16.12.1971
Neðri deild: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

134. mál, leigumálar og söluverð lóða og landa Reykjavíkurkaupstaðar

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta mál er algjört samkomulagsmál. Það er alveg sama eðlis og frv., sem lagt var hér fram, snertandi önnur sveitarfélög á s.l. hausti og er nú orðið að lögum. Frv. er flutt að ósk Reykjavíkurborgar, og felst efni frv. í upphafi 1. gr., þar sem segir, að ársleiga eftir lóðir, sem leigðar eru til íbúðarhúsabygginga til 75 ára, skuli ákveðin samkv. reglugerð.

Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið á landinu, sem hefur þessar lóðaleigur bundnar í lögum, og hefur þessari upphæð ekki verið hreyft nú um mjög langt árabil, vegna þess að þetta hefur verið lögbundið. Breytingin er í því fólgin, að nú verði þessi leiga, að því er þessa lóðaleigu snertir, ákveðin með reglugerð, sem ráðh. staðfesti. Ég tel, að það sé sjálfsagt að gera þessa breytingu til þess að jafna nokkuð aðstöðu Reykjavíkurborgar til þess að ákveða þessar lóðaleigur, eftir því sem verðlag breytist, en svo mikið er víst, að ef málið næði ekki fram að ganga fyrir áramót, þá mundu lóðaleigurnar, sem hér heyra undir, margfaldast vegna hins nýja fasteignamats, sem gengur í gildi um áramótin. Ég legg til, að málið fái skjóta afgreiðslu og verði skoðað í heilbr.- og félmn.