18.04.1972
Sameinað þing: 57. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í D-deild Alþingistíðinda. (4490)

204. mál, útttekt á embættismannakerfi

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Í fjarveru 1. flm., Ingu Birnu Jónsdóttur, hef ég tekið að mér að fylgja þessari þáltill. úr hlaði. Hún beinist að því að gera úttekt á ráðuneytum, ríkisstofnunum og embættismannakerfi. Hún hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa þriggja manna nefnd til að kanna og gera úttekt á ráðuneytum, ríkisstofnunum og embættismannakerfi og gera tillögur til úrbóta. Verkefni nefndarinnar skulu vera m.a. eftirfarandi:

1. Að kanna hlutverk og verkaskiptingu ráðuneyta og ríkisstofnana.

2. Að rannsaka nýtingu vinnuafls og vinnubrögð í ráðuneytum og opinberum stofnunum í því skyni að auka vinnu hagræðingu.

3. Að taka til athugunar húsnæðismál ráðuneyta og ríkisstofnana. Sérstaklega skal kannað, hvort æskilegt sé, að hið opinbera gerist í æ ríkari mæli leigutaki hjá einkaaðilum í stað þess að reisa eigið húsnæði.

4. Að gaumgæfa, hvort ekki sé unnt að koma á auknu stjórnunarlýðræði við ráðuneyti og ríkisstofnanir og í því sambandi, hvort ekki sé æskilegt, að forstöðumenn ráðuneyta og ríkisstofnana verði ráðnir til skamms tíma í senn.

5. Að finna leiðir til að veita almenningi greiðari aðgang að ráðuneytum og ríkisstofnunum.“

Eins og hv. þm. mun nú vera ljóst af þessum lestri, er tekið hér á nokkuð stóru og víða miklu máli. Því hagar svo til, að ég hygg, að flestir ef ekki allir stjórnmálaflokkar íslenzkir hafi drepið á ríkisbáknið í stefnuskrám sínum og talið, að það ætti að draga úr því eða hafa stjórn á því. Hins vegar hefur þetta farið á þann veg, að flokkarnir hafa ekki sinnt þessu máli eða a.m.k. ekki treyst sér til þess að gera neitt, sem skipti verulegu máli.

Segja má, að þeir, sem vilja sem minnst ríkisafskipti, keppi sjálfkrafa að því að halda ríkisbákninu í skefjum, en svo eru líka til aðrir, sem telja eðlilegt, að ríkið hafi veruleg afskipti af ýmsum þáttum þjóðfélagsins, en fyrir þeim mönnum vakir það, að ríkisbáknið eða ríkiskerfið sé vel skipulagt og þar sé vinnuhagræðing og sparnaður engu að síður. Stjórnmálaflokkarnir vilja nokkuð það sama á ólíkum forsendum. Niðurstaðan er sú, að þetta atriði, í einu orði ríkisbáknið, er verðugt viðfangsefni, a.m.k. að það sé kannað, hvað unnt sé að gera til þess að auka vinnuhagræðingu og sparnað og þó að hér sé kannske stefnt hátt, þá þykist flm. vita, að eitthvað ætti að vera unnt að fá út úr þessari könnun.

Um þau atriði, sem hér eru nefnd, skal ég fara nokkrum orðum. Það er fyrst og fremst, að rn. virðast vera nokkuð mismunandi uppbyggð. Sum rn. eru að verulegu leyti afgreiðslustofnanir, kansellistofnanir. Önnur rn. eru að verða í vaxandi mæli stefnumótandi stofnanir, sem ég tel mjög eðlilega þróun og ég hygg, að einhver samræming ætti að vera milli rn. um þetta atriði. Einnig virðist mér starfslið sumra rn. vera með þeim hætti, að það sé nokkuð einhliða og eins og þingheimi er kunnugt, þá má segja, að lögfræði sé algengasta menntun þeirra manna, fulltrúa, sem starfa í rn. og einmitt það mannval bendir sérstaklega í þá átt, að rn. hafi verið öðru fremur kanselli— eða afgreiðslustofnanir. Ég hygg, að vert væri fyrir þessa nefnd, sem hér er höfð í huga, einmitt að taka til athugunar þá spurningu, hvernig undirbúningsmenntun starfsmanna í rn. ætti að vera háttað, þannig að undirbúningsmenntun og nýting starfsmanna komi að sem beztum notum.

Þá vil ég minnast á vinnuhagræðingu. Það vita allir, sem koma í rn., eða a.m.k. virðist þannig, að sumir menn eru mjög önnum kafnir og á þeim hvíla mörg brýn úrlausnarefni, sem erfitt er að leysa, en minna er að gera hjá öðrum. Þetta segir sig sjálft. Og flytjendur þessa máls hafa hugboð um það, að gera mætti meira af því að færa þá vinnukraft milli stofnana eða dreifa vinnunni kannske með betra móti en nú tíðkast.

Þá kem ég að öðru, sem er mjög viðkvæmt mál og hefur lengi verið höfuðverkur margra ríkisstj. Það er það fyrirkomulag, að ríkisstofnanir flykkjast mjög í leiguhúsnæði og virðist ekki unnt eða hefur ekki tekizt fram að þessu að stöðva þá þróun. Hv. þm. Jón Árm. Héðinsson, 5. þm. Reykn., ber fram fsp. um þetta í Sþ., sem ég tel mjög eðlilega og sjálfsagða, því að það hlýtur að leiða til mikils vanda fyrir ríkið, hvernig ríkisstofnanir þurfa sífellt að leigja hjá einkaaðilum greiða kannske margra ára háa leigu fyrir fram og í vissum skilningi greiða húsnæði fyrir eigandann, en standa síðan á götunni eftir nokkur ár. Ég skal ekki fara nánar út í þessa sálma, en ég hygg, að það hljóti að vera verkefni fyrir ríkisstj. að reyna að taka þessi mál alveg frá grunni, brjóta þau til mergjar og gera einhverja áætlun um byggingu húsnæðis fyrir opinberar stofnanir.

Þá vil ég benda á stjórnunarlýðræði, sem breiðist æ meira út um þjóðfélagið í líkingu við skólalýðræði og atvinnulýðræði, sem vaxandi skilningur er á og ég hygg, að ríkisvaldið ætti að ganga mjög á undan í þessu efni og reyna, hvernig sem það er unnt, að fá aðild starfsmanna um ákvarðanir í ýmsum stofnunum. Að vísu eru þessar stofnanir með ýmsum hætti og þetta er misauðvelt, en mér segir svo hugur um, að það mætti víða fá meiri aðild starfsmannanna að stjórnun stofnananna. Um þetta eru að sjálfsögðu skiptar skoðanir, en ég tel það einsýnt, við skulum segja t.d. í sambandi við Handritastofnun Íslands, þar sem nú eru að koma ný lög um hana, að menn, sem vinna þar, hafi aðild að stjórn hennar. Ég hef alltaf verið hlynntur því í sambandi við Ríkisútvarpið, að reynt væri að fá neytendur eða fulltrúa þeirra og ég tala ekki um fulltrúa starfsmannanna í útvarpsráð. Mörg hundruð manns vinna hjá sjónvarpi og hljóðvarpi og mér finnst sjálfsagt, að þessir stóru hópar hafi fulltrúa. í útvarpsráði. A.m.k. hef ég miklu meiri skilning á því en þegar pólitísku flokkarnir fá eitthvert ákveðið eyrnamark inn í stjórn Ríkisútvarpsins. Og við ýmsar stofnanir mætti reyna að koma á starfsmannaráðum, sem yrðu þá aðilar að rekstri fyrirtækjanna eða stofnananna.

Þá kem ég að einu atriði, sem gerð er hér grein fyrir á bls. 2 í grg. Það er sá háttur, að ríkisstofnanir dragi sig ekki inn í skel sína, heldur séu opnar og aðgengilegar fyrir almenning. Við höfum nú heyrt ýmsar sögur um það, hvað almenningi gengur erfiðlega að fá tengsl eða samband við rn. og hefur hv. 5. þm. Austf., Vilhjálmur Hjálmarsson, sagt ýmsar fróðlegar sögur af því efni.

Það er enginn vafi á því, að það má margt gera til þess að auðvelda almenningi aðgang að ríkisstofnunum og starfsmönnum þeirra og ég hygg, að þetta sé ákaflega veigamikill þáttur til að brúa bil milli almennings og ríkisstofnana, þannig að ríkisstofnanir verði ekki einhvers konar skrímsli í augum almennings, sem almenningur fær þá óbeit á. Hér eru með öðrum orðum ýmis vandamál, sem má velta fyrir sér og eru stór og erfið viðureignar. Því skal alls ekki leynt. En flm. eru sannfærðir um það, að fáist dugandi menn og röskir til þess að taka á þessu máli, þá sé enginn vafi á því, að sá kostnaður, sem yrði af þessu, mundi margborga sig og þá kæmi vafalaust fram sá vandi, sem við er að etja og Alþ. og ríkisstj. gætu síðan tekið föstum tökum á.