22.02.1972
Sameinað þing: 40. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í D-deild Alþingistíðinda. (4326)

130. mál, gjaldskrá Landsímans

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Í sjálfu sér hef ég ákaflega litlu við það að bæta, sem hv. frsm. og 1. flm. þessa máls sagði hér áðan, en ég er, eins og sést á þskj., einn af meðflm. að þessari till. og sammála gersamlega báðum þeim hv. þm., sem hafa látið í ljós skoðanir sínar í sambandi við endurskoðun á gjaldskrá Landssímans.

Ég held, að það fari engan veginn á milli mála, að þess hefur ekki verið nægilega gætt á undanförnum árum að jafna þann mikla aðstöðumun, sem er á milli strjálbýlis og þéttbýlis og að sumu leyti er það kannske eðlilegt, því að á þessum árum hefur orðið mjög mikil breyting á starfsemi Landssímans og mér er kunnugt um það, að núverandi Póst- og símamálastjóri hefur talið, að hér væri um eðlilega breytingu að ræða, sem væri í undirbúningi. En frá því að ég skrifaði á þessa till. um endurskoðun á gjaldskrá Landssímans, þá finnst mér hafa breytzt töluvert ástæður Landssímans og þó alveg sérstaklega í sambandi við þær yfirlýsingar, sem fram komu við afgreiðslu fjárlaga rétt fyrir jólin, þegar lýst var yfir, að Landssíminn sjálfur ætti að greiða af rekstri sínum söluskatt eða af öllum tekjum sínum og tekjur af söluskatti væru áætlaðar 90 millj. kr., jafnframt því að upphafleg áætlun Landssímans var ekki leiðrétt í meðförum Alþ. frá því að hún var lögð fram snemma á s.l. vori. Allt bendir þetta til þess, að erfiðara verði að mæta nýjum og sanngjörnum óskum, ef það á að þrengja á þann hátt kosti þessarar stóru og viðamiklu stofnunar, að hún verði að draga mjög verulega úr framkvæmdum og þá á þeim stöðum, sem lengst hafa beðið.

Ég vil segja fyrir mitt leyti, að þó að ég sé innilega stuðningsmaður þessarar endurskoðunar, þá er ég ekki svo mikill stuðningsmaður hennar, að ég vilji, að Landssíminn kippi eiginlega að sér hendinni um að koma upp sjálfvirku símakerfi á þeim stað eða þeim landshluta, sem enn þá er að verulegu leyti eftir og þá á ég við Austfirði, til þess að létta á okkur hinum, sem erum búnir að fá þessi þægindi. En það lágu hér fyrir yfirlýsingar í vetur um það, að þetta yrði ekki á þann veg, að kostir þessarar stóru stofnunar yrðu þrengdir, heldur væru hér gerðar mjög víða miklar breytingar í sambandi við rekstur hennar og því langar mig mjög til þess nú þegar, ef kostur er á, að vita í meginatriðum, í hverju þær breytingar eru fólgnar. Ég vona, að það hafi komið í ljós, að gera megi það miklar breytingar á, að ekki þurfi að draga úr þeirri stefnu, sem mörkuð var fyrir allmörgum árum í sambandi við rekstur Landssímans og þá einnig um leið að þurfa ekki að þrengja svo rekstur hans, að jafn sjálfsögð, skynsamleg og nauðsynleg endurskoðun og þessi till. gerir ráð fyrir, að gerð verði, geti ekki orðið sem allra fyrst að veruleika.