21.12.1971
Efri deild: 38. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

119. mál, verðlagsmál

Frsm. meiri hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fjhn. hefur fjallað um frv. til I. um breyt. á lögum um verðlagsmál, nr. 54 frá 14. júní 1960. N. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls, og leggur meiri hl. til, að frv. verði samþ. óbreytt, en minni hl. skilar séráliti og er ekki reiðubúinn að fallast á þá málsmeðferð.

Það frv., sem hér liggur fyrir, felur ekki í sér verulegar breytingar frá því, sem nú er. Meginbreytingarnar eru fólgnar í því, að í í . gr. er gert ráð fyrir því, að formaður verðlagsnefndar sé skipaður án tilnefningar í stað þess, að það var áður bundið við ráðuneytisstjórann í viðskrn. En þetta er gert sem sagt óbundið, og kom fram á nefndarfundi, að gert er ráð fyrir því, að ráðh. muni skipa einhvern embættismann í rn. í þetta starf. En talið er heppilegra að hafa þetta óbundið.

Eftir að frv. kom hér til meðferðar á Alþ., hefur verið bætt við ákvæði til bráðabirgða, og það er um það ákvæði, sem ágreiningur hefur orðið. Nú er þar skemmst frá að segja, að það ákvæði til bráðabirgða, sem hér um ræðir, felur ekki í sér neitt nýmæli, og þar er um að ræða nær óbreytt þau ákvæði, sem fólust í verðstöðvunarlögunum á s.l. hausti. Meginatriðið í þeim ákvæðum var það, að verðlagsnefnd og verðlagsyfirvöldum heimilaðist ekki að leyfa neina hækkun á vöruverði, nema þau teldu hana algerlega óhjákvæmilega, og var leyfi til slíkrar hækkunar háð samþykki ríkisstj. Þetta er tekið hér óbreytt upp í ákvæðum til bráðabirgða, og eins er um önnur efnisatriði þessa ákvæðis, að þau eru tekin beint upp úr hinum fyrri verðstöðvunarlögum, sem eins og kunnugt er ganga formlega úr gildi nú um áramótin.

Hins vegar er ofurlítil orðalagsbreyting í 2. málsl. 3. mgr., þar sem segir:

„Ákvæði þessarar mgr. taka ekki til þeirrar hækkunar húsaleigu, sem ákveðin var samkv. fyrri mgr. 6. gr. laga nr. 94/1970, um ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis.“

Að vísu má segja, að þetta sé ekki nein efnisbreyting, en ákvæðið var að sjálfsögðu ekki á þessa leið í hinum fyrri verðstöðvunarlögum. Það er í raun réttri verið að vísa þarna til verðstöðvunarlaganna. En þarna var ákveðið, að því aðeins væri heimilt að hækka húsaleigu, án þess að fá til þess sérstakt leyfi, að hækkunin væri heimiluð í samningum aðila, og væri þá við það miðað, að húsaleiga hækkaði í samræmi við hækkun vísitölu byggingarkostnaðar.

Eins og ég segi, er raunverulega um mjög litla breytingu að ræða frá því skipulagi, sem nú ríkir í þessum málum, og sé ég því ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri. Meiri hl. n. mælir með því, að frv. verði samþ. óbreytt.