25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í D-deild Alþingistíðinda. (4293)

85. mál, lán til innlendrar skipasmíði

Flm. (Ingvar Jóhannsson):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér liggur fyrir, miðar að því að tryggja, að innlendar skipasmíðastöðvar geti boðið innlendum kaupendum hærri lán, en þeir geta fengið við innflutning skipa erlendis frá. Hæstv. ríkisstj. hefur gefið fyrirheit um, að ríkisábyrgð verði veitt fyrir erlendum lánum allt upp í 80% af kaupverði fiskiskipa og enn fremur lánar Atvinnujöfnunarsjóður út á innflutt skip 5%, þannig að heildarlánafyrirgreiðsla getur orðið 85%. Hins vegar lánar Fiskveiðasjóður til skipa, sem smíðuð eru innanlands 75% og Atvinnujöfnunarsjóður 5% og auk þess hefur sú regla verið í gildi um nokkurra ára skeið, að veitt hefur verið viðbótarlán 10%, sem var aflað af ríkisstj. og upphaflega kom af fjármagni atvinnumálanefndar ríkisins, á meðan hún starfaði, en var síðan tekið inn á framkvæmda— og fjáröflunaráætlun fyrir yfirstandandi ár. Hér er þó um bráðabirgða ráðstöfun að ræða, sem gilda á til ársloka og er ekki ráðgert, að þetta 10% viðbótarlán verði veitt til fiskiskipa, sem um verður samið eftir áramót. Ef þessi lánafyrirgreiðsla fellur niður, án þess að nokkuð komi í staðinn, er samkeppnisaðstaða innlendra skipasmíðastöðva verulega skert og gæti það haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér.

Kosta verður kapps um að fullnýta afkastagetu innlendu skipasmíðastöðvanna. Til þess liggja ýmsar ástæður. Hér er um að ræða atvinnu mörg hundruð iðnaðarmanna og lífsframfæri þúsunda einstaklinga. Í þessari iðngrein hefur mikið fjármagn verið bundið á síðustu árum og það skilar sér ekki aftur nema mikil og góð nýting sé á smíðagetu stöðvanna. Ef fyrirtækin eru verkefnalítil, lendir rekstur þeirra í erfiðleikum og þau eiga erfitt með að standa í skilum með kaupgreiðslur, hvað þá að þau geti veitt launþegum umtalsverðar kjarabætur. Um þetta höfum við allt of mörg dæmi frá undanförnum árum. Ef nægjanlegt lánsfjármagn verður ekki fyrir hendi til að halda áfram uppbyggingu fiskiskipaflotans, er mikil hætta á, að sá skortur leiði til verkefnaleysis hjá innlendum skipasmíðastöðvum með öllum þeim afleiðingum, sem því fylgja.

Afkastageta íslenzkra skipasmíðastöðva í dag er 2.800 brúttó lestir á ári og er hóflega áætlað, að hún aukist í um 4.000 brúttó lestir á ári á næstu þremur árum. Endurnýjunarþörf fiskiskipaflotans er hins vegar talsvert meiri, auk þess sem æskilegt er og nauðsynlegt, að flotinn stækki á hverju ári. Eðlileg endurnýjunar— og aukningarþörf flotans er því nægjanleg til þess, að afkastageta stöðvanna ætti að geta verið fullnýtt á næstu árum. Hinum miklu skuttogarakaupum, sem nú eru áætluð, fylgir hins vegar sú hætta, að verulega dragi úr endurnýjun minni fiskiskipa á næstu árum. Sú hætta stafar m.a. af því, að ýmis útgerðarfyrirtæki kaupa nú skuttogara í stað þess að kaupa minni fiskiskip, eins og þau hafa gert hingað til. Enn fremur er ljóst, að verði ekki gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að afla Fiskveiðasjóði aukins ráðstöfunarfjár, verður sjóðurinn þess algerlega vanmegnugur á næstu árum að lána til skipa, sem smíðuð verða innanlands. Til þess að tryggja vöxt og viðgang innlendra skipasmíða á næstu árum, þarf að gera tvennt, að beina smíði skuttogara inn í landið í eins ríkum mæli og unnt er og útvega þeim lánastofnunum, sem eiga að lána til innlendra skipasmíða, verulega aukið fjármagn, til þess að þær geti fullnægt þeirri miklu lánsfjárþörf, sem fyrirsjáanleg er.

Félag dráttarbrautaeigenda og skipasmíða gerði nýlega könnun á afkastagetu íslenzku skipasmíðastöðvanna og kom þá í ljós, að unnt er að smíða ekki færri en 10 og allt að því 16 skuttogara 46 m langa, en það eru um 400—500 brúttó lesta skip, á næstu þremur árum. Vitað er, að íslenzk útgerðarfyrirtæki hafa falazt eftir kaupum á rúmlega 20 skuttogurum af þessari stærð erlendis, en þó hefur aðeins verið gengið frá samningum um fimm slíka togara og er það í Noregi. Sýnist því vera full ástæða til þess að gera ráðstafanir til þess að beina smíði annarra þessara togara til innlendra skipasmiðastöðva. Verð þeirra er algjörlega samkeppnisfært við það verð, sem norskar skipasmíðastöðvar bjóða, og afhendingartími á fyrstu togurunum yrði ekki lengri, en hjá norskum stöðvum og hægt yrði að afhenda a.m.k.16 togara fyrir árslok 1974, eins og áður sagði.

Flestir eru sammála um, að innlendar skipasmíðastöðvar beri að efla, því að hér er um að ræða lífsnauðsynlega, þjóðhagslega hagkvæma atvinnugrein. Við getum verið minnug þess, að skipaleysi Íslendinga á 13. öld átti drjúgan þátt í því, að þjóðin missti þá sjálfstæði sitt og við ættum því að leggja metnað okkar í að verða sjálfum okkur nógir um skipasmíði og viðhald alls okkar skipastóls, bæði fiskiskipa og kaupskipa. Í valdatíð síðustu ríkisstj. var grettistökum lyft við uppbyggingu skipasmíðaiðnaðarins og nú eru í landinu allmargar allvel búnar skipasmíðastöðvar og dráttarbrautir, sem geta annað að miklum hluta endurnýjun og viðhaldi fiskiskipaflotans. En skipasmíðar eru að mörgu leyti erfið iðngrein og þar hefur ríkt mikil samkeppni á alþjóðamarkaði, sem m.a. hefur orðið til þess að þvinga niður verð og valdið skipasmíðastöðvum um allan heim miklum erfiðleikum. Hafa margar skipasmiðastöðvar erlendis verið reknar með beinum ríkisstyrkjum af þessum sökum. Hér á landi átti þessi iðngrein við mikla erfiðleika að etja á árunum 1966 og síðar vegna litillar eftirspurnar eftir fiskiskipum, sem átti rætur að rekja til almenns samdráttar í sjávarútvegi á þeim árum, en um leið bættist við, að Fiskveiðasjóður var á þeim árum lítt fær um að fjármagna innlendar skipasmíðar svo að nokkru næmi, vegna þess að á þessum árum var sjóðurinn að borga niður erlend lán, sem kaupendur fiskiskipa höfðu fengið, er þeir létu smíða skip erlendis á árunum upp úr 1960, en Fiskveiðasjóður varð að yfirtaka þessi lán og breyta þeim í löng lán.

Þessi saga má ekki endurtaka sig nú, þegar skuttogara bylgjan skellur yfir. Fjármagnsskortur Fiskveiðasjóðs á næstu árum gæti orðið til þess að kippa fótunum algerlega undan þeirri skipasmíði, sem þegar hefur náð að festa hér rætur og þá eru fyrirheit hæstv. ríkisstj. í málefnasamningi hennar um stuðning við innlendar skipasmíðar orðin léttvæg og lítils virði. Ljóst er, að Fiskveiðasjóður þarf a.m.k. um 600 millj. kr. á næsta ári til þess að geta lánað til innlendra skipasmíða eins og lög sjóðsins gera ráð fyrir og þar við bætist sú byrði, sem leggjast mun á sjóðinn vegna skuttogarasmíða erlendis og nemur lauslega áætlað ekki minna en um 200 millj. kr. á næsta ári. Ráðstöfunarfé sjóðsins var á hinn bóginn áætlað á þessu ári um 500 millj. kr., en vegna fyrirhugaðrar lækkunar á vöxtum og lengingar á lánstíma mun ráðstöfunarfé sjóðsins minnka talsvert. Fastatekjur sjóðsins eru aðeins framlag ríkissjóðs, 35 millj. kr. og hluti af útflutningsgjaldi á sjávarafurðum, um 50 millj. kr. á ári. Aðra fasta tekjustofna hefur sjóðurinn ekki.

Það er því augljóst, að ráðstöfunarfé Fiskveiðasjóðs mun hvergi nærri nægja til þess að anna hinni gífurlegu lánsfjárþörf, nema sérstakar ráðstafanir verði gerðar. Þegar á það er jafnframt litið, að frá næstu áramótum mun 10% viðbótarlánafyrirgreiðsla Atvinnujöfnunarsjóðs falla niður, sést, að aðgerða er þörf. Hér er því lagt til að Útflutningslánasjóði verði útvegað aukið fjármagn, til þess að sá sjóður geti annazt þau viðbótarlán, sem upphaflega komu frá atvinnumálanefnd ríkisins. Nauðsynlegt er, að Útflutningslánasjóði verði gert kleift að lána allt að 10% af kostnaðarverði skipanna, til þess að samkeppnisaðstaða innlendu stöðvanna verði betri, en erlendra og heildarlán með íslenzkum skipum verði 90%, eins og ég sagði í upphafi, en heildarlána fyrirgreiðsla vegna innfluttra skipa 85%. Það á að vera stolt íslenzku þjóðarinnar að smíða skip sín sjálf, því að hvar gefur íslenzkur iðnaður meiri möguleika til stóriðju í eigu landsmanna sjálfra en einmitt á sviði skipasmíða? Tryggjum því áframhaldandi uppbyggingu skipasmíðaiðnaðarins.

Ég vil svo að lokum vegna umr. hér áðan um stofnlánin og vexti þeirra, ef ég hef þá ekki misskilið umr., þakka hæstv. viðskrh. þau nýmæli, sem komu fram gagnvart iðnaðinum sérstaklega, um að stofnlán iðnaðarins yrðu samræmd sjávarútveginum hvað snertir vexti og lengd lánstíma. Ég tel, að um réttlætismál sé hér að ræða, enda hafa verið gerðar ályktanir um þetta á undanförnum iðnþingum Íslendinga. En hvernig hæstv. viðskrh. ætlar sér að leysa þetta án skerðingar á útlánagetu er og verður að sjálfsögðu hans mál svo lengi sem hann stendur við stjórnvölinn. Tíminn verður úr að skera, hvernig efndir verða.

Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til fjvn. að lokinni þessari umr.