25.01.1972
Sameinað þing: 30. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í D-deild Alþingistíðinda. (4250)

56. mál, endurskoðun orkulaga

Flm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Það er í framhaldi af umr. um þetta mál sem fram fóru þann 20. jan. s.l., sem ég vildi segja nokkur orð. Ég vil þakka hæstv. raforkumálaráðherra fyrir undirtektir hans við efni till., að svo miklu leyti sem það má segja, þó að hann að vísu út talaði sig ekki að fullu um málið. Það kom fram í ræðu hæstv. ráðh., að raforkumálin væru öll í gagngerðri endurskoðun. Taldi hann það mestu máli skipta, að breytingar yrðu gerðar á sjálfri raforkuvinnslunni og skipulagi hennar. Þá taldi hann, að sér væri kunnugt um, að varðandi dreifingu sjálfrar raforkunnar, hefðu komið upp mörg ágreiningsefni á milli bæjarfélaga og landshluta um fyrirkomulag þeirra mála við Rafmagnsveitur ríkisins. Þau mál yrði því einnig að taka inn í endurskoðunina og að hans dómi með þeim hætti að veita héruðunum aðild að Rafmagnsveitum ríkisins í einu eða öðru formi, þ.e. að landshlutarnir færu með vissan hluta af því valdi eða því verkefni, sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa haft að undanförnu.

Það er einmitt með tilliti til þessa, sem við flm. þáltill. töldum nauðsynlegt að hreyfa þessu máli nú. Eins og ég gat um í framsögu fyrir málinu á sínum tíma, þá teljum við flm., að nú séu fram undan þau tímamót í þróunarsögu raforkumálanna, sem réttlæti, að nú séu þessi mál tekin til gagngerðrar endurskoðunar og mörkuð verði stefnan til frambúðar, bæði hvað varðar dreifingu orkunnar, en einnig hitt, sem snýr að áframhaldandi uppbyggingu raforkuveranna.

Ég er sammála hæstv. ráðh. um það, að samtenging hinna ýmsu orkuvera er höfuðnauðsyn, því að einmitt með þeim hætti verður fullnýting þeirrar orku, sem virkjuð hefur verið í landinu á hverjum tíma, bezt tryggð. Hitt er svo annað mál og um það geta að sjálfsögðu verið skiptar skoðanir, að hve miklu leyti bygging orkuveranna sjálfra á að vera mál ríkisins eins eða með hlutdeild eða forustu hinna ýmsu landshluta. En að því slepptu teljum við, að stefna beri að því, að sérstakar landshlutaveitur taki að sér dreifingu raforkunnar, hver á sínu svæði og taki þannig við því verkefni, sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa í dag.

Ég hygg, að flestir hafi verið sammála um, að á meðan uppbygging rafveitukerfisins um landið hefur átt sér stað, hafi það verið eðlilegast, að sú framkvæmd ætti sér stað undir forustu ríkisins eða ríkisstofnunar. En nú, þegar þessum þætti rafvæðingarinnar er að ljúka, er fyllilega eðlilegt, að tekið sé til athugunar, á hvern hátt hagkvæmast muni reynast til frambúðar að haga rekstri rafveitnanna.

Í þessari þáltill. felst það, að komið verði á sérstökum orkuveitum landshluta eftir landfræðilegum mörkum og kemur þá m.a. til greina að miða stærð orkuveitusvæðanna við kjördæmaskipunina, eins og hún er t.d. í dag. Fyrir þessari skipan orkumálanna hygg ég, að sé mikill og vaxandi áhugi um land allt. Eins og kunnugt er, eru nú þegar fyrir hendi orkuver í hinum ýmsu landshlutum. Ekkert er því eðlilegra, en að þau raforkuver myndi grundvöllinn að slíkum landshlutaveitum. þegar til þess kemur.

Um raforkugjaldið eða verðjöfnunargjaldið vil ég segja það, að ég tel fullkomlega eðlilegt, að lagt sé á hið svokallaða raforkugjald í einhverju formi og það renni í sérstakan sjóð, sem verja skal til að jafna aðstöðu hinna ýmsu byggðarlaga til raforkunotkunar. Sá sjóður ætti fyrst og fremst að veita framlag til stofnkostnaðar t.d. til lagningar á dreifilínum eða á þeim stöðum, þar sem kostnaður er hvað mestur vegna mikilla fjarlægða á milli býla eða notenda.

Með lögum um Landsvirkjun er gert ráð fyrir því, að héraðsveitur geti milliliðalaust keypt raforkuna í heildsölu. Í dag er mikið um það rætt, að raforkuverðið sé misjafnt á hinum ýmsum stöðum og landshlutum. Ástæðuna fyrir því má að sjálfsögðu rekja til fleiri orsaka. Ég tel hins vegar, að þegar samveitukerfið er komið um allt landið og nýir aðilar, landshlutaveiturnar, kaupa rafmagnið í heildsölu af Landsvirkjun, þá verði auðveldara að skapa meira jafnvægi í sjálfu raforkuverðinu og þá muni einnig koma í ljós, að með þessu nýja formi skapist meiri hagsýni í sjálfum rekstri rafveitnanna.

Rafmagnsveitur ríkisins eru nú þegar orðnar all mikið bákn. Þeim er stjórnað frá einni aðalskrifstofu hér í höfuðborginni. Það gefur auga leið, að slíkri fjarstýringu fylgja ýmsir annmarkar, sem ekki verður hjá komizt og óhjákvæmilega fylgja slíkri skipan. Það ber því að stefna að því, að svo miklu leyti sem tök eru á því, að færa þetta verkefni út í hinar dreifðu byggðir, í þessa landshluta, sem verið er að ræða um að myndi hinar nýju rafveitur. Ég álit, að einmitt vegna þess að mál þessi eru nú í endurskoðun, þá sé eðlilegt, að Alþ. marki afstöðu sína til málsins og geri upp við sig, hver framtíðarstefnan á að vera varðandi þátttöku landshlutanna í áframhaldandi uppbyggingu orkuveranna og einnig og ekki síður í rekstri á sjálfu rafveitukerfinu.