11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í D-deild Alþingistíðinda. (4428)

189. mál, menntun heilbrigðisstarfsfólks

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að ræða þá till., sem hér liggur fyrir á þskj. 359, en ég hef hlýtt með athygli á þær fróðlegu umr., sem hér hafa fram farið, framsöguræðu hv. flm. og þá fróðlegu skýrslu, sem hæstv. ráðh. flutti hér áðan.

Það var aðeins eitt atriði, sem mig langar til að minnast á í sambandi við ræðu hæstv. ráðh. Hann ræddi m.a. um hjúkrunarkvenna skortinn, sem öllum er nú kunnugt um og ráðstafanir, sem væri verið að reyna að gera til þess að bæta þar úr og gat þess, ef ég tók rétt eftir, að starfandi væri nefnd í þessu máli. Um þá nefnd gat hann þess þá jafnframt, ef ég hef skilið mál hans rétt, að í nefndinni hefði komið til greina að stofna annan hjúkrunarkvennaskóla en þann, sem nú er og þá við Borgarspítalann í Reykjavík. Nú vildi ég spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh., hvort honum sé nokkuð kunnugt um það, að komið hefði til greina í nefndinni að stofna slíkan skóla við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Þar er um stórt sjúkrahús að ræða og fyrirætlanir uppi um að gera það þannig úr garði, að það verði mjög hliðstætt sjúkrahúsum í Reykjavík og mér sýnist sem leikmanni, að ef það kemur til greina að fara að stofna hjúkrunarkvennaskóla við Borgarspítalann hér í Reykjavík, sem auðvitað er ekki nema allt gott um að segja, þá kynni það nú að koma einnig til greina, að stofnaður yrði slíkur skóli á Norðurlandi við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Hafi þetta ekki komið til greina í nefndinni, svo að ráðh. sé kunnugt um, þá vildi ég beina þeim tilmælum til hans, að hann hlutaðist til um það, að nefndin íhugi það mál.