06.04.1972
Sameinað þing: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í D-deild Alþingistíðinda. (4198)

46. mál, öryggismál Íslands

Flm. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Í málefnasamningi núv. hæstv. ríkisstj. er komizt að orði eitthvað á þá leið, að stefna Íslands í utanríkismálum skuli vera sjálfstæð og einbeitt. Ég held, að það fari ekki á milli mála, að grundvallarskilyrði þess, að svo verði, sé að stefnumörkunin sjálf sé ljós, það séu ekki tveir eða fleiri stefnuvitar staðsettir sinn á hvorum stað í sama máli.

Það hefur komið hér fram, að ekki eingöngu ber ráðherrum hæstv. ríkisstj. mjög á milli um, hver stefna Íslands sé í öryggis- og varnarmálum, heldur og er ósamkvæmni í yfirlýsingum sama ráðh., hæstv. utanrrh„ svo og milli flokksbræðra hans eins og hv. 2. þm. Reykn., Jóns Skaftasonar. Ef hæstv. utanrrh. er óánægður með þennan dóm af minni hálfu, þá get ég vísað honum og öðrum flokksbræðrum hans á yfirlýsingu Sambands ungra framsóknarmanna, sem taldi nauðsynlegt að veita hv. 2. þm. Reykn. ofanígjöf, vegna þess að hann túlkaði ekki málefnasamninginn í öryggis— og varnarmálum eins og hæstv. utanrrh. gerði þá. Síðan hefur hæstv. utanrrh. að vísu breytt túlkun sinni og við höfum öll heyrt það ljóslega við ýmis tækifæri, að túlkun hæstv. utanrrh. er þessi: Fyrst fer fram könnun málsins, niðurstaða könnunarinnar verður lögð fyrir Alþ., og Alþ. ákveður, hvort varnarliðið fer brott á kjörtímabilinu eða ekki. Aðspurður hefur hæstv. utanrrh. sagt, að vel gæti farið svo, að niðurstaða könnunarinnar leiddi til þess, að varnarliðið færi ekki brott á kjörtímabilinu.

Við lukum umr. um skýrslu hæstv. utanrrh. hér í haust þannig, að hæstv. forsrh. var beðinn um úrskurð um það, hvor hefði rétt fyrir sér í stefnumörkun ríkisstj. að þessu leyti, hæstv. utanrrh. eða hæstv. viðskrh. Ég endurtók þessa spurningu hér í umr. fyrir páska, og nú er komið nýtt tilefni til þess að endurnýja þessa spurningu, því að mér er tjáð, að hæstv. iðnrh., — ég þurfti því miður að fara frá vegna annarra embættisstarfa, sem ákveðin voru með löngum fyrirvara, þegar hann talaði, — en mér er tjáð, að hann hafi sagt, að ríkisstj. í heild væri staðráðin í því að framfylgja ákvörðuninni um brottför varnarliðsins á kjörtímabilinu. Túlkun hans ber saman við túlkun hæstv. viðskrh. áður, að endurskoðunin sé eingöngu gerð í þeim tilgangi, að Bandaríkjamenn fari með samkomulagi með varnarliðið af landi brott. Ef svo verði ekki, þá eigi að segja samningnum upp, til þess að einhliða ákvörðunarréttur Íslendinga taki gildi að þessu leyti. Þetta er allt annað, sem þessir hæstv. ráðh. Alþb. þannig segja, en hæstv. utanrrh. hefur áður sagt. Ég vil því ítreka og endurtaka spurningu til hæstv. forsrh.: Hvor er hin rétta túlkun á stjórnarsáttmálanum, túlkun utanrrh. eða túlkun ráðh. Alþb! Er ríkisstj. í heild staðráðin í því, án tillits til niðurstöðu könnunarinnar, sem fram fer, að framfylgja ákvörðuninni um brottför varnarliðsins á kjörtímabilinu? Ef könnunin leiðir í ljós, að það sé þjóðinni til óþurftar og öryggi landsins, er það þá samt staðföst stefna stjórnarinnar? Hér duga ekki nein hálfvelgjusvör. Alþ. á heimtingu á svari, þjóðin á heimtingu á svari. Ósamræmið í orðum þessara ráðh. hefur ekki eingöngu veikt traust þjóðarinnar á ríkisstj., sem ég læt mér raunar í léttu rúmi liggja, en það hefur veikt traust manna á Íslendingum og ábyrgðartilfinningu Íslendinga í alþjóðamálum, og það skiptir máli.

Það var líka svo, að eftir að hæstv. utanrrh. fann þá andstöðu og þá gagnrýni, sem stjórnarsáttmálinn vakti og sá skilningur, sem orðalag hans gaf til kynna, að því er öryggismál landsins varðaði, þá dró hann mjög í land, að því er tók til brottfarar varnarliðsins af landinu. Og þá þótti Þjóðviljanum og Alþb.-mönnunum nauðsynlegt að segja fylgismönnum frá því, að það væri komin á sérstök ráðherranefnd um herstöðvamálið.

Hæstv. utanrrh. fann að því, að ég hafði látið orð falla um, að ráðherranefndin hefði verið skipuð um varnarmálin. Hann sagði, að þetta væri vinnunefnd um utanríkismálin, sem væri skipuð tveim ráðherrum auk sín. Þetta skiptir út af fyrir sig engu máli, en ég hafði heimildina frá Þjóðviljanum, sem hefur gert sér tíðrætt um þessa— ráðherranefnd jafnmikið og Tíminn hefur lítið á hana minnzt. En í þessari forsíðufrétt Þjóðviljans segir, að það hafi komið fram á fundi Alþb., að sett hafi verið á laggirnar ráðherranefnd til að fjalla um herstöðvamálið og fyrirhugaða brottvísun hersins. Síðan er sagt, hverjir eiga sæti í nefndinni.

Þegar það kom fram, að svona væri unnið að málum, þá þótti þm. Sjálfstfl. sjálfsagt að óska eftir því, að Alþ. hefði aðild að athugun öryggismála þjóðarinnar. Og þess vegna m.a. er sú till. borin fram, sem hér er til umr.

Það hefur verið talað um, að það væru ekki lýðræðisleg vinnubrögð af hálfu þm. Sjálfstfl. að ætla þeim eingöngu fulltrúa í nefndinni, sem styddu aðild Íslendinga að Atlantshafsbandalaginu. Með því værum við að útiloka fulltrúa Alþb. Það er svo, eins og ég hef áður nefnt hér, að við ýmsar nefndarkosningar getur svo farið vegna tölu nm., að þingflokkur fái ekki fulltrúa í nefnd. Það hefur og verið nefnt dæmi um nefndarskipanir ríkisstj., en þær hafa eingöngu verið skipaðar flokksmönnum ríkisstjórnarflokkanna, og ráðherranefndin sjálf er auðvitað dæmi um það, að tveir flokkar, sem styðja aðild Íslendinga að Atlantshafsbandalaginu, eiga ekki um þetta mikla mál að fjalla.

En aðalatriðið og aðalástæðan til þess, að það var ekki gert ráð fyrir því, að fulltrúi frá Alþb. eða fulltrúi frá stjórnmálaflokki, sem væri andvígur aðild Íslendinga að Atlantshafsbandalaginu, tæki þátt í þessum störfum, var sú, að það var gengið út frá því sem vísu, að Alþb.–menn vildu ekki taka þátt í slíku starfi. Þeir Alþb.–menn hafa í fyrsta lagi talið aðild Íslendinga að Atlantshafsbandalaginu ganga landráðum næst. Þeir hafa í öðru lagi talið, að hafi aðildin að NATO ekki verið fullkomin landráð, þá hafi varnarsamningurinn sjálfur í það minnsta fullkomnað glæpinn.

Það er svo komizt að orði í ávarpi, sem miðstjórn Sósíalistaflokksins, forvera Alþb., gaf út 8. maí 1951 í tilefni af varnarsamningnum, með leyfi forseta:

„Samningur þessi er því hvorki löglega né siðferðislega skuldbindandi fyrir þjóð vora. Hann er einkasamningur spilltustu höfðingja landsins við framandi hervald, gerður á þeirra persónulegu ábyrgð.“ Og undir lok ávarpsins er orðrétt skorað á landsmenn að hindra: „að amerískt auðvald eða umboðsmenn þess leggi skatt á Íslendinga til að greiða herkostnað af innrás og hervirkjum Bandaríkjamanna í landi voru.“

Enn fremur segir þar á þessa leið, með leyfi forseta: „Löngu hernámi mundi að líkindum fylgja vaxandi vígbúnaður Bandaríkjanna hér á landi, aukinn innflutningur hermanna og vaxandi kröfur Bandaríkjastjórnar á hendur Íslendingum um landssvæði, framlög og jafnvel vopnun Íslendinga.“

Auk þess sem athyglisvert er við þessar tilvitnanir, hve þm. Alþb. eða forverar þeirra hafa reynzt lítt spámannlega vaxnir, þá ber þetta vitni um það, að þeir telja sig ekkert eiga vantalað við Atlantshafsbandalagið og vilja enga aðild eiga að dvöl varnarliðs á Íslandi. Þess vegna kom það mér dálitið ókunnuglega fyrir sjónir, þegar hæstv. utanrrh. sagði í umr. hér á dögunum, að það væri ekki rétt, að það væri flokkur á þingi og hluti af ríkisstj., sem teldi, að við ættum ekkert vantalað við NATO. Það er kannske eitt, sem þessi flokkur telur sig eiga vantalað við NATO, og það er það að segja varnarliðinu að fara á brott. Það er þó ekki rétt að stefna því að NATO, það er rétt að stefna því að Bandaríkjamönnum sjálfum sem samningsaðila varnarsamningsins, en það er líka það eina, sem ég get ímyndað mér, að þm. Alþb. og ráðh. Alþb. eigi vantalað við NATO eða Bandaríkjamenn í þessum efnum.

Er það e.t.v. svo, að það sé von til þess, að þm. Alþb. skoði með hlutlægum hætti, hvað sé öryggi landsins fyrir beztu og hvernig vörnum eigi bezt fyrir að koma í landinu? Ég spyr hv. þm. Alþb. og hæstv. ráðh.: Eru Alþb.–menn yfirleitt á þeirri skoðun, að til mála komi að hafa varnarlið á Íslandi eða varnir í landinu? Ef þeir svara þessari spurningu neitandi, þá skil ég ekki í raun og veru, hvaða erindi þeir eiga í nefnd til að fjalla um þessi mál, þegar niðurstaðan af þeirra hálfu er fyrir fram ákveðin. Hún er þessi: Engar varnir á Íslandi, ekkert varnarlið undir einum eða neinum kringumstæðum. Þeir leiðrétta mig, ef ég fer ekki með rétt mál. Þess vegna vísa ég heim til föðurhúsanna öllum ummælum þar að lútandi, að till. okkar sjálfstæðismanna sé ekki lýðræðislega upp byggð. Till. um skipun nefndarinnar er byggð á afstöðu þingflokks Alþb. að þessu leyti. Ef Alþb. á hinn bóginn vill taka þátt í því, sem Alþb. hefur hingað til skírt landráðastarfsemi, þá er velkomið af minni hálfu og okkar flm., að till. sé breytt í þá átt, að allir þingflokkar geti átt sinn fulltrúa í slíkri nefnd. En það held ég, að fari ekki á milli mála, að ef þessi mál, öryggismál Íslands, og niðurstaða þeirrar könnunar, sem fram fer núna í þeim efnum, eiga að koma fyrir Alþ., þá sé það rétt og skylt, að Alþ. eigi aðild að þessari könnun og fylgist með þessari könnun jafnóðum og hún fer fram.

Það hafa margir hv. þm. Alþb. talað í þessum umr. og þeir hafa talað vítt og breitt um ástand og horfur í alþjóðamálum og þótt það sé e.t.v. ekki ástæða til vegna alþm. hv. að rifja upp ástæðurnar fyrir stofnun NATO 1949, þá held ég, að ég verði að gera það með örfáum orðum. Það var ástæðan fyrir stofnun Atlantshafsbandalagsins, að Sameinuðu þjóðirnar, sem voru samtök bandamanna í stríðinu í upphafi myndunar sinnar og stofnunar, reyndust þess ekki umkomnar að stöðva yfirgang kommúnista og Sovétmanna í Austur-Evrópu. Með beitingu neitunarvalds hjá Sameinuðu þjóðunum var komið í veg fyrir allar ráðstafanir í þá átt að stemma stigu við þeim aðgerðum, sem Sovétríkin höfðu þá í frammi. Þegar vesturveldin, Bandaríkin og Bretland, minnkuðu herafla sinn úr 5.5 millj. manna í 880 þús., héldu Sovétríkin óbreyttum herafla, sem var milli 4 og 5 millj. manna. Eftir styrjöldina innlimuðu Sovétríkin í ríki sitt, að því er mig minnir, 23 millj. manna og 500 þús. ferkílómetra lands, en með óbeinum hætti, með því að styrkja litla, sterka einræðisflokka kommúnista, minnihluta flokka í ýmsum löndum, gátu þeir með valdaráni og tilstyrk og návist rússneska hersins náð völdum í löndum, þannig að í heild náðu þeir undir sig nær 100 millj. manna á, að því er mig minnir, nálægt 500 þús. ferkílómetrum. Þetta var upphafið að stofnun NATO, og það gerði e.t.v. útslagið, þegar valdaránið í Tékkóslóvakíu var framið 1948. Það þótti eðlilegt, að við Íslendingar, sem vorum á mjög hernaðarlega mikilvægum stað á N.-Atlantshafi, gerðumst aðilar að þessu bandalagi. Reynslan frá styrjöldinni hafði sýnt það, að við fengum ekki að vera í friði vegna stríðandi þjóða í styrjöldinni, sem þá var lokið. Og ef við vildum að einhverju leyti vera okkar eigin gæfu smiðir og velja okkur sjálfir bandamenn, þá þurftum við að taka ákvörðun.

Ég held, að mikill meiri hluti Íslendinga sé í engum vafa um það, hvorum megin þeir vilja standa. Það er að vísu illt að þurfa að taka slíka ákvörðun, en sú nauðsyn er ótvíræð, það sýnir reynslan okkur.

Síðan hefur það komið tvívegis fyrir, að við höfum þurft að taka ákvörðun um það, hvort þátttaka okkar í NATO hefði í för með sér dvöl varnarliðs eða sérstakar varnarráðstafanir á Íslandi. Það var 1951, þegar Kóreu styrjöldin brauzt út og þá voru allir þm. lýðræðisflokkanna sammála um það. Það var aftur 1956, þegar sá pólitíski skollaleikur var leikinn eins og nú er leikinn aftur, þá af vinstri stjórninni sálugu, nú af núverandi vinstri stjórn, að varnarsamningnum var sagt upp. En að lokum með þeirri niðurstöðu, að eftir innrásina í Ungverjaland og vegna Súez deilnanna, þá var ákveðið, að varnarliðið skyldi áfram vera í landinu.

Það er m.a. spurningin um það, hvort nú liti friðvænlega út í heiminum miðað við ástandið t.d. 1951 og 1956, sem við verðum að svara í könnun um öryggismál Íslendinga, sem nú fer fram. Ég hef dregið það í efa, að örfáum árum eftir valdaránið endurnýjað í Tékkóslóvakíu og einu eða tveimur árum eftir verkföll í Póllandi, sem barin voru niður vegna návistar rússneskra herja, þá sé rétti tíminn að taka ákvörðun um, að varnir skuli ekki vera til staðar á Íslandi og varnarliðið hverfa brott. Það er sjálfsagt að endurskoða varnarsamninginn og það er sjálfsagt að leita tækifæris, þegar friðvænlega horfir í heiminum, til að komast að samkomulagi um, að vörnum Íslands skuli á annan veg fyrir komið en með dvöl erlends varnarliðs. En fyrir fram lítur dæmið ekki þannig út. Það er að vísu svo, að okkur hæstv. utanrrh. greinir á um það, hvaða ályktun eigi að draga af þeim ráðstöfunum, sem nú er verið að gera, bæði af hálfu vesturveldanna og Varsjárbandalagsins, til þess að koma á friðsamlegri horfum í heiminum og þar á ég við þær viðræður, sem átt hafa sér stað um gagnkvæma afvopnun og minnkun herafla í Mið-Evrópu. Þar á ég við samninga V.-Þjóðverja annars vegar og Pólverja og Rússa hins vegar um friðarsamninga og Berlínar vandamálið. Þar á ég við SALT—viðræður stórveldanna og þar á ég við öryggismálaráðstefnu Evrópu. Allt þetta geta verið spor í þá átt að koma á varanlegum friði í þessum heimi og eyða tortryggni milli landa og þjóða. Við skulum vona, að svo verði, en það verður að taka á þolinmæðinni og forsenda þess, að þessar umleitanir beri árangur, er sú, að bandamenn innan Atlantshafsbandalagsins standi saman, að einn þeirra hlaupi ekki úr leik og veiki ekki varnirnar einhliða. Forsenda allra þessara friðarumleitana er gagnkvæmni, að krefjast þess af báðum aðilum samtímis og samhliða, að úr vígbúnaði eða vörnum sé dregið. Það er þessi gagnkvæmni, sem ekki er fyrir hendi og raunverulega er spillt með stefnu íslenzku ríkisstj. og í því felst ábyrgðarleysi hennar geigvænlegast. Við erum ekki eingöngu að svíkja bandamenn okkar og vini í Atlantshafsbandalaginu, heldur erum við fyrst og fremst að svíkja sjálfa okkur. Við erum fyrst og fremst að spilla þeim friði og friðarhorfum, sem við með þátttöku okkar í NATO höfum átt þátt í að skapa.

Það er vitaskuld svo, að í breytilegum heimi þurfum við að taka til endurmats ástand og viðhorf í alþjóðamálum á hverjum tíma. Og það er sjálfsagt, að við reynum að hafa slíkt endurmat og slíka skoðun mála sem mest í eigin höndum, en þó er ekkert að því að leita álits annarra þjóða í þessum efnum. Ég spurði hæstv. utanrrh. að því, hvort hann eða ríkisstj. eða hann með blessun ríkisstj. hefði leitað álits sænsks sérfræðings í öryggismálum, hvort álitsgerðir hefðu borizt frá N–Atlantshafsbandalaginu, sem hann kvaðst hafa beðið um þegar í umr. hér á þingi í nóv. s.l., eða hvort leitað hefði verið álits Dana og Norðmanna, en upp á því var stungið í þeim sömu umr. Hann svaraði því almennt þess eðlis, að ýmsar álitsgerðir væru að berast og þær mundu verða lagðar fyrir utanrmn. Ég tel það mjög eðlilegt að leggja slíkar álitsgerðir fyrir utanrmn., en tel það þó ekkert leyndarmál, að hve miklu leyti ríkisstj. hefur haft frumkvæði að eða að hve miklu leyti hún veit um gerð slíkra álitsgerða og þá hverjar hafi borizt nú og því vil ég ítreka fsp. mína til hæstv. utanrrh. að þessu leyti.

Það bar og á góma í umr. fyrir rúmum hálfum mánuði, að ég hefði ekki fært rök fyrir því, að stefnuyfirlýsing hæstv. ríkisstj. hefði skaðað málstað Íslands og álit út á við. Hæstv. utanrrh. sagði eitthvað á þá leið, að hann hefði ekki orðið var við það og þó hefði hann talað við marga erlenda menn. Hann tiltók það í framhaldi að vísu, að þetta tæki til tveggja atriða, annars vegar til endurskoðunar varnarsamningsins eftir 20 ár og hins vegar tæki þetta til þess, að Íslendingar vildu marka sér sjálfstæða stefnu í utanríkismálum. Þetta hvort tveggja hef ég heldur ekki heyrt nokkurn mann gagnrýna. Það er ekki um þetta, sem ég held, að sé að ræða, þegar ég segi, að stefnumörkun ríkisstj. skaði málstað Íslands og álit út á við. Það sem ég á við, er að íslenzka ríkisstj. tekur fyrir fram ákvörðun í öryggis— og varnarmálum landsins og ákveður svo seinna, eftir að ákvörðunin er tekin, að könnun skuli fara fram á þessum málum og viðræður og samráð við vini okkar og bandalagsmenn í Atlantshafsbandalaginu. Það er fyrst og fremst það, sem ég tel, að hafi skaðað málstað Íslands út á við, og ég þykist vita, að hæstv. utanrrh. sé hvorki svo sjálfumglaður eða skilningi skroppinn, að hann geri sér ekki grein fyrir því, einmitt eftir viðræður við ýmsa þá erlenda menn, sem eiga erindi til Íslands og viðtal við hann.

Þótt ég eigi ekki viðtöl við nærri því eins marga erlenda stjórnarerindreka eða erlenda menn eins og hæstv. utanrrh., þá fylgir það þó einnig stöðu minni, að það kemur fyrir og ég byggi m.a. á ummælum þessara manna, þegar ég segi, að stefnuyfirlýsing og túlkun hæstv. ríkisstj. á stefnuyfirlýsingu í öryggis— og varnarmálum hefur skaðað álit Íslands erlendis. Ég vil líka vitna til fundar þm. Atlantshafsbandalagsins í Ottawa á s.l. ári og vegna þess, að mér er sagt, að hæstv. iðnrh. hafi verið að gagnrýna mig fyrir það að bera klögumál fram á landa mína á fundi NATO erlendis, þá vil ég í leiðinni aðeins segja það, að því gefna tilefni, að ég tel að frásögn af staðreyndum um stjórnmál og afstöðu manna til utanríkismála Íslands á erlendum vettvangi meðal bandamanna okkar í NATO sé engin klögumál. Og ég held, að hver og einn þm. og hver og einn þingflokkur sé alveg reiðubúinn að standa fyrir sínu máli og sinni skoðun, eða er hæstv. iðnrh. eitthvað að kveinka sér? Er það eitthvert feimnismál, hvaða skoðun og stefnu hann hefur í utanríkismálum landsins? Við erum í þingmannasambandi NATO til þess að bera saman ráð okkar, hvað helzt megi til gagns verða sameiginlegu öryggi og friði í þeim heimshluta, sem við byggjum. Hvað er eðlilegra og sjálfsagðara, en að við, þjóðkjörnir fulltrúar, hvers lands um sig, berum saman bækur okkar um pólitíska afstöðu manna í heimalandinu og fylgi við tilteknar aðgerðir í öryggis— og varnarmálum? Ég ber ekki fram neina afsökun á þeirri ræðu, sem ég flutti á þingmannafundi NATO í Ottawa s.l. haust og skora á hæstv. ráðh. að benda á eina einustu setningu, sem hægt er að túlka sem klögumál. Ef nokkur slík fyrirfinnst, þá er það vitni um það, að hann sjálfur kveinkar sér vegna sinna eigin skoðana, og furðar mig reyndar ekki á því.

Það er um þennan fund að segja, að þar var uggur í mönnum. Bæði töldu menn Íslendinga léttúðuga sjálfra sín vegna, vegna síns eigin öryggis, ef ætti að túlka stefnumið núv. stjórnar á þann veg, að varnarliðið skyldi á brott fara skilyrðislaust og án allra frekari kannana á kjörtímabilinu. Og menn voru líka uggandi vegna öryggis nágrannanna. Það er svo, að þegar hús nágrannans brennur, þá er þínu húsi hætt og ég held, að við hér í þessum heimshluta höfum reynt það, að öryggi okkar er samtvinnað. Einræðisöfl í heiminum hafa leikið það 1939 og fyrir þann tíma að nýta andvaraleysi okkar og ná undir sig þjóðum og löndum og svo virtist einnig ætla að takast eftir síðustu heimsstyrjöld, ef Atlantshafsbandalagið hefði ekki verið stofnað. Þess vegna er það mikill ábyrgðarhluti, ef við verðum til þess á einn eða annan hátt að veikja þann hlekk, sem Atlantshafsbandalagið er til varnar öryggi og friði í okkar heimshluta.

Það er svo, að ég gat þess í umr. fyrir rúmum hálfum mánuði, að í sjálfu sér vildi ég ekki gagnrýna það, að athugun og könnun sú, sem fram fer varðandi framtíð varnarliðsins og fyrirkomulag öryggismála, tæki langan tíma. Það er sjálfsagt um svo mikilvægt mál að ætla sér töluverðan tíma í þeim efnum. En ég vil taka það fram, að eftir þá atburði, sem nú hafa gerzt og þær yfirlýsingar, sem bæði hér og í blöðum hafa birzt, þá tel ég fullkomna ástæðu til þess að leggja áherzlu á, að niðurstaða þessarar könnunar liggi sem fyrst fyrir og henni sé flýtt þannig að stefnumörkun Íslands í utanríkis— og öryggismálum sé alveg ljós. Ég held, að við skuldum okkur sjálfum þetta. Ég held, að þetta sé nauðsynlegt vegna okkar eigin hagsmuna. En einnig er þetta sjálfsögð skylda okkar gagnvart nágrönnum okkar. Ég held, að það sé til þess ætlazt af okkur, að við gerum hreint fyrir okkar dyrum og að menn viti, hvar við stöndum. Ef málið er svo einfalt, að það sé stefna ríkisstj., að varnarliðið skuli fara undir öllum kringumstæðum á kjörtímabilinu, hvernig sem allt veltist og hvað sem þessi könnun segir, þá ætti auðvitað enginn vandi að vera að flýta þessari könnun og þá er ég nú sannast bezt að segja alveg undrandi á langlundargeði hæstv. ráðh. Alþb. að leyfa þessari könnun að dragast svo á langinn sem raun ber vitni um. Hún hefur núna staðið í nærfellt níu mánuði og með þeirra samþykki á hún að standa áfram fram á næsta þing. Ef það er fyrirfram gerð ákvörðun ríkisstj. að láta varnarliðið fara, til hvers er þessi tími þá notaður? Þessi spurning má bæði skoðast sem spurning til hæstv. ráðh. Alþb. og hæstv. forsrh. og utanrrh.

Það hefur komið hér fram, að það kom hæstv. utanrrh. mjög á óvart, þegar sendiherra Bandaríkjanna tjáði honum mánudaginn fyrir páska, að Bandaríkin byðust til þess að kosta lengingu flugbrautarinnar. Ég skal ekki draga það í efa, þótt leikmanni eins og mér detti í hug, að Bandaríkin bæru ekki fram slíkt tilboð nema vera nokkurn veginn örugg um það fyrir fram, að því yrði tekið. En þetta tilboð var sett fram með ákveðnum hætti. Tekið var fram, að það væri sett fram vegna þess, að það væri hagsmunamál bæði hvað snertir flugöryggi og varnarmátt Atlantshafsbandalagsins. Í staðfestingu meiri hl. ríkisstj. var ekki á þetta minnzt að öðru leyti en því, að hin óljósa stefna ríkisstj., hin tvísaga eða margsaga stefna hæstv. ríkisstj. í utanríkis- og öryggismálum væri óbreytt. Menn voru jafnnær eftir sem áður. En það var minni hl. í hæstv. ríkisstj., sem skóf ekki af því, sem hann sagði. Hann sagði blátt áfram, að samþykkt tilboðsins jafngilti því, að brostnar forsendur væru til þess, að við gætum í verki framkvæmt sjálfstæða utanríkisstefnu, en eins og ég gat um í upphafi, var það stefnumál hæstv. ríkisstj. að framkvæma sjálfstæða utanríkisstefnu. Nú segja hæstv. ráðh. Alþb., að forsendan sé brostin, en þeir sitja samt áfram í ráðherrastólunum. Ég veit ekki, hvort þeim líður vel. Það er hálfgerður sorgarsvipur á þeim í bili, en þeir láta sér þetta lynda.

Ég spyr nú: Hvar er manndómurinn? Hvar er stefnufestan? Er í raun og veru ekki þannig farið málum, að með því að það er ljóst, að það er ekki meiri hl. á Alþingi Íslendinga til þess að eyða öllum vörnum í landinu, þá sjá hæstv. ráðh. Alþb., að þeir verða að sitja meðan sætt er og njóta valdanna, enda er þeim nokkur vorkunn? Þeir hafa öll valdamestu rn. í ríkisstj. og hafa tök á ýmsum málaflokkum, sem þeim kemur vel til þess að búa í haginn fyrir sig í framtíðinni með góðu samþykki stærsta stjórnarflokksins, sem hefur afsalað sér að sama skapi áhrifum og völdum. Það er sami leikaraskapurinn á ferðum hjá hv. Alþb.—mönnum nú og var 1956. Þeir sátu í tvö ár í ríkisstj. eftir að búið var að ákveða, að varnarliðið skyldi vera áfram í landinu. Þeir munu áreiðanlega ekki segja af sér, þrátt fyrir landráðabrígzl, þrátt fyrir landsölubrígzl vegna þátttöku í NATO og vegna varnarsamningsins.

Ég vil að lokum ítreka fsp. mína til hæstv. ráðh. og þá fyrst og fremst hæstv. forsrh., hver sé stefna ríkisstj. Er það rétt, sem hæstv. utanrrh. hefur sagt, eða er það rétt, sem hæstv. iðnrh. hefur nú sagt í dag? Ég vil enn fremur spyrja hæstv. utanrrh., hvort hann geti virkilega við það unað að sitja áfram í stjórn með mönnum, sem hafa lýst því yfir, að ekki sé unnt eftirleiðis að gerðum þessum samningum við Bandaríkin að framfylgja sjálfstæðri utanríkisstefnu. Hefur hæstv. utanrrh. geð í sér til að sitja undir slíkri ákúru, slíkum ásökunum af hálfu samráðherra sinna?

Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. og viðskrh.: Hvar eru nú öll stóru orðin um landráð og landsölu? Eru þeir orðnir samábyrgir með því að sitja áfram í ríkisstj., sem hefur gert slíkan samning við Bandaríkin? Það er íhugunarefni og fullkomin ástæða til að spyrja hæstv. félmrh., hvort hann sé sammála yfirlýsingum fulltrúa flokks síns í utanrmn., sem taldi varnir á Íslandi ekki til öryggis, heldur stafaði af þeim feikileg hætta. Þetta gengur þvert ofan í það, sem hæstv. félmrh. hefur lýst yfir.

Herra forseti. Ég hef með þessum spurningum óskað eftir svörum, sem Alþ. og íslenzka þjóðin á heimtingu á að fá vitneskju um. En þessar spurningar og svörin við þeim gefa og til kynna það viðhorf, sem ríkir í stjórnarherbúðunum, það stefnuleysi, sem þar er á ferðinni í mikilvægustu málum Íslendinga, öryggis— og varnarmálum þeirra. Á þeim byggist framtíð sjálfstæðis okkar og sjálfsákvörðunarréttur. Við skulum vona, að sú stjórn, sem eins hefur farið að ráði sínu og núv. hæstv. ríkisstj., verði ekki langlíf í landinu.