13.04.1972
Sameinað þing: 56. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í D-deild Alþingistíðinda. (4499)

207. mál, endurskoðun bankakerfisins

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. úr hófi fram. Það er sjálfsagt margt hægt að segja um það, sem hv. 3. landsk. þm. lét orð um falla hér í framsöguræðu fyrir þessari till., sem nú liggur hér fyrir hv. Alþ. Ýmislegt þarf sjálfsagt að skoða í bankakerfinu. Það er með bankakerfið eins og með aðra mannlega starfsemi, að þar er ýmislegu áfátt. En erindi mitt hingað í pontuna var að gera að umtalsefni framkvæmdastofnunarlögin, sem var fyrsta verk núv. ríkisstj. að samþykkja hér á Alþ., eftir að það kom saman í haust. og spyrja hv. 3. landsk. þm., hvort það sé misskilningur hjá mér, að hans flokkur og hann sjálfur hafi greitt atkv. með þessum lögum. Í þessum lögum er kveðið svo á, að þessari stofnun skuli stýrt af þrem framkvæmdaráðsmönnum, sem hafa hlotið nafnið kommissarar og það er opinbert leyndarmál, að hver stjórnarflokkur réð einn af þessum mönnum. Hér er um að ræða vinnubrögð, sem eru jafnvel enn þá verri en þau, sem hv. 3. landsk. þm. var hér að hallmæla svo mjög og hafði þung og stór orð um. Hér er eingöngu um að ræða stjórnarflokkana og allir landsmenn, sem þurfa að sækja undir þessa stofnun, þurfa að bera sín mál upp við þessa menn, sem eru valdir pólitískt af þrem stjórnarflokkum. Ég vil spyrja hv. þm., hefur hans flokkur ekki lagt blessun sína yfir þessi vinnubrögð með því að samþykkja þessi lög? Það held ég. Og það er einnig í þessari stofnun sjö manna stjórn, sem er hliðstæð bankaráðunum. Hvernig má það vera, að það sé svo sérstakur glæpur, að það séu bæði bankastjórar og bankaráð í bönkunum. ríkisbönkunum, en það sé alveg ljómandi gott, að hliðstætt sé að farið í Framkvæmdastofnuninni? Ég vil gjarnan fá upplýst hjá hv. þm., hvort hann lítur svo á, að hans flokkur hafi tekið á sig ábyrgð á þessum vinnubrögðum, sem viðgangast í bankakerfinu, með því að samþykkja þessi lög eða ekki.