11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í D-deild Alþingistíðinda. (4429)

189. mál, menntun heilbrigðisstarfsfólks

Heilbr.-– og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Það er dálítið skemmtilegt dæmi um hollustu hv. norðlenzkra þm. við höfuðborg sína, að það er ekki lengur hægt að minnast á nokkra stofnun hér á Alþ., án þess að menn spyrji hvort ekki megi velja henni stað á Akureyri.

Þessi nefnd, sem ég var að tala um áðan, var stofnuð sérstaklega út af hugmyndum um að stofna hjúkrunarskóla við Borgarspítalann í Reykjavík. Eins og ég gat um, þá eru aðilar að þessari nefnd tveir frá borgarstjórn Reykjavíkur og tveir frá menntmrn. og einn frá heilbrmrn. og hún er að kanna þetta vandamál einvörðungu. Ég hygg, að eins og sakir standa, þá sé ekki aðstaða til þess að koma upp hjúkrunarskóla við sjúkrahúsið á Akureyri, en sú aðstaða mun koma á næstu árum, vegna þess að þar er ætlunin að stækka sjúkrahúsið til mikilla muna og hafa það deildaskipt og láta það ná yfir mjög stórt svæði. Þá mundi koma upp aðstaða til að hafa þar sérstakan hjúkrunarskóla, en eins og sakir standa nú, þá er þessi aðstaða ekki fyrir hendi. Ég hef kannað það sérstaklega, og dómbærir menn telja, að það væri ekki hægt að starfrækja slíkan skóla við sjúkrahúsið á Akureyri eins og nú standa sakir, en sem sagt, ég tel, að sú staða muni breytast á tiltölulega skömmum tíma, eftir því sem sjúkrahúsið á Akureyri þróast, eins og ráð er fyrir gert m.a. í því frv., sem hér var lagt fram í dag.