17.03.1972
Sameinað þing: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í D-deild Alþingistíðinda. (4369)

176. mál, rannsóknardeild vegna sölu og neyslu fíkniefna

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra undirtektir hæstv. forsrh. og skilning hans á því, hversu mikil nauðsyn er á að grípa til raunhæfra og róttækra aðgerða í þessu máli. Hitt er annað mál, að honum sýnist annað um aðgerðir en okkur flm. Við því er í sjálfu sér ekkert að segja, en ég vil taka strax fram, ef ég kann að hafa misskilið ræðu hans á þá leið, að hún væri til varnar því, sem gert hefur verið og hann hafi þá talið, að þessi till. væri flutt sem gagnrýni, þá er það alls ekki tilgangur okkar flm. að blása hér upp einhverja gagnrýni á stjórnvöld í þessu máli, heldur eingöngu að vekja athygli á mjög miklu nauðsynjamáli að okkar mati. En áður en ég vík nánar að einstökum ummælum í ræðu hæstv. forsrh., þá vildi ég leyfa mér að fara nokkrum almennum orðum um þetta mál.

Hér á dögunum var flutt skelegg ræða hér í þinginu, skelegg ræða til stuðnings auknum aðgerðum gegn ofnotkun áfengis. Þar var hvergi dregið úr því böli, sem óhóflegri áfengisneyzlu fylgir og er ég sannarlega sammála þeim röddum, sem vara við hættunni af ofnotkun áfengis. En það er ekki fyrr en á allra síðustu dögum, sem fólk er að einhverju leyti að vakna upp við þann vonda draum, að annar vágestur stendur við dyr okkar, gestur sem getur leitt yfir þessa þjóð meiri vandamál og meiri óhamingju, en áfengið hefur nokkru sinni gert. Á ég þar við neyzlu fíkniefnanna.

Þjóðin er rétt að rumska og þó eru raddir, sem vilja gera lítið úr vandanum og aðrar, sem telja það hafa öfug áhrif að ræða um þessa hættu, allt tal um hana eigi að liggja kyrrt, það æsi aðeins upp forvitni og löngun unglinga til þess að ganga til móts við þessa nýju freistingu. Enn aðrir vilja jafnvel gefa sölu á vissum tegundum fíknaefna frjálsa, telja að með því sé betra taumhald haft á vandanum og staðreyndin sé sú, að þessi efni sum hver séu mun skaðminni en t.d. áfengi. Út af fyrir sig er það lítil huggun, þótt komizt sé að þeirri niðurstöðu, að skaðsemin sé minni en af áfenginu. Vandamálið er engu að síður fyrir hendi.

En hver er þá reynsla annarra þjóða? Neyzla fíkniefna hefur gengið eins og faraldur meðal ungs fólks sérstaklega og eiturlyfjaneytendur eru óðfluga að verða eitt stærsta vandamál heilbrigðis— og löggæzlu yfirvalda um öll Vesturlönd. Í sumum þessara ríkja er ekkert til sparað, hvorki fjármagn né ráðstafanir, til þess að spyrna við fótum, en þjóðfélögin standa engu að síður ráðþrota, máttvana gagnvart þessum vanda, þessari óskaplegu holskeflu eymdar, upplausnar, afbrota, lífsleiða og sjúkdóma. Allt þetta er bæði orsök og afleiðing neyzlunnar. Og hver eru þá fórnarlömbin einkum og sér í lagi? Það er vitaskuld unga fólkið, nýja kynslóðin, sem á að taka við, erfa þau verðmæti, sem skapazt hafa og halda áfram uppbyggingunni í þjóðfélaginu. Sumir segja, að unga fólkið flýi á náðir fíkniefna einmitt vegna andúðar á þessum sömu verðmætum, sem það á að taka við, sjái engan tilgang með því lífsgæðakapphlaupi, er viðgengizt hefur, standi ógn af því vélvædda og líflausa iðnaðarþjóðfélagi, sem gleypir það án tilfinninga og tillits. Vel má það vera, um það skal ég ekki segja. Lífið er sjálfsagt ekki mikils virði í augum þeirra, sem með því finna engan tilgang. En það breytir ekki þeirri skyldu, sem hvílir á samfélaginu að veita viðnám og bægja böli frá og berjast af öllum mætti gegn þeirri ógæfu, sem fylgir slíkum flótta sem neyzla eiturefna er. Það þarf engan kennimann til að sjá, að lífsleiði og minnimáttarkennd og vandamál einstaklinga verða aldrei leyst með því að gefast upp fyrir sjálfum sér og umhverfinu.

Í grg. með þessu frv. er tekið fram, að stöðugt standi yfir rannsóknir á líffræðilegum áhrifum neyzlunnar og skaðsemi hennar. En verður nokkurn tíma mælt tjónið, sem einstaklingarnir bíða á sálu sinni, á skipbroti persónuleikans og sjúkleika þess hugarfars, sem mótast af uppgjöf og undirgefni fyrir ofneyzlunni? Og hvað á einstaklingurinn sjálfur, ef hann hefur misst stjórn á sínum eigin viljastyrk, sjálfsvirðingu og metnaði og hvað á þjóðin, ef einstaklingarnir hafa þannig glatað . sjálfum sér? Í mínum augum eru engin tvímæli um það, að hér er ægilegur vágestur fyrir dyrum. Ekki eingöngu út frá sjónarmiði hins líffræðilega tjóns, heldur líka og ekki síður vegna hins félagslega ástands, sem virðist vera eiturlyfjaneyzlu samfara. Það er skylda löggjafarvaldsins að gera sér grein fyrir þessum voða og það er stærsta verkefni þeirra manna, sem til forystu hafa valizt hjá þjóðinni hverju sinni, að gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til að spyrna við fótum. Til þess höfum við Íslendingar enn tækifæri. Við skulum horfast í augu við vandann og við skulum ekki blekkja okkur með því, að fíkniefnaneyzla verði ekki vandamál hér á landi eins og annars staðar, ef ekkert verður að gert. Við Íslendingar höfum ekki efni á því að missa stóran hóp ungmenna út í slíka ógæfu og við eigum heldur ekki að þurfa þess. Ef lífsleiði er orsök, þá höfum við ákjósanlega möguleika og ákjósanlegri möguleika, en flestir aðrir vegna mannfæðar, verkefna og vitundar hvers einstaks um hlutverk sitt. Hjá lítilli þjóð þarf hver og einn að vinna margfalt starf, hver einstaklingur er dýrmæt eign þessa þjóðfélags og þýðingarmikill þáttur í þeirri stórkostlegu viðleitni að viðhalda og byggja upp sjálfstæði og framtíð þessarar þjóðar. Við svo háleit verkefni á engum að þurfa að leiðast, enginn að týnast í fjöldanum og enginn að gleymast í tilgangsleysi.

Rannsóknardeild sú, sem hér er gerð till. um, ræðst ekki á orsakirnar og er að því leyti takmörkuð, en í okkar huga flm., getur hún orðið fyrsta skrefið og er sú aðgerð, sem nú í augnablikinu er mest aðkallandi. Hún leysir ekki allan vanda, en hún er síður en svo, eins og ég sagði hér í upphafi máls míns, áfellisdómur yfir því, sem nú þegar hefur verið gert. Hún er ekki flutt til að þjóna hvötum stjórnarandstöðu í refskák stjórnar og stjórnarandstöðu. Hún er ekki flutt til upphefðar fyrir flm. né til þess að sýnast í enn einu málinu, sem sofna skal í náðarfaðmi nefndanna. Hún er flutt af einlægni og vilja til að hrinda áfram máli, sem við flm. og allir þeir, sem um þessi mál hugsa, eru sammála um, að megi engan tíma missa. Og því betur sem ég hef kynnt mér ástand og þróun þessara mála, þá verð ég stöðugt sannfærðari um, að það, sem skiptir máli nú, sé að nógu fljótt sé gripið til raunhæfra aðgerða, öflugri toll og löggæzlu, stöðugs eftirlits, uppbyggingar upplýsingakerfis um sölu og dreifingu fíkniefna. Í þessum málum eru neytendurnir ekki sökudólgarnir, heldur þeir, sem smygla slíkum varningi inn í landið og koma honum á framfæri. Og hverjir eru það? Hverjir eru það, sem selja og dreifa fíkniefnum? Er það skipulagt í einhverjum mæli? Og eftir hvaða leiðum berast þessi efni til landsins? Allt þetta þarf að rannsaka og þá rannsókn þarf að taka föstum tökum og það dugar ekkert hálfkák. Hversu víðtæk er neyzlan orðin? Hvernig er efnum þessum dreift til neytenda? Eru starfræktir söluhringar o.s.frv. o. s. frv.

Aðeins takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um þessi atriði, en hitt er víst, að miklir fjármunir eru hér í húfi og hagnaðarvon í samanburði við smygl og sölu á áfengi og tóbaki er margföld á þessum vettvangi.

Sú ágæta en fábrotna athugun, sem gerð hefur verið á vegum lögreglu og tollgæzlu, má ekki verða að engu vegna — vil ég leyfa mér að segja — of vandaðs undirbúnings og flókinna nefndastarfa. Tíminn er að hlaupa frá okkur og það þarf enga athugun til að gera sér ljóst, að margefld toll— og löggæzla er frumskilyrði þess, að við vandann verði að einhverju leyti ráðið. Því er það till. okkar, að nú þegar verði sett á fót rannsóknardeild, sem sérstaklega og eingöngu fylgist með sölu og neyzlu fíkniefna. Það er raunverulega lágmarkskrafa og minna getur það varla verið frammi fyrir þeim ógnvaldi, sem nú er að halda innreið sína í landið. Málið má fyrir alla muni ekki tefjast vegna ágreinings um staðsetningu og yfirstjórn slíkrar deildar. Dómsmrh. verður að skera á þann hnút, en auk löggæzlu— og tollgæzlumanna tel ég áríðandi, að við slíka deild störfuðu sérfræðingar á sviði þjóðfélagsfræði, sálarfræði, efnafræði og öðrum þeim sviðum, sem geta lagt lið þeirri baráttu, sem hefja verður í þessu máli.

Hæstv. forsrh. lagði á það áherzlu, að vafasamt væri og varasamt að fullyrða of mikið í þessu máli. Ég tel, að flutningur þessarar till. hafi ekki gefið tilefni til þess að halda því fram, að við flm. séum að fullyrða eitthvað og að gefnu tilefni vek ég athygli á, að þar sem talað er í fullyrðingatón í grg. er eingöngu verið að endurtaka það, sem sagt hefur verið á öðrum stöðum, opinberum vettvangi, m.a. í sjónvarpi og öðrum fjölmiðlum og við erum því ekki að flytja hér neinn nýjan boðskap eða brydda upp á nýjum fullyrðingum. Við teljum hins vegar eðlilegt og rétt, að um þessar fullyrðingar sé rætt hér á hinu háa Alþingi, úr því að þær eru á annað borð orðnar fleygar.

Kunnáttumenn, sem hafa fengizt við rannsóknir þessara mála og hafa sérstaklega unnið að þeim á vegum dóms— og löggæzluyfirvalda, fullyrða, að hér séu nú þegar skipulagðir söluhringar til þess að smygla fíkniefnum inn í landið. Og þess vegna er full ástæða til þess að átta sig á því hér á þingi, hvort þessar fullyrðingar eigi við rök að styðjast, ekkert undan draga og reyna síðan að spyrna við fótum, ef einhver minnsti fótur er fyrir því, ef jafnvel er hugsanlegur sá möguleiki, að þessi skipulagða starfsemi fari fram nú.

Við erum heldur ekki að halda því fram í þessu máli, að algerlega hafi verið lögð niður öll rannsóknarstarfsemi á þessum vettvangi. En það er rétt, ég leyfi mér að fullyrða, að það er rétt, að úr henni hefur mjög dregið nú síðustu mánuðina. Frá þessum störfum hafa horfið menn mjög áhugasamir og duglegir, sem hafa unnið gott starf og enginn hefur komið í þeirra stað og tölur og skýrslur, sem frá þessum rannsóknarmálum koma í dag sýna, að mjög hefur dregizt saman öll athugun á þessum málum. Og af því að nefndur var hér einn ákveðinn maður, Kristján Pétursson deildarstjóri á Keflavíkurflugvelli, þá vil ég sérstaklega geta þess, að ég tel, að hann hafi unnið mjög gott starf og þarft í þessum málum og enda þótt verið sé að gefa í skyn, að hann hafi fullyrt eitt eða annað og fullyrt of mikið. Þá er ég í engum vafa um, að einmitt þessar fullyrðingar og það tal, sem hann hefur sett af stað um þessi mál hefur þó vakið okkur til lífsins og vakið kannske fólk til umhugsunar um, að hér þarf að gera eitthvað meira en bara að skipa nefnd.

Hæstv. forsrh. vék að því, að þetta mál væri fjórþætt að því leyti, að það heyrði undir fjórar stofnanir og ég held í þessu sambandi, að einmitt það, hversu þetta heyrir undir marga aðila, hafi tafið fyrir málinu. Því er haldið fram og ég hef ástæðu til að trúa því, að einmitt það, að þessir aðilar, þessar stofnanir hafa ekki komið sér saman um það, hver skuli raunverulega stjórna, hver skuli vera efst og vera ráðandi, það sé ástæðan fyrir því, að raunhæfar aðgerðir hafa ekki verið settar á laggirnar af þeim krafti, sem við viljum að sé gert.

Það er einlæg sannfæring mín, að það sé rétt leið að stofna til sérstakrar rannsóknardeildar, það sé ekki að vefjast fyrir mörgum rn. og mörgum stofnunum, hver skuli með þetta fara. Það skuli skipa sérstaka rannsóknardeild, sem hafi þetta vandamál á sinni könnu eitt og eingöngu. Sú hefur þróunin orðið erlendis og ég held, að við eigum að grípa strax til þeirra aðgerða og setja strax slíka deild á stofn til þess að reyna að fyrirbyggja frekari vanda, sem vitaskuld hlýtur að steðja að okkur.

Við höfum ekki tekið afstöðu til þess í grg. með okkar tillögugerð, hver skuli hafa með yfirstjórn þessarar rannsóknardeildar að gera. Þar koma til greina embætti eins og lögreglustjóraembættið í Reykjavík, yfirsakadómaraembættið, jafnvel saksóknari, jafnvel dómsmrn. og við teljum eðlilegt, að dómsmrh., eftir að hafa kannað þetta mál og áttað sig betur á því, skeri á þann hnút og úrskurði, undir hvaða embætti deildin skuli heyra.

Hæstv. forsrh. vék að því, að af því gæti orðið kostnaðarauki að stofna slíka sérstaka deild, en ég vil algerlega vísa þeim rökum á bug. Ég tel einfaldlega, að það eigi ekki að horfa í neinn kostnað, þegar við erum að tala um þessi mál og þegar við erum að ákveða einhverjar aðgerðir. Ef ekkert verður að gert, verður þetta vandamál miklu stærra og óviðráðanlegra, en við gerum okkur hugmynd um í dag og ég held, að sá kostnaður, sem hlýzt af því að gera ekkert eða lítið sem ekkert, verði margfaldur á við þann kostnað, sem mundi verða af stofnun rannsóknardeildar.

Herra forseti. Hér á þinginu kann okkur að greina á um stefnur og leiðir í stjórnmálabaráttunni. Við höfum mismunandi skoðanir á því, hvaða braut skal velja til betra ástands og aukinnar velferðar þegna þessa lands. En takmarkið er það sama hjá okkur öllum, heill og hamingja hvers og ein, og þar greinir okkur ekki á. Því er það von mín og trú og reyndar vissa, að við getum öll hér á þingi sameinazt í þessu máli, sameinazt í þeirri baráttu, sem þjóðfélagið verður að heyja gegn bölvaldinum mikla, fíkniefnunum. Við bægjum honum eflaust aldrei fullkomlega frá, en við getum, ef við viljum, haldið honum í skefjum og forðað þessari þjóð frá örlögum, sem enginn sér ella fyrir endann á. Jafnvel þótt aðgerðir þær, sem við samþykkjum, forði aðeins einum ungum manni eða einni ungri stúlku frá þeim glötunar vegi, þá er þessi viðleitni réttlætanleg.