22.11.1971
Neðri deild: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

71. mál, innlent lán

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Mér þótti athyglisvert í máli hæstv. fjmrh. áðan, þegar hann var að tala um þetta mál, að hann var að tala um, að það væri of mikið fjármagn í umferð í efnahagskerfinu. Orðrétt held ég, að hann hafi sagt eitthvað á þá leið, að það væru umr. um það, að það væri of mikið fjármagn í umferð í efnahagskerfinu, jafnvel svo að áhrif hefði haft á verð fasteigna. Hann taldi líka, að þetta frv., ef að lögum yrði, mundi draga úr verðbólguáhrifum, sem ættu sér nú stað. Þetta finnst mér afar merkileg ummæli hjá hæstv. fjmrh. og einnig þau, sem komu æ ofan í æ fram í máli frsm. meiri hl. fjhn., 5. þm. Austf., að hér væri of mikil kaupgeta og því bæri brýna nauðsyn til að þetta frv. yrði keyrt hér í gegn á hv. Alþingi.

Ég vil nú spyrja hæstv. fjmrh., ef þetta er svo, að nú verði 200 millj. kr., sem yrðu teknar með þessum hætti út úr efnahagskerfinu til þess að draga úr verðbólguáhrifum, hversu miklu meiri áhrif álítur fjmrh., að 1000 millj. kr. aukning á fjármagni í efnahagskerfinu hafi haft í för með sér í þá átt að kynda undir verðbólgu, sem hefur verið sannanlega veitt út í efnahagskerfið og engra tekna aflað í staðinn úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Mér er alveg fyllilega ljóst, að þessar 1000 millj. kr. voru veittar til þarfra hluta. Þær voru m.a. veittar til þess að hækka ellilaun. En áhrifin á efnahagskerfið eru nákvæmlega þau sömu. Gamla fólkið geymir ekki þetta fé undir koddanum sínum, það kaupir fyrir það, og þessar 1000 millj. kr. eru sennilega búnar að fara í gegnum efnahagskerfið a.m.k. tvisvar ef ekki þrisvar sinnum, síðan þær voru greiddar. Álítur fjmrh., að þetta hafi ekki verið ráðstöfun, sem kynt hafi undir verðbólgu, vegna þess að ekki var aflað fjár í staðinn? Ég fæ ekki séð, að það sé hægt að tala um það, að 200 millj. kr., sem ætlazt er til að taka út úr efnahagskerfinu með þessum hætti nú, dragi úr þessari verðbólgu, en láta það óátalið af hæstv. fjmrh., að þetta skyldi gert á sínum tíma.

Ég vil líka benda hæstv. fjmrh. á það, að í raun og veru er til leið til þess að afla þessa fjármagns á þann hátt, sem var einkar vinsæll af fyrrv. stjórnarandstöðu, ef núv. ríkisstj. vildi fara þá leið, sem stjórnarandstaðan vildi fara á sínum tíma, en það er að aflétta bindingu á fé í Seðlabankanum eða frystingu. Ég vil taka skýrt fram, að ég er ekki að mæla með þessu, vegna þess að þetta hefði í för með sér slíkt verðbólguflóð, að það yrði óviðráðanlegt. Þessa var hins vegar æ ofan í æ krafizt af stjórnarandstöðunni á sínum tíma.

Ég held, að það væri æskilegt að fá upplýst hér um þessi atriði. Ég held, að þau séu mikilvæg fyrir okkar efnahagskerfi. Þessar 200 millj. kr., sem aflað verður núna með útboði þessa láns, ef þetta frv. verður að lögum, koma fyrst og fremst frá fólki, sem á sparifé og hefði ætlað að eiga sparifé í langan tíma. Þeir kaupa spariskírteini, sem eru til langs tíma, sem eiga fé og ætla sér að eiga fé lengi. Þess vegna er þetta fólkið, sem á fé inni í bönkum, sem kaupir þessi spariskírteini, og með þessum hætti dregur sáralítið úr kaupgetu fólks vegna þessa útboðs. Þetta vita allir, sem eitthvað hafa skoðað efnahagsmál og eitthvað vita um það, hvernig þau lögmál eru.

En mér þætti, herra forseti, vænt um það, ef hæstv. fjmrh. vildi upplýsa d. um það, hvort hann teldi, að það hefði verið rétt ráðstöfun fjármálalega að veita 1000 millj. kr. út í efnahagskerfið á sínum tíma án þess að gera ráðstafanir til þess að afla fjár í staðinn.