18.11.1971
Sameinað þing: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í D-deild Alþingistíðinda. (4217)

54. mál, landhelgi og verndun fiskistofna

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar landhelgistillaga hæstv. ríkisstj. var til umr. 9. nóv., þá ræddi ég og gerði grein fyrir þeirri till., sem flutt er á þskj. 56, um landhelgi og verndun fiskistofna. Ástæðan til þess, að ég gerði grein fyrir þessari till. í umr. um till. hæstv. ríkisstj., var sú, að þessi mál eru svo náskyld og nátengd. Tvö atriði till. á þskj. 56, um mörk fiskveiðilögsögunnar og um mengunarlögsögu, eru beinlínis rædd í till. hæstv. ríkisstj. og hin þrjú atriðin, sem snerta friðun og samstarf við aðrar þjóðir um veiðar á úthöfunum, eru auðvitað hluti þessa stóra máls, fiskveiðimáls Íslendinga.

Í öðru lagi þótti rétt að gera grein fyrir þessari till. í þeim umr., vegna þess að á s.l. vori lágu fyrir tvær till. um landhelgismálið og var það ákveðið þá, að þau vinnubrögð væru hentust, að till. væru ræddar í einu lagi. Og í þriðja lagi hafði ég borið málið undir hæstv. forseta og hafði hans leyfi til þessarar málsmeðferðar. Aðfinning, sem fram hefur komið út af þessu, er því ekki á rökum reist.

Varðandi þessa till. í heild og einstaka liði hennar vil ég því vísa til framsögu minnar fyrir henni 9. nóv., en þó eru nokkur atriði, fá atriði, sem ég tel rétt að gera að umtalsefni nú.

Það kom fram hjá hæstv. sjútvrh.till. þessi um að miða fiskveiðimörkin við landgrunnið, 400 metra jafndýpislínu, væri ótímabær, óheppileg, óframkvæmanleg og hún bryti í bága við yfirlýsta stefnu hæstv. ríkisstj., stefnan væri mótuð, eins og hann komst að orði og málið hefði verið flutt á erlendum vettvangi þannig, að miðað væri við 50 mílur, en ekki við landgrunnið allt eða 400 metra dýpi. Ég tel, að hér kenni alvarlegs misskilnings hjá hæstv. sjútvrh., því að málflutningur í þessu mikilsverða máli hefur einmitt verið, ég vil segja sem betur fer, á þeim grundvelli, að fyrst og fremst hefur verið lögð áherzla á rétt okkar og nauðsyn á því að fá landgrunnið allt. Ég skal nefna hér nokkur dæmi.

Í skýrslu, sem gefin var út á ensku af hæstv. ríkisstj., hafði raunar verið undirbúin áður, en var gefin út af núv. hæstv. ríkisstj. og breytt lítils háttar eftir stjórnarskiptin, — þessi skýrsla er notuð sem upplýsingaskjal fyrir erlendar þjóðir, — og þar segir á bls. 4 í þessu skjali, með leyfi hæstv. forseta, að strandríki ætti sjálft að mega ákveða víðáttu fiskveiðilögsögu sinnar á grundvelli allra mikilvægra sjónarmiða og atriða, sem snertu það land. Varðandi Ísland væru þessi mikilvægu atriði og sjónarmið með þeim hætti, að það félli saman við landgrunnið sjálft, þ.e. sem næst 50—70 mílur frá strönd. Stjórn Íslands hefur tilkynnt, að hún muni gefa út nýjar reglur í samræmi við þetta fyrir 1. sept. 1972. Í þessu skjali er sem sagt lögð áherzlan á landgrunnið, sem nái 50—70 mílur út frá landi. Í þessu sama skjali á bls. 27 er kort, kort af Íslandi og þar eru dregnar umhverfis landið þrjár línur. Í fyrsta lagi 12 mílna fiskveiðilögsagan, sem nú er, í öðru lagi 50 sjómílna lína og í þriðja lagi 400 metra jafndýpislína. Þetta er allt saman sýnt á þessu korti í þessu kynningarskjali hæstv. ríkisstj.

Í annan stað vil ég minnast á ræðu sendiherrans Hans G. Andersens í Genf 6. ágúst s.l. Þar segir hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Landgrunnið er að því er Ísland varðar hin eðlilegu fiskveiðimörk og ríkisstjórn Íslands hefur tilkynnt, að hún muni gefa út nýjar reglur í samræmi við það fyrir 1. sept. 1972.“

Hæstv. utanrrh. flutti ágæta ræðu um þetta mál á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 29. sept. Þar segir hæstv. ráðh.:

„Ríkisstjórn Íslands vinnur nú að útfærslu fiskveiðitakmarka við Ísland, þannig að lögsagan miðist við endimörk landgrunnsins. Þau mörk eru í samræmi við eðli málsins og mundu t.d. á 400 metra dýpi miðast við 50—70 mílur frá ströndum.“

Það er ljóst af þessum dæmum, að hæstv. ríkisstj. hefur í málflutningi sínum ekki síður lagt áherzlu á landgrunnið en 50 mílurnar. Að mínu viti er það einnig mjög hyggilega gert, vegna þess að ég tel, að landgrunnsrökin séu út af fyrir sig sterkari en 50 mílna rökin. Ég sé því ástæðu til þess að þakka hæstv. ríkisstj. fyrir þennan málflutning. En hann sýnir um leið, að það er á misskilningi byggt hjá hæstv. sjútvrh., þegar hann snýst jafnákveðið á móti till. okkar á þskj. 56 og till. hv. 8. landsk. þm., Benedikts Gröndals, um það að miða við 400 metra jafndýpislínu. Hann snýst svo hart á móti því, vegna þess að það sé búið endanlega að móta stefnuna og flytja málið á þeim grundvelli fyrir öðrum þjóðum, að það séu 50 mílur en ekki landgrunnið. Þessi rök hv. þm. fá því ekki staðizt. Það mundi á engan hátt skaða málstað Íslands, þó að till. hæstv. ríkisstj. yrði í meðförum Alþ. breytt á þá lund, að í stað 50 mílna kæmi 400 metra jafndýpislína eða þá einhver önnur mörk, sem byggðu á landgrunnsstefnunni. Þvert á móti. Ég tel, að það mundi bæta málstaðinn.

Það er komið í ljós, að mikill áhugi er hjá mörgum útvegsmönnum og sjómönnum fyrir því, að mörkin verði ákveðin landgrunnið, 400 metra dýpi í stað 50 mílna. Sérstaklega hefur þessa að sjálfsögðu orðið vart hjá þeim héruðum, sem hafa hér mikilla hagsmuna að gæta. Og það er náttúrlega fyrst og fremst fyrir Vesturlandi og Vestfjörðum. Á aðalfundi Útvegsmannafélags Snæfellsness, sem haldinn var í Ólafsvík 30. okt. s.l., var samþ. áskorun um það, að við útfærslu landhelginnar verði markalínan hvergi nær landi en 400 metra dýptarlína landgrunnsins. Það er lögð á það áherzla, að mjög auðug fiskimið séu rétt utan við 50 mílurnar fyrir Vesturlandi. Frá Vestfjörðum hafa borizt áskoranir. Þannig hefur t.d. Fjórðungssamband Vestfirðinga gert ályktun um þetta efni, þar sem skorað er á stjórn og þing að tryggja óskoraðan yfirráðarétt Íslendinga yfir öllu landgrunninu allt að 400 metra dýpi, en þó hvergi nær landi en 50 mílur. Það er einnig bent á, að hér séu þýðingarmikil fiskimið fyrir sunnanverðum Vestfjörðum, út af Húnaflóa, Breiðafirði og Faxaflóa, sem mundu verða utan landhelginnar miðað við 50 mílur. Bæjarstjórn Ísafjarðar hefur einnig samþ. einróma ályktun í sömu átt. Útvegsmannafélag Vestfjarða hefur svo nú alveg nýlega gert samþykkt, þar sem það leggur ríka áherzlu á, að fiskveiðilandhelgin verði miðuð við yztu mörk landgrunnsins eða 400 metra jafndýpislínu, þó hvergi nær landi en 50 mílur. Útvegsmannafélag Vestfjarða bendir á þá stórkostlegu hættu, sem felst í því að láta nokkurn hluta af landgrunninu verða áfram utan fiskveiðilandhelginnar. Sérstaklega er bent á, að verulegur hluti af yztu brún landgrunnsins út af Vestfjörðum verði þannig utan markanna, en þar eru ein beztu fiskimið í Norður-Atlantshafi, sem er landgrunnsbrúnin, sem snýr að hafdýpinu milli Íslands og Grænlands og þar með hluti af hinum víðfrægu Halamiðum. Félagið lætur í ljós sérstakan ótta vegna þess, að þegar landhelgin sé færð út, ef hún verður færð út í 50 mílur, muni þau fiskiskip, sem verða að fara af öðrum miðum, sem lenda innan 50 mílna, sækja fyrst og fremst á þessi ágætu mið, sem eru á landgrunninu, en yrðu utan 50 mílna.

Þegar athugað er nú, að hér liggja fyrir áskoranir frá útvegsmönnum og sjómönnum, sem auðvitað þekkja af eigin raun þessi mál til hlítar og þeir skora svo ákveðið á Alþ. og ríkisstj. að miða við 400 metra dýptarlínu, þá er dálítið einkennilegt að heyra það af munni hæstv. sjútvrh., að þetta sé óframkvæmanlegt, hann sé ósköp hræddur um, að það séu meira en litlar flækjur, sem af þessu mundi leiða. Það yrði mjög erfitt fyrir alla, sem hlut eiga að máli, svo að tekin séu upp nokkur orð, sem hæstv. ráðh. hafði í þeim ræðum, sem hann flutti hér 9. nóv. Ég verð að segja, að ég legg nú meira upp úr áliti þessara reyndu útvegs– og fiskimanna. Ég hef sjálfur átt tal við nokkra skipstjóra og einnig skipherra af varðskipum og þeir hafa sagt mér og ég held, að það sé undantekningarlaust, að þeir teldu ekki erfiðara að setja sig út á kort eftir 400 metra dýptarlínu en 50 sjómílna landhelgislínu.

Hins vegar er sjálfsagt að hafa það í huga, að við útfærslu landhelginnar úr 12 mílum, hvort sem það er út á landgrunnsbrún eða í 50 mílur, þá skapast vissir erfiðleikar, sem ekki eru fyrir hendi nú varðandi staðsetningu fiskiskipa. Og þeir erfiðleikar stafa kannske fyrst og fremst af því, að nú munu íslenzk og erlend fiskiskip yfirleitt nota radar til að ákveða stað skipsins, en við útfærslu landhelginnar í annaðhvort þessara marka, sem hér hefur verið rætt um, er talið, að radartæki skipanna verði að mestu gagnslaus til staðarákvörðunar. Það þýðir, að nota verður aðrar aðferðir, og kunnugir menn telja, að það sé radíómiðun, sem komi þar í staðinn, en bæði á vegum vitamálastjórnar og flugmálastjórnar eru starfræktir margir radíóvitar. Í öðru lagi mundu dýptarlínur sjókortanna koma hér til greina. Þá gætu lóran miðanir hjálpað eitthvað, en margt fleira er vafalaust til athugunar, sem þarf nánari skoðunar við, eins og bæði svokallaðir Consul—radíóvitar, Omega—ákvörðunarkerfi, Decca ákvörðunarkerfi, sem mikið er notað í Norðursjó og síðast en ekki sízt gervihnettir, því að kunnugir menn telja, að staðarákvörðun með aðstoð gervihnatta geti verið mjög nákvæm, en tækin hins vegar mjög dýr. En þetta allt saman þarf auðvitað athugunar við og skoðunar. Það hefur ekki legið fyrir hjá hæstv. sjútvrh., hverjar ráðstafanir hann hefur gert til þess að bæta úr þeim erfiðleikum, sem skapast við það varðandi staðarákvörðun skipa að færa úr 12 út í 50 mílur, sem hefur, eins og ég gat um, þær afleiðingar, að radar tækin, sem nú eru aðallega notuð við þessa staðarákvörðun, verða meira og minna ónothæf. Ég tel hins vegar, að þessir erfiðleikar séu allir yfirstíganlegir og í rauninni geti fiskiskip og varðskip kannske án nýrra tækja eða aðferða ákveðið hvort sem er 400 metra dýpið eða 50 mílurnar. En þetta verður erfiðara í framkvæmd en nú er og þarf vissulega nákvæmrar skoðunar við.

Í sambandi við þetta er nauðsynlegt að minnast á það, að ástand sjómælinga hér við Ísland er ekki nógu gott, því fer fjarri. Það var á s.l. vori, ætla ég, á ráðstefnu Verkfræðingafélags Íslands, að forstjóri Sjómælinga flutti erindi, þar sem hann taldi, að eitt af brýnustu verkefnum í náinni framtíð væri gagnger nýmæling á öllu landgrunninu og það er enginn vafi á því, að það þarf að sinna sjómælingunum miklu betur en verið hefur nú um mjög langan aldur. En þrátt fyrir það, þó að brýn nauðsyn sé á auknum sjómælingum, þá má ekki láta ástand þessara mála hræða okkur frá því að gera þær aðgerðir í landhelgismálinu, sem nauðsynlegar eru, því að þessir erfiðleikar eru allir yfirstíganlegir.

Þá var það eitt atriði enn, sem hæstv. sjútvrh. lagði töluvert mikið upp úr og það var það, að landhelgin eða landhelgisbeltið yrði að hafa sömu breidd umhverfis allt landið og taldi, að það væri óheppilegt að víkja þar frá. Nú er það þannig, að þetta er ekkert lögmál, sem þarf að gilda alltaf og alls staðar. Það er þannig í dag, að landhelgin er mismunandi breið í ýmsum samböndum og miðast stundum varðandi veiðar við annað en landhelgislínu. Varðandi humarveiðar t.d. er landhelgi miðuð við dýpi. Humarveiðar eru bannaðar grynnra en 120 metra. Varðandi togveiðar í lögum, sem eru víst frá 1968, um heimild til togveiða innan 12 mílna, þá eru mismunandi belti. Sums staðar er heimilt að veiða inn að 3 mílum, sums staðar, t.d. fyrir Austurlandi, inn að 4 mílum, fyrir Norðurlandi 6 og 8. Sem sagt, í ýmsum samböndum er landhelgisbeltið mismunandi breitt. Þessi viðbára, að með 400 metra dýptarlínuna yrði landhelgin misjafnlega breið, fær ekki staðizt og styðst ekki við nein gild rök.

Þá var það loks eitt atriði, sem ég vildi nefna og það er atriði, sem mér kom í rauninni ákaflega á óvart í ræðu hæstv. sjútvrh. Varðandi 400 metra dýptarlínuna taldi hann, að eitt af aðalverkefnum hafréttarráðstefnunnar, sem fram undan er, sé einmitt að setja alþjóðareglur um þetta atriði, þ.e. hvort landgrunnið skuli ná 200 metra út eða lengra og síðan sagði hæstv. ráðh.: „Það er fráleitt að leggja til á þessu stigi málsins, að við ákveðum ytri mörk okkar landgrunns.“ Síðar kom það fram hjá honum, að takist samkomulag á hafréttarráðstefnunni um ákvörðun landgrunnsmarka, sem ná lengra út, þá höfum við opinn rétt til frekari útfærslu síðar. Hér kemur fram skilningur, sem ég vil alveg eindregið mótmæla. Ég hef ætíð verið þeirrar skoðunar, að við ættum sjálf að ákveða ytri mörk okkar landgrunns, hvort sem við gerum það með reglugerð eða lögum. Helzt ætti að gera það með lögum. Og það var tilgangurinn með þeirri þál., sem fyrrv. hæstv. ríkisstj. flutti á s.l. þingi og samþ. var í aprílmánuði. Það var kosin nefnd manna, sem hæstv. sjútvrh. er nú formaður fyrir og hefur sú nefnd því miður víst lítið starfað enn, en hún átti að undirbúa löggjöf, þar sem ákveðin væru með lögum ytri mörk landgrunnsins.

Ég vil alveg eindregið undirstrika það, að hvað sem líður mismunandi sjónarmiðum í landhelgismálinu, þá er það alveg eindregin skoðun mín og ég vænti þess, að sem allra flestir séu þar sammála, að landgrunnsmörkin hin ytri eigi að ákveðast af okkur einhliða. Í rauninni mæla flest rök með því. Ég held, að það verði ákaflega örðugt og í rauninni ekki skynsamlegt að setja alþjóðlegar reglur um, hversu langt landgrunnið nái út, hvort sem það eru 200, 400, 800, 1.000 metrar eða miðað við eitthvað annað, vegna þess að staðhættir eru svo ákaflega ólíkir við hinar ýmsu strendur. Og annað líka. Sú hagnýting, sem kemur til greina, er svo ákaflega ólík. Að því er landgrunnið snertir eru hagsmunir sumra landa fólgnir í olíuleit eða í leit annarra verðmæta á landgrunninu. Varðandi okkur Íslendinga og fleiri þjóðir eru hagsmunirnir fólgnir í fiskimiðunum. Hjá okkur nær landgrunnið miklu lengra út en t.d. við Suður—Ameríku hjá þeim ríkjum, sem hafa ákveðið 200 mílna landhelgi. Ég tel, að vegna mjög svo mismunandi staðhátta og meðal annars vegna mjög mismunandi hagnýtingar þjóðanna sé ekki æskilegt, að alþjóðaráðstefna setji bindandi reglur um landgrunnið. Ég tel einmitt, að þetta eigum við að gera sem allra fyrst og kemur því mjög á óvart þessi yfirlýsing hæstv. ráðh., að varðandi þetta mikilvæga mál eigum við í rauninni að bíða eftir og byggja á ályktun eða samþykkt, sem kunni að verða gerð á hafréttarráðstefnunni. En það voru alveg skýr rök hans hér um daginn, að vegna þessa m.a. ættum við ekki að ákveða okkar mörk á landgrunninu.

Ég vil svo taka það fram út af því, hvort 400 metra dýptarlínan sé eitthvert framtíðarmark, að það er hún vitanlega alls ekkí. Það er skýrt tekið fram í grg., að sú nefnd, sem hæstv. sjútvrh. er formaður fyrir, eigi að kanna það mál nákvæmlega og gera till. um það og í till. okkar er gert ráð fyrir, að nefndin skili áliti, áður en þessu þingi lýkur, einmitt um það, hver eigi að verða til nokkurrar frambúðar hin ytri mörk landgrunnsins, en þangað til skuli ákveðin 400 metra dýptarlína. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé æskilegt, jafnvel nauðsynlegt fyrir okkur, áður en langt um líður, að hafa mörkin hærri eða dýpri, hvort sem við viljum kalla það, t.d. hvort það væri 600, 800, 1.000 metra eða önnur mörk. En það hefur skýrt komið fram í grg. þessarar till., að þessi er ætlunin. En þeim mun undarlegri er þessi afstaða hæstv. sjútvrh., að hin ytri mörk landgrunnsins getum við ekki ákveðið einhliða, heldur eigum að bíða eftir alþjóðasamþykkt hafréttarráðstefnunnar, þar sem hann sýknt og heilagt hamrar þó á því, að landhelgismálið sé hreint innanríkismál. Hann er margsinnis búinn að lýsa því yfir, að það sé hreint innanríkismál. Að vísu hef ég nú skilið þessar yfirlýsingar hæstv. sjútvrh. þannig, að þær væru fyrst og fremst „diplómatísk“ orðsending til hæstv. utanrrh. um, að honum komi málið ekkert við, því að hvað er utanrrh. að skipta sér af innanríkismálum, sem heyra undir hæstv. sjútvrh.?

Ég vil leggja til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. utanrmn.