11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í D-deild Alþingistíðinda. (4430)

189. mál, menntun heilbrigðisstarfsfólks

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég bið hæstv. ráðh. afsökunar á því, ef ég hef misskilið skýrslu hans áðan að því er varðaði hlutverk hjúkrunarkvennaskólanefndar, en ég hafði skilið það svo, að hún fjallaði um þetta vandamál almennt, en hann upplýsir nú, að hún fjalli eingöngu um möguleika á því að stofna nýjan hjúkrunarskóla við Borgarspítalann í Reykjavík. Nú kynni að vísu að vera möguleiki á því að víkka hlutverk þessarar nefndar, ef hæstv. ráðh. sýndist það athugunarvert, sem ég sagði hér áðan. Ég er nú leikmaður í þessum efnum, en nokkur kynni hef ég af sjúkrahúsum. bæði hér í höfuðhorginni og einnig á Akureyri og ég vil nú leyfa mér að setja fram það sjónarmið leikmanns, að aðstaðan til þess að reka hjúkrunarkvennaskóla við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sé ekki öllu lakari nú en hún var við Landsspítalann, þegar hjúkrunarkvennaskóli var hér fyrst stofnaður með kennslu í hjúkrunarfræðum. Annars vil ég mega vænta þess, að hæstv. ráðh. taki nú þetta mál til athugunar eftir að á það hefur verið bent.