17.05.1972
Sameinað þing: 72. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í D-deild Alþingistíðinda. (4377)

176. mál, rannsóknardeild vegna sölu og neyslu fíkniefna

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Fyrr á þessu þingi leyfðum við okkur ég ásamt hv. 3. þm. Reykn., Oddi Ólafssyni, að bera fram þáltill. þess efnis, að setja skyldi á fót rannsóknardeild til eflingar tollgæzlu og löggæzlu og annars eftirlits með innflutningi, dreifingu og neyzlu fíkniefna. Í grg. og í ræðum okkar, þegar við fylgdum málinu úr hlaði, bentum við á þá hættu, sem fíknilyfjum væri samfara og lögðum áherzlu á, að þing og þjóð horfðist í augu við þann voða, sem fyrir dyrum væri, ef ekkert væri að gert. Vandamálið væri vonandi enn viðráðanlegt, en það gæti vissulega vaxið okkur yfir höfuð, ef flotið væri sofandi að feigðarósi. Í því sambandi minntum við á, að jafnvel í næstu nágrannalöndum okkar stæðu yfirvöld ráðþrota gagnvart geigvænlegri eiturlyfjaneyzlu og óðfluga væri það vandamál að verða eitt stærsta þjóðfélagsmeinið, einkum þó meðal æskufólks. Við tókum jafnframt fram, að gott starf hefði verið unnið af þeim fáu löggæzlumönnum, sem sérstaklega hefðu verið til kvaddir af hálfu lögreglu og tollyfirvalda, en það brautryðjendastarf mætti ekki niður falla og að engu verða með fálmkenndu og óskipulögðu áframhaldi.

Nokkrar umr. urðu um þessa þáltill. og þá kom m.a. fram það sjónarmið, að varlega skyldi fara í allar fullyrðingar og ekki mikla vandamálið um of fyrir okkur.

Þessi þáltill. fór til hv. allshn. og hefur ekki enn fengið afgreiðslu þar, enda þótt ætla mætti, að enginn ágreiningur þyrfti að vera um slíkt mál: Að mínu viti var það ótvíræð siðferðileg skylda Alþingis að tjá sig með afdráttarlausum hætti um mál þetta og þykir mér því miður, að málið skuli ekki hafa fengið afgreiðslu í þessari nefnd.

Í gær var samþ. sem ályktun Sþ. þáltill. um varnir gegn ofneyzlu áfengis og er sú till. vissulega góðra gjalda verð og fyllilega tímabær, en ég hygg, að flestir þm. séu sammála mér um, að neyzla fíknilyfja getur orðið margfalt stærra og óhugnanlegra vandamál en áfengið, ef yfir okkur á að ganga sams konar ástand og nú ríkir í þessum efnum, jafnvel í næstu nágrannalöndum og víðar um heim, nú þegar í dag, svo að ekki sé talað um framtíðina. Þar sem nú eru aðeins nokkrir dagar til þingslita og fyrirsjáanlegt er, að áður nefnd þáltill. hlýtur því miður ekki afgreiðslu á þessu þingi, þá hef ég leyft mér að kveðja mér hljóðs utan dagskrár af tilefni, sem hefur undirstrikað með áþreifanlegum hætti þau varnaðarorð, sem í till. okkar hv. 3. þm. Reykn. fólust.

Þetta segi ég að því gefna tilefni, sem ekki hefur farið fram hjá neinum hv. þm. og lesa má um í fréttum síðustu daga. Þar hefur verið skýrt frá, að upptækt hafi verið gert verulegt magn af svonefndu hassi og LSD fíkniefnum í fórum ungmenna hér á landi. Þessum efnum mun hafa verið smyglað til landsins í því skyni að dreifa því meðal unglinga og í frétt, sem m.a. er í einu dagblaðanna í morgun, er komizt svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Rannsókn málsins til þessa hefur leitt í ljós, að hér er um umfangsmikið smygl fíkniefna og sölu þeirra að ræða. Fundizt hafa um 200 g af hassi, en staðfesting hefur fengizt á smygli og sölu á þrem kílóum, sem komu frá Amsterdam með skipi til Akureyrar. Þá hefur við yfirheyrslurnar fengizt staðfesting á smygli á 67 töflum af LSD. Grunur leikur á, að fleiri efni komi við sögu í þessu máli, en í gær hafði ekki fengizt staðfesting á þeim grun. Þá leikur og grunur á, að meira magn af hassi, en að framan greinir sé í málinu og það skipti einnig kílóum. Þá er vitað, að ákveðnir aðilar hafa farið erlendis í innkaupaferðir í þeim tilgangi einum að kaupa fíkniefni og smygla þeim hingað til lands til dreifingar. Í gær var yfirheyrður fjöldi fólks, sem hefur keypt hass af forkólfum þessa fíkniefnahrings, en lögreglumenn þeir, sem að yfirheyrslunum unnu, vörðust allra frétta.“ Áfram segir í þessari frétt: „Við yfirheyrslurnar mun þó hafa fengizt staðfesting á því, að sala fíkniefnanna var gerð í auðgunarskyni, en söluverð hasskílós er um 250 þús. kr. hér á landi. Lauslega má áætla, að hagnaðurinn af sölu þeirra þriggja kílóa, sem vitað er um, nemi yfir 500 þús. kr. En úr þessu magni munu fást allt að 16 þús. skammtar til neyzlu.“

Síðan segir, að nú sitji í gæzluvarðhaldi vegna máls þessa tveir ungir Reykvíkingar undir tvítugu og ung hjón úr Kópavogi.

Enginn veit, hvort og þá hversu miklu hefur verið smyglað og dreift með þessum hætti né heldur hvort hér sé um að ræða eina eða aðalsmygl— eða söluhringinn. Neyzla er eitt, en skipulagður smyglhringur, sem vinnur að því að dreifa þessum efnum meðal ungs fólks, er enn alvarlegra mál.

Dugnaður lögreglumanna og árvekni við uppljóstrun og rannsókn málsins hefur í alla staði verið mjög lofsverður, en það breytir því þó ekki, að tilviljun mun hafa ráðið uppljóstrunum frekar en skipulögð rannsóknar og lögreglustarfsemi. Sú staðreynd og þetta óhugnanlega mál allt undirstrikar enn betur en fyrr, hversu brýnt verkefni það er, að sett sé á laggirnar skipulögð og öflug rannsóknardeild, sem eingöngu hefur þessi mál til meðferðar. Sjálfsagt er fullur vilji hjá dómsmrn og svokallaðri samstarfsnefnd, sem sett hefur verið á laggirnar í þessum málum, fullur vilji hjá þessum báðum aðilum að taka þessi mál föstum tökum, en sannleikurinn er bara sá, að hér duga ekki lengur seinvirk nefndarstörf, sem ekki eru einu sinni í beinum tengslum við lögregluyfirvöld í Reykjavík. Hér þarf raunhæfar aðgerðir, ráðstafanir svo sem öfluga toll— og löggæzlu, fyrirbyggjandi starf og strangt eftirlit, sem allt skal unnið af fullum krafti og af fullri hörku.

Ég trúi því, að það sé samdóma álit og vilji Alþingis, að einskis verði látið ófreistað og ekkert verði til sparað að bægja eiturlyfjunum, þessum óhugnaði, frá okkar landi og okkar ungu og upprennandi kynslóð. Mannslífin hér á landi eru of dýrmæt þessari þjóð til að þeim verði fórnað á altari ólifnaðar og þeirrar eymdar, sem fíknilyfjaneyzlu fylgir.