18.11.1971
Sameinað þing: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í D-deild Alþingistíðinda. (4223)

54. mál, landhelgi og verndun fiskistofna

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það er nú í rauninni ekki þörf á því fyrir mig að tala hér langt mál. Ég tel að þetta mál hafi þegar verið ítarlega rætt hér og í rauninni sé alveg óþarft af hv. þm. Sjálfstfl. að kvarta undan því hér í umr., þó að af hálfu okkar, sem skipum nú meiri hl. á Alþ., hafi þetta mál verið rætt við þá að því marki, sem gert hefur verið. Í rauninni hafa hér farið fram tveir alllangir fundir, sem að mestu leyti eða að mjög verulegu leyti hafa snúizt einmitt um þá till., sem hér er nú til umr., till. þeirra sjálfstæðismanna. En eins og kunnugt er, þegar till. ríkisstj. um landhelgismálið var hér fyrst til umr., þá ræddu fulltrúar sjálfstæðismanna hér fyrst og fremst um þessa till. sína undir þeim dagskrárlið. Ég vakti þá athygli á því, að þá gerðist sá tiltölulega sjaldgæfi atburður hér á Alþ., að 1. flm. þessarar till. flutti hér langa og alveg óumdeilanlega framsöguræðu fyrir þessari till. undir þeim dagskrárlið, þar sem átti að fjalla um till. ríkisstj. Það varð til þess, að ég og hæstv. forsrh., við ræddum hér einnig um þessa till. og síðar urðu hér aftur endurteknar allmiklar umr. um till., þegar hún kom svo aftur á dagskrá síðar. Ég skal ekkert um þetta segja, hvernig tími hefur skipzt á milli aðila í þessum umr., en ekki þætti mér það ólíklegt, að þeir sjálfstæðismenn hefðu talað eins langan tíma og því þyrftu sjálfstæðismenn í rauninni ekkert að kvarta undan því, að þessi till. þeirra hafi ekki verið rædd og það á þann hátt, að þeir hafi fengið a.m.k. fulla aðstöðu til þess að tala hér til jafns við aðra. En eins og ég sagði, ég tel í rauninni ekki þörf á því að fara að endurtaka hér, þó að nokkuð sé umliðið, margt af því , sem ég sagði hér í fyrri ræðum mínum um þetta mál. Ég get dregið hér saman nokkur aðalatriðin og svarað þannig hv. 2. þm. Vestf. um leið.

Ég benti á það hér í umr., að ég teldi, að á þessu stigi málsins væri mjög varhugavert að gera samþykkt hér a Alþ., sem beinlínis gæfi til kynna, að við teldum landgrunnið við Ísland afmarkast við 400 metra dýptarlínu. En það er það, sem kemur fram mjög greinilega í þeirra till. Þetta tel ég fyrir mitt leyti mjög varhugavert og mér finnst ekkert ýta á eftir okkur um það að gefa út slíka tilkynningu. Vel má vera, eins og hér hefur verið vikið að af öðrum ræðumönnum, að samkomulag takist um það á alþjóðavettvangi, að landgrunnsmörkin verði önnur og hagstæðari fyrir okkur og af því tel ég þetta mjög óheppilegt. Þá hef ég í þessum umr. einnig bent á það, að landhelgismörk, sem miðuð séu við dýptarmörk, dýptarlínu, séu alveg óvenjuleg. Mér er ekki kunnugt um það, að nokkurt land í heiminum hafi landhelgislínu, sem þannig sé ákveðin. Og flm. till. hafa ekki verið færir um að benda á eitt einasta slíkt fordæmi. Ég benti einnig á það í þessum efnum, að það yrði í framkvæmd mjög erfitt fyrir alla aðila, sem hlut ættu að máli, að fylgja eftir slíkum landhelgismörkum. Það hefur líka komið í ljós, þegar þeir sjálfstæðismenn hafa þreytt kapp á ýmsum fundum. þar sem voru menn, sem virkilega eru kunnugir þessum málum, að þá hefur enginn fengizt til þess að taka undir þetta í samþykktum.

Hv. 2. þm. Vestf. var að minnast hér nokkuð á landssambandssamþykktina síðustu. Hann hefði kannske átt að segja svolítið frá því, hvernig umr. fóru fram á því þingi um þetta mál og hvernig ofurkapp nokkurra sjálfstæðismanna á þeim fundi varð að lúta þar alveg í lægra haldi í öllum meginatriðum málsins, m.a. í sambandi við þetta megin sjónarmið. Það vita líka allir, sem þekkja nokkuð til þessara mála, að það er nálega óframkvæmanlegt að ætla að átta sig á slíkum landhelgismörkum.

Þá hef ég einnig í þessum umr. bent á, að það er mjög óheppilegt, að ekki sé meira sagt, að ganga út frá því, að fiskveiðilandhelgi við landið sé mjög misbreið, hún sé á sumum stöðum ætluð 50 mílur, öðrum t.d. 70 og enn öðrum enn þá meira. Þetta mundi alveg óhjákvæmilega leiða til ósamstöðu þeirra, sem við þetta eiga að búa. Þegar á þetta er bent, þá taka þeir sjálfstæðismenn þann kostinn, sem er auðvitað beztur fyrir þá, að minnast ekki á þetta. Ég hef líka bent á það í þessum efnum, að eigi að fylgja jafndýpislínunni miðað við 400 metra dýptarlínur, þá mundi þurfa að færa landhelgina fyrir Suðausturlandi út í 97 mílur frá grunnlínum. Þetta heyra þeir sjálfstæðismenn aldrei, þó að á sé minnzt. Þeir vilja ekki vita þetta. Ef ætti því að hafa jafnbreiða landhelgi, sem fullkomlega tæki þarna út yfir yztu mörk, þá þyrfti raunverulega að færa mörkin nú út í 100 sjómílur. Ég hef líka bent á það og vil endurtaka það í tilefni af því, sem hér hefur komið fram, að hver sá, sem vill kynna sér þau kort, sem bezt liggja fyrir varðandi dýptarmælingar hér í kringum landið, mun sannfærast um það, að 50 mílna mörkin eru fyrir utan 400 metra dýptarlínuna lang víðast við landið. Það eru aðeins tiltölulega lítil svæði, sem liggja þarna fyrir utan.

Hv. 2. þm. Vestf„ sem hér talaði fyrir stuttu síðan, lagði mikla áherzlu á það, að færa þyrfti lengra út og fylgja 400 metra dýptarmörkunum vegna svæðisins frá Faxaflóa til Húnaflóa. Hvernig stendur á því, að hv. þm. segir þetta? Getur verið, að hann viti það ekki, að landhelgismörkin mundu ekki breyta meginveiðisvæðunum út af Vestfjörðum neitt, þó að miðað yrði við 400 metra dýptarlínu? Allt meginsvæðið yrði hið sama, alveg suður undir syðsta hlutann af Vestfjörðum. og það þyrfti enga 400 metra dýptarlínu til þess að fara þar utar. Þar nær 200 metra dýptarlínan talsvert út fyrir 50 mílur. Krafan, sem þeir hafa verið að reyna að spinna upp, þegar þeir finna það, að þeir hafa misst fótanna jafn hrapallega og raun er á í þessu máli, hún er ekki vegna Vestfirðinga eða hagsmuna þeirra.

Það er rétt, að til eru nokkur svæði hér út af Faxaflóa og út af Breiðafirði og allra syðst út af Vestfjörðunum, sem liggja fyrir utan 50 mílna mörkin og einnig út af Suð–austurlandi. Hin svæðin eru varla teljandi, svo að þó að miðað væri við 400 metra dýptarlínuna, þá breyttist þetta ekki frá 50 mílna mörkunum nema á örlitlum svæðum.

Ég hafði svo bent á það hér í umr. og það þóttist hv. 2. þm. Vestf. ætla að leiðrétta, að þó að miðað væri við 400 metra dýptarlínu, þá yrðu samt sem áður all þýðingarmikil fiskimið okkar fyrir utan mörkin. Þetta er hárrétt og ég get endurtekið það, því að það er það réttasta, sem ég veit og ég hygg, að ég þekki eins mikið til þessara mála og hann. Ég hef einmitt staðið fyrir því að gera út skip á þessar veiðar árum saman og fylgzt með skýrslum um þetta og væri auðvelt að sýna hv. þm. það, hvernig þessu er varið, að mikill meiri hluti af aðal karfamiðunum við Ísland liggur fyrir utan þetta svæði. Mikill meiri hlutinn af karfa hefur yfirleitt verið veiddur frá 220–230 föðmum og upp í 300 faðma dýpi. Það er alveg rétt, að nú á síðasta ári gerðist það, að togarar fóru að veiða á gamalkunnum karfamiðum hér djúpt út af Faxaflóa, þar sem karfamiðin hafa legið á þessu venjulega dýpi, sem karfinn er veiddur á og þeir veiddu talsvert núna innan við mörkin, innan við þessi mörk; af tiltölulega smáum karfa, en samt sem áður veiddu þeir þar karfa. (MB: Karfi var það.) Já, karfi var það. En hins vegar er það, að aðalkarfamiðin, eins og ég hef sagt, liggja fyrir utan þetta dýpi og hv. þm. getur ekki leiðrétt mig neitt í þessum efnum. Það er mesti misskilningur. Ekki einu sinni þetta getur orðið til þess að bjarga í rökstuðningi þessari vonleysistillögu þeirra sjálfstæðismanna í landhelgismálinu, úr því sem komið er.

Hv. 2. þm. Vestf. taldi, að það hefði í rauninni verið hart, að ég hefði farið hér svo rangt með mál og að skýrt hefði verið frá því í fréttamiðlum á eftir og hann hefði ekki komið vörnum við hérna á þingfundi, af því að hann fékk ekki að vera síðastur að tala. Nú hefur hann komið þessari leiðréttingu við, en hún var nú ekki ýkja merkileg að mínum dómi, þessi leiðrétting.

Hann segir, að ég hafi sagt og það má prýðilega vel rétt vera, að ég hafi komizt þannig að orði, því að ég get ekki séð annað en það sé fullkomlega rétt, að nú vilji þeir sjálfstæðismenn slá því föstu í fyrsta skipti, segir hann, að ég hafi sagt eða eitthvað á þá leið, nú hafi þeir markað þá stefnu, að nú ætti að miða fiskveiðimörkin við 400 metra dýptarlínu og bætti því síðan við, að þetta væri ekki rétt, því að þeir hefðu sagt þetta áður og þetta hefði m.a. komið fram í þeirri þáltill., sem þeir hefðu borið fram á síðasta þingi og þá verið samþ. Við skulum bara lesa, hvað segir í þessum efnum. Í till. núna segir:

„Ytri mörk landgrunnsins skulu vera 400 metra jafndýpislína, þangað til mörk þess verða ákveðin með lögum, en þó hvergi nær landi en 50 sjómílur frá grunnlínum.“

Þarna er því alveg slegið föstu, að það er 400 metra dýptarlína, sem skal ráða alls staðar þar sem hún fer út fyrir 50 mílna mörkin. Það skal miðað við þetta. En sögðu þeir það í till. sinni frá síðasta þingi? Sögðu þeir það þá? Nei, þar sögðu þeir ekkert nema það, sem mátti skilja á alla vegu, ekkert annað. Það var allt svo loðið. (Gripið fram í.) Já, ég er með hana, ég skal lesa hana líka. Hvað sögðu sjálfstæðismenn þá? Þá sögðu þeir þetta, að lagt skyldi fyrir Alþ. frv. um þessi mál og í því frv. skyldi í fyrsta lagi vera skilgreining á landgrunni Íslands miðað við sem næst 400 metra jafndýpislínu, möguleg hagnýtingarmörk, sem eru allt önnur, eða 50 mílur eða meira frá grunnlínum umhverfis landið, eftir því sem frekari rannsóknir segja til um, að hagstæðast þyki. Sögðu þeir þá, að það skyldi miða við 400 metra dýptarlínu? Þeir sögðu: Hana eða, eða, eða, eða . . . eftir rannsóknir. Þetta var það, sem þeir sögðu. Sem sagt, leiðrétting hv. 2. þm. Vestf. á því, sem ég sagði, sem hann var svona alveg eyðilagður yfir, að hann skyldi ekki geta komið fram, þessi leiðrétting hans er nú af þessari sortinni.

Ég læt mér það svo í léttu rúmi liggja og skil auðvitað mæta vel, af hvaða ástæðum slíkar fullyrðingar koma hér fram hjá fulltrúum sjálfstæðismanna, þó að þeir tali um mig og okkur, sem stöndum nú að till. ríkisstj., tali um okkur sem úrtölumenn í landhelgismálinu, menn, sem hiki, þó að það hafi legið skýrt fyrir bæði á síðasta þingi og eins nú, að ágreiningurinn á síðasta þingi á milli okkar og þeirra sjálfstæðismanna var um það, að þá fengust þeir ekki til að segja neitt ákveðið í málinu. Þá var ekki ágreiningur um 50 mílur eða 70 mílur. Þeim var margboðið upp á það að standa t.d. að 70 mílum, en þeir vildu hvorki ganga inn á 70, 50 eða neitt annað. Það er sannleikur málsins. Þeir fengust ekki til að samþykkja neitt annað en það að setja málið í nefnd, láta það í athugun og svo fékk maður svona veganesti eins og þetta, sem ég hef m.a. mjög færzt undan, að glíma við að ákveða landgrunnið hér miðað við 400 metra jafndýpislínu eða möguleg hagnýtingarmörk. Nú vita allir það, að hagnýtingarmörkin eru langt fyrir utan þetta, langt fyrir utan. Við hvað skal miðað? Nei, þetta var auðvitað sett fram á sínum tíma af þeim, sem virtust halda það, að hagnýtingarmörkin væru öll innan við 400 metra jafndýpislínu.

Já, það hefði auðvitað verið miklu betra að sleppa öllu þessu og segja eitthvað mjög ákveðið, en það fékkst ekki á þeim tíma, það fékkst ekki. Og sannleikurinn er líka sá, að í öllum þeim miklu umr. um þetta mál, sem hér hafa farið fram, bæði á þessu þingi og þeirra þingi, þá hefur það verið svo, að enginn af þm. Sjálfstfl. hefur nokkurn tíma fengizt til þess að taka undir það að nefna tiltekinn útfærsludag, slá einhverju föstu, fyrr en hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, nú. Nú er hann orðinn þeirrar skoðunar, að það eigi að samþykkja þennan útfærsludag, sem ríkisstj. hefur ákveðið. Ég hugga mig því við það í þessu máli, hvað svo sem líður ýmsum fullyrðingum og hnútuköstum til mín frá þeim sjálfstæðismönnum. að þeir séu nú á leiðinni, eigi eftir að fallast á málið, þeir sjái, hvað þessi afstaða þeirra hefur verið fráleit.

Ég hef saknað þess mjög í þessum umr., að þeir skuli ekki ennþá fást til þess að segja eitt einasta orð um það, sem er eitt meginatriðið í þessu máli, eins og nú er komið, þ.e. að við getum staðið saman um það að segja upp samningunum við Breta og Vestur–Þjóðverja, sem er ein alvarlegasta hindrunin í okkar vegi til þess að koma okkar máli fram. En enn þá hafa þeir sjálfstæðismenn ekki fengizt til þess að segja eitt einasta orð um, hver afstaða þeirra er í þessum efnum. En það vita allir hv. þm., að við komumst ekki langt í deilum okkar við Breta og Vestur-Þjóðverja í þessu máli, svo alvarlegar sem þær deilur eru, ef sá samningur á að vera í þeirra höndum áfram. Það þarf enginn að efast neitt um það. Því er það vitanlega alveg kjarninn í þessu máli, að hægt sé að fá hér fram samstöðu um það á Alþ. að segja þessum samningum upp og stefna síðan að því að stækka landhelgina, eins og ákveðið hefur verið, 1. sept. á næsta ári.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð að sinni. Út af fyrir sig mættu þeir gjarnan hafa síðasta orðið í þessu máli, ef það yrði þeim einhver huggun.