17.02.1972
Sameinað þing: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í D-deild Alþingistíðinda. (4335)

144. mál, iðnskólar

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef flutt hér á þskj. 265 þáltill. ásamt Sigurði Magnússym, en Sigurður er nú horfinn af þingi og flyt ég málið í hans stað. Ályktunin hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fara fram endurskoðun á lögum um iðnfræðslu, þar sem m.a. verði við það miðað, að iðnskólarnir verði reknir af ríkinu einu.“

Nú kynnu menn að spyrja, hvort ekki séu nú þegar fyrir hendi nægilega góð lög um iðnfræðslu og hvers vegna þurfi nú að hvetja ríkisstj. til að taka öll þessi mál til athugunar og endurskoðunar. Því er til að svara, að lögin eru sjálf að mörgu leyti allgóð, en hins vegar er ljóst hverjum þeim, sem nálægt þessum málum hefur komið, að þau eru ekki jafn beysin í framkvæmd, auk þess sem álit iðnmenntunar og framkvæmd hennar hefur verið með þeim hætti, að ekki er annað sýnilegt en að verkmenntun hafi verið eins konar annars flokks nám í íslenzku þjóðfélagi. Það birtist m.a. í því, að á sama tíma og gífurleg þensla hefur orðið í öðrum þáttum skólakerfisins með stórauknum fjárveitingum, þá hafa iðnskólar borið mjög skarðan hlut frá borði. Hlutur iðnfræðslunnar hefur verið svo smár, að útilokað er að hefja verkmennt þjóðarinnar til nokkurs vegs með honum og er tími til kominn, að nýtt og betra gildismat verði lagt á þennan hluta menntunar þjóðarinnar og það sýnt í verki. Það var þess vegna mínum gömlu augum gleðisýn eitt sinn, er ég las kvöldlesturinn minn á málefnasamningi hæstv. ríkisstj., þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Iðnnám og tæknimenntun þarf að endurskipuleggja frá rótum, allt frá almennri iðnfræðslu til stofnunar tækniháskóla.“

Samkv. þessu virðist vor í lofti. Vonandi verða þetta ekki aðeins fögur orð á fríðu plaggi, heldur og birtist í framkvæmdum við hæfi. Benda má á, að auk þessa hefur skilningur farið vaxandi á síðustu árum á gildi þessara mála, eins og kemur reyndar fram í lögunum frá 1966, en í þeim er stungið upp á að færa námið í vaxandi mæli inn í iðnskólana sjálfa og með því gerð atlaga að hinu gamla meistarakerfi, sem er fyrir löngu orðið úrelt. Þrátt fyrir þessi lög, 6 ára gömul þar sem gert er ráð fyrir verknámi í iðnskólunum sjálfum, hefur lítið miðað í áttina vegna fjárskorts og ýmissa annarra hluta. En það er skylt að geta þeirrar góðu stefnubreytingar, sem virðist koma fram í stórhækkun til iðnskóla á núgildandi fjárlögum.

Menntmrn. skipaði nefnd árið 1970 til að kanna stöðu tæknimenntunar innan skólakerfisins og ekki sízt tengsl hinna ýmsu fræðslustiga og endurbætur í þeim efnum. Þar komu ýmsir mætir menn við sögu, m.a. yfirmaður skólarannsókna, skólastjóri Tækniskóla Íslands o.fl. Þessi nefnd skilaði mjög ítarlegu áliti í fyrra, í júní minnir mig og mig langaði að lesa örstuttan kafla úr þessu áliti, þar sem fjallað er almennt um iðnfræðslu, þó að freistandi væri að taka einnig til meðferðar hin slæmu tengsl, sem eru á milli skólastiga, einkum hvað snertir námsskrá, réttindi til framhaldsnáms, ólíkar námsbrautir og síðast en ekki sízt einangrun skóla á sambærilegu skólastigi og ýmislegt fleira, en til þess er varla tóm á þessu stigi og naumast ástæða til þess að ræða það mjög náið í sambandi við þessa þáltill. Áður nefndur kafla hluti úr álitinu er í höfuðatriðum svo hljóðandi, með leyfi forseta:

Almenn iðnfræðsla. Iðnnám með verkskólasniði, þar sem væri bæði bókleg og verkleg menntun, er veitt væri af iðnskólunum sjálfum, leysi iðnnám með meistarafræðslusniði af hólmi samkv. sérstakri framkvæmdaáætlun, er verði að mestu komin til framkvæmda árið 1976. Iðnnám með verkskólasniði verði að heildar námstíma um það bil ári styttra en fjögurra ára iðnnám með meistarafræðslusniði og verði námstíminn skipulagður sem níu mánuðir á ári í skóla, þar sem bókleg og verkleg, þjálfun verði um það bil jafnvæg að viðbættum a.m.k. tveimur mánuðum árlega, sem verði varið til starfs og reynslu í atvinnulífi í viðeigandi iðngrein. Heildar námstími til sveinsprófs samkv. hinu nýja kerfi verði því að jafnaði um 33 mánuðir, þ.e. þrír 11 mánaða áfangar, sem skiptast niður svo sem nánar er greint í ályktuninni. En námstími einstakra iðngreina verði ákvarðaður nánar, þegar námsskrá hefur verið fullgerð eftir nýja kerfinu.

Inntökuskilyrði í iðnnám verði þau, að fram til ársins 1976 verði krafizt miðskólaprófs með ýmsum einkunnakröfum, en frá og með árinu 1976 verði krafizt gagnfræðaprófs eða grunnskólaprófs af umsækjendum til að öðlast meistararéttindi í iðngreininni. Skulu iðnsveinar stunda eins árs framhaldsnám við meistaraskóla og afla sér a.m.k. árs starfsreynslu í iðninni eftir sveinspróf.

Loks leggur nefndin til að iðnskólar verði með nýrri lagasetningu gerðir að hreinum ríkisskólum, eins og nálega allir aðrir tæknilegir yrkisskólar á Íslandi eru nú þegar orðnir og ég endurtek, eins og nálega allir tæknilegir yrkisskólar á Íslandi eru nú þegar orðnir.

Í þessari síðustu mgr. kemur einmitt fram annað þeirra höfuðatriða, sem þáltill. fjallar um, þ.e. að iðnskólarnir verði reknir af ríkinu einu. Ýmis mikilvæg rök hníga að því, að slíkt fyrirkomulag verði tekið upp. (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm., hvort langt sé eftir af ræðunni.) Það er örstutt eftir.

Já, ég var kominn að þeim rökum, sem hníga að því, að skólarnir verði reknir af ríkinu einu. Þau eru þessi m.a. að í lögum um iðnfræðslu nr. 68 frá 1966 er kveðið svo á, að ráðh. skuli sjá um, að verknámsskólar einbeiti sér að kennslu í tilteknum iðngreinum og skipti með sér verkum eftir því, sem við verði komið. Af því leiðir að sjálfsögðu, að nemendur í ýmsum iðngreinum þurfa að sækja skóla utan síns byggðarlags í þeim tilvikum, að þeirra iðngrein er ekki kennd verklega í kjördæmisskóla þeirra. En í sömu lögum er gert ráð fyrir, að iðnskólar skuli vera einn í hverju kjördæmi landsins. Með því yrðu nemendur í einum kjördæmisskóla að svo eða svo miklu leyti úr öðrum sveitarfélögum en því, sem skólinn er starfræktur í og þar af leiðandi ósanngjarnt, að hlutaðeigandi sveitarfélag greiði helming rekstrarkostnaðar. Af þessu einu mætti vera augljóst, að þegar hin nýja skipan hefur komizt á, hljóti kostnaður allra hluta vegna að leggjast á ríkisins herðar. Auk þess mætti nefna, að reynslan hefur sýnt, að ýmis sveitar— og bæjarfélög hafa ekki getað komið sér saman um staðsetningu iðnskólanna né rekstur og hefur þetta atriði staðið framkvæmdum við stöku iðnskóla fyrir þrifum. Þar á ofan má þess geta, að slæmur fjárhagur einstakra sveitarfélaga verður trúlega með stóraukinni fjárþörf iðnskóla dragbitur á, að hin nýja skipan geti komizt á, ef sveitarfélögin eiga að bera kostnaðinn áfram. Eins og sagði í áðurnefndu nál., sem ég las upp hér áðan, eru nálega allir sérskólar í landinu reknir fyrir ríkisfé og má furðulegt telja, ef iðnskólarnir hljóta ekki að verða settir í sama bát og þeir í sambandi við greiðslu kostnaðar.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta mál meira að sinni og ekki tala meira um það nema sérstakt tilefni gefist til. En ég vil þá segja að lokum, að meðan endurskoðun hefur ekki farið fram á lögum um iðnfræðslu, verði að kosta kapps um, að farið sé eftir gildandi lögum í þessum efnum í hvívetna, eftir því sem frekast er kostur og auk þess gerð könnun á því, í hverju lagi iðnfræðslan er í raun og veru í landinu. Þegar breytingar hafa verið gerðar, ef af því verður, þá verði einnig lögð áherzla á, að lögin verði ekki pappírsgagn eitt, heldur unnið markvisst og skipulega í . áföngum að farsælli lausn þessara mála, svo að verkmenntun og tækni verði við hæfi þess nútímaþjóðfélags, sem við lifum í.

Ég leyfi mér að leggja til að, að loknum þessum umr. verði málinu frestað og till. vísað til hv. allshn.