02.03.1972
Sameinað þing: 44. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í D-deild Alþingistíðinda. (4408)

187. mál, raforkumál í Vesturlandskjördæmi

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að taka fyllilega undir þá till., sem hv. 1. þm. Vesturl. ræddi hér um. Ég álít hana hina merkustu og ágæta í alla staði. Einnig vil ég þakka hæstv. orkumálaráðherra upplýsingar frá hans hendi í þessu máli. Að gefnu tilefni vil ég þó leyfa mér að skýra viss atriði þessa máls í örfáum orðum.

Þessir hv. ræðumenn viku báðir að því, að þegar hefðu komið fram hörð mótmæli gegn hugmyndinni um að athuga aðstæður til virkjunar við Hraunsfjarðarvatn og vitnuðu þar í fundarsamþykkt Veiðifélags Straumfjarðarár frá 27. f.m. Ég skal taka það strax fram, að það er ekki neitt aðalatriði af minni hálfu að virkja á þessum stað. Hins vegar vil ég láta ganga sem fyrst úr skugga um, hvort þar séu öll skilyrði fyrir hendi, bæði hvað snertir veiðiréttareigendur og annað. En hvað fundarsamþykktina snertir, þá er náttúrlega ekkert við hana að athuga. Þeir, sem undir hana rita, skýra mál sitt mjög greinilega og leggja spilin á borðið. En í grg. þeirri, sem fylgdi minni till., tek ég upp samþykkt, sem gerð var á aðalfundi sýslunefndar Snæfellinga s.l. ár. Þar er einmitt vikið að því, að þetta sama mál hafi verið til umr. á sýslufundum Snæfellinga a.m.k. 2—3 s.l. ár. Það er sannast mála, að þar hefur verið um þessi mál fjallað í raforkunefnd. Formaður þeirrar nefndar er einmitt sýslunefndarmaður Miklhreppinga, en þeir, sem hér eiga hlut að máli, eru ábúendur 12 lögbýla við Straumfjarðará í Miklaholtshreppi. Menn geta því skilið, að mér er nokkur vorkunn að hreyfa þessu máli hér á hv. Alþ., þar sem þessi mæti maður hefur orðað þessa till. og barizt fyrir henni á sýslufundum undanfarin ár.

Hitt er annað mál, að hér virðist liggja fyrir hrein afstaða veiðieigenda við Straumfjarðará, eins og hæstv. ráðh. gat um og það þykir mér ágætt, því að þessi till. var ekki sízt flutt til þess að fá alveg úr skorið um afstöðu heimamanna í þessu efni. Hitt er svo rétt, að ég tek fyllilega undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að aðalatriðið fyrir okkur, sem búum á þessum slóðum, er vissulega það, að Vesturland hafi aðgang að nægri og ódýrri orku á komandi árum. Hitt skiptir minna máli, hvar virkjað verður.