02.03.1972
Sameinað þing: 4. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í D-deild Alþingistíðinda. (4386)

177. mál, virkjunaraðstæður við Hraunsfjarðarvatn

Heilbrrh.— og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Hér liggja fyrir þinginu tvær þáltill. um raforkumál á Vesturlandi, till. um virkjunaraðstöðu við Hraunsfjarðarvatn, sem nú er á dagskrá og svo önnur till. um raforkumál í Vesturlandskjördæmi í heild, það er 187. mál, sem einnig er á dagskrá Sþ. í dag.

Á Vesturlandi er nú raforkumálum þannig komið, að Rafmagnsveitur ríkisins annast þar alla vinnslu raforku að undanskildu því, sem unnið er í Andakílsárvirkjun. Á Vesturlandi eru þrjú aðgreind raforkukerfi. Í fyrsta lagi Borgarfjarðarkerfið, sem fær orku frá Andakílsárvirkjun og að nokkru frá Landsvirkjun um Akraneslínu. Í öðru lagi er Snæfellsneskerfið, sem fær orku frá Rjúkandavirkjun við Ólafsvík og frá dísilstöðvum, og í þriðja lagi Dalakerfið, sem fær orku sína frá dísilstöð í Búðardal.

Eins og hv. frsm. tók fram hér áðan, er helsti virkjunarmöguleikinn á Snæfellsnessvæðinu Hraunsfjarðarvatn. Á Dalasvæðinu virðist hins vegar ekki um neina vænlega möguleika til virkjunar að ræða. En Borgarfjarðarsvæðið er þegar tengt Landsvirkjun og orkuöflun fyrir það er því samtvinnuð orkuöflun fyrir Landsvirkjunarsvæðið.

Við Hraunsfjarðarvatn hafa farið fram ýmsar virkjunarathuganir. M.a. hefur virkjunarsvæðið verið kortlagt til yfirlits og vatnsrennslismælingar hafa farið þar fram í mörg ár. Á s.l. sumri létu Rafmagnsveitur ríkisins gera nýja frumáætlun um virkjun Hraunsfjarðarvatns. Nokkur frumkönnun hefur einnig farið fram á vegum Rafmagnsveitnanna á tengingu Snæfellsness og Dalasvæðanna við Borgarfjörð. Orkustofnun er þeirrar skoðunar, að samtenging hinna þriggja aðgreindu raforkukerfa, sem nú eru á Vesturlandi, sé forsenda fyrir skynsamlegri lausn á raforkumálum í þessum landshluta. Og ef kemur til hugsanlegrar virkjunar í Hraunsfjarðarvatni, þá ætti að miða hana við slíka samtengingu. En eins og hv. frsm. tók fram hér áðan, þá hefur það komið fram, að virkjun á vatninu kann að hafa áhrif á veiði og fiskræktarmöguleika í Straumfjarðará og ég hygg, að allir alþm. hafi fengið bréf frá Veiðifélagi Straumfjarðarár, þar sem till. til þál. um virkjun Hraunsfjarðarvatns er harðlega mótmælt og fundurinn lítur svo á, að úrbætur í raforkumálum Vesturlands hljóti fremur að felast í samtengingu við önnur orkuveitusvæði en aðgerðum, sem valda óbætanlegum spjöllum á eignum manna og náttúru landsins, eins og komizt er að orði í þessu bréfi. Þannig að þarna virðist þegar komið upp vandamál sem þekkt er frá öðrum stöðum og sem kann að torvelda framkvæmdir á þessum stað.

En á vegum Orkustofnunar er það ráðgert, að á næstu mánuðum fari fram kerfisathuganir á raforkumálum Vesturlands, þar sem m.a. verður athuguð vinnslugeta virkjunar við Hraunsfjarðarvatn inn á samtengt kerfi á Snæfellsnesi og í Dölum, með og án samtengingar þess kerfis við Borgarfjörð. Enn fremur verði þá athuguð afköst flutningsmannvirkja innan landshlutans borið saman við væntanlega orkuþörf og loks samtenging Snæfellsness og Dala við Borgarfjörð. Hér er um að ræða sams konar athugun og Orkustofnunin hefur nú í gangi fyrir Vestfirði og Norðurland.

Þetta vildi ég að kæmi hér fram, svo að vitað væri, hvernig að þessum málum er nú unnið á vegum rn. og Orkustofnunarinnar.