17.03.1972
Sameinað þing: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í D-deild Alþingistíðinda. (4481)

203. mál, merking bifreiða öryrkja

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 391 till. til þál. um merkingu bifreiða öryrkja. Till. er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að leggja fyrir ríkisstj. að láta merkja allar bifreiðar öryrkja, svo að þeim verði sýnd aukin tillitssemi í umferðinni.“

Með þessu hef ég látið fylgja svofellda grg.:

„Með stóraukinni bifreiðaeign landsmanna og sívaxandi umferðarþunga á vegum hefur og mjög aukizt, að karlar og konur, sem hlotið hafa ýmiss konar örorku, eigi og aki bíl. Margt af þessu fólki er stórlega fatlað og þarf mjög á sínu farartæki að halda, en jafnljóst er hitt, að það þarf á fyllstu tillitssemi að halda af hendi annarra í umferðinni og ætla má, að þá tillitssemi verði mun auðveldara að veita, ef merkingar bíla öryrkja verða teknar upp. Einhverjir kunna að segja, að ekki sé ætíð auðgert að draga skilin, öryrki og ekki öryrki, en hér má að sjálfsögðu leggja til grundvallar úthlutun ríkisins á bifreiðum til öryrkja, þar sem eftirgjöf á aðflutningsgjöldum er veitt og auk þess mun Bifreiðaeftirlit ríkisins hafa fulla vitneskju um bifreiðaeign öryrkja. Loks má ætla, að margur öryrkinn leiti sjálfur með bifreið sína til merkingar, þegar sá háttur hefur verið tekinn upp, sér og öðrum til aukins öryggis.“

Ég ætla, að hv. þm. sé algerlega ljóst, þó að ekki séu höfð mörg orð um þetta mál, hvað hér vakir fyrir mér sem tillögumanni. Þó vil ég aðeins bæta því við, að þessa till. flyt ég að beiðni ýmissa öryrkja, sem hafa fundið fyrir því, að oft vill svo verða, þegar menn eru í umferðinni, að þeir vita ekki, að sá, sem kannske er í vandræðum. er öryrki og fram hjá honum er ekið, án þess að honum sé rétt hjálparhönd. Allir þekkja það, að margur er þannig fatlaður, að hann á t.d. erfitt með að skipta um dekk undir bíl. Stundum getur honum fremur fatazt en öðrum, ef óvarlega er fram hjá honum ekið og margt fleira mætti tilnefna, sem ég þó ekki eyði tíma í hér.

Ég nefni það í grg., að það muni vera tiltölulega auðgert að afla upplýsinga um það, hverjir eru öryrkjar við akstur og nefni þar til t.d. úthlutun ríkisins á bílum til öryrkja. Ég veit að vísu, að til eru menn, sem segja, að ýmsir hafi fengið bifreiðar þannig, án þess að teljast beinlíms fatlaðir til aksturs, og hugsanlegt er, að þetta sé að einhverju leyti rétt. En ég vil minna á það, að þessi úthlutun fer fram undir umsjá þriggja þjóðkunnra og valinþekktra lækna, þannig að það má ætla, að á þessu megi raunverulega byggja og þeir, sem annað vilja segja, verða að minnast þess, að við, sem erum leikmenn, þekkjum ekki alltaf til um örorku manna. Þó að okkur sýnist þeir kannske fullfrískir, þá er ýmislegt að þeim, sem læknar vita um og kunna að meta, þó að við, sem leikmenn erum, kunnum það ekki.

Í öðru lagi bendi ég á það, að Bifreiðaeftirlit ríkisins muni vita deili á öryrkjum. sem í akstrinum eru eða bifreið eiga og í þriðja lagi, að þegar þessi háttur verður tekinn upp, þá muni margur sá, sem telji sér aukið öryggi í því, að þessi merking komist á, leita til viðkomandi yfirvalda og fá merkingunni komið á.

Eins og ég sagði í upphafi, tel ég alveg víst, að hv. alþm. kunni full skil á því, hvað hér vakir fyrir mér sem tillögumanni og hver nauðsyn og kostur væri á því, ef þessar merkingar væru teknar upp og hef því ekki fleiri orð um þetta mál en legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.