30.11.1971
Sameinað þing: 18. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í D-deild Alþingistíðinda. (4285)

70. mál, erlendir starfsmenn við sendiráð á Íslandi

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 10. landsk. þm. leyft mér að flytja hér á þskj. 76 till. til þál. um fjölda erlendra starfsmanna við sendiráð erlendra ríkja hér á landi.

Þegar utanrrn. birti skýrslu sína um fjölda erlendra starfsmanna við hin ýmsu sendiráð hér í Reykjavík, jafnframt skýrslu yfir fasteignir og lóðir þessara aðila, kom í ljós, að hér var í einstaka tilvikum um mjög mikið og áberandi og óeðlilegt misræmi að ræða milli hinna einstöku sendiráða. Ísland hefur, eins og vitað er, misjafnlega mikil samskipti við hin ýmsu ríki, bæði viðskiptaleg og menningarleg og er því ekki nema eðlilegt, að sendiráð landsins séu misjafnlega umfangsmikil í hinum ýmsu löndum og fer það eftir samskiptum okkar við hvert land fyrir sig. Á sama hátt er það eðlilegt, að sendiráð erlendra ríkja hér á landi séu misjafnlega umfangsmikil og gildir þar um að sjálfsögðu sama regla og um sendiráð okkar erlendis. Það sem hlýtur þó að vekja athygli í umræddri skýrslu utanrrn., er að eitt ríki, þ.e. Sovétríkin, hefur hér mun fleiri erlenda starfsmenn í þjónustu sinni en nokkurt annað ríki og fasteignir þess og lóðir eru áberandi meiri, en annarra ríkja og hvort tveggja mun umfangsmeira en séð verður, að þörf sé fyrir. Samkv. skýrslunni eru erlendir starfsmenn við þetta sendiráð 30 talsins, sem er rúmlega þriðjungur allra erlendra starfsmanna við þau 10 sendiráð, sem hér eru og einum fleiri en sex ríki önnur samanlagt hafa í þjónustu sinni og verður þó ekki séð, að þessi ríki hvert fyrir sig hafi nokkuð minni diplómatísk samskipti við okkur en umrætt ríki. Ef litið er á fasteignir þessa sendiráðs, blasir það sama við. Þar er um að ræða fjórar fasteignir, sem að rúmmáli eru rúmlega 1/4 hluti af rúmmáli allra fasteigna hinna 10 sendiráða, sem hér eru. Svipuð hlutföll eru varðandi flatarmál lóða þessa sendiráðs og hinna sendiráðanna samanlagt.

Þegar þetta er athugað og einnig það, að sennilega er engum hv. þm. kunnugt um nokkur þau samskipti Íslendinga og Sovétríkjanna, sem gefa tilefni til jafn umfangsmikils sendiráðs þeirra hér á landi og raun ber vitni um, er ekki hægt að telja annað en að hér sé um óeðlilegt misræmi að ræða miðað við stærð og umfang annarra sendiráða. Þm. allir vita, að samskiptum okkar við þetta ríki er á þann veg háttað, að um vöruskipti er að ræða. Samningar um þessi viðskipti munu gerðir einu sinni á ári eða annað hvert ár og eru það þá sérstakar sendinefndir af hálfu beggja ríkjanna, sem þessa samninga annast, þó að sendiráðin komi þar að sjálfsögðu að einhverju leyti við sögu. Ekki mun hv. þm. heldur kunnugt um nein umfangs mikil menningartengsl okkar Íslendinga við þetta ríki. Munu hlutfallslega fáir íslenzkir námsmenn stunda nám í Sovétríkjunum og fjölda námsmanna þaðan við háskólann hér er ekki til að dreifa. Þegar allt þetta er athugað, liggur það alveg ljóst fyrir, að um alveg óeðlilegan fjölda starfsmanna er að ræða við þetta sendiráð og finnst flestum óskiljanlegt, hvernig það fólk, sem þar starfar, getur eytt tímanum miðað við venjuleg diplómatísk störf. Það skal tekið fram, að starfsfólk við APN-fréttastofuna, Novosty, er ekki talið með í fjölda starfsfólks þessa sendiráðs. Verður ekki annað sagt, en að þetta tilvik í skýrslu utanrrn. um fjölda erlendra starfsmanna við sendiráðin gefi fullkomna ástæðu til að skora á ríkisstj. að setja einhverjar reglur, sem hamli gegn því, að nokkurt sendiráð geti haft í þjónustu sinni alveg ótakmarkaðan fjölda erlendra starfsmanna eða farið í stórfelld lóða– og fasteignakaup hér á landi langt umfram það, sem séð verður, að nauðsyn beri til. Varla getur talizt óframkvæmanlegt að setja slíkar reglur, sem hlytu í grundvallaratriðum að byggjast á diplómatískum og viðskiptalegum samskiptum okkar við hvert ríki fyrir sig og er að sjálfsögðu ekki til þess ætlazt, að sendiráðinu sé í nokkru þröngur stakkur skorinn í þessum efnum, heldur aðeins, að í framtíðinni verði komið í veg fyrir, að nokkurt sendiráð geti þanið út starfsemi sína með óeðlilegum fjölda erlendra starfsmanna eða fasteigna uppkaupum langt umfram það, sem séð verður, að nauðsyn beri til. Íslenzka þjóðin er ekki mannfleiri en svo, að hún verður að hafa fulla aðgæzlu með því, að á þessu sviði sé allt með eðlilegum hætti, þar sem erlendir starfsmenn sendiráða njóta þeirrar sérstöðu að vera ekki háðir íslenzkum lögum.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að umr. um málið verði frestað og till. verði vísað til hv. utanrmn.