17.05.1972
Sameinað þing: 72. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í D-deild Alþingistíðinda. (4379)

176. mál, rannsóknardeild vegna sölu og neyslu fíkniefna

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt til þess að þakka hæstv. forsrh. fyrir undirtektir hans og þann skilning, sem hann leggur í þessa ræðu mína hér áðan, sem er réttur. Það er ekki gert til þess að ásaka einn eða neinn fyrir framtaksleysi í sjálfu sér eða skort á vilja til þess að ráða bót á þessum málum, heldur til þess að vekja athygli þingheims og þjóðar vonandi á því óskaplega vandamáli, sem er hér að rísa og er miklu óhugnanlegra en flest annað, sem hefur dunið yfir þessa þjóð.

Þáltill. frá því í vetur, mín og hv. 3. þm. Reykn., var flutt vegna þess, að okkur var mikið niðri fyrir og við í einlægni og af áhuga töldum, að þetta væri mjög brýnt mál til meðferðar og væri nauðsynlegt, að Alþ. ályktaði á einn eða annan hátt í þessu máli. Það var ekki endilega svo, að við ætluðum að knýja í gegn einhverja ákveðna lausn á málinu eða að sú till., sem við settum fram, væri endilega það eina algilda og rétta í þessu máli, en við vorum þess fullvissir, að út úr nefndarstörfum og athugunum á málinu gæti komið einhver ákveðinn vilji þingsins í þá átt, að það væri tekið til öflugra ráðstafana. Og nú, þegar fréttir berast af svo víðtæku smygli og svo óskaplegu magni, sem í ráði er að dreifa hér í landinu í auðgunarskyni, þá er enn full ástæða til þess að viðhafa varnaðarorð og hvetja enn til þess, að gripið sé til viðeigandi ráðstafana. Ég treysti fyllilega þeim yfirvöldum. sem í þessu landi eru og þessi mál heyra undir, til þess að gera það. Ég vonast eingöngu til þess, að þeir beri gæfu til þess að gera það strax.