að vísa henni frá með rökstuddri dagskrá á þeim forsendum. Ég legg þess vegna til, að þessi fáránlega till. um ólýðræðisleg vinnubrögð á Alþingi Íslendinga fái þá afgreiðslu eða verði kolfelld. Það sýndi þó, að meiri hl. þingheims fyndist ekki slagarinn „Það er draumur að vera með dáta“ eiga við sig í dag.