18.11.1971
Sameinað þing: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í D-deild Alþingistíðinda. (4227)

54. mál, landhelgi og verndun fiskistofna

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Þótt umræður séu nú orðnar nokkuð langar um þetta mikilvæga mál, sé ég mér ekki annað fært en að leiðrétta nokkuð af því, sem hefur fram komið hjá hv. sjálfstæðismönnum.

Hv. 3. þm. Sunnl. kenndi fáfræði okkar framsóknarmanna um, að við vildum ekki færa út í jafndýpislínu. Reyndar sagði hann í næstu setningu, að það væri rétt, að engin þjóð hefði gert þetta og sýnist mér því, að fyrri fullyrðing hans stafi eingöngu af fáfræði hans sjálfs. En ég vil engu að síður gera tilraun til að upplýsa hv. þm. dálítið betur.

Hv. þm. veit það eflaust, að það var Truman, sem fyrstur hélt því fram, að landgrunnið að 200 metra dýptarlínu ætti að tilheyra strandríki. Þetta skeði rétt eftir styrjöldina. Þrátt fyrir þetta þekki ég ekki eitt einasta ríki, sem miðar fiskveiðilögsögu við t.d. 200 metra dýptarlínu. Var þó þessi boðskapur Trumans vel kunngerður.

Hv. þm. hlýtur einnig að vita, að á hafréttarráðstefnunni 1958 var, eins og ég sagði raunar áðan, samþykkt, að landgrunnið skyldi miðað við 200 metra dýptarlínu og það dýpra sem nýtanlegt reyndist. Þrátt fyrir þetta og var þetta þó samþykkt sem alþjóðalög, hefur ekkert land miðað við jafndýpislínu.

En fáfræði okkar framsóknarmanna er ekki meiri en það, að ég ætla enn til viðbótar að leyfa mér að benda hv. þm. á fáein ríki, sem hafa nýlega fært út og öll miðað við fjarlægð frá grunnpunktum. Ecuador færði nýlega út í 200 sjómílur og er raunar nálægt því í stríði við Bandaríkin út af því. Smáríkið Gabon færði út í 25 sjómílur alveg nýlega og var mótmælt af stórveldunum. Guinea færði ekki alls fyrir löngu út í 130 mílur, Senegal út í 18, Ghana út í 100 og síðast en ekki sízt, sjálft Massachusettsríki í Bandaríkjunum tilkynnir 200 mílna útfærslu. Þeim hafði ekki hugkvæmzt að miða við jafndýpislínuna. Þeir höfðu ekki kynnzt hv. 3. þm. Sunnl.

Ég held því, að þarna sé engu öðru um að kenna –(Gripið fram í.) Jú, þeir hafa eflaust vitað um það. Ég efast ekki um það. En þrátt fyrir það, að þeir vissu um þessa ráðstefnu, miðuðu þeir ekki við jafndýpislínuna. Það var það, sem ég var að segja.

Ég fagna því, að í þessum umr. hefur upplýstst nokkru nánar ýmislegt það, sem ekki kemur fram í þáltill. Hv. 2. þm. Vestf. hefur m.a. lýst því yfir, að hann muni styðja það að færa út 1. sept. 1972. Það gerði hins vegar ekki hv. 5. þm. Reykv., en það er margt fleira, sem þarna er óljóst. Það er t.d. óljóst, hver afstaðan er til samningsins við Breta. Ég skil það afar vel, að hv. 5. þm. Reykv. vefðist nokkuð tunga um tönn, þegar hann reyndi að skýra afstöðu þeirra hv. sjálfstæðismanna til þessa mikilvæga þáttar í málinu. Það er satt að segja lítill vandi að leggja undir sig allt Norður–Atlantshafið og láta síðan Haag–dómstólinn skera það af, sem honum sýnist og skilja eftir einhverja smárönd handa okkur. Og ég verð að segja það í sambandi við það, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Vestf., þegar hann rakti þennan samning, að það ætti þá að vera lítill vandinn að segja honum upp, þegar flest allt er löngu liðið, eins og hann sagði sjálfur. Hann las upp samninginn og hvað flest allt löngu liðið.

Við höfum einmitt haldið því fram, að samningurinn hafi náð tilgangi sínum. Bretar hafi fengið leyfi til að veiða innan 12 mílna ákveðinn tíma. Sá tími er liðinn. Ég vil taka undir þessi orð hans. Flest allt í samningnum er liðið og því ber að segja honum upp.

Hv. 3. þm. Sunnl. hafði orð á því, að það hefði ávallt legið ljóst fyrir, að hv. sjálfstæðismenn vildu færa út sem allra fyrst, skildist mér. Meira að segja þegar eftir undirbúningsfundinn, sem haldinn var í sumar. Ég minnist þess og hygg, að fleiri muni þau orð hæstv. fyrrv. utanrrh., þegar hann nefndi það siðleysi að ætla að færa út fyrir hafréttarráðstefnuna. En ég hefði gaman af að vita hvort nokkur man eftir því, að einhver hv. sjálfstæðismaður mótmælti þessum orðum hæstv. fyrrv. utanrrh. Ég minnist þess ekki. Ég skildi það svo, að þar væri algjör samstaða um, að slíkt væri siðleysi. Það er því alveg nýtt fyrir mér, það verð ég að viðurkenna, ef það var stefna þeirra hv. sjálfstæðismanna að færa út sem fyrst. Ég harma það, að mér var ekki ljós sú stefna fyrr.

Ég get ekki varizt að lýsa undrun minni á þeirri samlíkingu hv. 5. þm. Reykv., að það sé álíka auðvelt að staðsetja sig á 400 metra dýptarlínunni, eða 50 sjómílur eða meira úti á hafi, og þrjár mílur frá landi. Ég held, að við mundum báðir eiga ólíkt hægara með að staðsetja okkur þrjár mílur frá landi.

Annars var það eitt atriði, sem sérstaklega hvatti mig hingað upp. Það voru ummæli þeirra ræðumanna um Afríkureisu mína og annars manns. Ég heyrði ekki betur en það væri einhver öfundartónn hjá þeim, er þeir ræddu um þessa ferð. Ég þakka jafnframt hv. 5. þm. Reykv. mjög vingjarnleg orð í minn garð og míns samferðamanns.

Annars vil ég segja það, að ég hygg, að hv. ræðumenn hefðu getað lært afar mikið af málflutningi þar, ekki okkar, heldur málflutningi fulltrúanna frá svörtustu Afríku. En fyrir þeirri ráðstefnu, fyrst farið er að ræða um það hér, lágu tvær hugmyndir. Önnur var sú, sem hv. þm. minntist á, að færa út í 12 sjómílur + 12. Sú hugmynd var komin frá lögfræðingi einum, en byggð þó á þeim misskilningi, að þessi regla hefði fengið tilskilinn meiri hluta á ráðstefnunum 1958 og 1960. En við að lesa það, sem þar kom fram, gerði hann sér grein fyrir því, að svo var ekki. Hann leiðrétti þetta sjálfur og sú till. var strax dregin til baka.

Langtum meiri umr. urðu hins vegar um aðra till. eða hugmynd, sem þar var komin fram frá litlum hópi manna, sem hafði verið til þess settur að líta á málið. Hún var þess efnis að miða við 600 metra dýptarlínu og í því sambandi hygg ég, að hv. þm., sem vilja miða hér við dýptarlínu, hefðu getað lært mikið. M.a. kom í ljós, að þeir, sem andmæltu þessu þar,—og ég vil taka fram, að það voru ekki við, því að við töldum það ekki í okkar verkahring að andmæla því, sem þessir menn ræddu sín á milli, heldur aðeins að leggja fram upplýsingar um það, sem við ætluðum að gera,—þeir höfðu kynnt sér t.d. mjög vel Lima–samþykktina og fjölmargt fleira, sem aðrar þjóðir hafa gert.

Þarna voru menn, sem höfðu kynnt sér þá þróun, sem orðið hefur. Þeir röktu sögu þeirra ríkja, sem höfðu fært út og miðað við fjarlægð. Niðurstaðan varð einróma sú hjá þeim öllum, að það kæmi ekki til mála að miða við 600 metra dýptarlínu, m.a. vegna þess, að þeir vildu fá sem bezta samstöðu með Suður—Ameríkuríkjunum og töldu vafasamt, að hún fengist, ef þeir mörkuðu aðra braut í þessu mikilvæga máli, en þar hafði verið ákveðið. Þetta fannst mér mjög skynsamlegt hjá þeim ágætu mönnum, sem þarna voru. Og ef það skyldi nú reynast nauðsynlegt að senda okkur aftur þarna suður eftir, þá held ég, að það væri mikils virði að taka hv. þm. með sér, bæði hv. 5. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Vestf.

Að lokum vil ég segja örfá orð um viðræðurnar við Breta. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti, að mér fannst gæta mjög mikils misskilnings hjá hv. 2. þm. Vestf. í því sambandi. Ég hef ekki litið svo á, að það væri verið að semja við Breta um, hvort eigi að segja upp samningnum eða ekki. Það er búið að tilkynna þessum þjóðum, að við ætlum að segja upp samningnum og ég verð að segja það fyrir mitt leyti, að ég á mjög erfitt með að sætta mig við það, að verið sé að semja við Breta um nokkuð. Hvernig gætum við samið við Breta um þann rétt, sem við allir segjumst eiga, annaðhvort á landgrunninu eða út í 50 sjómílur? Það er ekki verið að semja við Breta. Við erum að rétta Bretum, sem vina– og nágrannaþjóð, hönd okkar og viljum bjóða þeim eitthvað, sem gerir þeim auðveldara að sætta sig við það, sem við ætlum að gera og er okkar réttur. Þetta er alls ekki samningur. Og ég vil vona, að hv. 2. þm. Vestf. leiðrétti þetta og beri þetta ekki oftar á borð.

Honum þótti ég gera lítið úr samþykkt Útvegsmannafélags Vestfjarða. Það geri ég raunar alls ekki. Ég sagðist skilja þá mjög vel. En ég sagði hins vegar, að ég væri sannfærður um, að ef þeir kynntu sér málið betur, mundu þeir telja skynsamlegra að ná landgrunninu öllu með því að stíga annað skref fljótlega og kvaðst ég vera reiðubúinn að fylgja því.

Loks var það hv. 5. þm. Reykv. Mér þótti mjög óviðeigandi hjá svo lærðum manni að snúa þannig út úr mínum orðum sem hann gerði. Ég sagði, að það væri glapræði að breyta stefnunni nú á þann veg, sem þáltill. þeirra sjálfstæðismanna gerir ráð fyrir, af því að það væri búið að vinna málið svo mikið á öðrum grundvelli. En ég sagði jafnframt, að það gæti vel verið, að við hefðum átt að taka meira skref í upphafi, en ég teldi hins vegar vafasamt að breyta því nú, jafnvel þótt miðað væri við fjarlægð frá grunnlínupunktum. Það var hitt, sem ég kalla glapræði, ég kalla það glapræði að fara út á þá stefnu, sem sjálfstæðismenn boða hér.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Það mætti segja margt fleira um þann furðulega rökstuðning, sem hér hefur komið fram, en ég vil leyfa mér að vona, eins og ég sagði áðan, að samstaða náist um till. hæstv. ríkisstj. Við vitum, að hún fær framgang og ég leyfi mér að vona, að þegar kemur til endanlegrar afgreiðslu, sýni hv. sjálfstæðismenn þá karlmennsku og þann manndóm að standa þar með.