30.11.1971
Sameinað þing: 18. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í D-deild Alþingistíðinda. (4277)

63. mál, hafnarstæði við Dyrhólaey

Flm. (Einar Oddsson):

Herra forseti. Ég ætla að segja hér örfá orð. Ég vil nota tækifærið til þess að þakka hv. 4. þm. Sunnl. fyrir ræðu hans hinn 18. nóv. s.l. svo og hv. 5. þm. Sunnl., Garðari Sigurðssyni, fyrir ræðu hans núna áðan. Það er vitað mál, að á suðurströnd landsins eru náttúrleg skilyrði til hafnargerðar minni, en víða annars staðar á landinu og hafnargerð þar er og verður dýrari, en þar sem firðir ganga inn í landið og lítið eitt þarf til þess að gera skipum aðstöðu. Samkv. niðurstöðum þeirra rannsókna, sem gerðar hafa verið, er Dyrhólaey langálitlegasti staðurinn. Náttúruskilyrði eru þar bezt, þar er lang stytzt út á 16 metra dýpi, sem sérfræðingar hafa talið hæfilegt fyrir hafnarmynni á þessum slóðum, eða ca. 900 metrar. Þetta er um það bil helmingi styttri vegalengd út á þetta dýpi, en frá sumum þeim öðrum stöðum, sem helzt hafa komið til greina í sambandi við hafnargerð á þessu svæði. Aðalkostnaður við hafnargerð við suðurströndina eru hafnargarðarnir. Má ætla, að höfn við Dyrhólaey verði allt að því helmingi ódýrari, en höfn á þeim stöðum, þar sem 1.800 metrar eru út á 16 metra dýpi. Ýmis önnur skilyrði eru betri við Dyrhólaey en annars staðar á umræddu svæði svo sem lega, dýptarlína og straumar, svo sem ég hef getið um við fyrri hluta umr. þessarar. Þá er eyjan sjálf góður skjólgarður svo langt sem hún nær. Hafnarmannvirki í landi verður að sjálfsögðu að gera, þegar höfnin er komin eða samhliða henni.

Þegar landhelgin hefur verið færð út og Íslendingar ráða henni einir og verða einir um veiðar á landgrunninu, þá má gera ráð fyrir, að við getum veitt um það bil helmingi meira, en við veiðum nú á landgrunnssvæðinu. Þetta þýðir það, að við verðum að kaupa fleiri skip, byggja fleiri hafnarmannvirki í landi, frystihús, fiskvinnsluhús og fleiri mannvirki til þess að geta nýtt aukinn sjávarafla. Það er engin spurning um það, heldur getur orðið spurning um það, hvar eigi að byggja þessi mannvirki. Það er mín skoðun, að þegar landhelgin hefur verið færð út, verði þjóðhagsleg nauðsyn að byggja höfn við Dyrhólaey. Ein beztu fiskimið landsins eru þar við bæjardyrnar, á landi blómlegar sveitir. Staðurinn liggur vel við samgöngum, bæði á landi og sjó. Á rúmlega 300 km hafnlausri strandlengju Suðurlandsins er brýn nauðsyn að komi höfn af slysavarnaástæðum og mörgum ástæðum fleiri, sem ég skal ekki fjölyrða um hér.

Þessi till. hefur haft góð áhrif á vitamálaskrifstofuna. Mér hefur verið tjáð þaðan, að þar sé nú unnið af krafti að frumskýrslu um málið, þar sem dregnar verða fram þær staðreyndir, sem fyrir hendi eru. Síðan er víst ætlunin að gera lauslega kostnaðaráætlun. Ég vil halda því fram, að þessa frumskýrslu og kostnaðaráætlun hafi verið hægt að gera fyrir mörgum árum, fyrst hægt er að gera þetta nú.

Ég hef svo ekki fleiri orð um þetta mál.