22.02.1972
Sameinað þing: 40. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í D-deild Alþingistíðinda. (4330)

130. mál, gjaldskrá Landsímans

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að mér finnst ekkert óeðlilegt, að starfsaðstaða stofnunarinnar, Landssímastofnunarinnar, sé rædd um leið og þessi till. er hér til meðferðar á hinu háa Alþingi. Það er staðreynd, að söluskatturinn á símaþjónustuna er ný skattlagning fyrir ríkissjóð, sem ekki hefur átt sér stað áður. Okkur er kunnugt um það, að sjálfvirki síminn hefur verið byggður upp úti um landið á ótrúlega skömmum tíma, svo kostnaðarsamur sem hann er. Og þegar einnig er tekið tillit til þess, að þetta hefur verið gert með tekjum stofnunarinnar einum saman, aðeins tekin stutt lán í sumum tilfellum í sambandi við kaup á tækjum eða vélasamstæðum, þá má eiginlega segja, að það hafi verið mjög hagstætt og vel á haldið með uppbyggingu á sjálfvirka símakerfinu að hafa getað látið þetta koma til framkvæmda á jafnskömmum tíma og raun ber vitni um.

Það er orðið mikið rætt meðal landsmanna víða úti um land, að nauðsynlegt sé að koma á leiðréttingu í sambandi við gjaldskrána. Og það liggur fyrir, að það er ekkert tæknilegt vandamál í sambandi við það að koma þessari leiðréttingu á, vegna þess að það liggur fyrir, að hinn almenni símanotandi úti á landi greiðir tiltölulega miklu meira bara fyrir almenna notkun en sá, sem er í þéttbýlinu. Og þessa leiðréttingu verður að gera. Það þarf ekki að bíða eftir neinu tæknilegu í sambandi við það, að hægt sé að koma því öllu undir eitt og sama gjald. Það er óþarfi að bíða eftir því. Það kann vel að vera og er sjálfsagt rétt hjá hinum lærðu tæknimönnum, að þar sé við ýmis vandamál að eiga, sem ekki séu svo auðveld og kosti mikla peninga. En þá á að gera það, sem er ódýrara í þessu tilfelli og koma á sjálfsagðri leiðréttingu í þessum efnum, sem liggur nú fyrir, eftir að hinn sjálfvirki landssími hefur verið starfræktur í þetta mörg ár. Það var eðlilegt, að það tæki nokkurn tíma að fá heildaryfirlit og gera sér grein fyrir, hver mismunurinn væri í sambandi við þessi gjöld fyrir einstaka notendur. Það hlaut að taka nokkurn tíma að fá þá reynslu. Þetta var í upphafi óþekkt, en þetta liggur fyrir í dag. Það er næg reynsla fyrir hendi til þess, að hægt sé að koma á þessari leiðréttingu.

Eins og hv. 1. þm. Sunnl. gat hér réttilega um áðan í sambandi við talrásirnar, sem er nauðsynlegt að fjölga, hefur þar verið gerð til bráðabirgða sú breyting, sem kemur að miklu gagni til þess að færa notkunina yfir lengra tímabil á sólarhringnum, að lækka um helming nætursímtöl, sem eiga sér stað. Það er enginn vafi á því, að hægt er að fresta um nokkurn tíma að auka talrásir víða , þar sem álagið er mest, einmitt með þessu fyrirkomulagi. Og það er út af fyrir sig gott.

Í sambandi við söluskattinn, sem er, eins og ég sagði áðan, alveg ný skattheimta í þessu landi, að taka söluskatt af símaþjónustunni fyrir ríkissjóð, þá vék nú hæstv. símamálaráðherra eða samgrh. að því áðan í ræðu sinni hér, sem gefur nokkra hugmynd um hvað í vændum er í þessum efnum, að það eigi að bæta símanum upp þetta söluskattsálag með því að hækka gjaldstigana á neytendur. Okkur, sem fylgzt höfum með því, er fjárlög hafa verið afgreidd á hverju ári, hefur verið það ljóst, að Landssíminn hefur sífellt farið fram á það að fá að hækka gjaldskrá sína meira, en hann hefur fengið. Þessu hefur verið haldið niðri. Og nú er komið þarna nýtt álag á Landssímann. Til þess að bæta honum það upp, þá er hugsanlegt, segir hæstv. símamálaráðherra, að leiðrétta það í gjaldskránni með því móti að hækka þjónustuna. Ég er ekki viss um, að það verði allir ánægðir með slíka leiðréttingu í þessum málum. Og hann sagði, sem er alveg rétt, hæstv. ráðh., að það væri full ástæða til þess, að þeir væru óánægðastir, sem enn þá búa við þá aðstöðu að hafa ekki aðgang að neinum sjálfvirkum síma. En það mátti hæstv. ríkisstj. vera fullkomlega ljóst, að það flýtti ekki fyrir því, að hægt væri að ljúka lagningu sjálfvirks síma um allt landið að leggja söluskattinn á þessa stofnun og draga þannig úr þeim möguleika til tekjuöflunar til uppbyggingar á sjálfvirka símanum, sem það óhjákvæmilega hefur í för með sér. Allt það, sem kemur til með að auka álag á gjaldskrána, minnkar möguleikana fyrir Landssímann sjálfan til þess að afla sér tekna til þess að byggja upp þessa nauðsynlegu þjónustu í landinu.

Ég vil að lokum segja það, að ég skora á hæstv. símamálaráðherra að beita sér sem allra fyrst fyrir því að koma á þeirri leiðréttingu í sambandi við gjaldskrána, sem nauðsynleg er og það verður auðveldast að gera með því, eins og fleiri hv. ræðumenn aðrir hafa komið inn á, að símanotendur úti á landi fái fleiri skref eða viðtalsbil fyrir sitt ársfjórðungs— eða stofngjald.