20.01.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í D-deild Alþingistíðinda. (4244)

56. mál, endurskoðun orkulaga

Heilbr.-– og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. frsm., að raforkumálin eru í gagngerðri endurskoðun í iðnrn. Fyrir mér er það meginatriði í þeirri endurskoðun, að framkvæmd verði breyting á sjálfri raforkuvinnslunni og skipulagi hennar, þ.e. að framkvæmd verði samtenging orkuvera og að samrekstur þeirra verði á einni hendi í framtíðinni. Og hér er að mínu mati um ákaflega mikilvægt mál að ræða. Í því sambandi má minna á það, að möguleikar til þess að lækka vinnslukostnað á raforku eru nú á tímum fyrst og fremst tengdir við stækkun framleiðslueininga, bæði rekstrareininga og einstakra véla. Og þetta er mönnum orðið ljóst hvarvetna, en fullkomin nýting á orkuverum og þá um leið á orkulindum fæst ekki fyrr en með mjög góðri samtengingu á þessari orkuframleiðslu og mjög fullkomnum samrekstri. Aðeins það að tengja saman tvo landshluta gefur t.d. möguleika til að vinna miklu meiri orku úr þeim vatnsorkuverum, sem fyrir eru, án þess að stækka þau og um leið geta orðið sameiginleg not af topp— og vararafstöðvum.

Það er yfirlýst stefna ríkisstj. að vinna að samtengingu orkuveitusvæða, eins og kunnugt er. Og að þessu máli er nú verið að vinna á vegum rn. Hins vegar kemur inn í þetta dæmi, hvernig á að skipuleggja dreifingu sjálfrar raforkunnar, og þar hefur verið starfandi kerfi, Rafmagnsveitur ríkisins, sem hafa haft forustu af hálfu ríkisins um skipulagningu orkudreifingarinnar og mér er fullkunnugt um það, að upp hafa komið mörg ágreiningsefni á milli bæjarfélaga og landshluta um fyrirkomulag þessara mála við Rafmagnsveitur ríkisins. Þar eru uppi mjög mikil deilumál eins og öllum hv. þm. er kunnugt um. Einmitt þess vegna hef ég talið nauðsynlegt, að inn í þetta dæmi kæmi einnig breyting á fyrirkomulagi á dreifingu raforkunnar og þá hefur maður haft í huga aðild héraðanna að rafmagnsveitunum í einni eða annarri mynd, þ.e. að landshlutarnir færu með vissan hluta af því valdi eða af því verkefni, sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa haft að undanförnu.

Ég hef ekki trú á því á þessu stigi málsins, að það sé tímabært að leggja niður Rafmagnsveitur ríkisins. Ég held, að þær hafi því verkefni að gegna enn þá, að það sé ekki hyggileg ráðstöfun og með því móti værum við að draga úr þeirri forustu, sem ég tel, að ríkisvaldið verði enn þá að hafa til þess að tryggja eðlilega dreifingu á raforku um landið. En engu að síður er mér fyllilega kunnugt um þessi vandkvæði, sem hv. þm. talar um og ég tel, að það verði að miða að því, að landshlutarnir fái miklu meiri áhrif á fyrirkomulag Rafmagnsveitna ríkisins og í því sambandi miklu meira vald en verið hefur. Að þessu verkefni er einnig verið að vinna á vegum rn. og ég geri mér vonir um það að geta gert Alþ. betri grein fyrir hugmyndum rn. í þessu sambandi innan mjög skamms tíma.