07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í D-deild Alþingistíðinda. (4302)

103. mál, orlofs- og hvíldartími sjómanna á fiskiskipum

Flm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég ber fram ásamt hv. 1. landsk. þm. till. til þál. á þskj. 122 um orlof–s- og hvíldartíma sjómanna á fiskiskipum undir 500 brúttótonnum.

Það kom fram í umr. í Ed. við frv. til l. um 40 stunda vinnuviku, þingmál 90, að ekki væri vanþörf á því að vinna að því að setja ákvæði um lágmarksvinnutíma sjómanna. En í frv. um 40 stunda vinnuviku er talið upp, til hverra ákvæði þeirra laga skuli ná, en þar eru sjómenn undanskildir í a-lið 1. gr. Svo vill til, að um n.k. áramót eru 50 ár liðin frá því að vökulögin marg umræddu á sínum tíma tóku gildi og þá var það Jón heitinn Baldvinsson í fylkingarbrjósti, sem barði þau fram hér til sigurs á hv. Alþ. Það er viðurkennt, að vinnutími sjómanna er langur og mun sennilega verða langur þrátt fyrir aukna tækni, en engu að síður er það nauðsynlegt og eðlilegt, að vandamálið í heild sé tekið til meðferðar og reynt að finna lausn á því.

Í samningum milli sjómanna og útvegsmanna eru nokkur ákvæði, sem skera úr um lágmarks hvíldartíma og er hann tryggður minnst sex tímar á sólarhring, og er það búið að vera undanfarin ár. Engu að síður kemur oft fyrir, að nauðsynlegt er að vinna jafnvel lengur og þegar áhöfn er aðeins 6–10 menn, eins og stundum er á togskipum, er úr vöndu að ráða. Samt sem áður held ég, að hver skipstjóri leitist við að fullnægja þessu ákvæði eins og framast er unnt. Það mun þó vera reynsla, að yfirleitt sé l2 tíma samfelldur vinnutími algerlega það, sem stílað er á. Þegar togbátar hafa verið að veiðum ákveðinn tíma, þá á skipverji frí, þegar í löndunarhöfn kemur og er það mikið og eðlilegt sanngirnismál. Samt sem áður þarf að setja um þetta nánari ákvæði og taka málið allt til meðferðar, eins og ég sagði áðan.

Orlofsfé sjómanna hefur um margra ára skeið yfirleitt alltaf verið borgað með launum. Það er mikið vandamál að koma því svo fyrir, að þeir geti tekið sér frí, vegna þess að aðeins er um 4.500 sjómenn að ræða í landinu að jafnaði og jafnan er svo tæpt mannað, að varla er hægt að veita stórum hóp frí, öðruvísi en að skip stöðvist. Það er þó ekki ætlun manna að koma því þannig fyrir, að framleiðslan þurfi að stöðvast, heldur að tryggja það, að með eðlilegri hvíld, geti eðlileg starfsemi, haldið áfram.

Síldarútvegsmenn tóku upp á því fyrir nokkrum árum að hafa skipshöfn báta sinna það rúma, að hægt væri að veita stundum tveimur og jafnvel þremur mönnum frí, án þess að skip stöðvaðist. Nú hefur verið mjög breytt til í síldarútveginum og nýtt útgerðar fyrirkomulag átt sér stað, sem eru síldveiðar í Norðursjó. Til þess að gera þá fjarvist síður óbærilega var tekið upp það ákvæði í samninga að veita a.m.k.10 daga frí eftir að skip kæmi heim, ef útivist hefur náð ákveðnu tímabili, þremur mánuðum eða útvegsmaður legði fram 10 þús. kr. í ferðakostnað til þess að gera viðkomandi skipsmanni mögulegt að koma heim og vera í orlofi um tíma. Á sumrin hefur jafnan reynzt gott að manna skip, a.m.k. stærri skipin og ekki verið vandræði að fram fylgja þessu ákvæði og hafa skip í gangi, þótt um orlof væri að ræða. Hins vegar verður það nokkru erfiðara á vissum stærðum bátaflotans, sérstaklega á vetrarvertíð. Það er undirstrikað í þáltill., að hér sé um viðkvæmt vandamál að ræða, en það verður að vinna vel að því og þess vegna berum við þessa till. fram, en ályktunin er þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nú þegar sjö manna nefnd til þess að semja frv. um hvíldartíma og fyrirkomulag orlofs sjómanna á fiskiskipum undir 500 brúttótonnum.“

Því er treyst, að í sambandi við lagasetningu um 40 stunda vinnuviku og frv. til l. um orlof, sem örugglega verður að lögum og tekur gildi um áramótin, sé hljómgrunnur fyrir því að taka þetta mál einnig til meðferðar, þótt erfitt sé. Sjómenn verða að eiga eðlilega hvíld eins og aðrir. Þetta mál er í senn sanngirnismál, öryggismál, aðbúnaðarmál og heilbrigðismál sjómannastéttarinnar og síðast en ekki sízt mikið fjölskyldumál. Einnig þarf að hugleiða það, að sjómenn geti notið hvíldar, þegar þeir koma í höfn og þó að ekki sé minnzt á það sérstaklega hér, þá er mér efst í huga, að bæta þarf víða aðbúnað sjómanna á sjómannaheimilum. Ég minnist þess mæta vel hversu okkur þótti gott á sínum tíma, sem vorum á síldveiðum, að koma í sjómannaheimilið á Siglufirði, þegar það var og hét. Víða erlendis eru mjög góð sjómannaheimili, sem gefa mönnum tækifæri til þess að njóta hvíldar á eðlilegan og góðan hátt. Því miður er starfsemin hér á Íslandi ekki nógu öflug í þessu skyni.

Herra forseti. Að svo mæltu legg ég til, að, að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til allshn. og seinni umr.