06.04.1972
Sameinað þing: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í D-deild Alþingistíðinda. (4201)

46. mál, öryggismál Íslands

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla að víkja að ummælum þeirra ræðumanna, sem gerðu orð mín í dag að umtalsefni, í þeirri röð, sem þeir töluðu og sný ég mér fyrst að hæstv. utanrrh. og ræðu hans. Ég hafði síðdegis í dag spurt hann þess, hvað hefði legið að baki þeim ummælum hans í sjónvarpi fyrir nokkrum vikum, að það mundi verða ráðizt í umtalaðar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli og þær mundu verða kostaðar af innlendu fé. Ég sagði, að ég hefði orðið mjög hissa, þegar ég hlustaði á þessi ummæli, sem satt að segja virtust mælt að lítt athuguðu máli, og undrun mín stafaði af því, að ég þóttist vita, að hann hefði ekki haft í frammi nokkurn undirbúning að því að útvega 500 millj. kr. innanlands til þessara framkvæmda, nema þá hann hefði kannske rætt málið í ríkisstj. Þessi var ástæðan til undrunar minnar, þegar ég heyrði þessi ummæli af vörum hæstv. utanrrh. og nú í dag nokkrum vikum síðar játar hæstv. ráðh. að einmitt svona hafi þessu verið farið. Ég lagði mikla áherzlu á, að hann greindi nákvæmlega frá því, við hvaða aðila hann hefði rætt um útvegun 500 millj. kr. til þessara framkvæmda, hvernig hann hefði staðið að málinu og tók það fram, að í augum mínum var það engin skýring, þó að hann segði, að hann hefði stungið upp á því einu sinni í ríkisstj., að það mál yrði tekið á framkvæmdaáætlun ríkisins 1972. Svo vel er ég kunnugur undirbúningi framkvæmdaáætlunar ríkisins, eins og raunar hæstv. forsrh. vék að, að ég veit, að það er engan veginn nóg til að fyrirætlun komist í framkvæmd, að einn ráðh. nefni á einum ráðherrafundi, að tiltekin upphæð skuli tekin á framkvæmdaáætlun. Svo vel þekki ég allan gang þessara mála. Og allra sízt, þegar það er haft í huga, að einmitt um sama leyti og þessi ummæli hæstv. ráðh. féllu, sem ollu undrun margra, margra fleiri en mín innan þings og utan, voru ýmsir stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. hér á hinu háa Alþingi að segja okkur ýmsum úr stjórnarandstöðunni frá því, að það virtist vera fyrirsjáanlegt, að það vantaði einhvers staðar á milli 1.500—2.000 millj. kr., til þess að hægt væri að láta endana ná saman í framkvæmdaáætlun ríkisins. Og þegar það gerist, að einn ráðh. í ríkisstj. segir frá því eins og ekkert sé, að það muni verða efnt til framkvæmda, sem kosti 500 millj. kr. af innlendu fé, þó að hann hafi þá að vísu ekki nefnt opinberlega framkvæmdaáætlun, —ég gat látið mér detta í hug, að hann ætti við hana, þá hlaut það að vekja furðu allra manna, sem þekkja til og vilja hugsa með ábyrgum hætti um fjármál ríkisins og fjárhag þjóðarbúsins í heild. Þess vegna var það, að ég undraðist þessi ummæli, og undrun mín er sízt minni nú í dag, þegar hæstv. ráðh. hefur einmitt staðfest, að það var nákvæmlega svona eins og mig grunaði. Það hefur ekkert, bókstaflega ekkert verið gert til þess að undirbúa þessar framkvæmdir annað en nefna málið einu sinni á ráðherrafundi, kannske tvisvar. Það er þetta, sem ég kalla litla ábyrgðartilfinningu í því, hvernig menn haga orðum sínum. Svona geta ýmsir menn, ýmsir litlir stuðningsmenn stjórnarinnar leyft sér að tala úti í bæ eða einhvers staðar á fámennum stöðum úti á landi, en svona getur hæstv. utanrrh. ekki leyft sér að tala í sjónvarp.

Hæstv. ráðh. spurði mig, hvers vegna fyrrv. ríkisstj. hefði ekki hafizt handa um þessa nauðsynlegu framkvæmd á sínum valdatíma. Því er til að svara, að fyrrv. utanrrh. hóf viðræður um þetta mál við fulltrúa Bandaríkjastjórnar og sömuleiðis sendiherra Íslands í Washington, við utanrrn. þar, þegar eftir að nákvæm athugun á aðstæðum á Keflavíkurflugvelli hafði leitt í ljós, að Keflavíkurflugvöllur svaraði ekki til þeirra krafna, sem eðlilegt var að gera til hans sem varnartækis á grundvelli varnarsamningsins og jafnframt til þess að vera alþjóðlegur farþegaflugvöllur, eins og gert var ráð fyrir, að hann skyldi jafnan vera, þegar varnarsamningurinn var gerður. Það var ein af forsendum varnarsamningsins, að Bandaríkjastjórn skyldi taka að sér að halda þessum flugvelli í því ástandi, að hann væri ekki aðeins fullnægjandi hvað varnarsjónarmið snerti, heldur einnig, að hann væri fullgildur alþjóðlegur flugvöllur í millilandaflugi. En þeir samningar voru hafnir strax og þetta var algerlega ljóst. Þeir samningar drógust á langinn af ýmsum ástæðum, en það var fenginn efnislegur botn í samningaviðræðurnar á s.l. vori, þó að það drægist að ganga formlega frá samningnum. Vegna þess að fjárveiting var ekki fyrir hendi af hálfu þingsins í Washington og nauðsynlegt var auðvitað að láta það bíða, eins og ég tók fram í dag, þangað til fjárveitingin væri fyrir hendi. (Gripið fram í: Hvenær var það ljóst?) Hvenær var það ljóst? Ja, nú kann ég ekki að nefna mánuð í því sambandi, en ég geri ráð fyrir því, að það hafi verið um það leyti, sem samningaviðræðurnar hófust, en þær höfðu staðið í hátt á annað ár. Síðan það varð fullljóst út frá báðum þessum sjónarmiðum, sagði ég.

Þá sagði hæstv. utanrrh., að Framsfl. eða flokkur hans vildi áframhaldandi aðild að NATO og vildi standa við skuldbindingar sínar samkv. þeirri aðild og þess vegna væru það nægileg rök fyrir því, að hann féllist á þá samningsgerð, sem hér er um að ræða. En þá spyr ég, þá hlýt ég að spyrja, það hljóta margir fleiri að gera: Ef sjónarmiðið var þetta, hvers vegna ræddi hann þá ekki við NATO? Hvers vegna tók ekki hæstv. ríkisstj.— upp samband við NATO um málið og samdi við NATO um málið? Það datt fyrrv. ríkisstj. ekki í hug að gera, því að hún leit ekki þannig á málið, að forsenda fyrir þessu væri aðild okkar að NATO. Við teljum það alls ekki nægilega sterk rök, hvorki gagnvart sjálfum okkur, þjóðinni né umheiminum. Við lítum þannig á í fyrrv. ríkisstj., að bein ákvæði varnarsáttmálans sjálfs væri nægilegur rökstuðningur fyrir því, að hægt væri að ætlast til þess af Bandaríkjastjórn, að hún kostaði þessa framkvæmd. Einmitt sú staðreynd, að hæstv. utanrrh. tók ekki upp samband við NATO, heldur tók tilboði Bandaríkjastjórnar, getur ekki þýtt annað en það, að hér fylgi hugur ekki máli, m.ö.o., það sé ekki sannfæring á bak við þá staðhæfingu, að það sé aðildin að NATO, sem sé sá lagalegi, fjárhagslegi og siðferðilegi grundvöllur, sem hér er um að ræða. Með því að gera samninginn við Bandaríkjastjórn, við hana og hana eina, er í raun og veru fólgin viðurkenning á því, að það sé rétt, sem ég hef verið að halda fram um þetta mál og raunar margir fleiri, að grundvöllurinn, sá lagalegi, fjárhagslegi og siðferðilegi grundvöllur, sé fólginn í orðalagi varnarsamningsins sjálfs. Og í raun og veru lít ég þannig á, að fulltrúi Alþb. sé þessu sammála. Það er ástæðan, það hlýtur að vera ástæðan, það getur engin önnur ástæða verið fyrir því, að þeir hafi ekki viljað fallast á skoðun hæstv. utanrrh. og hinna ráðh. á málinu, en einmitt þessi, að vilja ekki skilja það, að það er ekki hægt að gera samninginn réttarlega séð, fjárhagslega séð, siðferðilega séð öðruvísi en á grundvelli varnarsamningsins, sem þeir eru á móti. Þeir eru því sjálfum sér samkvæmir, hvað sem að öðru leyti má um þá segja. Og út af fyrir sig veitir þeim ekkert af því, að maður geti sagt eitthvað ofboðlítið gott um þá.

Að síðustu skal ég víkja að þeim ummælum hæstv. utanrrh., — það mátti skilja orð hans þannig, — að ég hefði verið að halda því fram, að ekki væri hægt að standa undir framkvæmdinni með innlendu fé. Ég vil aðeins taka það skýrt fram, að þetta hef ég aldrei sagt. Ég geri mér að sjálfsögðu ljóst, að þessi fjárhæð er ekki meiri en svo, að ef menn vilja, þá er hægt að annast framkvæmdina með innlendu fé. 500 millj. kr. eru þó ekki stærri fjárhæð en svo í augum einnar af ríkustu þjóðum heims eða tekjuhæstu þjóðum heims, vildi ég sagt hafa, að auðvitað réðum við, við þá fjárhæð, ef við vildum. En við skulum gera okkur grein fyrir því, að það mundi kosta það, að draga þyrfti saman framkvæmdir á fjölda, fjölda mörgum öðrum sviðum. Og ég segi það alveg eins og er, að mér er það mjög til efs, að núv. ríkisstj. hefði viljað draga saman aðrar framkvæmdir, vegaframkvæmdir, skólabyggingar, sjúkrahúsbyggingar og þar fram eftir götunum. Þetta er svo stór upphæð, að það hefði ekki verið hægt að leggja hana fram á 1—2 árum, eins og nauðsynlegt er, nema að skera niður um næstum sömu upphæð, og það hefði þýtt að skera niður mjög mikilvæga liði um upphæðir, sem telja á í hundruðum millj., en ekki tugum millj., því að niðurskurðar möguleikarnir eru í reynd ekki mjög margir, ef þeir eru taldir í töluröð. Það, sem ég hef sagt, er það, að ég hef dregið í efa, að ríkisstj. hafi í reynd verið reiðubúin til slíks. Um það skulum við nánar ræða, þegar við fáum að sjá framkvæmdaáætlun ríkisins á sínum tíma: Þá verður gaman að spyrja um það, hvað hefði átt að skera niður, ef greiða hefði átt 500 millj. af framkvæmdaáætluninni, þó að eitthvað af henni hefði flutzt yfir á næsta ár. Ég hlakka til þeirra umr. til þess að fá upplýsingar um það, hvað þá hefði átt að skera niður til að mæta þessum útgjöldum. Hitt er auðvitað rétt, að auðvitað hefði það verið hægt. Það hefði verið hægt. Og það er annað, sem er rétt í málflutningi hæstv. Alþb. ráðh., að auðvitað hefði þetta verið hægt, ef nægur vilji hefði verið fyrir hendi, ef næg fórnarlund hvað aðrar framkvæmdir snertir hefði verið fyrir hendi, og vík ég nokkru nánar að því hér á eftir. En það breytir engu um það, að ég tel og mínir skoðanabræður í málinu, að það hefði verið óþarfi að færa þessar fórnir á öðrum framkvæmdasviðum, af því að við áttum kröfu til þess, að Bandaríkjastjórn innti þetta fé af hendi.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að ræðu hæstv. iðnrh., sem talaði næstur. Hann hóf mál sitt á því að beina því til hæstv. forseta, hvort ekki væri ástæða til þess að ávíta formann Sjálfstfl. fyrir það að hafa tekið sér í munn jafn ægileg orð eins og þau, að einhvers staðar væru hér á sveimi umboðsmenn erlends valds. Ég ætla ekki að taka upp neins konar svar fyrir formann Sjálfstfl. Hann er maður til þess að svara fyrir sig sjálfur, en ég hygg, að ekki bara mér hafi orðið á að brosa, þegar þannig mælir einn mesti orðhákur, sem ritstýrt hefur íslenzku blaði í áratugi og hefur ekki aðeins sjálfur skrifað, heldur látið skrifa miklu, miklu sterkari og óþvegnari orð en hér er um að ræða og fundizt þau ágæt, ágæt og sízt ofmælt. En ég fyrir mitt leyti hef aldrei verið fylgismaður stórra orða, hvorki í ræðu né riti, svo að ég get út af fyrir sig vel tekið undir það með hæstv. iðnrh., að bezt sé að forðast mjög stór orð, bæði hér á þingi og annars staðar, og vona, að hann geri það þá líka, þegar hann á sínum tíma tekur aftur við stjórn síns blaðs, sem ég vona, að verði ekki allt of snemma, því að mig langar til þess að láta hann renna sitt skeið reglulega rækilega á enda í þeim stól, sem hann situr í núna.

En það er engu að síður alveg augljóst, að það hefur orðið mjög mikil og undarleg breyting á hæstv. ráðh. á þeim tiltölulega skamma tíma, sem hann hefur setið í ráðherrastól. Ég þarf ekki að rifja það upp eða rekja það neitt sérstaklega ítarlega. Allir vita, hvað hann hefði sagt í fyrra fyrir aðeins 12 mánuðum um þann samning, sem félagar hans í ríkisstj. eru nú í þann veginn að gera. Ég bara minni á það. Ég vil ekki taka mér öll þau orð í munn, sem ég veit, að hann mundi hafa sagt. Það vil ég ekki gera, allra sízt á þessum stað og raunar hvergi. Þetta vita allir, að er satt og rétt, sem ég er að segja. Menn vita líka, hvernig þessi hæstv. ráðh. hefur hegðað sér í stjórnarsamstarfinu gagnvart sínum samstarfsmönnum og hvað hann hefur látið segja um þá beint og óbeint í sínu blaði. Þar hefur hann staðið fyrir dulbúnum árásum á fleiri en einn af sínum samráðherrum. Það er enginn vafi á því, að hans blað mundi ekki hafa skrifað eins og það hefur skrifað í garð fleiri en eins af samráðherrum hans, ef þeir, sem á pennanum hafa haldið, hefðu ekki talið sig hafa stuðning hæstv. iðnrh. að baki sér. Það er öldungis víst. Og hann stóð auðvitað fyrir myndun ráðherranefndarinnar og ég hygg, að honum séu engar getsakir gerðar með því, þó að ég láti mér detta í hug, að það hafi verið að hans frumkvæði, sem ráðherranefndin margumtalaða var sett á laggirnar. En það var auðvitað gert til höfuðs hæstv. utanrrh. og honum til svívirðingar, til þess að reyna að lítillækka hann sem allra, allra mest. Það er það, sem vakir fyrir hæstv. iðnrh. með starfi hans í ríkisstj. að skyggja sem mest á sína meðráðherra og jafnvel lítillækka þá, ef þess er nokkur minnsti kostur. Og auðvitað var ráðherranefndin augljós tilraun til þess, ekki aðeins að hefta völd hæstv. utanrrh., heldur lítillækka hann um leið. En hæstv. iðnrh. hefur auðvitað skjátlazt og skjátlazt illilega, ef hann hefur haldið, að hæstv. utanrrh. kynni ekki að borga fyrir sig. Og það hefur hann nú svo sannarlega gert með mjög eftirminnilegum og mjög áhrifaríkum hætti, því að nú í meðferð þessa máls, sem hefur mikið blandazt inn í umr., hefur hæstv. utanrrh. á hinn bóginn lítillækkað hæstv. iðnrh. svo, að þess mun verða minnzt lengi í þingsögunni og stjórnarsögunni.

Með hverjum hætti hefur þetta gerzt? Jú, þetta er ósköp einfalt mál. Hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. hafa lýst því yfir hér í umr. síðdegis í dag, að þetta flugvallarmál, þessi flugbrautarlenging, væri smámál. þetta væri ekkert stórt mál, væri hreint smámál, bæði peningalega séð og utanríkispólitískt séð. Þetta væri hreint smámál. Ekki trúi ég því, að þeir hafi sagt þetta í fyrsta skipti hér á hinu háa Alþingi, þeir eru ekki vanir að sýna okkur svona mikinn trúnað. Þeir hljóta að hafa opnað hjarta sitt fyrir ráðh. fyrst. Þeir hljóta að hafa sagt þetta á ráðherrafundi, bæði hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh., að þetta mál sé smámál, algert smámál, svo að það getur ekki verið annað en hæstv. iðnrh. hafi heyrt þetta miklu, miklu fyrr en við hv. þm. höfum heyrt það. Það skiptir ekki máli, hvort ég tel hæstv. utanrrh. mæla ofboðlítið um hug sér eða ekki. Maður hefur upplifað það áður, en ég tek orð hans núna eins og þau eru töluð. Fyrst hann segir þetta hér, þá hljóti hann að hafa sagt í ríkisstj., að hér sé smámál á ferðinni. En ef þetta er smámál, þá gat ekki verið nokkur vandi fyrir ráðh. Alþb. að stöðva það, ekki nokkur minnsti vandi. Þá hlutu þeir sem vel viti bornir menn að draga þessa ályktun: Ja, ef við bara segjum nei, segjum bara nei við, að þessi samningur sé gerður, þá verður hann ekki gerður. Ekki þykir hæstv. forsrh. svo óskaplega lítið vænt um stólinn sinn, að hann færi að segja af sér, þó að hann fengi ekki að gera samning, sem er hreinn hégómi. Nei, auðvitað gátu þeir ráðh. Alþb. stöðvað málið, ef þeir hefðu bara viljað það. Ef þeir hefðu haft raunverulegan áhuga á því, þá gátu þeir stöðvað það. Og það er þarna, sem hæstv. utanrrh. náði alvarlegu kverkataki á hæstv. iðnrh. og hæstv. viðskrh. Hann þekkti þá jafn vel og við margir aðrir þekkjum þá og vissi, að það var alveg óhætt að flengja þá á þessu sviði, alveg óhætt. Þeim þætti svo vænt um stólana, að þeir mundu ekki láta það varða stjórnarslitum og ekki aðeins það, heldur líka það, að þeir mundu kyngja því, að samningurinn væri gerður, svo að þarna verð ég nú á hinn bóginn að „komplimentera“ hæstv. utanrrh. fyrir að hafa látið sér reglulega takast upp við það að klekkja rækilega á félögum sínum í ríkisstj. og launa þeim rauðan belg fyrir gráan. Rauðan belg áttu þeir einmitt skilið með þeirri geysilegu lítillækkun, sem þeir hafa orðið að sætta sig við í þessu efni.

En af hverju segi ég, að þetta sé bein og alvarleg lítillækkun? Jú, ég hef staðfestingu ráðh. sjálfra á því, að þetta getur ekki skoðazt öðruvísi en þannig, því að þeir segja í bókuninni, sem þeir gerðu á ráðherrafundinum, að slík stefna, þ.e. sú stefna að taka við fé frá Bandaríkjastjórn eða erlendum ríkisstj. til framkvæmda á Íslandi, sem við eigum að geta framkvæmt sjálfir, þeir segja beinlínis orðrétt, — nú passa ég að hafa það orðrétt, sem ég gerði ekki í dag, heldur vitnaði til eftir minni,-„slík stefna“, segir í bókuninni, þ.e. að gera ekki samning eins og þann, sem utanrrh. vill gera, „hún er forsenda þess, að við getum í verki framkvæmt sjálfstæða utanríkisstefnu.“ M.ö.o., samningurinn, sem hæstv. utanrrh. vill gera og meiri hl. ríkisstj. ætlar sér að gera, slík samningsgerð, — það, að slíkir samningar séu ekki gerðir, er forsenda þess, að við getum í verki framkvæmt sjálfstæða utanríkisstefnu, m.ö.o., ef slíkir samningar eru gerðir, þá getur hæstv. utanrrh. ekki framkvæmt sjálfstæða, íslenzka utanríkisstefnu. Þarna er hann aftur að hefna sín á þessum ráðh.

Og svona gengur það í hæstv. ríkisstj. Þarna lemur hver annan, ekki bara framan á brjóstið, heldur í bakið líka, eins og fara gerir. Nei, hæstv. iðnrh. og hans skoðanabræður verða að hafa það hugfast, að öllum er auðvitað ljóst, sérstaklega í ljósi ummæla hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. í dag, að um smámál hafi verið að ræða. Öllum er auðvitað ljóst, að afstaða þeirra í þessu máli er hræsni og yfirdrepsskapur. Þeir hefðu getað hindrað framgang málsins, ef þeir hefðu raunverulega haft áhuga á því. En það kom í ljós, að þeir höfðu meiri áhuga á því að sitja áfram í ríkisstj. en að hindra mál, sem þeir segja, að sé óþurftarmál, hvort sem þeir raunverulega meina það eða ekki. Og að síðustu er nauðsynlegt að vekja athygli á því, að hæstv. iðnrh. verður að gera sér grein fyrir því og hafa það hugfast, að það er ríkisstj„ sem gerir þennan samning. Stjórnskipulega séð er hann gerður á ábyrgð hæstv. ríkisstj. og ráðherrar Alþb. eiga áfram sæti í ríkisstj. Þess vegna er þessi samningur stjórnskipulega gerður á ábyrgð allrar ríkisstj., þar með á ábyrgð hinna tveggja ráðherra Alþb. Ef þetta er rangt skilið hjá mér, þá óska ég, að hæstv. forsrh., sem er allra okkar lærðastur í lögfræði, segi það, að skilningurinn sé rangur. Ef hann segir ekki neitt, eins og ég vona, að hann geri af mörgum ástæðum, þá er þessi skilningur réttur og ég veit, að hann er réttur. Það er ekki hægt að firra sig stjórnskipulegri ábyrgð á gerð, sem ríkisstj. gerir, með bókun á ráðherrafundi. Það er alveg augljóst mál. Svo að sagan mun auðvitað telja þennan samning gerðan á ábyrgð hæstv. iðnrh. og hæstv. viðskrh., hvað sem öllum bókunum á eitt blað í fundargerðabók ríkisstj. líður. Ég skil ekki í því, að það geti verið, að hæstv. ráðh. hafi ekki verið þetta ljóst og þetta er auðvitað enn ein sönnun þess, að hér hefur ekki fullur hugur fylgt máli. Hér hefur kveðið meira að yfirdrepsskap, en menn hafa hingað til gert sér ljóst.

Þá sagði hæstv. iðnrh„ — það vil ég bara leiðrétta með örfáum setningum, það skiptir litlu máli, — hann sagði, að það hefði orðið stefnubreyting hjá Alþfl. eftir að ég tók sæti á Alþ. í byrjun des. Alþfl. hefði fylgt annarri stefnu fram til 6. des. en hann fylgdi eftir 6. des. Ég hef nú satt að segja aldrei látið mér koma til hugar, að ég væri svo áhrifamikill maður, hvorki í Alþfl. né annars staðar, eins og hæstv. iðnrh. vill gera mig, en honum get ég aðeins sagt það, að engar deilur eru uppi í Alþfl. um það, hvaða stefnu hann skuli fylgja. Ég var fullkomlega fylgjandi þeim málflutningi, sem hér var hafður í frammi, meðan ég var erlendis í þingbyrjun og flokkurinn stendur allur að baki þessum málflutningi, sem hefur verið hafður uppi síðan og þeirri afstöðu, sem flokkurinn hefur til ríkisstj. (Gripið fram í: Það er þá endurhæfing.) Endurhæfing. Það er öllum mönnum gott að endurhæfa sig, og þessum þm. veitti ábyggilega ekki af því heldur. Við í Alþfl. fylgdum ríkisstj. í byrjun í ýmsum málum, það er kannske það, sem hæstv. ráðh. á við, en hann hefur veitt því athygli, að þau mál verða færri og færri. Það stendur í engu sambandi við framgang endurhæfingar í Alþfl., hvorki hjá honum sem heild né heldur hjá einstökum mönnum, hvorki formanni hans né nokkrum öðrum. Heldur stafar það einfaldlega af því, að góðum málum hjá ríkisstj. fer fækkandi. Ég vil segja viku eftir viku, og axarsköftum hennar fjölgandi dag frá degi og þá er ekki nema rétt von, að stuðningi eða vinsemdarorðum í hennar garð af hálfu okkar fari heldur fækkandi. En það er ekki ég, sem ber meiri ábyrgð á því en aðrir flokkshræður mínir í Alþfl., það ríkir sem sagt mjög mikill einhugur og þar eru menn mjög samhentir. Ég vil ekki spyrja hæstv. ráðh., hvort hið sama eigi við í hans flokki, því að hann segir nógu oft ósatt til þess, að ég láti hann segja ósatt einu sinni enn að óþörfu.

Hæstv. ráðh. sagði í rökstuðningi sínum fyrir þeirri afstöðu, sem þeir tóku um þetta mál, að þjóðartekjur á mann væru hærri á Íslandi, en í flestum öðrum löndum eða þær þriðju hæstu í heimi. Ég vek bara athygli á þessu, af því að þarna segir hann alveg satt. Ég vek bara athygli á þessu til þess að undirstrika, að þá getur hitt ekki verið satt, sem hann er alltaf að segja, að afkoman hafi verið afskaplega vond hjá hæstv. fyrrv. ríkisstj. Sú ríkisstj„ sem tekur við þjóðarbúi, þar sem tekjur eru hinar þriðju hæstu í heimi á mann, hún tekur ekki við slæmu búi. Og það er ekki vel gott samræmi í því að skamma þá ríkisstj., sem verið hefur við völd í meira en áratug og segja hana hafa stjórnað illa, þegar það passar, en segja svo hitt, þegar það passar aftur á móti, að þjóðartekjur okkar séu nú þær þriðju hæstu í veröldinni. Hvort tveggja getur ekki verið rétt. Það sér jafnsnjall maður og hæstv. iðnrh. áreiðanlega, án þess að fleiri orð séu um það höfð.

Þá sagði hæstv. iðnrh. að bráðabirgðasamkomulagið um væntanlega lengingu þverbrautarinnar og ráðstafanir í því sambandi væri eingöngu gert vegna farþegaflugsins. Þessu hef ég þegar andmælt, því að ég tel, að varnarsjónarmið komi þar einnig til greina. En í því sambandi vék hann að þeim ráðagerðum, sem einnig voru uppi á dögum fyrrv. ríkisstj., um að gera meiri framkvæmdir á vellinum en þær, sem við höfum verið að tala um nú síðdegis og væntanlegur samningur ríkisstj. mun koma til með að fjalla um, t.d. byggingu nýrrar íslenzkrar flugstöðvar á öðrum stað en flugstöðin er núna. Og ein af röksemdum hans fyrir því, að hér væri um smámál að ræða, var sú, að þessar framkvæmdir kostuðu 500 millj„ en þessi nýja flugstöð, sem Íslendingar ætluðu að byggja, ætti að kosta 300 millj. kr., en hins vegar hefði átt að afhenda gömlu flugstöðina til Bandaríkjamanna og þess vegna sæju menn allir hér, að þetta gengi svona nokkurn veginn upp. Þetta verð ég að leiðrétta, vegna þess að hér er ekki nema hálfsögð sagan. Ég vona, að það sé af því, að hæstv. iðnrh. sé ekki betur kunnugt um málið, en það er rétt, að þessi saga sé sögð eins og hún er í mjög einföldu máli.

Það, sem um var að ræða og þessi samningur fjallar auðvitað ekki um, sem við erum núna að tala um, var hugmynd um það að skilja algerlega á milli allra hernaðarmannvirkja á Keflavíkurflugvelli og þeirra tækja, sem nauðsynleg eru í því sambandi og farþegaflugsins, að skilja þar algerlega á milli, sem að mínu viti hefði auðvitað fyrir löngu, löngu átt að vera búið að gera og hefði helzt átt að gerast frá upphafi. Það er mín skoðun og hefur ávallt verið. Og í þessu sambandi kom sú hugmynd upp, að Bandaríkjamönnum yrði afhent núverandi flugstöð, hún yrði á því svæði, sem nú er gert ráð fyrir, að hernaðarmannvirkin yrðu, en hins vegar yrði íslenzka flugstöðin, farþegastöðin, byggð á allt öðrum stað, rétt við Keflavík, þ.e. nær byggðinni sjálfri, og þá stöð áttu Íslendingar auðvitað að byggja, því að hún mundi eingöngu þjóna farþegafluginu. Það datt engum í fyrrv. ríkisstj. í hug annað en að Íslendingar einir og Íslendingar sjálfir byggðu þá flugstöð, sem eingöngu væru í þjónustu farþegaflugsins og gert var ráð fyrir, að hún mundi kosta á þáverandi verðlagi einhvers staðar milli 300 og 400 millj. kr. Yrði þetta gert, þá var um það rætt að gera margar aðrar framkvæmdir í þágu vallarins fyrst og fremst sem hernaðarvallar, en þær gætu þó jafnframt komið að gagni við gatnagerð og fjölmargt fleira í sambandi við farþegaflugið. Heildar kostnaðaráætlunin um þessar framkvæmdir var 1.500 millj. kr., sem Bandaríkjamenn hefðu þá kostað og er þá ekki íslenzka flugstöðvarbyggingin, sem væri algerlega íslenzkt fyrirtæki, talin með. En því má ekki blanda saman, því að það er algert samkomulag um, að ef af þessu yrði, þá mundu Bandaríkjamenn borga 1.500 millj. kr. framkvæmdirnar, af þeim eru þessar 500 millj. einn hluti, en Íslendingar flugstöðvarbygginguna, þá, sem kostar 300 millj. kr. (Gripið fram í.) Það er nýr flugturn og fjöldamargt annað, sem er dýrasti framkvæmdaþátturinn í þessum 1.000 millj., sem þarna er um að ræða.

Annars er þetta að sjálfsögðu langur listi og engin ástæða til þess að fara út í það hér í einstökum atriðum, hvað í þessum tölum felst. Þessar áætlanir eru til í utanrrn., svo að það eru hæg heimatökin þar. En því vildi ég að síðustu bæta við um þetta atriði, að auðvitað töldum við 300 millj. kr. af íslenzku fé vera mikinn pening og óskuðum eftir því eða vildum fjármagna flugstöðvarbygginguna með erlendu láni, sem talað var um við Bandaríkjastjórn að aðstoða við að útvega með eðlilegum viðskiptakjörum, eðlilegt viðskiptalán, enda ættu auknar tekjur af vellinum hæglega að geta staðið undir þeirri framkvæmd, þó að mjög dýr yrði. Ég tel, að þessar stóru hugmyndir, þetta stærra plan, eins og mætti segja, hafi verið mjög skynsamlegt og sé enn mjög skynsamlegt og vildi óska þess, að hæstv. utanrrh. bæri gæfu til þess eða hæstv. samgrh., sem ég treysti ekki síður, að halda vel og skynsamlega á þessu máli, að hann vildi taka þetta mál til rækilegrar athugunar. Það mundi gleðja alla skynsama og velviljaða menn, ef tækist að koma því í framkvæmd.

Þá sagði hæstv. iðnrh., að stjórnarsáttmálinn hafi engan óróa vakið erlendis. Þetta hlýtur hann að vita betur, hæstv. ráðh. Hann er áreiðanlega ekki svo ókunnugur erlendum blöðum og erlendum ráðamönnum, allra sízt eftir að hann varð ráðh., að hann viti ekki, að þetta er mikill misskilningur. Þetta er hörmulegur misskilningur. Þvert á móti hefur þessi nýja stefna, sem hæstv. ríkisstj. boðaði, valdið miklum ugg hjá mörgum nánum vinaþjóðum okkar og það var þess vegna, sem ég sagði í dag, að þessi samtenging varnarmálanna og landhelgismálsins í einum og sama stjórnarsamningi og tekin á sama tímabili, hún mundi því miður torvelda okkur sókn okkar í landhelgismálinu, einmitt af því að menn gera sér ljóst, að það er óhyggilegt að ætla að vinna að þessum tveimur málum saman. Það er alveg sama, hvaða skoðun menn hafa á varnarmálunum, það er staðreynd, að aðrar þjóðir, t.d. Norðmenn, svo að ég nefni ákveðna þjóð, t.d. Norðmenn telja Keflavíkurflugvöll og varnir þar hafa mikla þýðingu fyrir sínar eigin varnir og fyrir sitt eigið öryggi. Þetta veit ég, að hæstv. ráðh. hlýtur að vita. Þetta hef ég heyrt af vörum æðstu valdamanna nú í Noregi fyrir nokkrum vikum og er satt að segja ekkert hissa á. Það eru þeirra skoðanir, en ekki mínar.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri traust samstaða í ríkisstj. og þetta er einmitt sagt í umr., þar sem verið er að ræða um stórmál í mínum augum, smámál í augum sumra annarra ráðh., þar sem komið hefur fram opinber klofningur. En raunverulega er þetta engin ný bóla. Það er engin ný bóla, þó að klofningur sé í stjórnarliðinu. Við höfum hér allir saman hv. þm. upplifað afgreiðslu fjárlaga og vitum, að það tókst ekki að koma þeim saman fyrr en á síðasta starfsdegi þingsins. Af hverju skyldi það hafa verið? Var verið að deila við okkur? Var verið að deila við okkur í stjórnarandstöðunni? Var einhver voðalegur ágreiningur við okkur um málið? Nei, alls ekki. Við vorum yfirleitt ekki spurðir svona að neinu ráði. En um hvað var ágreiningurinn? Hvar vantaði samstöðuna? Í ríkisstj. sjálfri? Við fjölluðum hér lengi um frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins. Mönnum sýndist sitt hverjum um það, um ýmis atriði í því. Við studdum frv. að lokum, við í Alþfl. Sjálfstfl. var á móti frv., en það var lengi að fæðast. Af hverju var það? Var það vegna deilna við Sjálfstfl. eða deilna við okkur um tiltekin atriði? Nei. Það vita guð og menn, að það var vegna deilna í stjórnarflokkunum sjálfum um málið og meira að segja eftir að það var orðið að lögum, þá gengu hér ýmsir stjórnarstuðningsmenn um, maður hafði ekki frið fyrir þeim. Þeir höfðu svo mikinn áhuga á að lýsa andúð sinni á vissum ákvæðum í frv. og jafnvel frv. í heild. Einn daginn drakk maður ekki kaffibolla hér í friði fyrir mönnum, sem komu til þess að skensa frv. og suma höfunda þess. (Gripið fram í.) Ég er ekki vanur að lykta af mönnum, sem koma nálægt mér. Það get ég ekki sagt þm.

Það má líka minna á skattamálin. Það tók lengri tíma að afgreiða skattafrv. en nokkurt annað frv., sem legið hefur fyrir þinginu. Var það vegna deilna við okkur í stjórnarandstöðunni? Allir þm. vita, að svo var ekki. Það var vegna harðvítugra deilna milli einstakra ráðh. og milli einstakra stjórnarflokka, svo að það, sem nú hefur gerzt, er í sjálfu sér ekki nokkurt undrunarefni. Stjórnin er ósamstæð og hún verður áreiðanlega ósamstæð, þangað til hún springur, vegna þess hve hún er ósamstæð.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. Bjarna Guðnasonar, 3. landsk. þm. Hann minnti á það, að ég hefði verið einn af höfundum þáltill. vorið 1956 um endurskoðun varnarsamningsins og flm. hennar, sem er algerlega rétt, og hann spurði, því í ósköpunum ég gæti þá hugsað og talað eins og ég geri í dag, fyrst ég hefði verið svona fyrir 15 árum. En sannleikurinn er sá, að reynslan hefur kennt mér ýmislegt á þessum 15 árum. Hún kenndi mér margt, sorglega margt fyrstu mánuðina eftir að ég hafði beitt mér harkalega fyrir samþykkt þessarar till., þannig að ég stóð að því ásamt meiri hl. í þeirri ríkisstj., sem ég átti sæti í, að till. kæmi ekki til framkvæmda. Einmitt sú reynsla, sem ég hef orðið fyrir á þessu sumri og hausti, hefur kennt mér það, að í slíkum málum eigi maður að fara varlega og það, sem ég tel, að þessari hæstv. ríkisstj. hafi einmitt skjátlazt hvað mest í, er einmitt það að fara ekki varlega í vandasömum og viðkvæmum málum eins og varnarmálin eru. Þetta þýðir auðvitað ekki það, að ég sé fylgjandi eilífri hersetu á Íslandi, svo að ég noti orð hv. þm. Bjarna Guðnasonar. Því fer svo víðs fjarri. Ég er að sjálfsögðu í hópi þeirra, — það held ég, að allir góðir Íslendingar séu, — sem líta á vist erlends hers hér sem illa nauðsyn og sem tímabundið fyrirbæri, sem algerlega tímabundið fyrirbæri. En ég lít þannig á, að meðan friður í þessum heimshluta, sem við nú einu sinni byggjum, meðan hann er af þeim, sem ráða, tryggður með tveimur varnarbandalögum, þá sé okkar sæti í vestræna bandalaginu, okkar staða sé þar og til þess vil ég taka tillit í utanríkisstefnu Íslands. Ekki af því, að ég óski eftir því, að varnarbandalög séu til, en ég vil bara taka tillit til staðreynda. Ég játa það, í hvers konar heimi ég lifi og meðan heimurinn er svona, þá vil ég finna mér þar og minni þjóð réttan stað, þann stað, sem tryggir hennar hagsmuni bezt og tryggir hennar öryggi með sem beztum hætti. Ég get gjarnan bætt því við, að ég er ekki heldur þeirrar skoðunar, að rétta leiðin til þess að tryggja frið eða öryggi sé stofnun og viðhald hernaðarbandalaga. Ég væri manna fyrstur til að gleðjast yfir því, að bæði Atlantshafsbandalag og Varsjárbandalag yrðu lögð niður. En það er ekki á valdi mínu, sem ég þarf væntanlega ekki að taka fram, það er ekki á valdi íslendinga, að þau bandalög séu lögð niður. En ég tel, að í okkar utanríkisstefnu eigum við að leggja okkar lóð á þá vogarskál, sem að því stuðlar, að hægt verði að tryggja frið og öryggi í þessum heimshluta sem og öllum öðrum með varnarbandalögum. Og það tel ég, að hafi verið gert. Um það er mér vitanlega ekki ágreiningur meðal ábyrgra og hugsandi Íslendinga. Ágreiningurinn er um það, hvort við eigum að taka tillit til ástandsins, sem er, þeirra skoðana, sem eru ríkjandi í vestri og austri og hegða okkur eftir því, eða hvort við eigum að hunza þær skoðanir, sem eru ríkjandi á þessum stöðum, í Washington og Moskvu, ef ég á að nota það orðalag. Það er um þetta, sem ágreiningurinn er, en ekki um hitt, hvað í sjálfu sér sé æskilegt í þessum efnum.

Að svo mæltu er mér alveg óhætt að leiðrétta og gera það í góðu, sem hv. þm. Bjarni Guðnason sagði, að íslenzki Alþfl. virtist hafa tapað niður einhverju af alþjóðlegum hugsjónum jafnaðarstefnunnar. Það, sem ég er að lýsa, er hluti af alþjóðlegum hugsjónum jafnaðarstefnunnar, andstaða við hernaðarbandalög og efling friðar og öryggis, en ég veit ekki betur en allir jafnaðarmannaflokkar í Vestur-Evrópu séu þeirrar skoðunar, að meðan varnarbandalög séu við lýði, eigi að efla Atlantshafsbandalagið. Ég þekki engan jafnaðarmannaflokk, sem hugsar öðruvísi. Ég veit, að það eru margir jafnaðarmenn í einstökum löndum, sem hugsa öðruvísi, en þeir eru hvarvetna minni hl., mismunandi stór. Forusta allra jafnaðarmannaflokka í Vestur-Evrópu undantekningalaust er þeirrar skoðunar, að meðan varnarbandalagskerfi sé ríkjandi, eigi að styðja Atlantshafsbandalagið. Það er þess vegna, hv. þm. Bjarni Guðnason, sem er eitthvað svolítið ruglaður í því, hvað jafnaðarstefnan raunverulega þýðir, en ekki ég eða við í Alþfl. En ég vona, að það standi nú allt saman til bóta.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, — hann sagði það eitthvað þrisvar sinnum í ræðunni og ég vildi óska, að hann hefði sagt það sex sinnum, það hefði orðið mér til enn þá meiri ánægju, — það er rétt, að við jafnaðarmenn, og hann átti þar við Alþfl. og SF, við erum að ræða um sameiningu. Það er rétt, við erum að því og ég vona, að þær viðræður leiði til jákvæðs árangurs. Ég veit, að það mun ekki geta leitt til þess, að við allir verðum sammála um afstöðu til NATO eða afstöðu til varnarstöðvanna. En ég tel það bara ekki skipta máli. Ég tel að í sönnum jafnaðarmannaflokki sé rúm fyrir menn með ólíkar skoðanir á þessum atriðum utanríkismála og þessum atriðum varnarmála, sem við sérstaklega höfum hér gert að umtalsefni. Það, sem sameinar jafnaðarmenn, eru ákveðnar hugmyndir um heim allan. Það eru ákveðnar hugmyndir um, hvernig þjóðskipulagið skuli vera byggt inn á við. Það sameinar líka jafnaðarmenn, að þeir aðhyllast vissar grundvallarhugsjónir í utanríkismálum, þ.e. eflingu friðar, öryggis og þar fram eftir götunum. En það eru til ágætir jafnaðarmenn hér á Íslandi og um öll lönd, sem greinir á um það, hvort rétta leiðin til eflingar friði og frelsi sé myndun varnarbandalaga eða hvort sú stefna sé andstæð því markmiði að efla frið og treysta öryggi, og þar sem um sérstök vandamál er að ræða, sem eru þjóðlegs eðlis, eins og vandamálið varðandi varnarsamninginn hér, þá getur ágæta jafnaðarmenn greint á um það í góðu, hvort varnarsamningurinn við Bandaríkin sé eðlilegur eða óeðlilegur, hvort hann efli hagsmuni Íslands eða sé andstæður hagsmunum Íslands. Og ég er eindregið þeirrar skoðunar, að hvort sem menn eru andstæðir varnarsamningnum eða honum fylgjandi, þá geti menn verið ágætir jafnaðarmenn fyrir því, svo að ég hef ekkert reiðzt hv. þm. Bjarna Guðnasyni, þó að hann hafi sagt það, sem hann sagði í dag og vona, að við eigum eftir að tala saman um sameiningu jafnaðarmanna í einn flokk í jafngóðum anda og við höfum gert hingað til.

Að síðustu langar mig til þess að víkja að ræðu hæstv. forsrh. Fyrst og fremst vildi ég segja, að það var ranghermi hjá hæstv. forsrh., að ég hefði haldið því fram síðdegis í dag, að það, sem nú hefur gerzt í Keflavíkurmálinu, væri brot á þingræðisreglum. Það sagði ég aldrei og það mun koma skýrt fram í ræðu minni. Þvert á móti undirstrikaði ég, að ef stjórnin vildi, þá gæti hún sagt það, að hún hefði gert þennan samning og mundi gera hann í trausti þess, að þingmeirihluti væri fyrir honum, enda væri enginn vandi að reyna á það, að svo væri. Einmitt þetta sagði ég í dag og þetta er rétt. Það, sem ég hins vegar sagði, var það, að ég vildi fá svar við því af hálfu hæstv. forsrh., hvort hann hugsaði sér, að ríkisstj. héldi áfram að vinna með þessum hætti, m.ö.o. að afgreiða stór mál með atkvgr. og spyrja þingið ekki. Við þessu fékk ég því miður ekki skýrt svar, en ég skal þó alveg taka við því svari, sem hann gaf, sem var í því fólgið, að ef það er vefengt, að ákvörðun meiri hl. ríkisstj. sé í samræmi við þingmeirihluta, þá getur þingið sjálft, hvaða þm. og hvaða flokkur sem er, gengið úr skugga um það, hvort svo sé eða ekki. Ég hefði kosið, að svar hans væri skýrara, afdráttarlausara um það, að þetta væri sérstakt tilfelli, sem hér væri um að ræða og ekki væri meiningin að vinna svona áfram. En fyrst hann óskar ekki að segja það, þá læt ég það eiga sig.

Þá deildi hann allhvasst og hvassara en venja hans er á hæstv. fyrrv. utanrrh., Guðmund Í. Guðmundsson, fyrir það að hafa ekki haft neitt samráð við Alþb. á sínum tíma, meðan hann var utanrrh. Hafði hann um þetta allstór orð. En ég vil aðeins minna núv. hæstv. forsrh. á það, að þegar Guðmundur Í. Guðmundsson tók upp þessi vinnubrögð, eftir að hann varð utanrrh. —(Forsrh.: Við stjórnarandstöðuna, sagði ég.) Nei, það er einmitt þetta, sem þarf að leiðrétta, einmitt þetta, því að það, sem ég átti rétt aðeins ósagt og hæstv. forsrh. hefur nú gert skemmtilegt, það var það, að Guðmundur Í. Guðmundsson tók þessi vinnubrögð upp í ríkisstj. Hermanns Jónassonar og með vitneskju hans, svo að ef einhver stóryrði eiga hér við í garð Guðmundar Í. Guðmundssonar, þá hitta þau í nákvæmlega sama mæli þann ágætismann, Hermann Jónasson. Guðmundur Í. Guðmundsson sagði sínum forsrh. frá því, að hann treysti sér ekki til þess að ræða málefni Atlantshafshandalagsins við þá samráðherra sína, sem væru fulltrúar Alþb. í ríkisstj. og forsrh. féllst á þetta, svo að það, sem síðar var lögfest, átti uppruna sinn í þessum samningum, vildi ég mega segja, milli Hermanns Jónassonar og Guðmundar Í. Guðmundssonar. Þetta átti sér allt saman sína skýringu, sem ég hirði ekki að fara út í hér og geri ekki nema tilneyddur, þá mun ég gera það, en ég sætti mig ekki við það, að fyrrv. starfsbróðir minn í ríkisstj. verði fyrir aðkasti af eftirmanni þess forsrh. sem samþykkti gerðir hans varðandi þetta atriði. En þá voru viðkvæmir tímar, sérstök vandamál á ferðinni, sem þáv. utanrrh. notaði sem rökstuðning fyrir sinni afstöðu og tekin var gild af oddvita ríkisstj. (Gripið fram í.) Það er ekki mitt að svara fyrir það, ég var ekki forsrh. í þeirri ríkisstj. (Forsrh.: Í viðreisnarstjórninni.) Já, nú er ég einmitt að koma að því. Mikið liggur hæstv. forsrh. mikið á. Hann er alltaf á undan mér í því, sem ég ætla að fara að segja. En hitt er annað mál, að síðan var þetta fyrirkomulag lögfest, með óbeinum hætti þó. Það var eftir að ríkisstj. Ólafs Thors hafði verið mynduð. En sem betur fór breyttust tímarnir smám saman og þau mál, sem áður höfðu þótt sérstaklega viðkvæm, voru það ekki lengur í jafnríkum mæli og áður. Auk þess held ég, að menn hafi smám saman séð, — það á a.m.k. við um mig, — að þetta fyrirkomulag væri óeðlilegt og það væri nauðsynlegt, að hægt væri að hafa allsherjarsamstarf milli þingflokka í algerum trúnaði um utanríkismál eins og um önnur mál. Og mér er engin launung á því, að ég átti minn þátt í því, eftir að Emil Jónsson hafði tekið við störfum utanrrh„ að horfið var frá þessari stefnu. Og ég held, að sú ákvörðun hæstv. utanrrh. Emils Jónssonar hafi verið algerlega rétt, og mér er engin launung á því, að ég tel, að þetta samstarf, sem þá var tekið upp, þetta skipulag, hafi ekki orðið að neinu tjóni síðan. (Gripið fram í.) Jú, jú, einmitt. Ja, voru lögin numin úr gildi áður? Það kann vel að vera, að það hafi verið. Ég skal ekki segja, hvort Guðmundur Í. Guðmundsson hafi breytt sínum starfsháttum, það mundi þurfa að athuga nánar, enda skiptir það í sjálfu sér ekki máli. En hitt er rétt, að það var gerð breyting á starfsháttum varðandi utanríkismal, eftir að Emil Jónsson tók við störfum. Ég segi það aftur, ég átti minn þátt í því, að sú breyting var gerð og sé ekki eftir því, tel, að þetta hafi verið rétt.

Þá vildi ég víkja að þeim ummælum hæstv. forsrh. að það hafi margoft komið fyrir áður, að ríkisstj. hafi klofnað um einstök mál, án þess að ráðh. hafi sagt af sér. Og hann nefndi þar verðlagsfrv. margumtalaða sem dæmi. Fyrst hæstv. forsrh. nefndi þetta dæmi, þá tel ég rétt að rifja upp í örfáum orðum, hvað hér var í raun og veru á ferðinni, til að taka af öll tvímæli um það, að þessi mál eru með engu móti sambærileg. Þar á ég ekki aðeins við það, að auðvitað verður þýðing verðlagsfrv. með engu móti borin saman við þýðingu þess, sem hér er á ferðinni. Hér er á ferðinni stórvægilegt utanríkismál, sem snertir viðkvæmustu þætti íslenzkra utanríkismála að sumu leyti. Að hinu leitinu var á ferðinni innanlandsmál, eitt af ótal mörgum öðrum, sem á döfinni eru á hverju þingi. Ég á þó ekki við þetta, þegar ég segi, að reginmunur sé hér á, heldur við það, sem ég nú skal greina frá.

Þegar verðlagsfrv. var rætt í ríkisstj., kom það fram, að tveir af þm. Alþfl., annar í Nd. og hinn í Ed., - sá í Ed. var einmitt ráðh. í ríkisstj„ — voru frv. andvígir og það hafði því ekki fylgi þm. stjórnarflokkanna. Þetta gerðu sér allir ljóst og var ekki neitt minnsta leyndarmál. Spurningin var þá, hvort leggja ætti frv. fram, þá að láta það falla, ef allt hefði gerzt með venjulegum hætti, eða hvort ætti að leggja það til hliðar. En þá gerðist það og nú skal ég bara tala í eigin persónu og ekki blanda neinum öðrum ráðh. eða öðrum einstaklingum inn í það, þá gerðist það, að mér barst algerlega örugg vitneskja um það, að í Framsfl. væri um að ræða fylgi meira en tveggja þm., tölur skal ég ekki nefna, enda er óþarfi að nefna tölur, þar væri um að ræða fylgi meira en tveggja þm. við frv. Þetta var í raun og veru ekkert leyndarmál á þeim tíma og þarf ég þar ekki að vitna í neinar umr., sem fóru fram á þingmannafundum Framsfl. Það á maður ekki að gera, þó að maður viti eitthvað um þær, heldur kom það fram á hálfopinberum fundi framsóknarmanna hér í Reykjavík, sem haldinn var í Glaumbæ, að nokkrir þm. Framsfl. væru fylgjandi frv., það væri ágreiningur um frv. í Framsfl. og sagði einn ræðumanna, að áhöld væru um það, hvort meiri hl. þm. væri fylgjandi því eða andvígur því. Að fengnum þessum upplýsingum og raunar fleiri, sem ég hirði ekki að nefna nema alveg sérstaklega að gefnu tilefni, þá varð það niðurstaða okkar í ríkisstj., hreinlega niðurstaða okkar, að við skyldum láta á það reyna, hvort nokkrir þm. stjórnarandstöðuflokkanna vildu styðja frv. eða ekki, enda er það bara ekkert nýmæli. Það eru hér alltaf öðru hverju, ég segi ekki vikulega, en a.m.k. mánaðarlega, afgreidd frv., þar sem stjórnarflokkar skiptast og stjórnarandstöðuflokkar skiptast, þar sem frv. eru samþ. með atkv. bæði stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga gegn atkv. annarra stjórnarsinna og annarra stjórnarandstæðinga. Þetta er hlutur, sem allir þm. þekkja mæta vel og við ákváðum í ríkisstj. að láta á þetta reyna. Þegar þetta varð ljóst, varð eitthvert ógurlegt fjaðrafok í Framsfl., bæði þingflokknum og hvað það heitir, flokksráði hans eða hvað það er og sýndist mönnum mjög sitt hvað. En niðurstaðan varð sú, að þingflokkur Framsfl. skyldi allur sem ein heild greiða atkv. gegn frv., hvað svo sem liði samvizku einstakra þm. Hún var ekki þung á metunum þá fremur en stundum endranær. Þess vegna var það, sem það gerðist, að frv. féll. Við því var ekkert að segja. Ég verð að segja það, sagði það þá og segi það enn núna, að mér kom það mjög á óvart og var það til mikilla vonbrigða, að nokkrir þm. Framsfl. skyldu ekki reynast meiri karlar en þeir reyndust við endanlega atkvgr. Þeir verða að gera það upp við sjálfa sig, hversu miklir karlar þeir vilja reynast. Í mínu áliti uxu þeir ekki við þessa niðurstöðu. En hér var um að ræða mál, sem lagt var fyrir þingið og það er einmitt það, sem ég er að tala um núna. (Forsrh.: Stórir karlar, sem ætluðu að treysta á stjórnarandstöðuna.) Treysta á hana, ég vil ekki nota það orð, að við höfum ætlað að treysta á hana, við ætluðum bara að reyna, hvort þeir stæðu við orð sín, hvort þeir þyrðu að greiða atkv. eftir samvizku sinni eða ekki. Og þeir reyndust ekki fá að gera það fyrir ofríki sumra manna. Þetta er nú sannleikurinn um þetta mál og það vona ég, að allir geri sér ljóst á eftir, að þetta er með engu, engu móti sambærilegt.

Að síðustu eða næstsíðustu ætla ég að nefna það, sem ég raunar hafði nú vikið að áðan og kalla þess vegna að næstsíðustu núna, að hæstv. forsrh. sagði, að ef dregið væri í efa, að málið væri þingræðislegt, þá gæti bara stjórnarandstaðan eða einhver þm. beðið um vantraust eða flutt till. þar sem reynt væri á, hvort málið hefði fylgi eða ekki. Nú gerir hann sér áreiðanlega ljóst, að það væri afskaplega lítill vandi fyrir stjórnarandstöðuna, annaðhvort flokkana eða einhvern einstakan þm., að semja þess konar till., sem setti þess konar fleyg á milli stjórnarflokkanna, eins og ágreiningur á milli þeirra er, að niðurstaðan gæti orðið sú, t.d. vegna ágreinings, sem er um forsendurnar, að það gæti farið svo, að till., sem skoðuð yrði sem vantraust, yrði samþ. með atkv. Alþb. og stjórnarandstöðunnar. Það er hægt með sérstökum klókindum og sérstökum refshætti að búa svona till. til. Það ætla ég ekki að gera og ég mæli ekki með, að það sé gert. Ég er búinn að halda hér langa ræðu í dag og hef ekki nefnt þessa hugmynd og mér dytti ekki í hug nokkurn tíma að gera það. En þess vegna nefni ég málið núna, að flokkur hæstv. forsrh. hefur einu sinni leikið slíkt stykki hér á hinu háa Alþingi. (Gripið fram í: Gert stykkin.) Gert sín stykki, já. Og það var árið 1950, þegar sat að völdum minnihluta stjórn Sjálfstfl. Þá flutti Framsfl. vantrauststillögu á þá stjórn vegna gengislækkunarfrv., sem sú stjórn hafði flutt. Sú till. var samþ. með atkv. mínu og annarra þáv. stjórnarandstæðinga, sem voru till. þá alveg sammála. En hvað skeði bara strax eftir að vantraustið hafði verið samþykkt? Þá myndaði Framsfl. ríkisstj. með Sjálfstfl. til þess að framkvæma frv., sem hann hafði fellt ríkisstj. á. (EystJ: Það þurfti fyrst að ná stjórninni frá.) Já. Þarna er sjálfur forseti Alþingis að gefa okkur ráð um að gera einhvern andskotann til að ná stjórninni frá ykkur. (Gripið fram í.) Ekki fyrir mitt leyti og ekki Alþfl. Sjálfstfl. getur svarað fyrir sig. Við tökum ekki þátt í öðrum eins vinnubrögðum og munum aldrei gera. Það er eitt, sem er alveg áreiðanlegt.

En þetta gaf mér tilefni til að rifja upp þessa sögu, ja, hæstv. forsrh. þarf ekki að óttast þess konar stjórnarandstöðu af okkar hálfu. Hann getur verið algerlega rólegur hennar vegna, enda skal ég segja það aftur: Mig langar bara ekkert til, að stjórnin fari frá strax. Ég hef afskaplega gaman af að hafa hana og gaman af að vera andstæðingur hennar og tel nauðsynlegt, að hún hafi runnið sitt skeið á enda, þegar hún fer frá. Það verður ekki voðalega langt þangað til. En ég vona ekki heldur, að það verði of skammt þangað til.

Þá vildi ég að síðustu segja, að ég mun ekki lengur taka þátt í því að biðja hæstv. forsrh. að úrskurða neitt um það, hvernig túlka beri stjórnarsamninginn, hvort túlka beri hann á þann hátt, sem hæstv. utanrrh. gerir eða hæstv. iðnrh. gerði nú í dag og hæstv. viðskrh. hefur gert áður. En ég skrifaði orðrétt niður ummæli hæstv. iðnrh. um þetta efni. Hann sagði:

.,Ríkisstj. er staðráðin í því að framkvæma brottför hersins á kjörtímabilinu.“

Hæstv. utanrrh. hefur hins vegar sagt,— ég hafði þau ummæli eftir honum í dag, og hann andmælti þeim ekki, — að hann liti þannig á, að fyrirhugaðar samningaviðræður gætu leitt til þess, að hér yrði áfram einhver bandarískur her með einhverjum hætti og þó að svo yrði, þá teldi hann það ekki brot á stjórnarsáttmálanum. Ég held, að við ættum að hlífa hæstv. forsrh. við því að blanda honum meira inn í þetta. Þetta er orðið algerlega augljóst mál, að það er ágreiningur á milli ráðh. og á milli flokka um þetta mál. Við þurfum engan úrskurð frá hæstv. forsrh. um það, að um ágreining er að ræða. Hann bætir ekki skilning okkar á þessu. Hann ruglar hann að vísu ekki neitt frekar, en hitt er annað mál, að æskilegt er, að hann sjálfur geri sér þetta ljóst í leyni annaðhvort kvölds eða morgna, þegar hann les kverið.