18.11.1971
Sameinað þing: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í D-deild Alþingistíðinda. (4271)

63. mál, hafnarstæði við Dyrhólaey

Flm. (Einar Oddsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér svo hljóðandi þáltill. á þskj. 68:

„Alþingi ályktar:

1. Að skora á ríkisstj. að hraða rannsóknum á hafnarstæði við Dyrhólaey, ljúka hönnun hafnar þar og láta gera kostnaðaráætlun hafnarinnar.

2. Ríkisstj. er heimilt að semja við verkfræðifyrirtæki, innlent eða útlent, um framkvæmd verksins, samkv. 1. lið.

3. Kostnaður vegna framkvæmda, sem þál. þessi hefur í för með sér, greiðist úr ríkissjóði.“

Höfn við Dyrhólaey er áratuga eða jafnvel aldagamalt baráttumál nærliggjandi sveita. Fyrir því eru margar ástæður, og skulu nokkrar þeirra raktar hér. Beggja vegna Dyrhólaeyjar eru frjósöm landbúnaðarhéruð Vestur—Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu, þar sem betra er undir bú, en víðast annars staðar, enda er meðalhiti þar einna mestur á landinu og víða í þessum sveitum kemur gróðurinn snemma á vorin eða fyrr en annars staðar. Á söndum Vestur—Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu eru svo að segja óþrjótandi ræktunarmöguleikar. Margt bendir til þess, að það sé hagkvæmara og jafnvel ódýrara að rækta sandana á láglendinu, en annað land. Í þessum efnum höfum við fengið allmikla reynslu. Svörtum sandinum hefur verið breytt í iðjagrænan töðuvöll.

Á Skógasandi og Sólheimasandi hafa t.d. fyrir þó nokkrum árum verið ræktuð myndarleg tún, sem yfirleitt hafa gefið góða raun á undanförnum árum, þó að kalt hafi verið og hart í ári og tún víða brugðizt annars staðar. Þá má benda á þá staðreynd, sem raunar ætti að vera flestum ljós, að það hlýtur að vera miklu hagkvæmara fyrir okkur Íslendinga að breyta söndunum í ræktunarlönd, en að brjóta gróið land til þeirra hluta, þegar þess er gætt, að við höfum verið árum saman að berjast við uppblásturinn í landinu og gerum víst ekki betur, en að halda í horfinu. En út í þá sálma skal ekki farið frekar hér.

Frá Dyrhólaey er stutt að fara á einhver beztu fiskimið hér við land og þótt víðar væri leitað. Þau eru þar örskammt undan og til beggja handa. Um þetta er mörgum sjómanni kunnugt, því að fjöldi skipa er á veiðum á þessum miðum allan ársins hring. Á haust— og vetrarkvöldum minnir ljósadýrðin úti fyrir ströndinni stundum einna helzt á stóra borg fyrir áhorfendur úr landi að sjá. Áður fyrr var mikið útræði á þessum slóðum, t.d. bæði úr Mýrdal og undan Eyjafjöllum, sem var snar þáttur í atvinnulífi sveitanna og þeirra aðalbjargræði í hörðum árum. Sjósókn er þar nú löngu aflögð og menn verða að láta sér nægja að horfa á skipin að veiðum úti fyrir og vona, að senn komi höfnin við Dyrhólaey. Flestir gera sér nú orðið grein fyrir því, að það er tæknilega mögulegt að byggja þarna höfn og það er bjargföst skoðun mín og margra annarra, sem í þessum sveitum búa, að allir íbúar landsins ættu að hafa sem jafnastan rétt og möguleika til hagnýtingar hafsins í kringum landið. Nú er málum þannig háttað, að öll þjóðin er einhuga um að fá rétt sinn til fiskveiða á hafinu yfir landgrunninu viðurkenndan og útlit er fyrir, að við fáum þann rétt viðurkenndan áður en langt um líður. Með útfærslu landhelginnar og friðun hrygningarsvæða og aukinni verndun fiskistofna hlýtur fiskigengd að aukast verulega á miðunum umhverfis landið, en það gerir aftur á móti stórauknar fiskveiðar okkar Íslendinga mögulegar. Þegar svo er komið málum, fæ ég ekki betur séð en að höfn við Dyrhólaey sé bráðnauðsynleg frá þjóðhagslegu sjónarmiði, þó að ekki væri til annars en að geta nýtt aukinn afla af miðunum í grennd.

Því hefur stundum verið haldið fram af úrtölumönnum, að höfn við Dyrhólaey mundi rýra afkomu möguleika annarra fiskveiðibæja. Þetta er alröng skoðun. Eins og ég hef bent á, eru miðin beggja vegna Dyrhólaeyjar mikið sótt og af sumum bátum um langan veg. Þess munu ófá dæmi á undanförnum árum, að afli muni hafa verið fluttur þaðan langan veg og ekki einungis til Hornafjarðar og Þorlákshafnar, heldur einnig til Austfjarðahafna eða jafnvel allt vestur til Faxaflóa. Höfn við Dyrhólaey mundi einmitt auðvelda aðkomubátum að sækja þessi góðu mið, m.a. með ýmiss konar nauðsynlegri þjónustu, sem þar væri hægt að fá og vegna aukins öryggis sjómannanna. Höfnin mundi þannig stuðla að aukinni nýtingu bátaflotans.

Sem kunnugt er, er engin höfn á rúmlega 300 km svæði suðurstrandarinnar frá Stokkseyri og austur á Höfn í Hornafirði. Á umliðnum öldum hefur þessi hafnlausa strönd orðið hinzti hvílustaður margra skipa, bæði útlendra og innlendra. Má segja, að suðurströndin öll sé einn allsherjar kirkjugarður. Höfn við Dyrhólaey mundi auka verulega á öryggi skipa á nálægum miðum og frá sjónarmiði slysavarna virðist með öllu óverjandi að hafa þessa löngu strandlengju, sem ég gat um áðan, hafnlausa. Skip, sem til landsins koma frá Evrópulöndum og eru á leið til Reykjavíkur, sigla fram hjá Dyrhólaey. Flutningskostnaður frá Reykjavík til Víkur í Mýrdal hefur verið um 1.40 kr. á kg að undanförnu, þegar miðað er við þungavöru. Og þetta er lágt verð að mati þeirra, sem starfrækja flutningana. Er augljóst mál, að mikill flutningskostnaður mundi sparast með tilkomu hafnar við Dyrhólaey og þar gæti orðið um stóra flutningahöfn að ræða. Í Vestur—Skaftafellssýslu og raunar Rangárvallasýslu líka er ástandið þannig í atvinnumálum í dag, að flestir byggja afkomu sína á landbúnaði eða þjónustu við hann í einhverri mynd. Þó er kominn nokkur vísir að iðnaði í þorpunum, sumum a.m.k. og talsverður áhugi er fyrir þeirri atvinnugrein. Á undanförnum árum hefur ekki verið um fólksfjölgun að ræða í landbúnaði og ekki er útlit fyrir, að þar verði veruleg breyting á, á komandi árum. Stór hluti unga fólksins, sem vex upp í Vestur—Skaftafellssýslu, verður að leita til annarra staða, þar sem atvinnu er að fá. Sama máli gegnir um Rangárvallasýslu eða a.m.k. austurhluta hennar. Margt af þessu fólki mundi setjast að við Dyrhólaey, ef þar væru atvinnuskilyrði fyrir hendi.

Mikið hefur verið rætt um það á undanförnum árum að auka jafnvægið í byggð landsins. Engu að síður hafa málin snúizt þannig, að meiri hluti þjóðarinnar hefur tekið sér bólfestu á tiltölulega litlu svæði. Flestir eru sammála um það, að þetta sé ekki heppileg þróun mála, enda verða auðlindir lands og sjávar svo bezt nýttar, að sem jöfnust byggð haldist í kringum landið. Líklegasta leiðin til úrbóta í þessum efnum er að vinna skipulega og markvisst að uppbyggingu þeirra staða víðs vegar um landið, þar sem skilyrði eru bezt. Svo bezt verður marg umtöluðu jafnvægi í byggð landsins náð, að í hendur haldist blómlegar sveitir og myndarleg kauptún og styðji hvað annað. Með byggingu hafnarinnar við Dyrhólaey verða þar fyrir hendi öll skilyrði til þess, að þar rísi fiskveiða— og iðnaðarbær, sem mundi auka mjög á jafnvægi í byggð Suðurlandsins og styrkja verulega landsbyggðina í heild. Hér er um mjög veigamikið atriði að ræða, sem seint verður metið til fjár. Í þessu sambandi má geta þess, að Danir hafa á undanförnum árum átt við sama vandamál að stríða og við Íslendingar að því er varðar fólksflótta úr sveitunum og einkum þó af Jótlandi norðanverðu. Þeir hafa m.a. gripið til þess ráðs að byggja stóra höfn við bæinn Hanstholm á vesturströndinni norðan Limafjarðar. Þar hefur ríkisvaldið beitt sér fyrir því að skipuleggja og byggja nýja borg, sem risið hefur þar upp á fáum árum. Þarna eru góð fiskimið undan landi og með þessu hyggjast Danir stöðva fólksstrauminn frá þessu svæði, auk þess sem fyrirhugað er, að þarna verði stór flutningahöfn. Ég held, að við Íslendingar gætum af þessu nokkurn lærdóm dregið.

Herra forseti. Eins og ég gat um í upphafi máls míns, er hér um aldagamalt baráttumál að ræða. Árið 1870 var farið fram á það við dönsku stjórnina, að hún léti rannsaka hafnarstæði við Dyrhólaey. Stjórnin lagði fyrir yfirmanninn á danska herskipinu Fylla að framkvæma þessar rannsóknir. Lítið eða ekkert mun hafa orðið úr þessum rannsóknum, en um svipað leyti munu Vestur—Skaftfellingar hafa safnað talsverðu fé með almennum samskotum til hafnargerðar við Dyrhólaey. Þessu fé var svo skilað aftur nokkrum árum síðar, þar sem hafnarmálið fékk ekki byr hjá dönsku ríkisstj. En þetta ber engu að síður vott um áhuga manna þar eystra á þessu máli þá og hann hefur ekki verið minni en hann er nú.

Hafnarmálið hefur oft komið fram á Alþ. Mér er kunnugt um þrjár þáltill., sem hafa verið samþykktar á Alþ., sem allar miða að því að láta fara fram rannsóknir á hafnarstæði eða hafnarbótum við Dyrhólaey. Till. þessar fluttu Jón Gíslason þáv. alþm. Vestur-Skaftfellinga 1947, Jón Kjartansson þáv. alþm. árið 1955 og alþm. Guðlaugur Gíslason og Sigurður Óli Ólafsson árið 1961. Einnig hafa nokkrar fsp. verið gerðar um málið síðustu árin. Alþ. hefur jafnan sýnt þessu máli skilning og veitt fé til rannsókna við Dyrhólaey um árabil. Síðustu áratugina hefur hafnamálaskrifstofan haft rannsóknir á hafnarstæði við Dýrhólaey með höndum. Þessum rannsóknum hefur miðað sorglega lítið þrátt fyrir margyfirlýstan vilja Alþ. þar um og fyrirskipanir stjórnvalda um, að þær skyldu gerðar.

Í dag standa málin þannig, að nauðsynlegar undirstöðurannsóknir hafa enn ekki verið gerðar. T.d. hafa straummælingar ekki verið gerðar, né heldur hafa farið fram efnisrannsóknir. Haustíð 1970 var settur upp bylgjumælir við Dyrhólaey og það var þó ekki gert fyrr en þáv. samgrh., Ingólfur Jónsson, hafði gefið skýr fyrirmæli um það í bréfi 6. okt. 1970, sem ég ætla að leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Í framhaldi af bréfi rn. til yðar, herra hafnamálastjóri, dags. 9. marz þessa árs, þar sem rn. fól yður að festa þegar kaup á nýjum bylgjumæli í stað þess, sem glataðist á s.l. ári og nota við áframhaldandi mælingar hjá Dyrhólaey, vill rn., þar sem upplýst er, að umræddur bylgjumælir er enn ekki kominn niður, hér með gera ítrekaðar kröfur til þess, að það verði gert nú þegar.

Jafnframt er fyrir yður lagt að hefja strax frekari rannsóknir á skilyrðum til hafnargerðar við Dyrhólaey, svo sem um efnistöku og annað, sem máli skiptir í sambandi við hugsanlega hafnargerð þar. Nauðsynlegt er að hraða rannsóknum, til þess að unnt sé að gera raunhæfa kostnaðaráætlun um hafnargerðina.

Ingólfur Jónsson.“

Þessar bylgjumælingar stóðu ekki nema um tveggja mánaða skeið, því að mælirinn losnaði upp og týndist. Hafa bylgjumælingar ekki verið gerðar þar síðan. Í jan. s.l. fékkst vita– og hafnamálastjórinn loksins til að skipa einn af verkfræðingum Vita- og hafnamálastofnunarinnar til þess að rannsaka marg umrætt hafnarstæði og átti hann að hafa það að megin verkefni á þessu ári. Raunin varð hins vegar sú, að rannsóknir við Dyrhólaey hafa ekki orðið nema hluti af störfum þessa verkfræðings, vegna þess að hann hefur verið hlaðinn öðrum störfum. Hann hefur nú sagt upp störfum hjá hafnamálastofnuninni, eins og fram kemur í grg.

Á fjárlögum ársins 1971 voru veittar 1 millj. 90 þús. kr. til hafnarannsókna. Ráðgert hafði verið, að unnið yrði bæði að hafnarannsóknum við Dyrhólaey og Þjórsárós. Með bréfi dags. 28. jan. 1971 tilkynnti Vita og hafnamálastjóri samgrn., að þessi fjárhæð mundi ekki duga til rannsókna á báðum stöðum. Þáv. samgrh. taldi þá rétt að nota þetta fé til að halda áfram og ljúka rannsóknum við Dyrhólaey. Ég vil. með leyfi hæstv. forseta, lesa bréf samgrh. frá 5. febr. 1971 um þetta mál:

„Með vísun til bréfs yðar, herra hafnamálastjóri, dags. 28. f.m. varðandi kostnað við athuganir á hafnargerð við Dyrhólaey og í Þjórsárósi vill rn. taka fram eftirfarandi:

Rn. leggur áherzlu á, að athugunum á hafnarstæði við Dyrhólaey og kostnaði við hafnargerð þar verði haldið áfram og lokið svo fljótt sem unnt er og ef mögulegt er n.k. haust. Samþykkir rn. þá ráðstöfun yðar, að einum af verkfræðingum hafnamálastofnunarinnar verði fengin þessi athugun sem megin verkefni á árinu. Athuganir á hafnargerð í Þjórsárósi mega hins vegar bíða, unz fé verður fyrir hendi til þeirra.

Ingólfur Jónsson.“

Á s.l. sumri fóru svo fram dýptarmælingar á rannsóknarsvæðinu. Áður höfðu þær verið gerðar á árunum 1957 og 1963. Milli þessara rannsókna hefur liðið allt of langur tími. Vitað er, að miklir og tíðir efnisflutningar eiga sér stað meðfram suðurströndinni allri. Einungis er vitað um dýpi á rannsóknarsvæðinu, eins og það var, þegar mælingarnar voru gerðar á árunum 1957 og 1963 og 1971, en engin vitneskja er fyrir hendi um dýpið, hvernig það hafi verið þess á milli eða hvaða breytingar þar kunna að hafa orðið á frá ári til árs.

Eins og ég hef rakið hér að framan, eru undirstöðurannsóknir við Dyrhólaey ýmist ekki hafnar eða skammt á veg komnar, þrátt fyrir yfirlýsingar vitamálastjóra um, að þær skyldu gerðar löngu fyrr, m.a. á árunum 1965 og 1966. Ekkert útlit er fyrir, að framkvæmdahraði verði meiri á komandi árum, en verið hefur. Þess vegna tel ég, að 2. liður till. þessarar sé nauðsynlegur til þess að tryggja framgang málsins.

Ég vil að lokum geta þess, að á árinu 1963 var sérfræðingur á sviði hafnarannsókna, prófessor Bruun frá Flórída, fenginn til þess að gera athuganir á hafnarstæðinu og sandflutningi á suðurströndinni frá Þjórsárósi og austur að Ingólfshöfða. Prófessor Bruun gerði skýrslu um þessar athuganir og í henni kemur fram, að hann telur, að við Dyrhólaey séu langbezt skilyrði til hafnargerðar á þessu svæði. Þar er mun styttra út á 16 metra dýpi, sem er talið hæfilegt fyrir hafnarmynni, en annars staðar á svæðinu. Lega og dýptarlínur eru einnig betri og fyrir utan er straumur, sem líklegt er, að hindri, að sandur berist í hafnarmynnið.

Herra forseti. 100 ár eru nú liðin síðan fyrst voru gefin fyrirmæli um, að rannsóknir á hafnarstæði við Dyrhólaey skyldu gerðar. Hér er ekki einungis um mál sýslnanna, sem liggja að Dyrhólaey, Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslu, að ræða, heldur er hér um stórmál mál þjóðarinnar allrar, að ræða. Þess vegna tel ég orðið tímabært, að þessum rannsóknum fari senn að ljúka. Og að lokum er það von mín, að hv. Alþ. veiti þessu máli lið og samþykki tillöguna.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til síðari umr. og fjvn.