17.12.1971
Efri deild: 33. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

119. mál, verðlagsmál

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þetta mál með langri ræðu, enda skilst mér nú, að það séu aðrir en við stjórnarandstæðingar, sem hafa tafið þingfundi hér í kvöld, þar sem mjög hefur á það skort, að stuðningsmenn stjórnarinnar mættu til þingfunda. Þó að til einhverra þeirra fjarvista kunni að liggja eðlilegar ástæður, þá er nú svo fundum háttað í háðum deildum Alþ., að án nærveru okkar stjórnarandstæðinga væri fundum ekki fram haldið með eðlilegum hætti.

En ástæðan til þess, að ég stend hér upp, er fyrst og fremst sú að undirstrika þá yfirlýsingu hæstv. viðskrh., að fáist sá embættismaður, sem gegnt hefur hlutverki oddamanns í verðgæzlunefndinni, ekki til áframhaldandi starfa, þá muni annar embættismaður úr rn. verða til þess skyldur. Þetta er mjög mikilvægt atriði, ekki sízt á þeim umrótstímum, sem nú eiga sér stað og munu sennilega í enn ríkari mæli eiga sér stað á næstu vikum og mánuðum. Vegna þeirra kjarasamninga, sem gerðir hafa verið að undanförnu, mun, ef að líkum lætur, ásókn þeirra aðila, sem hafa með sölu á vörum og þjónustu við almenning að gera, aukast í að fá að velta af sér þeim byrðum, sem kjarasamningar kunna að hafa á þá sett. Enda gaf ráðh. til þess tilefni í þessum fáu orðum, sem hann hafði við framsögu í málinu, að ætla, að til þess kynni að koma, og það er nokkuð augljóst, að undan þessu verður ekki vikizt í einstökum tilfellum, eins og hann sagði. Þess vegna langar mig til að spyrja, ef hægt er að svara því í örstuttu máli, í fyrsta lagi: Hvaða tilfelli telur hæstv. ráðh., að helzt muni koma þar til greina, þannig að ekki komi til þess, að fyrirtæki stöðvist og menn fái hóflega álagningu á sína vöru eða þá þjónustu, sem viðkomandi fyrirtæki veitir? Hvaða greinar eru það helzt, sem þar koma til greina? Í öðru lagi er í hinum margnefnda stjórnarsáttmála lofað allsherjarendurskipulagningu á verðgæzlumálunum, og í því sambandi vildi ég spyrja: Er sú endurskoðun hafin, og hvenær eru líkur á því, að niðurstöður þeirrar endurskipulagningar sjái dagsins ljós?