17.03.1972
Sameinað þing: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í D-deild Alþingistíðinda. (4482)

203. mál, merking bifreiða öryrkja

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það er ekki vafi á því, að fyrir flm. þessarar till. vakir gott eitt og ég er honum algerlega samþykkur að vissuleyti, en ég vil þó taka það skýrt fram, að öryrkjar vilja ógjarnan aðskilja sig frá öðrum þegnum þjóðfélagsins. Þetta mál, merking á bifreiðum öryrkja, hefur að sjálfsögðu oft komið til umr. innan öryrkjahópanna og það hefur einkum nú á síðustu árum verið almenn skoðun þeirra hópa, að þeir óskuðu ekki eftir skyldumerkingu á sínum bifreiðum af þeim ástæðum, sem ég gat um, að þeir vilja gjarnan vera venjulegir þjóðfélagsþegnar.

Hins vegar tel ég það mjög æskilegt, að þeir, sem þess óska, geti fengið sína bíla merkta einmitt í þeim tilgangi, sem flm. gat um. Það getur verið mjög bagalegt, ef bíll er stopp úti á þjóðvegi og lömuð manneskja í bílnum og ég veit um dæmi þess, að slíkt fólk hefur orðið að bíða klukkutímum saman án þess að fá hjálp. Þetta mundi fyrirbyggt, ef bíllinn væri merktur. En hins vegar er tvennt til í þessu máli, ýmist að þeir, sem þess óska, merki sínar bifreiðar eða þá merkin séu þannig gerð, að þeim megi skjóta upp, þegar þörf er á þeim, en að aðgreina þeirra bíla frá bílum annarra að jafnaði tel ég ekki vera í samræmi við þá almennu skoðun, að öryrkjum beri að blanda inn í þjóðfélagið svo mikið sem unnt er.

Varðandi bílaúthlutun, vegna þess að minnzt var á hana hér, þá get ég fyllilega tekið undir það nú, að þar séu valinkunnir læknar að verki, sem ekki sé ástæða til þess að efast um, að geri rétt. Ég er nefnilega sjálfur hættur í þessari nefnd núna, þannig að ég get vel sagt þetta. Þarna er sannarlega um viðkvæmt og erfitt vandamál að ræða og ég veit, að það hefur legið í landi sú skoðun, að á þessu væri alláberandi misnotkun. En hins vegar vil ég nú gjarnan segja það eftir að hafa verið 10—12 ár í þessari nefnd, að í hvert skipti, sem kvartað hefur verið við mig og bent á einstök tilfelli, þá hafa þær kvartanir ekki haft við rök að styðjast og ég hef að vísu heyrt um tilfelli, sem hafa verið mislukkuð, en þar eru fleiri aðilar að verki en við. Við sjáum ekki þetta fólk, sem um er að ræða, eins og allir vita, sem kunnugir eru. En ég vildi geta þess í þessu sambandi, að örorka manna er mjög misjöfn og menn bera hana mjög misjafnlega utan á sér og sumir, sem virðast allfrískir og með fulla endingu fram undan, geta verið í raun og veru mjög illa haldnir. Þetta er það, sem veldur þeim mönnum, sem að þessu vandasama verki starfa, miklum örðugleikum og ekki sízt síðan farið var að taka verulegt tillit til ýmissa félagslegra aðstæðna, þar sem iðulega er byggt á upplýsingum frá einhverjum ráðamönnum í heimahéraði. Allt þetta veldur þeim mönnum, sem með þessi mál fara, miklum vanda, en ég held nú, að ég geti fullyrt, að þeir reyni að gera það bezta í þessu máli sem öðrum.