18.11.1971
Sameinað þing: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í D-deild Alþingistíðinda. (4220)

54. mál, landhelgi og verndun fiskistofna

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil nú spyrjast fyrir um það, hvort það séu eiginlega engar vonir til þess, að hæstv. sjútvrh. mæti hér við þessa umr. (Forseti: Ég vil upplýsa, að hæstv. sjútvrh. hafði forföll og boðaði fjarvistir með löglegum ástæðum að mínum dómi. Ég gerði ráðstafanir til þess, að hann yrði látinn vita, að þetta mál yrði tekið fyrir hér í kvöld, og það er fullvíst, að hann kemur, ef hann hefur nokkur minnstu tök á því, en hv. flm. ráða því, hvort haldið verður áfram með þetta mál, þótt ráðh. komi ekki. Ef þeir óska eftir því, að þetta mál verði tekið út af dagskrá og því verði frestað, vegna þess að ráðh. kemur ekki, mega þeir gera það, en það er borin von, að hægt verði að ljúka umr. fyrir jól, nema hún fari fram núna.) Ég segi nú fyrir mitt leyti, að ég tel, að þessi umr. megi eiginlega ekki dragast öllu lengur. Þó finnst mér, að það vanti mjög mikið, þegar sjálfan sjútvrh. vantar hér við umr., þó sérstaklega vegna þess, að málið var tekið út af dagskrá, af því að hann þurfti að fara út úr deildinni, en núna glaðnar mjög yfir mér, að hann skuli vera kominn, því að ég ætlaði ekki að láta hjá líða að tala hér, þó að hann hefði ekki komið, en það gleður mig alveg ósegjanlega að sjá hæstv. ráðh. mættan.

Hæstv. forsrh. sagði, þegar hann fylgdi úr hlaði till. til þál. um landhelgismálið, sem ríkisstj. flytur, að landhelgismálið væri mál málanna. Ég hygg, að allir þm. geti verið hæstv. forsrh. sammála um það, að landhelgismálið sé mál málanna, langstærsta málið, sem um verður fjallað á Alþ. á þessum vetri, og jafnvel stærsta málið, sem um verður fjallað í fjöldamörg ár. Tvær till. hafa verið lagðar fram í landhelgismálinu, fyrri till. er frá ríkisstj., sem var útbýtt hér í Sþ. 18. okt. og vísað til utanrmn. 9. nóv. Síðari till., um landhelgi og verndun fiskistofna, sem flutt er af 10 þm. Sjálfstfl., var útbýtt 1. nóv. og hefur hún verið á dagskrá hér í Sþ. á sjö fundum. Umræða um þessa þáltill. hófst 18. nóv. og var þá ekki lokið. Fyrsti flm. málsins, hv. 5. þm. Reykv., flutti þá framsöguræðu fyrir till., en að þeirri framsöguræðu lokinni kvaddi sér hljóðs hæstv. forsrh. og síðan hæstv. sjútvrh., en að hans ósk var: mjög takmarkaður tími, sem gat farið í þessar umr., vegna þess að hann var að sinna störfum sínum sem ráðh. og þurfti að fara úr þingsalnum, og þá var málið því tekið af dagskrá. Ég kvaddi mér hljóðs í þessu máli, þegar hv. 1. flm. málsins hafði nýhafið sína ræðu og ég hafði ætlað mér að vera mjög stuttorður og bjóst sannast að segja við því, að umræðum gæti lokið þennan dag, en mér er það ljóst, að ráðh. geta beðið um orðið og talað um leið og þeir biðja um orðið, en við þm. verðum að bíða. Það hefur verið mjög algengt, að ráðh. hafi talað í málum og það jafnvel mjög oft í sama máli, en hitt er aftur sjaldgæfara, þegar ráðherrar eða ráðherra markar mjög takmarkaðan tíma til umr. í máli, að þá skuli þeir mala allan ræðutímann, sem þeir ákvarða. Ég hefði nú talið líka, að það hefði nægt, að annar hvor ráðh., og þá alveg sérstaklega hæstv. forsrh., hefði rætt þetta mál einn, að þeir hefðu ekki þurft að taka allan tímann. Hitt er aftur algengara, að stjórnarandstaða á hverjum tíma sé svona heldur málgefnari en ríkisstj., en nú er þessu öðruvísi farið. Nítján dagar eru nú liðnir frá því, að málið var til umr. hér og í sjálfu sér hefði ekkert verið við því að segja, að frummælandi máls og ráðh. hefðu talað, ef ræður hefðu verið fluttar hér í þingi og lent hér á segulbandsspólu, en hitt skiptir töluverðu máli í meðferð máls, að fjölmiðlar segja frá ræðum manna og þar koma flm. máls engum vörnum við, þegar hallað er máli eða farið með staðlausa stafi, eins og hæstv. sjútvrh. gerði í ræðu sinni undir meðferð þessa máls, sem ég mun síðar koma að.

Ég vil því ekki láta hjá líða að segja, að mér finnst málsmeðferðinni í þessu stærsta máli þingsins vera mjög ábótavant. Mér finnst líka, að það muni ekki vekja traust út á við á Alþ. í meðferð þessa stóra máls að hafa þennan hátt á og mér finnst líka vera mjög til athugunar, sérstaklega fyrir þá þm., sem láta sig mestu varða bætta starfshætti Alþ., að reyna að breyta mjög um vinnubrögð. Við vitum það, að það hefur verið margt að í sambandi við vinnubrögð í þingmálum á liðnum árum. en mér finnst ekki hafa batnað það sem af er þessa þings. Ég vona, að það eigi eftir að batna það sem eftir er af þinginu og ég held, að það megi segja, að skipulagsleysi ríki í sambandi við meðferð mála og mjög handahófsleg vinnubrögð í þessari 1.040 ára gömlu virðulegu stofnun. Ég vil líka leyfa mér að benda á, að það hefði verið mjög í lófa lagið að ná fullu samkomulagi á milli flm. þessara tveggja till. um landhelgismálið, ríkisstj. annars vegar og flm. úr Sjálfstfl. hins vegar, um þessa till., um það, að umr. um þessar tvær till. færu saman. Það hefði orðið mjög mikill tímasparnaður að því og svo jafnframt það, að það hefði fyrir löngu síðan verið hægt að afgreiða landhelgismálið með nokkurri reisn hér frá hv. Alþ. Ég segi þetta til þess að benda á það, að slík vinnubrögð ættu að vera höfð, þegar um lík mál er að ræða, til þess að spara tíma og hafa hagræði í vinnubrögðum þingsins.

Á síðasta þingi voru fluttar tvær till. í landhelgismálinu. Það hafði gerzt, að fulltrúar flokkanna höfðu rætt landhelgismálið sín á milli. Það varð að lokum ekki samkomulag á milli stjórnarflokka og stjórnarandstöðu um flutning málsins, heldur fluttu báðir aðilar sína till. hvor til þál. um landhelgismál, og það fór á þann veg, að till. þáv. stjórnarflokka, Sjálfstfl. og Alþfl., var samþykkt gegn atkvæðum þáv. stjórnarandstæðinga, sem nú skipa hæstv. ríkisstj. Ég hygg, að allir geti verið sammála um það, að það var leitt til þess að vita, að flokkarnir gátu ekki náð samkomulagi um eina till. í landhelgismálinu, en sú varð nú raunin, að stjórnarandstæðingar töldu, að till. þáv. stjórnarflokka gengi ekki nógu langt og sérstaklega höfðu þeir á móti því orðalagi till. stjórnarflokkanna, að ekki var ákveðið, á hvaða degi útfærsla landhelginnar átti að eiga sér stað, en þeir vildu, að það yrði 1. sept. 1972.

Till. þáv. stjórnarflokka var með þeim hætti, að þeir lögðu til, að frv. yrði samið og lagt fyrir næsta Alþ., frv., sem m.a. ætti að fela í sér skilgreiningu á landgrunni Íslands miðað við sem næst 400 metra jafndýpislínu, möguleg hagnýtingarmörk eða 50 mílur eða meira frá grunnlínum umhverfis landið, eftir því sem frekari rannsóknir segðu til um, að hagstæðast þætti. Stjórnarflokkarnir, sem að þessari till. stóðu, töldu nægilegt að semja frv. fyrir næsta þing, það þing, sem hófst nú á síðastliðnu hausti og lögfesta þar skilgreiningu á landgrunni Íslands og miða það sem næst við 400 metra jafndýpislínu, en þó aldrei minna en 50 sjómílur frá grunnlínum umhverfis landið. Það var einnig ætlun þeirra, að í frv. væri þá jafnframt ákveðið, hvenær útfærsludagur landhelginnar yrði ákveðinn.

Nú fór það svo, að þetta mál bar mjög á góma í kosningabaráttunni og hv. stjórnarandstæðingar, núv. stjórnarsinnar, lögðu þá á það mikla áherzlu, að flokkarnir, sem stóðu að síðustu ríkisstj., væru óákveðnir í landhelgismálinu. Það er rétt að einu leyti og féll afar vel hjá þeim, sem höfðu mjög mikinn áhuga á útfærslu landhelginnar. Þeim fannst, að till. stjórnarandstæðinga væru ákveðnari með útfærsludaginn og vildu hafa hann ákveðinn fyrir kosningar og á því var klifað. En hins vegar töluðu þáv. stjórnarandstæðingar minna um það, að stjórnarflokkarnir vildu færa landhelgina meira út og taka tillit til sérstöðu ákveðinna landshluta og lögðu þá til grundvallar þá þekkingu og reynslu, sem fyrri aðgerðir höfðu haft í för með sér við útfærslu landhelginnar í sambandi við fiskimið í ákveðnum landshlutum. Á þetta var e.t.v. minna hlustað.

Hæstv. forsrh. sagði, þegar hann fylgdi till. ríkisstj. núna úr hlaði, að þeir þrír flokkar, sem standa að núv. ríkisstj., hafi gengið til alþingiskosninganna s.l.. vor með sameiginlega stefnuyfirlýsingu í landhelgismálinu eða samhljóða þeirri till., sem hér liggur fyrir, og till., sem rædd var og hefur þegar verið vísað til utanrmn. Forsrh. sagði einnig:

„Þeir lögðu ríka áherzlu á það í kosningabaráttunni, að landhelgismálið væri mál málanna og kjósendur ættu framar öllu öðru að marka skýra afstöðu til þess við kjörborðið.“

Úrslit kosninganna urðu þau, eins og kunnugt er, að þessir flokkar hlutu sameiginlega starfhæfan meiri hl. á Alþ. og mynduðu síðan núv. ríkisstj. Ég vil aðeins út af þessum ummælum hæstv. forsrh., að þessir þrír flokkar hafi í raun og veru sigrað í landhelgismálinu, minna hann á það, að þessir þrír flokkar, sem nú standa að ríkisstj., komu nú ólíkt út úr síðustu kosningum. Flokkur forsrh., Framsfl., fékk 1967 27 029 atkv. af 96 090 atkv. eða 28.1 %. Svo kemur nú aftur það nýrra. En af 105 395 atkv. fékk flokkur forsrh. nú aðeins 26 645 atkv. eða 25.3%. Mér finnst nú ekki, að Framsfl. hafi grætt mikið á landhelgismálinu, þegar við lítum á úrslit kosninganna, þrátt fyrir það að hann lagði höfuðáherzluna á landhelgismálið í kosningabaráttunni og í kynningu flokksins í sjónvarpinu sendi hann fram sína frægustu sérfræðinga á sviði landbúnaðar, sem minntust ekki á nokkurt mál annað en landhelgismálið. Og þetta var nú árangurinn þar. Alþb. fékk 1967 17.6%, en 1971 fékk það 17.l%, svo að ekki virtist það hafa unnið stórlega á landhelgismálinu, en sá flokkur gerði landhelgismálið næst á eftir Framsfl. mest að umræðuefni í kosningabaráttunni. Hins vegar varð sigurvegari þessarra kosninga Samtök frjálslyndra og vinstri manna, sem fengu 8.9% atkv.

Ég skal ekkert fullyrða um það, hvort þessi eini flokkur af þeim, sem nú mynda hæstv. ríkisstj., hafi unnið þetta fylgi á landhelgismálinu einu, þegar hinir tveir samstarfsflokkar hans töpuðu í sömu kosningum. Ég læt forsrh. um það að skýra þetta fyrirbrigði nánar.

Mér finnst mjög eðlilegt, að núv. hæstv. ríkisstj. vilji marka stefnu sína í landhelgismálinu. Og þá var þar fyrst og fremst um að ræða, að hún vildi staðfesta útfærslu landhelginnar, ákveðinn útfærsludag. Hitt finnst mér öllu leiðinlegra og sorglegra, hvers vegna hæstv. ríkisstj. reyndi ekki að ná samkomulagi um flutning einnar till. nú eftir kosningar eða í byrjun þessa þings. Hæstv. forsrh. sagði, að það hefði óneitanlega verið skemmtilegra að sameinast um eina ályktun. En hvað var gert til þess? Jú, það var tilkynnt þremur dögum fyrir þingsetningu, að stjórnarflokkarnir ætluðu að flytja till. til þál. alveg orðrétta frá því, sem þeir höfðu flutt um vorið. Ég tel, að út á við hefði það verið sterkara að flytja eina sameiginlega till. í þessu stórmáli, af því að í raun og veru er tiltölulega lítill ágreiningur um þetta mál.

Þá ætla ég að koma nokkrum orðum að því , sem hæstv. sjútvrh. sagði í ræðunni fyrir 19 dögum. Þá sagði hann, að með till. sjálfstæðismanna, sem hér liggur fyrir til umr., væri nú fyrst verið að tæpa á því að breyta í raun og veru stefnunni, að fiskveiðilögsaga Íslands nái yfir allt landgrunnið umhverfis landið og ytri mörk landgrunnsins skuli vera 400 metra jafndýpislína, þangað til mörk þess verði ákveðin með lögum, en þó hvergi nær landi en 50 sjómílur frá grunnlínum. Þetta var svo endurtekið í fjölmiðlum um kvöldið, þessar staðhæfingar hæstv. sjútvrh. En hann veit miklu betur. Hann veit það, að í þeirri till., sem lögð var fram hér á Alþ. á s.l. vori, kemur það greinilega í ljós, að stjórnarflokkarnir, sem þá voru, leggja til, að kosin verði fimm manna nefnd, einn frá hverjum þingflokki, til þess að semja frv. til l. um rétt Íslendinga til landgrunnsins og hagnýtingar auðæfa þess. Og þar segir, að í því frv., sem leggja skuli fyrir næsta Alþ. eða það þing, sem sett var á s.l. hausti, skuli felast þau atriði að skilgreina landgrunn Íslands miðað við sem næst 400 metra jafndýpislínu, möguleg hagnýtingarmörk eða 50 mílur eða meira frá grunnlínum umhverfis landið, eftir því sem frekari rannsóknir segja til um, að hagstæðast þyki.

Í aths. með þessari þáltill. segir enn fremur:

„Þar sem efnahagsleg afkoma íslenzku þjóðarinnar byggist fyrst og fremst á fiskveiðum á Íslandsmiðum og yfirvofandi er, að sívaxandi sóknarmáttur og veiðitækni erlendra þjóða stofni þessum lífshagsmunum þjóðarinnar í hættu, er höfuðnauðsyn, að framkvæmd landgrunnslaganna frá 1948 sé jafnan þannig hagað, að markvisst verði haldið áfram að vinna að nauðsynlegum ráðstöfunum til þess að tryggja óskertan rétt Íslendinga á landgrunnssvæðinu. Með þeim hætti yrði fiskveiðilandhelgin 50 mílur eða meira, en kynni þó að vera mismunandi breið eftir því, hvort við dýptarlínur eða fjarlægð frá grunnlínum yrði endanlega miðað.“

Þetta tel ég vera töluvert annað en hæstv. sjútvrh. sagði í sinni ræðu og var svo síðar skýrt frá í fjölmiðlum. Það er ekki ný stefna Sjálfstfl. að marka útfærslu landhelginnar við 400 metra jafndýpislínu, en þó hvergi nær en 50 sjómílur frá grunnlínum. Þessi till„ sem hér liggur fyrir, er staðfesting á þeirri stefnu. Ég vil segja fyrir mitt leyti, að ég álasa ekkert hæstv. ríkisstj. fyrir það, þó að hún flytji málið að nýju og nýja stefnumörkun í málinu, ákveðnari, eftir því sem þeir telja. En hitt hefði ég talið, að sú ályktun, sem ég var að minnast hér á áðan, væri enn þá í gildi sem ályktun Alþ. Þess vegna átti hæstv. ríkisstj. að láta semja frv. til l. og leggja fyrir Alþ., eins og þessi till. gerir ráð fyrir. Í það frv. gat hæstv. ríkisstj. tekið sínar afdráttarlausu skoðanir um útfærslu landhelginnar eigi síðar en 1. sept. 1972 og annað það, sem hún vildi koma fram og var henni að skapi. Og við því er ekkert að segja og ekkert nema sjálfsagður hlutur.

Þá fannst mér hæstv. sjútvrh. tala einnig mjög óvarlega, þegar hann minntist á karfamiðin. Hann sagði í ræðu sinni:

„Ég hef margsinnis bent á það, að auðvitað er það svo, að þó að við miðuðum okkar landhelgismörk við 50 mílur, eins og ríkisstj. leggur til, eða þó að við miðuðum landhelgismörkin við 400 metra jafndýpislínu, þá yrðu í báðum tilvikum allmikil fiskimið eftir fyrir utan þessi mörk.“ Svo bætti hann við: „Það leikur enginn vafi á því, að mjög mikið, að ég segi ekki meiri hluti af okkar karfamiðum við landið er fyrir utan 400 metra jafndýpislínuna, því að megnið af karfanum hefur verið veitt á dýpi, sem er á milli 400 og 600 metrar eða 200—300 faðmar.“

Ég hélt, að hæstv. sjútvrh., sem er mjög vel kunnugur í sjávarútvegi, vissi það, að verði útfærsla íslenzku landhelginnar bundin við 50 sjómílur, mundu karfamið íslenzku togaranna lenda utan landhelgi. Aðalkarfamið togaranna eru frá Jökultungu og norður fyrir Víkurál. Á þessu svæði fást um 80% af karfanum utan 50 mílna, en sáralítið veiðist utan 400 metra dýptarlínu. Á tímabilinu frá miðjum maí og fram í okt. eru þessi karfamið aðalveiðislóðir togaranna íslenzku. Erlendar þjóðir, sem við Ísland veiða, sækjast lítið eftir karfa nema Þjóðverjar, en þeir halda sig yfirleitt sunnar á karfaslóðinni en þeir íslenzku. Karfaafli síðasta árs nam 24.809 tonnum og 1969 nam karfaaflinn 28.521 tonni. Heildarútflutningsverðmæti karfaaflans hefur numið þessi tvö s.l. ár 622.7 millj. kr. Ég tel, að þetta sé töluvert annað en hæstv. sjútvrh. hélt fram í sinni ræðu.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði frá því hér í sinni framsöguræðu fyrir þessari till., að komið hefðu fram áskoranir frá útvegsmönnum og sveitarfélögum á Vestfjörðum og víðar um það að miða útfærslu landhelginnar við 400 metra jafndýpislínu og þó hvergi nær en 50 sjómílur. Þessar áskoranir hafa komið fram m.a. frá Útvegsmannafélagi Snæfellsness, frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, frá bæjarstjórn Ísafjarðar og frá Útvegsmannafélagi Vestfjarða. Þessar samþykktir eru ekki gerðar í þeim tilgangi að skapa úlfúð í þessu máli. Þær eru gerðar fyrst og fremst vegna þess, að þessir staðir og þetta fólk, sem stendur að þessum samþykktum, veit, að það er mikið í húfi að miða ekki við 50 sjómílurnar, heldur við 400 metra jafndýpislínuna.

Ég skal minna á þær aðgerðir, sem gerðar hafa verið í landhelgismálinu. Fyrstu aðgerðirnar í því voru 1946, þegar ráðinn var þjóðréttarfræðingur. Árið 1948 voru sett lög um vísindalega verndun landgrunnsins. Árið 1949 var dansk–brezka samningnum frá 1901 sagt upp, sem takmarkaði fiskveiðilandhelgina við þrjár sjómílur. Árið 1950 var sett reglugerð um fjögurra sjómílna friðunarsvæði fyrir Norðurlandi á grundvelli laga um vísindalega verndun fiskimiðanna og landgrunnsins frá 1948.

Þegar fjögurra mílna landhelgin var sett og flóum hér syðra var lokað, þá glöddust allir Íslendingar yfir þeim áfanga, sem þá var náð í landhelgismálinu. Og það voru engin undanbrögð frá þeirri ánægju og þeirri gleði á Vestfjörðum frekar en annars staðar, þó að Vestfirðingar gerðu sér jafnframt ljóst, að með lokun fjarða og flóa hér syðra var það sjáanlegt, að ágengni erlendra skipa á fiskimið Vestfirðinga mundi aukast að mun, enda kom það fljótt á daginn. Vestfirzkir sjómenn hafa því orðið að þola ærið mikinn ágang erlendra veiðiskipa á sínum fiskimiðum, en fiskimið bátanna á Vestfjörðum eru öll langt utan við fjögurra sjómílna beltið og meira að segja utan við 12 sjómílurnar, þegar að því kom, að landhelgin var færð út 1958 í 12 sjómílur. Mér finnst því, að hæstv. ríkisstj. eigi að hugsa vandlega um, að það er mikið í húfi fyrir þetta svæði allt frá Faxaflóa til og með Húnaflóa að miða við 400 metra jafndýpislínuna, því að þá útilokum við á grunnslóðina enn þá vaxandi ágengni erlendra fiskiskipa. Hvaða skaði mundi ske við það að breyta ályktun í þessu máli í þetta horf? Ég get ekki séð það. Og hvers vegna er hik á mönnum í því efni og úrtölur? Hvers vegna koma úrtölur frá þeim. sem alltaf hafa verið djarfir í landhelgismálinu og ekkert verið hikandi um aðgerðir í því? Mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar úrtölur koma frá þeim hópi eða þeim mönnum.

En það eru fleiri, sem hafa skilið þýðingu þess að breyta að þessu leyti frá þeirri till., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram, en þau samtök og sveitarfélög, sem ég nefndi hér áðan. Heildarsamtök útvegsins mörkuðu á nýafstöðnum aðalfundi mjög skýra stefnu í þessum málum. Það var samþykkt ályktun á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna, þar sem segir:

„Samtökin heita fullum stuðningi við útfærslu fiskveiðilandhelginnar 1. sept. 1972. Fundurinn fagnar því, að þetta mikla mál, sem hefur verið einlægt áhugamál allra útvegsmanna og baráttumál á aðalfundum samtakanna árum saman, er nú komið á þann rekspöl, að þess má vænta, að Íslendingar fái fullan yfirráðarétt yfir öllu verðmæti landgrunnsins og í hafinu yfir því. Jafnframt áréttar fundurinn fyrri ályktanir aðalfundar samtakanna um, að stefnt verði að því, að við Íslendingar öðlumst viðurkenningu annarra þjóða á óvefengjanlegum rétti okkar yfir öllu landgrunninu. Fundurinn telur nauðsynlegt, að í þessum áfanga landhelgismálsins verði tryggður yfirráðaréttur yfir hinum þýðingarmiklu veiðisvæðum á landgrunninu vestur af landinu milli Reykjaness og Hornbjargs, er liggja utan 50 mílna markanna.“

Þessi sameiginlegi fundur allra útgerðarmanna á landinu tekur því ótvírætt undir óskir fólksins, sem býr á þessu svæði. Þessir menn skilja þýðingu þess fyrir þessi svæði að miða við 400 metra jafndýpislínuna. Og ég vil einnig lesa til enda þessa ályktun LÍÚ, en í þeirri ályktun segir að lokum:

„Fundurinn hvetur til algerrar þjóðareiningar um málið, þegar endanleg ákvörðun hefur verið tekin, og hvetur alla aðila til að sneiða hjá hvers konar ummælum og aðgerðum, sem spillt geti því, að þjóðin nái í þessu baráttumáli öllum þeim rétti, sem framast má verða.“

Ég hef leyft mér að gagnrýna nokkuð málsmeðferð ríkisstj. í þessu stærsta máli þjóðarinnar. Ég hélt, að ríkisstj. vildi leggja áherzlu á þjóðareiningu og sýna á þann hátt öðrum þjóðum. að við Íslendingar stöndum saman sem einn maður, þegar sómi lands og þjóðar liggur við. Þessi till. okkar sjálfstæðismanna um landhelgi og verndun fiskistofna fer nú að lokinni þessari umr. til utanrmn. En þrátt fyrir fremur neikvæð viðbrögð hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. vil ég vona, að við berum gæfu til að ákvarða í þeirri ályktun, sem Alþ. markar, að ytri mörk landgrunnsins skuli vera 400 metra jafndýpislína, en þó hvergi nær landi en 50 sjómílur. Og því verður ekki trúað, að þessir tveir hæstv. ráðh., sem hafa talað í þessu máli, haldi við þessa afstöðu, þegar mál þetta kemur til athugunar í utanrmn. og endanlegrar afgreiðslu á hv. Alþ. Hagsmunir sjómanna, útgerðarmanna og raunar allra þeirra, sem búa á Vesturlandi, Vestfjörðum og við Húnaflóa, krefjast þess, að tekið sé tillit til þeirra óska, sem þetta fólk hefur borið fram. Sérstaklega ætti það að vera auðvelt, þegar um er að ræða sanngjarnar og eðlilegar óskir. Aukin ásókn fjölda erlendra veiðiskipa á fiskimið út af þessum landshluta að 50 sjómílum getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir aðalatvinnuveg fólksins, sem býr á þessu landssvæði. Það á að treysta byggð um allt land og skapa sem jafnasta aðstöðu til að lifa góðu lífi. Það á að gera það bæði í orði og verki.

Í till. okkar sjálfstæðismanna segir, að ályktun þessi komi til framkvæmda þann dag, sem ákveðinn verður af yfirstandandi Alþ. Hæstv. sjútvrh. sagði, að enn þá væri óljóst, hvenær við sjálfstæðismenn vildum færa út landhelgina. Það er ekki óljóst, hæstv. sjútvrh., hvenær við sjálfstæðismenn viljum færa út landhelgina. Alþingi það, sem nú situr, verður aldrei nema fram á vor. Ég hef engan heyrt tala um það að færa landhelgina fyrr út. Fyrir vorið yrði markað, ef við mættum ráða, hvenær útfærslan ætti að eiga sér stað. Við munum ekki hafa neitt á móti því og munum standa með hæstv. ríkisstj. í því, að útfærsludagurinn verði ákveðinn eigi síðar en 1. sept. 1972. Við sjálfstæðismenn erum staðráðnir í því að hvika ekki í þessu máli og standa við hlið ríkisstj. og með ríkisstj. í baráttunni við þau öfl, sem berjast gegn útfærslu landhelginnar. En við óskum eftir því og biðjum hæstv. ríkisstj. um að marka sína stefnu á þann veg að hafa alla ánægða í sambandi við afgreiðslu þessa máls, þannig að þjóðin í heild og Alþ. geti með 60 shlj. atkv. markað stefnu í landhelgismálinu og staðið einhuga í þeim aðgerðum, sem fram undan eru, hvort sem þær verða harðar eða ekki.