06.04.1972
Sameinað þing: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í D-deild Alþingistíðinda. (4195)

46. mál, öryggismál Íslands

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls láta í ljós þá skoðun mína, að ég hefði kosið aðra leið en þá, sem ríkisstj. valdi í sambandi við hið svokallaða þverbrautarmál á Keflavíkurflugvelli. Til þess liggja ýmsar ástæður, en þó einkanlega tvær, sem hér skal nú greina.

Í fyrsta lagi hefur mér skilizt, að þessi lenging þverbrautarinnar væri fólgin fyrst og fremst í að auðvelda risaþotum lendingu og yrði til aukinnar tekjuöflunar fyrir þjóðina. En ég tel einmitt, að eitt erfiðasta vandamálið í sambandi við brottvikningu varnarliðsins sé sá þáttur, sem varnarliðið er í efnahagslífi þjóðarinnar. Í öðru lagi þykir mér ekki loku fyrir það skotið, að það yrði örlitlu minna svigrúm til athafna varðandi brottvikningu varnarliðsins eftir að þetta framlag hefur verið innt af hendi. En aðalatriðið er þó hitt, að ríkisstj. hefur um leið og gengið var frá þessari samningsgerð tekið skýrt fram, að þetta haggi í engu þeirri ákvörðun hennar að halda fast við ákvæði stjórnarsáttmálans um það að standa að endurskoðun og uppsögn varnarsamningsins frá 1951. Það er að sjálfsögðu meginatriði og ber að fagna því, að þessum tveimur málum, annars vegar lengingu þverbrautarinnar og hins vegar stefnuskrármálinu varðandi varnarliðið, er haldið algjörlega aðgreindum. Þess vegna tel ég, að vel horfi um það mál.

Það, sem ég vil einkanlega tala um í sambandi við öryggismálin, er ekki sízt málflutningur fyrirsvarsmanns Alþfl. Mér hefur komið nokkuð á óvart, að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason skuli koma hér fram sem einhver herskáasti hersetumaður í stjórnarandstöðunni. Ég vil minna á, að þingsaga þessa hv. þm. segir í raun og veru allt aðra sögu. Hann átti t.d. mikinn þátt í því, að ég hygg, að ganga frá þáltill. árið 1956, þar sem fjallað var um stefnu Íslendinga í utanríkismálum og um meðferð varnarsamningsins við Bandaríkin, og ég vil leyfa mér að minna á þessa þáltill. Alþfl., þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með hliðsjón af breyttum viðhorfum síðan varnarsamningurinn frá 1951 var gerður og með tilliti til yfirlýsingar um, að eigi skuli vera erlendur her á Íslandi á friðartímum, verði þegar hafin endurskoðun á þeirri skipan, sem þá var tekin upp, með það fyrir augum, að Íslendingar annist sjálfir. gæzlu og viðhald varnarmannvirkja, þó ekki hernaðarstörf og herinn hverfi úr landi. Fáist ekki samkomulag um þessa breytingu, verði málinu fylgt eftir með uppsögn samkv. 7. gr. samningsins.“

Það má segja, að þetta sé algjörlega samhljóða því ákvæði í stjórnarsamningnum að víkja hernum af landi brott. Síðan hafa hlutir þróazt þannig í íslenzkum stjórnmálum, að Framsfl. hefur tekið þetta upp að nýju, þó að ekkert hafi orðið úr framkvæmdum í hinni fyrri vinstri stjórn. SF hafa þetta líka á stefnuskrá sinni og Alþb. Það má segja, að allir þessir flokkar þrír hafa haft nokkurt samræmi í stefnumálum sínum. Hins vegar gegnir allt öðru máli um Alþfl. og mér er ekki alveg ljóst, hvað þessu veldur. Ég vil þó leyfa mér að benda á, að Alþfl. stóð árið 1956 að myndun kosningabandalags með Framsfl. og þá þurfti að ganga af Þjóðvarnarflokknum dauðum. Það tókst, en ekki urðu efndirnar á þessu neinar að koma hernum á brott. Ég hygg nú, að það væri mál fyrir Alþfl. að taka höndum saman við vinstri flokkana um þetta baráttumál, heldur en að stíga hér stríðsdans með Jóhanni Hafstein.

Það er sannast mála við þessar umr., að við gerum okkur flestir, ef ekki allir, ljóst, að útþenslustefna Rússa, þar sem þeir hafa með ofbeldi lagt undir sig lönd og landssvæði, er forkastanleg og auðvitað ber okkur að sporna gegn slíku valdaráni sem Rússar hafa ástundað á undanförnum áratugum. En eins og ég benti á hér áður við umr., verðum við líka að gæta þess, að Bandaríkin eru stórveldi og þau hafa gripið til í vissum skilningi svipaðra aðferða og Rússar víðs vegar í veröldinni. Ég held nefnilega, að það sé skylda jafnaðarmanna að fordæma bæði valdarán af hendi rússneskra kommúnista og bandarískra kapítalista. Ég held, að það sé algjör misskilningur hjá jafnaðarmönnum að kasta sér í faðm Bandaríkjamanna umræðu— og gagnrýnislaust og fordæma svo allt á annan veginn, en ekkert á hinn veginn og ég veit ekki betur en þjóðmálastefna jafnaðarmanna geri ráð fyrir því að hasla sér völl einmitt þar á milli. En það segja sumir menn, að jafnaðarmennskan hafi týnzt einhvers staðar á leiðinni fyrir Alþfl. og mér sýnist nú, að þessi hermál sanni það nokkuð gaumgæfilega.

Mergurinn málsins er náttúrlega sá, að þessi varnarstöð á Keflavíkurflugvelli er ekki til öryggis fyrir þjóðina á atóm— og vetnissprengjutímum, heldur stafar af henni feikileg hætta. Þetta er grundvallaratriði og við eigum fyrst og fremst að hugsa um öryggi þjóðarinnar.

Gylfi Þ. Gíslason lét þau orð falla, að fyrir honum og Alþfl. væri meginröksemdin fyrir dvöl varnarliðsins hér að raska ekki valdajafnvægi í heiminum. Nú er ekki lengur talað um öryggi þjóðarinnar. Hvernig stendur á því? Það er talað um valdajafnvægi í heiminum. Ég vil í þessu sambandi minna á sjónvarpsviðtal við Benedikt Gröndal. Þá kom þessi sama skoðun fram og þá þótti honum skiljanleg og jafnvel eðlileg innrás Rússa í Tékkóslóvakíu, einmitt af því að Rússar voru að tryggja valdajafnvægi í heiminum. Við höfum ekki leyfi til þess að afsaka yfirgang stórvelda og stirðnuð hernaðarbandalög, á þeirri forsendu, að við séum þar með að styðja að valdajafnvægi í heiminum. Og hvað leiðir af því, ef við ætlum að hafa varnarlið til þess að halda óbreyttu valdajafnvægi í heiminum? Við yrðum að horfast í augu við það, að stórveldin, Bandaríkjamenn og Rússar, vilja viðhalda valdajafnvægi sín á milli í heiminum. Þeir vilja skipta veröldinni upp á milli sín og hafa reyndar gert það. Þeir vilja viðhalda hernaðarblokkunum. Eigum við að hugsa alveg eins og stórveldin vilja? Það er spurningin. Erum við orðnir það samdauna þessum hugsunarhætti? Það er enginn vafi á því, að flestallar þjóðir í NATO og flestallar þjóðir í Varsjárbandalaginu vilja gjarnan leysa þessi bandalög upp að meira eða minna leyti, en það eru stórveldin, sem ráða stefnunni. Rússar og Bandaríkjamenn, sem standa gegn því, að þessi bandalög séu leyst upp. Einmitt af því að þau tryggja þeim sjálfum valdaaðstöðu í veröldinni og krefjast síðan, að aðildarþjóðirnar fari í einu og öllu eftir vilja þeirra. Það hefur tekizt, því að íslenzkir jafnaðarmenn, ég tala nú ekki um sjálfstæðismenn, telja alveg sjálfsagt, að við förum í einu og öllu eftir vilja stórveldanna.

Ég ætla ekki að fjalla meira um þetta mál að neinu ráði, því að ég hef talað áður við þessar umr., en ég vil bara benda á það, að mér sýnist þessir tveir hv. þm., Jóhann Hafstein og Gylfi Þ. Gíslason, dansa hér sama dansinn í þingsölunum. Það má kalla þennan dans brúðardansinn, en mér er óljóst, hvor er brúðguminn og hvor er brúðurin og mér er líka óljóst af málflutningi þeirra, hvor þeirra er í raun og veru Alþýðuflokksmaður og hvor þeirra er Sjálfstæðisflokksmaður. Ég held, að þetta sé mjög óheppileg þróun, einkanlega þar sem við jafnaðarmenn erum nú að ræða um sameiningu, þá held ég, að það sé ákaflega óhollt fyrir Alþfl. eftir að hafa alist í 12 ár við brjóst Sjálfstfl., að halda því svo áfram í stjórnarandstöðunni. Ja, hvað verður þá um Alþfl.? Væri nú ekki ráð fyrir Alþfl. að taka þátt í ríkisstjórn með skörungsskap með vinstri mönnum í landinu og leggja þannig drög að því, að við jafnaðarmenn getum orðið það afl í íslenzkum stjórnmálum. sem við allir óskum og vonumst eftir?