02.03.1972
Sameinað þing: 44. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í D-deild Alþingistíðinda. (4407)

187. mál, raforkumál í Vesturlandskjördæmi

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 354 svo hljóðandi till. til þál., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta framkvæma sem allra fyrst í samráði við samtök sveitarfélaga á Vesturlandi ítarlega rannsókn á hagkvæmustu lausn raforkumála á Vesturlandi í heild, sem miðast við að tryggja þessum landshluta nægjanlega raforku, þar með talið til atvinnuuppbyggingar, svo sem í iðnaði og til upphitunar húsa.

Verði í þessari rannsókn leitazt við að finna leiðir til lækkunar á verði raforku, svo að það verði sambærilegt við það, sem lægst er á öðrum veitusvæðum í landinu.“

Ein aðal undirstaða framfara í nútímaþjóðfélagi er rafvæðing. Landið okkar er stórt og erfitt land, en meðal mestu kosta þess eru hinir miklu og margvíslegu möguleikar til raforkuframleiðslu. Okkar litla þjóð hefur þegar framkvæmt stórvirki á þessu sviði og stefna verður markvisst að því, að áður en mörg ár líða ráðum við yfir nægjanlegri ódýrri raforku til alhliða framfara og lífsþæginda og er rafmagn til húsahitunar þar stórt mál sem bíður úrlausnar. Raforkumálin, stórvirkjanir og orkufrekur stóriðnaður hafa verið og eru efst á baugi með þjóðinni í dag, enda gera allir sér grein fyrir því, að hér er um grundvallaratriði að ræða fyrir framtíð þjóðarinnar. Hver landshluti, hvert byggðarlag hefur því eðlilega tekið þessi mál til meðferðar með það fyrir augum að tryggja byggðarlaginu nægjanlega og ódýra raforku. Hins vegar verður það ljósara fyrir mönnum, þegar farið verður að skoða þessi mál vandlega. að athuga þarf þetta mál í stærri einingum í dag, en gert var fyrir nokkrum árum. Aðalatriðið er að fá nægjanlega örugga raforku á hagstæðu verði, en ekki hvar virkjun er staðsett.

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi tóku þessi mál til meðferðar á ársfundi sínum 1971. Eru sveitarstjórnarmenn á Vesturlandi sammála um nauðsyn þess, að fram fari ítarleg rannsókn á hagkvæmustu lausn raforkumála Vesturlands í heild, í fyrsta lagi til að tryggja öllum íbúum Vesturlands næga raforku, þar með talið til upphitunar húsa og til atvinnuuppbyggingar, þar með talið til ýmissa iðngreina. Í öðru lagi, að þessi rannsókn beinist ekki síður að því, að raforkuverð í þessum landshluta verði sambærilegt við það, sem lægst er á öðrum veitusvæðum í landinu. Á þetta atriði verður að leggja sérstaka áherzlu. Það verður að teljast í alla staði réttlætismál að rafmagnsverð verði það sama um land allt. Treysti ég því, að orkumálaráðherra og ríkisstj. í heild beiti sér fyrir lausn þessa réttlætismáls. En eins og flestum er kunnugt, er verð á raforku mjög mishátt í landinu. Hæst er verðið hjá Rafmagnsveitum ríkisins, sem er samkv. gjaldskrá 1. nóv. 1971 til heimilisnota, til lýsingar, 2.85 kr. á kwst. auk fastagjalds. Hjá ýmsum öðrum rafveitum er sambærilegt verð á sama tíma frá 1.70 til 2.00 kr. á kwst. Sést á þessu, að hér er um stórt mál að ræða.

Þörfin fyrir samræmdar aðgerðir til að tryggja raforkuþörf Vesturlands er aðkallandi. Orkuþörf á þessu landssvæði er mikil og fer vaxandi. Þótt fólksfjölgun á Vesturlandi hafi ekki verið ör hin síðari ár, hefur atvinnuuppbygging verið mikil. Er óhætt að fullyrða, að skilyrði til búsetu og fólksfjölgunar á Vesturlandi séu að mörgu leyti betri en í mörgum öðrum landshlutum. Þéttbýliskjarnar eru margir og vaxandi. Akranes hefur öll skilyrði til að eflast sem iðnaðarbær. Þar er Sementsverksmiðja ríkisins og vísir að öðrum fjölbreyttum iðnaði, sem brýn þörf er á að efla. Þar stendur fiskiðnaður traustum fótum og kemur þar til greina niðursuðuiðnaður í stórum stíl. Akranes á að geta tekið við stærra þjónustuhlutverki fyrir Vesturland, en nú er, með bættu samgöngukerfi, ekki sízt á sviði skólamála og heilbrigðismála. Stóriðja við Hvalfjörð Vesturlandsmegin er mál sem þarf að athuga vandlega. Borgarnes er vaxandi þjónustumiðstöð í verzlun og samgöngum. Liggja þræðir verzlunarinnar gegnum Borgarnes, um Borgarfjarðarhérað, Mýrar og vestur á Snæfellsnes. Á þessu svæði eru ein beztu landbúnaðarhéruð með margvíslegum búgreinum.

Á norðanverðu Snæfellsnesi eru fjórir útgerðarbæir, sem allir hafa lífvænlega aðstöðu. Útgerð og fiskiðnaður eru aðalatvinnugreinar á þessu svæði, og er framtíðarverkefnið að efla þessar atvinnugreinar sem mest á svæðinu á margvíslegan hátt. Kemur þar til greina niðursuðuiðnaður ásamt öðrum léttum iðngreinum. Í Búðardal er þegar risinn byggðarkjarni í Dalasýslu og er í örum vexti. Þar eru þjónustugreinar í verzlun og samgöngum og vísir að iðnaði.

Þetta stutta yfirlit sýnir ljóslega þörfina á öryggi í raforkumálum á þessu svæði. Raforku er nú dreift um Vesturlandskjördæmi af Rafmagnsveitum ríkisins og Andakílsárvirkjun, sem er héraðsveita. Sölusvæði hennar er Akranes, Borgarnes og Hvanneyri. Auk þess fær Andakílsárvirkjun um streng yfir Hvalfjörð rafmagn frá Rafmagnsveitum ríkisins, sem er að mestu selt til Sementsverksmiðju ríkisins gegnum Rafveitu Akraness. En Rafveitur ríkisins fá aftur rafmagn frá Andakilsárvirkjun til dreifingar í sveitum á sama svæði.

Andakílsárvirkjun hefur haft stórkostlega þýðingu fyrir íbúa svæðisins, sem ávallt hafa fengið raforku á mjög hagstæðu verði. Þessi virkjun er nú allt of lítil og stækkunarmöguleikar takmarkaðir. Virkjunin keypti rafmagn frá Rafmagnsveitum ríkisins gegnum Hvalfjarðarstreng á árinu 1970, 11.1 millj. kwst., en orkusala virkjunarinnar árið 1970 var 34.9 millj. kwst. Notkun Sementsverksmiðjunnar einnar 1970 var 10.3 millj. kwst. og s.l. ár, 1971, 12.2 millj. kwst. Láta mun því nærri, að Andakílsárvirkjun kaupi af Rafmagnsveitum ríkisins 1/3—1/4 hluta raforku gegnum strenginn yfir Hvalfjörð, en verð þessa rafmagns er óhagstætt miðað við framleiðsluverð virkjunarinnar sjálfrar og er sterkur áhugi fyrir því í héraði að fá keyptan þennan Hvalfjarðarstreng og möguleikanum á að kaupa raforku í heildsölu við stöðvarvegg í Elliðaárstöð. Telur virkjunarstjórn sig hafa haft loforð fyrir kaupum á þessum streng fyrir ca. 19 millj. kr. með greiðslu á 15 árum með 8% vöxtum. Þetta mál þarf að skoða nánar.

Á öllu vestursvæði kjördæmisins, þ.e. Snæfellsnes og Dalasýslu, er aðeins ein vatnsaflsstöð, Rjúkandavirkjun í Fossá við Ólafsvík, sem er aðeins 840 kw. Hins vegar eru þrjár dísilstöðvar á svæðinu, samtals 2.470 kw., í Ólafsvík 1.200 kw, í Stykkishólmi 690 kw og í Búðardal 495 kw. Orkuframleiðslan á þessu svæði 1971 var samtals 12.5 millj. kwst., þar af 5.2 millj. kwst. frá dísilstöðvunum. Er mikill raforkuskortur á þessu svæði. Auk þess vantar enn rafmagn frá samveitu til um 140 sveitarbýla á Vesturlandi. Þar af eru 35 býli algerlega án rafmagns.

Það er augljóst mál að ekki getur verið hagkvæmt né lausn til frambúðar að framleiða rafmagn með rekstri dísilstöðva. Er það og ein veigamikil ástæða hins háa raforkuverðs, sem er það hæsta á landinu, eins og áður getur.

Af framansögðu má ljóst vera, að brýn þörf er á því að finna hagkvæma lausn í raforkumálum Vesturlands. Margar hugmyndir og ráðagerðir eru uppi um þessi mál eins og hér hafa þegar komið fram, t.d. virkjun við Kljáfoss í Hvítá í Borgarfirði, sem gæti orðið 10—12 megawött að stærð. Hefur farið fram nokkur athugun á þeim virkjunarmöguleikum. Liggur fyrir áætlun um ca. 160—170 millj. kr. virkjun. Sú virkjun gæti verið rekin í nánum tengslum við Andakílsárvirkjun með fjarstýringu og er af mörgum talin hagstæð virkjun.

Þá hafa menn talað um virkjun við Hraunsfjarðarvatn á Snæfellsnesi, sbr. þáltill. 4. þm. Vesturl. á þskj. 341, sem hér hefur verið höfð framsaga um. Frumathugun á þessari virkjunarhugmynd hefur farið fram, án þess þó að upplýst sé um niðurstöður hennar. Nú þegar hafa komið fram hörð mótmæli gegn þessari virkjunar hugmynd frá aðalfundi Veiðifélags Straumfjarðarár, en Straumfjarðará á Snæfellsnesi er mjög góð laxveiðiá. Hafa bændur 12 lögbýla, sem land eiga að ánni, haft allgóðar tekjur af leigu árinnar. Straumfjarðará hefur vatnsmagn sitt að mestu úr Hraunsfjarðar— og Baulárvallavötnum. Ekkert afrennsli svo að afgerandi sé er úr nefndum vötnum annað en í Straumfjarðará, sem rennur til suðurs. En ef virkjun við Hraunsfjarðarvatn á að verða möguleg, þarf að veita þessum vötnum norður af fjallgarðinum. Er þá nokkuð ljóst, að þá er Straumfjarðará úr sögunni sem laxveiðiá. Hér þarf að veita þessu atriði mjög mikinn gaum.

Þá kemur sterklega til greina sem lausn þessara mála samtenging alls orkusvæðisins, þ.e. Vesturlands, með línu frá Landsvirkjun.

Eins og ég hef rakið hér að framan og fram kemur í þáltill., þ.e. .grg., eru raforkumál Vesturlands hin mikilvægustu mál fyrir íbúa og framtíð Vesturlands. Þar bíða mörg óleyst verkefni, sem nauðsyn ber til að leysa á sem hagstæðastan hátt fyrir kjördæmið í heild með það fyrir augum að tryggja nægjanlega raforku á hagstæðu verði.

Herra forseti. Ég taldi nauðsyn á að leiða þetta mál hér inn á hv. Alþ. með það fyrir augum, að unnið verði að málinu með heildarlausn þessa mikilvæga máls fyrir Vesturland í heild í huga. Ég treysti því, að málið fái framgang á yfirstandandi þingi. Ég legg til, að umr. verði frestað og þáltill. verði send til allshn.