11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í D-deild Alþingistíðinda. (4465)

200. mál, samkeppni um teikningar af opinberum byggingum

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Hér er til umr. till. til þál. á þskj. 384 um samkeppni um teikningar af opinberum byggingum, sem ég hef leyft mér að flytja og hljóðar till. svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að leggja fram frv. til l. um breyt. á lögum nr. 63/ 1970, um skipan opinberra framkvæmda, þar sem kveðið skal á um, að efna skuli að jafnaði til samkeppni um teikningar af opinberum byggingum.“

Ég mun af ástæðum, sem viðstaddir geta sennilega gert sér grein fyrir, vera stuttorður og fara fljótt yfir sögu í virðingarskyni við þann fámenna hóp, sem hér er mættur og stikla aðeins á stóru.

Fyrst vildi ég taka fram, að með lögum um opinberar framkvæmdir nr. 63 frá 1970 var að mínu áliti stigið ákaflega stórt spor í átt til þess að skipuleggja og búa betur að opinberum framkvæmdum, bæði hvað snertir framkvæmdina sjálfa svo og yfirstjórn, úttekt og fleira, sem snýr bæði að áætlunargerð og verklegum framkvæmdum. Í þessum lögum var auk annarra ýmissa ágætra ákvæða bundið fastmælum, að öll verk skyldu að jafnaði unnin samkv. tilboði á grundvelli útboðs. Sú leið hefur verið farin í vaxandi mæli hér á landi af opinberum aðilum sem einkaaðilum og hún hefur að allra dómi gefið góða raun, svo góða raun, að verksamningar samkv. reikningi tíðkast ekki nema undir mjög sérstökum og óvenjulegum kringumstæðum. Slík samkeppni, sem útboðin fela í sér, tryggir undir flestum ef ekki öllum kringumstæðum hagkvæmari tilboð, betri og hraðari vinnu og virkara skipulag á undirbúningi framkvæmda á úttekt verksins. En hvort sem það var viljandi eða óviljandi, þá gleymdist, sást yfir, að setja inn í þessi lög ákvæði um útboð á einum hluta undirbúnings að opinberum framkvæmdum, en ekki þó minnsta þætti þess undirbúnings og þar á ég við teiknivinnu og það, sem henni fylgir. Í dag er það enn þá áfram á valdi viðkomandi byggingaraðila að taka ákvörðun um, hverjir teikni bygginguna og ráða nokkuð ferðinni í því. Vitaskuld verður maður að gera ráð fyrir því, að þeir, sem standa að byggingunum, ráði í meginatriðum ferðinni í byggingunni eða nýtingu viðkomandi mannvirkis, en það, sem ég á við, er að eftir að „prógrammering“ hefur farið fram, þar sem fram kemur, hvað sé nauðsynlegt að rúmist í þessu mannvirki, þá eigi að fara fram útboð á teiknivinnunni, þannig að sem fallegust bygging náist. Auk þess, eins og ég fyrr sagði, eru meiri líkur á því, að byggingin verði hagnýtari og allt skipulag á undirbúningi og framkvæmd tryggara, þegar „prógrammering“ liggur fyrir. Hún ætti raunverulega að tryggja, að svo væri.

Þessum sjónarmiðum til stuðnings hefur verið bent á, að auk þess sem þessi „prógrammering“ væri tryggð, eins og fyrr er sagt, þá væri betur unnt fyrir viðkomandi aðila að gera samanburð og átta sig á ýmsum þeim valkostum og hugmyndum, sem fram kæmu í slíkri hugmyndasamkeppni. Hér á Íslandi er þegar starfandi allstór hópur mjög hæfra arkitekta og reyndar annarra, sem hafa heimild til þess að fá samþykktar teikningar og þetta fólk er allajafna vel menntað og ágætlega hæft í störfum sínum og fyllilega treystandi til þess að taka þátt í slíkum samkeppnum og skila verkefnum eða till., sem nýtanlegar væru.

Arkitektafélag Íslands hefur sett fram óskir um slíkar hugmyndasamkeppnir, að þær yrðu fastmælum bundnar í lögum og er þessi till. sprottin af umr., sem fram hafa farið í framhaldi af óskum Arkitektafélags Íslands og þá einkum vegna byggingar væntanlegrar Þjóðarbókhlöðu. Sú hugmynd, bygging þjóðarbókhlöðunnar, mun hafa komið upphaflega frá þjóðhátíðarnefnd þeirri, sem undirbýr 1.100 ára afmæli Íslandsbyggðar, en þessi þjóðhátíðarnefnd setti fram óskir um. að stefnt yrði að byggingu bókhlöðunnar á þessu merka afmæli og jafnframt var tekið fram af nefndinni, að hún óskaði eftir því, að fram færi samkeppni um teikningar að byggingunni. Til að gera langt mál stutt, þá er frá því að segja, að bæði fyrrv. hæstv. menntmrh. og núv. hæstv. menntmrh. hafa hafnað þessum hugmyndum, sem eins og ég segi, upphaflega voru settar fram af þjóðhátíðarnefnd og síðan af Arkitektafélagi Íslands og síðar af ýmsum öðrum aðilum. Nú síðast í svarbréfi ráðh. dags. 8. febr., sem barst Arkitektafélagi Íslands, eftir að það hafði ítrekað þessar óskir sínar, voru rökin þau, að með tilliti til allra aðstæðna og málavaxta væri ekki hægt að verða við þessari ósk Arkitektafélagsins. Þó var tekið fram í þessu svari rn. að almennt væri það hlynnt samkeppni um teikningar að opinberum byggingum.

Nú vakna ýmsar spurningar varðandi byggingu þessarar Þjóðarbókhlöðu og undirbúning að byggingu hennar, vegna þess að í svari ráðh., eins og ég hef getið um, er talað um, að með tilliti til allra aðstæðna sé ekki hægt að verða við þessari ósk og er því átt við, að undirbúningur sé svo langt á veg kominn og nú þegar sé búið að tala við ákveðna aðila um teikningar að þessari byggingu, að ekki verði aftur snúið. En hv. þm. barst nú fyrir skömmu bæklingur frá Arkitektafélagi Íslands, útgefinn í marz 1972, þar sem skýrt er frá umr. um hlutverk Þjóðarbókhlöðu, umr., sem fram fóru á fundi, sem félagið efndi til í Norræna húsinu 19. febr. s.l. Ég ætla nú ekki að fara að lesa allan þennan bækling. En ég vil vekja athygli hins háa Alþingis á því, að ummæli þau, sem fulltrúar ýmissa háskóladeilda létu sér um munn fara á þessum fundi, gefa vissulega ekki tilefni til þess að álíta, að undirbúningur hafi verið merkilegur eða nægur. Nú er öllum kunnugt, að gert er ráð fyrir því. að í þessari Þjóðarbókhlöðu verði jafnframt það, sem nú heitir Háskólabókasafn, ásamt með ýmsum öðrum söfnum og því má telja líklegt, að við viðkomandi yfirvöld í Háskólanum hafi verið haft samráð og samvinna um það, hvernig þessari byggingu skyldi hezt hagað fyrir Háskólabókasafnið eða þá aðstöðu, sem þessar deildir þyrftu á að halda. Á þessum fundi 19. febr. tóku til máls forsetar ýmissa deilda og nefni ég t.d. ummæli Sveins Skorra Höskuldssonar prófessors, með leyfi forseta, en þar segir um þetta af hans hálfu:

„En það var í tilefni af þeirri spurningu, sem formaður Arkitektafélagsins beindi hér til deildarforseta Háskólans um það, hvort rætt hefði verið við einstakar deildir um skipan Þjóðarbókhlöðunnar, sem ég ætla aðeins að koma hér í pontuna. Þar get ég svarað hinu sama og forseti lagadeildar, að mér er ekki kunnugt um, að slíkar umr. hafi farið fram. Ég get a.m.k. fullyrt, að þau fjögur ár bráðum, sem ég hef haft kynni af heimspekideild, hafa slíkar viðræður ekki farið fram og mér er heldur ekki kunnugt um, að þær hafi farið fram fyrr, en um það skal ég ekki fullyrða.“

Prófessor Davíð Davíðsson, sem talaði fyrir hönd læknadeildar, segir um þessa sömu spurningu, með leyfi forseta:

„Því er fljótt til að svara. Ég er búinn að sitja í læknadeild í tæp 15 ár og þetta mál hefur ekki verið rætt á deildarfundum þar, svo að ég viti, ekki í minni dekanstíð.“

Prófessor Magnús Magnússon svarar með þessum hætti, með leyfi forseta:

„Ég ætla fyrst að svara þeirri spurningu, sem beint var til deildaforseta Háskólans, hvort rætt hefði verið við deildir um Þjóðarbókhlöðu. Að því er varðar verkfræði— og raunvísindadeild er svarið neitandi. Innan Háskólans er til bókasafnsnefnd, skipuð fulltrúum allra deilda. Þessi nefnd hefur lítið starfað á undanförnum árum og mér er ekki kunnugt um, hvort Þjóðarbókhlaðan hafi sérstaklega verið rædd þar.“

Og svona mætti áfram rekja ummæli fulltrúa háskóladeildanna og skal ég ekki frekar tíunda þau, en vil þó aðeins lesa upp eina tilvitnun enn, þar sem áhugamaður á fundinum, Ólafur Ragnar Grímsson, tók til máls í lok hans. Hann hafði þessa „súmmeringu“ fram að færa eftir umr. fyrr á fundinum. Með leyfi forseta segir Ólafur Ragnar:

„Ég held, að bygging þessarar Þjóðarbókhlöðu gæti orðið „fiaskó“ og minnisvarði fyrir komandi kynslóðir um það, hvers konar fáránlegt þjóðfélagskerfi hér ríkti og hve „prímitívir“ Íslendingar voru í stjórnsýslu og framkvæmdagetu á þessum tíma.“

Svo mörg voru þau orð. Þetta er að vísu aðeins einn angi af því máli, sem hér er til umr. varðandi samkeppni um teikningar að opinberum byggingum, en er tíundað hér af mér til þess að árétta, að ég leyfi mér að efast um. að undirbúningur að byggingu þjóðarbókhlöðunnar sé á þann veg kominn, að ekki sé hægt að taka til greina óskir Arkitektafélagsins um, að efnt sé til hugmyndasamkeppni um þessa byggingu.

Hér fyrr á þinginu var til umr. þáltill. flutt af hv. þm. Ingu Birnu Jónsdóttur og Bjarna Guðnasyni, að mig minnir, um endurskoðun eða athugun á safnamálum Íslendinga og þar vék 1. flm. þeirrar till. að þessu máli, hv. þm. Inga Birna .lónsdóttir. Á hennar máli mátti skilja, að ef sú þáltill. næði fram að ganga, liti hún svo á, að þessi mál yrðu öll endurskoðuð, stokkuð upp og þá væri opnaður möguleiki einmitt fyrir þeirri hugmyndasamkeppni um þessa ákveðnu byggingu, sem ég er hér að ræða um. Nú hafði ég hugsað mér að beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., hvort þessi skilningur þm. væri á rökum reistur og hvort áhugamenn, bæði ég og aðrir, gætu gert sér vonir um, að þetta mál yrði tekið til endurskoðunar, en því miður, eins og oft hefur viljað til áður, þá eru flest allir ráðh. ekki viðlátnir og sýna, eins og ég sagði fyrr í dag, hinu háa Alþingi með því kannske sinn sóma og sína virðingu. Ég fór um þetta nokkrum orðum hér fyrr í dag af öðru tilefni. Þá var enginn ráðh. viðstaddur nema þegar hæstv. iðnrh. skauzt í gættina í þann sama mund, en nú er það eins og fyrr í dag, að hér situr enn sá ágæti ráðh., en það er bara því miður „vitlaus“ ráðherra.

Ég skal ekki hafa um þetta miklu lengra mál. En ég geri mér vonir um, að hæstv. menntmrh. endurskoði afstöðu sína til þjóðarbókhlöðunnar og opinberrar samkeppni um teikningar að henni. Ég er enn vonheitri um, að þessi till. nái fram að ganga, þegar ég hef í huga bréf hæstv. ráðh. frá 8. febr. s.l., þar sem beinlínis er tekið fram, að rn. sé almennt hlynnt samkeppni um teikningar að opinberum byggingum.