22.02.1972
Sameinað þing: 40. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í D-deild Alþingistíðinda. (4325)

130. mál, gjaldskrá Landsímans

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í grg. þessarar þáltill. og nú í framsögu, ríkir allmikill ójöfnuður meðal landsmanna í þessu efni. Landinu er skipt í níu gjaldsvæði með mismunandi gjaldskrár og mismunandi reglur gilda innan hvers svæðis fyrir sig. Sú spurning brennur því víða á vörum manna, hvort ekki sé unnt að jafna þetta að nokkru. Vel má vera, að það sé örðugt viðfangsefni og þurfi þar margs að gæta, en eigi að síður er þessi spurning vakandi víða um landið. M.a. tók sveitarstjórn Neshrepps utan Ennis þetta efni til meðferðar á s.l. ári og gerði um það ítarlega ályktun, sem send var þm. kjördæmisins o. fl.

Sveitarstjórnin bendir á það í fyrsta lagi, að eðlilegt væri, að sjálfvirka símkerfið á Vesturlandi væri allt eitt gjaldsvæði þannig að gjöld milli staða fyrir símtöl innan þessa svæðis væru ekki reiknuð nema eitt skref án tímaákvörðunar. En ef þetta teldist ekki unnt, þá a.m.k. gilti sama regla milli kauptúnanna, verstöðvanna á Snæfellsnesi, Hellissands og Ólafsvíkur, Grundarfjarðar og Stykkishólms, sem þurfa æði margt saman að ræða og hafa mörg sameiginleg mál til meðferðar. Í þessu erindi benti sveitarstjórnin m.a. á, að notendur síma á Reykjavíkursvæði geta talað við eða haft símasamband við yfir 50% þjóðarinnar fyrir eitt reikningsskref og þar á meðal marga, sem mikið þarf við að ræða um öll möguleg málefni. En símanotandi á Vesturlandi getur aðeins notað sinn talsíma fyrir ákveðið gjald innan þess sveitarfélags, sem hann býr í. Fleiri rök voru talin upp í þessari ályktun og margt má um þetta segja. Ég ætla ekki að orðlengja þetta, aðeins taka undir þessa till., um að reynt verði að auka jöfnuð meðal landsmanna á þessu sviði, ef það telst fært — og víst er það fært — og benda á, að hér er um ærið stórt viðfangsefni að ræða til athugunar fyrir þá, sem þessum málum ráða.