17.03.1972
Sameinað þing: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í D-deild Alþingistíðinda. (4368)

176. mál, rannsóknardeild vegna sölu og neyslu fíkniefna

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það hljóta að sjálfsögðu allir góðir menn að vera því sammála, að það eigi að vinna gegn útbreiðslu og neyzlu fíkniefna. En spurningin er, hvaða aðferðir þar eru vænlegastar til árangurs. Þar getur verið nokkur vandi að velja og hafna. Sannleikurinn er nú sá. Það er auðvitað svo, að menn eru sammála um, að það þurfi að veita fræðslu um þessi efni og að auka eigi fræðslu um þessi efni. En það er ekki sama, hvernig sú fræðsla er í té látin. Ég held, að sú fræðsla gæti verið þannig í té látin, að hún gerði meiri skaða heldur en gagn. Ég held, að það sé ekki rétt að reka fræðslu um þessi efni með neinum hávaða eða auglýsingabrag, t.d. í fjölmiðlum. Ég held þvert á móti, eins og hv. flm. sagði hér áðan, að sú fræðsla, sem látin er í té um þessi efni, þurfi að vera skipuleg og óhlutdræg, sem þannig er innt af hendi í skólum og það þurfi mjög til hennar að vanda.

Auðvitað eru allir sammála um, að það þurfi að heita tollgæzlu og löggæzlu til hins ýtrasta í þessu efni. En það getur hins vegar verið spurning um það, hversu réttmætt og heppilegt sé að beita ströngum refsingum í þessu sambandi. Og þá á ég ekki við þá, sem annast sölu og dreifingu, heldur hina, sem neyta, eins og löggjöfinni er háttað nú hér hjá okkur.

Vissulega er þetta heilbrigðismál mikið, en jafnvel á því sviði getur vandinn kannske verið nokkur, því að það er víst svo um sum þessi efni, sem geta orðið fíkniefni og ávanalyf, að það getur verið mjótt á milli, þannig að sum þeirra eru notuð sem læknislyf og þarna verður líka dálítið vandratað. Þess vegna er þetta ekki eins einfalt mál og við fljótlega sýn gæti virzt. Það er margs að gæta. Þess vegna held ég, að það sé engum til góðs, að talað sé um þessi mál með miklum fullyrðingum.

Ég held, að það sé rétt, sem hv. flm. sagði, þegar hann var að lýsa því, hvernig ástandið væri hér í þessum efnum, að allar tölur um það, hve margir neytendur séu hér, séu óábyggilegar. Og af hverju? Af því að það liggur ekki fyrir um þetta nein viðhlítandi rannsókn. Þess vegna held ég, að það sé óvarlegt að vera að fara með of miklar fullyrðingar í þessu sambandi. Ég held, að það sé fullyrðing, sem kannske stenzt, en kannske stenzt ekki, að það séu 2.000 ungmenni hér á landi háð þessu að einhverju leyti. Ég held, að það liggi ekki fyrir nein sú sönnun í þessum efnum, að réttlætanlegt sé að vera að kasta á milli sín tölum sem þessum og stimpla þannig að nokkru leyti svo stóran hóp ungmenna sem hér er gert með þessum hætti. En ég tók svo eftir,—það hefur kannske verið misheyrn, — að hv. flm. segði, að rannsóknir sýndu það, að hér væru 2.000 ungmenni, sem þannig væri ástatt um. En mér er spurn, hvaða rannsóknir? Hverjar eru þær rannsóknir? Hver hefur framkvæmt rannsóknir? Hvar er þær rannsóknir að finna? Á þetta vildi ég nú benda, þó að það væri út af fyrir sig ekki ástæðan til þess, að ég stóð upp og þó vil ég bæta því við, að mér hefur fundizt, að það, sem hefur verið talað um þetta t.d. í fjölmiðlum. hafi verið með dálitlum auglýsingablæ, of miklum a.m.k. eftir mínum smekk.

En ástæðan til þess, að ég stóð upp, var fyrst og fremst sú, að það eru viss ummæli í grg. með þessari þáltill., sem mér finnst að geti gefið tilefni til misskilnings og ég vil koma á framfæri nokkrum ábendingum um. En þó er kannske rétt aðeins að bæta við þetta, sem ég sagði um fullyrðingarnar. Mér finnst býsna margir vera nokkuð fullyrðinga gjarnir í þessu sambandi. Og í grg. þarna stendur: Fullyrt er, að nú þegar sé fíkniefnum smyglað og dreift inn í landið með skipulegum hætti. Ja, það má náttúrlega fullyrða allt. En hvaða stoð er fyrir þessu? Og ef menn hafa stoð fyrir þessu, þá er það vissulega skylda þeirra, sem slíkt vita eða telja sig sitja inni með vitneskju um það, að snúa sér til réttra aðila með þá vitneskju og gefa þeim upplýsingar um hana. Ég held, að ég muni það rétt, að ég hafi séð eða heyrt hv. flm. halda því fram í sjónvarpi á sínum tíma, að það væri rökstuddur grunur um, að hér væri starfandi fastur dreifingaraðili í landinu. Ef það er svo, þá er það skylda hvers manns, sem hefur slíkan rökstuddan grun, að snúa sér til réttra yfirvalda og skýra þeim frá því, því að hér er um alvarlegt mál að ræða, svo alvarlegt mál, að menn ættu ekki að temja sér of miklar fullyrðingar um það, án þess að geta staðið við þær. En í grg. með þessari till. stendur svo, með leyfi forseta:

„Á s.l. ári var settur á fót vísir að skipulögðu lög— og tollgæzlu starfi, þar sem til voru fengnir þrír menn, einn frá tollgæzlunni á Keflavíkurflugvelli, einn frá tollgæzlustjóra og einn frá lögreglunni í Reykjavík og unnu þeir gott starf í söfnun upplýsinga um dreifingu og neyzlu fíkniefna í Reykjavik og nágrenni.

Sú rannsókn staðfesti, svo að ekki verður um villzt, að grípa þarf til skipulagðra og stóraukinna aðgerða á þessu sviði og væri mjög miður, ef það starf og sá árangur, sem þegar hefur náðst, yrði ekki nýttur til hins ýtrasta.“

Mér virðist í þessu felast það, að gefið sé í skyn, að það sé horfið frá eða hafi verið horfið frá þeim vísi að rannsóknum. sem settur var upp á s.l. ári, en það er ekki, það er misskilningur. Þessi mál eru margþætt og þau eru þannig í eðli sínu, að þau heyra undir fjögur rn. Þau heyra undir dómsmál, dómsmrn., þau heyra undir heilbrigðismál, undir heilbrmrn., þau eru tilheyrandi tollgæzlu og heyra því undir fjmrn. og þau eru auðvitað fræðslumál og heyra því undir menntmrn. Það eru þannig fjögur rn., sem þessi mál heyra undir, og það var einmitt með þetta sjónarmið í huga, að settur var á fót þessi samstarfshópur á sínum tíma með óformlegum hætti og hann starfaði að þessu máli og starfaði vel og það er allt rétt, sem um það er sagt. En það er hins vegar alls ekki svo, að þessi starfsemi hafi verið niður lögð. En það kom upp innan þessa samstarfshóps ágreiningur um það, hvernig ætti að halda þessu starfi áfram. Einn af þessum mönnum, — það bættust reyndar fleiri í hópinn seinna, í þennan samstarfshóp, — deildarstjóri á Keflavíkurflugvelli, Kristján Pétursson, hélt því fram, að heppilegasta aðferðin væri að setja upp sérstaka deild, sem fengist við þessi málefni. Hinir töldu aftur á móti, að heppilegast væri að vinna að þessum málum á þann hátt, að þau væru eftir sem áður þáttur í þeim rn., sem færu með þessi mál, en hins vegar væri sett á fót formleg samstarfsnefnd þessara rn., þannig að tryggt væri, að það væri einn aðili, sem fylgdist með þessu öllu og vissi, hvað hvert rn. fyrir sig gerði og ynni að þessu sameiginlega.

Ég hef hlustað á þessa aðila og tekið á móti skýrslum og tillögum frá þeim og ég veit það, að deildarstjóri tollgæzlunnar á Keflavíkurvelli hefur unnið mjög gott starf og ekki nema allt gott um það að segja. En ég verð að segja það, að miðað við þau rök og þær upplýsingar, sem fyrir mig voru lögð, þá féllst ég á þá skoðun, að heppilegra væri að hafa þann hátt á, að þetta væri undir rn., það væri ekki ástæða til þess að fara að setja upp sérstaka stofnun utan við þau og þeim óháða. Það væri ekkert líklegra til áhrifaríks árangurs og mundi auk þess hafa kostnaðarauka í för með sér. Þess vegna féllst ég á það og önnur þau rn., sem þessi mál heyra undir, að sett yrði upp alveg formleg samstarfsnefnd, sem ætti að vinna að þessum málum og það hefur verið gert. Í henni er fulltrúi frá dómsmrn., sem er formaður nefndarinnar, fulltrúi frá menntmrn., fulltrúi frá heilbrmrn. og fulltrúi frá fjmrn., sem er tollgæzlustjórinn sjálfur. En Kristján Pétursson kaus ekki að starfa í þessari nefnd áfram. Það má því ekki skilja þessi ummæli í grg. á þann veg, að horfið hafi verið frá þessu og lögð niður sú starfsemi, sem þarna var komin á fót. Þvert á móti er henni haldið áfram og það er unnið að þessu með skipulögðum hætti. En þetta er að sjálfsögðu svo mikið alvörumál að það er ágætt, að menn skoði það og velti því fyrir sér á alla lund, og sízt hef ég á móti því.

Ég er að sjálfsögðu sammála því, sem hv. flm. benti á um þau úrræði, sem hér kæmu til álita í þessu sambandi. Ég get alveg fallizt á það, að auðvitað þarf að koma í veg fyrir smygl eftir því sem unnt er og það held ég að sé nú gert og unnið að því nokkuð með skipulegum hætti og samband haft við þá aðila, sem með þessi mál fara í öðrum löndum og að upplýsingamiðlun þar á milli sé í sæmilegu lagi. Og það er haft samstarf við þær stofnanir í öðrum löndum, sem fara með þessi mál. Við tökum þátt í alþjóðasamstarfi um þetta og þessi samstarfsnefnd hefur einmitt það með höndum.

Ég tek alveg undir það, sem hv. flm. sagði, að það væri nauðsyn á skipulegri fræðslu og ég veit, að það hefur verið undirbúið og unnið að því og verður vafalaust gert. En vel má vera, að það þurfi að gera mun meira. Auðvitað er svo þriðja atriðið, sem hann benti á, sjálfsagt eitthvert hið allra áhrifaríkasta, þ.e. að komast í samband við unglingahópana og fá þá til að vinna að þessu, fá þá til að beita sér gegn þessu, fá það almenningsálit hjá þeim, sem beitir sér gagnvart því, sem er því miður nokkur tízka sjálfsagt meðal þessa fólks að kynna sér þetta og kannske neyta þess eitthvað. Auðvitað er það þýðingarmikið að reyna að vinna bug á þeim þjóðfélagslegu aðstæðum, sem kunna að liggja til þess, að mönnum hættir til þess að grípa til þessa.

Endurhæfingarstöð, ég get vel tekið undir það. Ég álít, að þar sé merkilegu máli hreyft og það þurfi einmitt að athuga. Og það er náttúrlega heilbrigðismál og heyrir þar undir.

Ég vil taka undir það og á allan hátt styðja það, að reynt sé að vinna gegn þessu böli, sem er böl hjá ýmsum þjóðum og jafnvel nágrannaþjóðum okkar, en við erum þó svo lánsamir, að það er nú tæpast hægt að taka svo sterkt til orða hér sem betur fer. Og ég hef að sjálfsögðu ekki á móti því, að þetta mál allt sé skoðað og þessi þáltill. fari í n. og fái þar sína athugun. Það er sjálfsagt.

En ég hef af þeim litlu kynnum, sem ég hef haft af þessu og þeim upplýsingum, sem hafa verið lagðar fyrir mig í þessum efnum, komizt á þá skoðun, að það væri ekki heppilegt að hverfa svona að sérstakri deild, heldur væri heppilegra að vinna að þessu á þann hátt, sem gert hefur verið og hefur nú verið reynt að koma í formlegra horf, en verið hefur. En það vil ég segja, að það er sjálfsagt að vera vakandi á allan hátt í þessum efnum. Og auðvitað er ég opinn fyrir því, ef mér er sýnt fram á, að ég hafi lítið skakkt á og eins ef annað kemur fram, sem sýnir, að annað er áhrifaríkara í þessu efni, þá er vitaskuld alveg sjálfsagt að hverfa að því ráði, því að eins og ég drap á í upphafi míns máls, þá hljóta allir að vera sammála um það, að reyna að vinna gegn þessu og afstýra því, að þetta berist til okkar lands og verði hér sá ógæfuvaldur, sem það því miður er orðið jafnvel í okkar nágrannalöndum.