21.10.1971
Sameinað þing: 5. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

1. mál, fjárlög 1972

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Áður en ég vík að frv. til fjárlaga fyrir árið 1972, sem hér liggur fyrir til 1. umr., mun ég gera grein fyrir afkomu ársins 1970 og ársins 1971, eftir því sem horfur segja til um afkomu þess árs. Venja hefur verið sú, að nákvæm grein hefur verið gerð fyrir liðnu ári í fjárlagaræðu. Ég mun nú breyta nokkuð út af þeirri venju með því að stikla á stóru í atburðum ársins 1970. Hins vegar bæti ég úr því gagnvart hv. alþm. og þjóðinni allri, þar sem hér á hv. Alþ. hefur verið afhent grg. með svipuðum hætti og grg. ráðh. hefur verið í undanförnum fjárlagaræðum. Blöðum, sjónvarpi og útvarpi hefur einnig verið afhent þessi grg. Þessi grg., sem ég afhendi hérna nú, er samhljóða þeirri grg., sem fyrrv. ríkisstj. gerði í júlímánuði s.l., að öðru leyti en því, að gerðar hafa verið tölulegar leiðréttingar, sem komu fram við lokauppgjör ríkisreiknings fyrir árið 1970, en hann var þá ekki fullfrágenginn. Ég tel, að þessi breyting geti orðið það form, sem rétt sé að hverfa að í framtíðinni, því með þessu móti vinnst það tvennt, að náð er að gefa út fullkomna grg. fyrir afkomu ársins á undan og fjárlagaræðan verður verulega stytt með því að afhenda hv. þm. þessa grg. á borð sín, eins og nú hefur verið gert. Mun ég þá snúa mér að því að skýra frá helztu atriðum úr rekstri ársins 1970.

Tekjur ársins 1970 reyndust 9 milljarðar 800 millj. kr., en rekstrargjöldin reyndust 9 milljarðar 352 millj., rekstrarafgangur var því 448 millj. Bætt staða í sjóði og óbundnum bankareikningi á árinu nam 424 millj. kr., en nettóbreyting annarra greiðslufjárreikninga er hagstæð um 34 millj. kr. Nettóbreyting á umsömdum lánum svarar til skuldaaukningar að fjárhæð 70 millj. Áætlaðar tekjur ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum 1970 voru 8 milljarðar 397 millj. kr. Tekjur fóru því 1 milljarði 403 millj. fram úr áætlun fjárlaga. Helztu liðir í umframtekjum ríkissjóðs á árinu 1970 voru aðflutningsgjöld, sem fóru 613 millj. fram úr áætlun, söluskattur 312 millj. kr., tekju- og eignarskattur 149 millj. kr. Tekjur af Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins reyndust 49 millj. kr. hærri en ráð var fyrir gert. Hins vegar náði bensínskattur ekki áætlun og var 22 millj. kr. undir henni. Tekjur af stimpilgjöldum voru 27 millj. kr. hærri en áætlað var, launaskattur 58 millj. kr., en þess ber að geta, að hann var hækkaður á árinu um 11/2% og nam innheimta á því um 20 millj. kr. leyfisgjald af bifreiðum var hins vegar fellt niður á árinu og þær tekjur, sem inn höfðu verið heimtar, voru greiddar aftur og meira þó, eða um 15 millj. kr., sem voru endurgreiddar þeim, sem keypt höfðu bifreiðir meðan leyfisgjald var við lýði. Keflavíkurflugvöllur skilaði 45 millj. kr. í ríkissjóð af rekstri sínum og fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli 16 millj.

Rekstrarútgjöld ársins 1970 reyndust 9 milljarðar 352 millj. kr., eins og áður er fram tekið. Rekstrarútgjöld urðu 875 millj. kr. umfram fjárlagaheimild, þ.e. niðurstöðutölur fjárlaga með þeim breytingum, er sérstök lög og lántökuheimildir höfðu í för með sér. Stærstu liðirnir í umframgjöldum voru annars vegar eiginleg rekstrarútgjöld ríkissjóðs og stofnana í A-hluta, 506 millj. kr., en hins vegar tilfærslur, 366 millj. kr. Meginhluti eiginlegra umframgjalda í ríkissjóð í A-hluta voru laun, 370 millj. kr., enda voru launahækkanir á árinu. Af umframgjöldum tilfærslna fóru 258 millj. kr. til B- hluta, þar af vegna aukinna útgjalda Tryggingastofnunar ríkisins til almennra trygginga, einkum sjúkratrygginga, og hækkunar lífeyris o.fl. bóta almannatrygginga 151 millj. kr. Vegna umframgjalda í flugmálum fóru 47 millj. kr. og af öðrum umframgjöldum vegna tilfærslu voru 60 millj. vegna framlags til landbúnaðar, þar af 32 millj. til útflutningsbóta. Hér verður ekki farið út í það að gera samanhurð á útgjöldum einstakra ráðuneyta umfram fjárlagaheimildir, enda er sá samanburður ekki framkvæmanlegur svo eðlilegt sé, þar sem verulegar launahækkanir urðu á árinu, eins og áður er greint, og gerir það þennan samanburð mjög örðugan.

Af álögðum tekjum, 9800 millj. kr., innheimtust á árinu 9 milljarðar 538 millj. Mismunur felur í sér aukningu á óinnheimtum tekjum ríkissjóðs, 262 millj. kr. Í þessum tölum er innifalin aukning eftirstöðva vegna ógjaldfallinna tekna. Þar er fyrst og fremst um söluskatt að ræða vegna sölu á síðasta tímabili ársins, er fellur í gjalddaga eftir áramót. Á árinu 1970 nam sú aukning 170 millj. kr. Aukning ógjaldfallinna hluta launaskatts var 35 millj. kr. og skatta af framleiðslu 14 millj. Raunveruleg aukning á óinnheimtum gjaldföllnum tekjum, þegar tekið hefur verið tillit til hluta Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, er því 57 millj. kr. Meginhluti gjaldfallinna eftirstöðva er tekjuskattur, 40 millj. Hluti ríkissjóðs af gjaldeyristekjum bankanna er 10 millj. og sektir 7 millj. Eftirstöðvar persónuskatts til Tryggingastofnunar ríkisins og Atvinnuleysistryggingasjóðs lækkuðu um 0.3 millj. kr. Í árslok 1969 samdi ríkissjóður við Seðlabankann um að breyta skuld sinni, sem þá var 600 millj. kr. á yfirdráttarreikningi, í föst lán til 5 ára allt að 500 millj. kr. Árið 1970 var fyrsta afborgun þessara skulda, 100 millj., greidd, en auk þess var á árinu 1971 greidd aukaafborgun, sem gerð var í júlímánuði s.l., 191 millj. kr., þannig að eftirstöðvar voru þá 209 millj. kr. Þessa frásögn læt ég nægja vegna ársins 1970 og sný mér þá að því að gera grein fyrir afkomu yfirstandandi árs, að því leyti sem hún liggur fyrir og spáð er, enda munu hv. alþm. og aðrir áheyrendur hafa meiri áhuga á þeirri frásögn heldur en því, sem að framan hefur verið sagt.

Fjárlögin fyrir árið 1971 voru gerð upp með 270 millj. kr. greiðsluafgangi. Ljóst var þó, að hér var ekki um raunhæfan greiðsluafgang að ræða, þar sem útgjöld vegna launahækkana ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningi frá 19. des. s.l. voru ekki tekin með í útgjöld fjárlaganna. Hins vegar var gert ráð fyrir því, að greiðsluafgangur þessi nægði til að mæta þessum útgjöldum ríkissjóðs. Það hefur nú komið í ljós, að svo er ekki. Samkvæmt upplýsingum frá launadeild fjmrn. þann 1. þ.m. hækkuðu útgjöld ríkisins árið 1971, þ.e. A-hluta fjárlaganna, um 430 millj. kr. vegna kjarasamninganna eða 160 millj. kr. umfram áætlaðan greiðsluafgang. Auk þessa munu ríkisútgjöldin á þessu ári hækka um 150 millj. kr. vegna ákvörðunar, sem tekin var í febrúarmánuði s.l. um hækkun á daggjöldum sjúkrahúsanna, og 60 millj. kr. vegna annarra smærri útgjalda, svo sem halla á ríkisspítulunum á árunum 1969 og 1970, sem hefur verið tekinn til útgjalda á yfirstandandi ári. Samtals eru þessar fjárhæðir 640 millj. kr. eða 370 millj. umfram greiðsluafgang, sem áður greinir. Þessar breytingar á útgjöldum ríkissjóðs, sem hér hefur verið getið, eru allar ákvarðaðar af fyrrv. ríkisstj. og er hér að sjálfsögðu stuðzt við staðreyndir einar, sem nú eru kunnar.

Þegar núv. ríkisstj. kom til valda, framkvæmdi hún, svo sem kunnugt er, nokkrar breytingar í ríkiskerfinu, sem kostuðu aukin útgjöld, og skal nú greint frá þeim. Ríkisstj. ákvað að láta lögin um almannatryggingar, sem samþykkt voru á síðasta Alþ., koma til framkvæmda 1. ágúst s.l. Þar sem sveitarstjórnir höfðu þá yfirleitt gengið frá sinni tekjuöflun, var ríkissjóður látinn bera kostnað af þessari framkvæmd, þess vegna eru þessar breytingar kostaðar að öllu leyti af ríkissjóði nú fram til næstu áramóta, og mun sá kostnaður vera um 200 millj. kr. Samhliða þessari ákvörðun var ákveðið að halda verðstöðvuninni áfram til áramóta. Ekki var gert ráð fyrir því, að niðurgreiðslum, sem upp voru teknar 1. nóv. s.l., yrði haldið áfram lengur en til 1. sept., eins og kunnugt er, og fjárveitingar því ekki miðaðar við lengra tímabil. Samhliða þessu var ákveðið, að þau 1.3 vísitölustig, sem felld voru niður með verðstöðvunarlögunum í fyrrahaust, skyldu nú taka gildi aftur. Jafnframt var ákveðið að leiðrétta ýmsar skekkjur, sem höfðu verið í verðlagsgrundvelli landbúnaðar, svo sem í sambandi við vanreiknað fóðurbætisverð frá upphafi verðstöðvunar og hækkun á áburðarverði o.fl., sem synjað var um í vor. Fleiri slíkar leiðréttingar voru teknar inn í vísitöluna 1. sept. Útgjöld vegna þessarar ákvörðunar munu nema um 380 millj. kr. til áramóta. Þá voru látin taka gildi þau tvö vísítölustig, sem frestað var gildistöku á með verðstöðvunarlögunum. Í sambandi við þessar ákvarðanir voru felldir niður eða lækkaðir tekjustofnar, eins og söluskattur af mestu nauðsynjavöru og námsbókagjöld, og mun þessi tekjumissir nema um 80 millj. kr. Samanlagt gera þessi útgjöld og tekjuskerðing um 660 millj. kr. Af framansögðu er ljóst, að útgjöld ríkissjóðs verða um 1300 millj. kr. umfram það, sem fjárlögin gerðu ráð fyrir, að meðtöldum þeim 640 millj., sem leiddi af ákvörðun fyrrv. ríkisstj. Áætlaður greiðsluafgangur var 270 millj. Ef hann er dreginn frá útgjöldum ríkissjóðs, þá eru heildarútgjöldum umfram fjárlög 1030 millj. kr.

Ég vil ekki slá því föstu, að með þessu séu öll kurl komin til grafar. Til dæmis er enn þá til meðferðar sem arfur frá fyrri árum mál Síldarverksmiðja ríkisins, sem hæstv. fyrrv. fjmrh. vék að í fjárlagaræðu sinni í fyrra, og er að því unnið nú að koma því máli til betri vegar. Að sjálfsögðu mun sú lausn kosta ríkissjóð einhverja fjármuni. Sama er að segja um mál síldarverksmiðjunnar Rauðku á Siglufirði, sem í sambandi við lausn þessara mála er ekki unnt að nefna nú. Fjárlaga- og hagsýslustofnunin gerði áætlun um tekjur og gjöld ríkissjóðs í febrúarmánuði s.l., er miðuð var við mánaðarlega afkomu ríkissjóðs allt þetta ár. Þá höfðu verið gerðar breytingar á daggjöldum sjúkrahúsanna og þeim öðrum liðum, er ég greindi frá í upphafi þessa kafla. Hins vegar var ekki gert ráð fyrir, að áhrif af launasamningunum 19. des. yrðu meiri en 220 millj. kr. hjá ríkissjóði. Samkvæmt þessu yfirliti var gert ráð fyrir, að 8118 millj. kr. yrðu heildarútgjöldin orðin í septemberlok. Hins vegar reyndust þau þá vera orðin 8 milljarðar 656 millj. kr. eða 538 millj. kr. fram yfir áætlun. Gert var ráð fyrir, að tekjur yrðu á sama tímabili 7315 millj. kr., en þær voru 8058 millj. kr. eða 743 millj. kr. umfram áætlun.

Þegar lánahreyfingar höfðu verið gerðar upp samkvæmt þessari áætlun, reyndist nettógreiðslustaðan vera 68 millj. kr. betri en áætlunin gerði ráð fyrir. Það skal tekið fram, að áætlun þessi var endurskoðuð eftir stjórnarskiptin í sumar og inn teknar þær hækkanir, er leiddi af ákvörðun nýju ríkisstjórnarinnar, og tekjuáætlunin var þá einnig endurskoðuð.

Þetta yfirlit, sem ég hef nú gefið um afkomu ársins 1971, er að sjálfsögðu tæmandi eins langt og það nær. Hins vegar skal ég engu um það spá, hver niðurstaðan kann að verða af þeim þremur mánuðum, sem eftir eru af árinu. Nokkrar umræður hafa orðið um það, að væntanlegur sé hallabúskapur hjá ríkissjóði á þessu ári. Ég hef ekki dregið neina dul á það, að ég geri ráð fyrir, að svo geti farið, vegna þeirra auknu útgjalda, sem ákveðin hafa verið síðan fjárlög voru afgreidd, bæði af fyrrv. og núv. ríkisstj. Mér var þó ekki ljóst í fyrstu, að kjarasamningarnir mundu kosta ríkissjóð svo mikið sem raun ber nú vitni um. Ég vil hins vegar segja það, að þrátt fyrir þetta er sú skoðun mín óbreytt, að núv. ríkisstj. gat ekki sparað greiðslu til þeirra, sem verst eru settir í þjóðfélaginu, gamla fólksins, öryrkjanna og einstæðu foreldranna. Henni bar skylda til að sína málefnum þessa fólks og ég vil líka segja það, að það varð ekki hjá því komizt að greiða þau 1.3 vísitölustig, sem gert var ráð fyrir að fella niður af þáv. ríkisstj., því að hverri ríkisstj. ber að virða gerða kjarasamninga. Ég held því fram, að það hefði verið dýrara fyrir þjóðina í heild, ef verðhólgunni hefði verið sleppt lausri, sem gerzt hefði, ef hætt hefði verið að greiða niður 1. sept., eins og ákvarðað var með verðstöðvunarlögunum. Og ég dreg í efa, að nokkur ríkisstj. hefði lagt út í slíkt ævintýri. Jafnvel þó það kostaði 2–300 millj. kr. að halda verðbólgunni í skefjum meðan ekki voru gerðar aðrar ráðstafanir, þá hefði þeim fjármunum, sem búið var að taka af þjóðinni til niðurgreiðslu, verið á glæ kastað, ef þannig hefði verið að farið.

Hver sem afkoman kann að verða hjá ríkissjóði árið 1971, verður þessari ríkisstj. ekki einni kennt um umframgreiðslur á því ári, því svo verulega gætir þar einnig áhrifa fyrrv. ríkisstj.

Þá er ég kominn að því að gera grein fyrir fjárlagafrv. ársins 1972. Í upphafi máls míns vil ég vekja athygli á þeim meginatriðum þessa frv., sem ég tel frábrugðin fjárlögum fyrri ára. Þau eru þessi: Fjárveitingar til félagsmála eru verulega auknar, fjárveitingar til framkvæmda eru miðaðar við sem bezta nýtingu fjárins, þ.e. að nað verði nauðsynlegum áfanga eða verki lokið. Áhrif verðhólgunnar í ríkisbúskapnum eru hér sýnd án undanbragða. Ekki er gerð tilraun til að sniðganga kjarasamninga. Ég mun í ræðu minni hér á eftir rökstyðja þessi atriði. Ég dreg enga dul á það, að verðhólgan setur verulegan svip á þetta fjárlagafrv., en ekki er laust við, að broslegt sé að sjá það í blöðum fyrrv. stjórnarflokka, sem hafa staðið að verðbólgufrv. undanfarinna ára og bera höfuðábyrgðina á þeirri verðbólgu, sem nú er við að fást, þegar þeir berja sér nú á brjóst og þeim ógna þau áhrif verðbólgu á ríkisbúskapinn, sem þeir telja nú fyrst sjáanleg í fjárlagafrv. Í sambandi við þessi blaðaskrif langar mig að skjóta hér að sögu, er mér var sögð eftir prófessor Magnúsi Jónssyni, sem var fyndinn maður og skemmtilegur. Eitt sinn, er hann var að koma af bankaráðsfundi í Landsbankanum, en þar var hann formaður bankaráðs og samtímis alþm., og stóð á tröppum Landsbankans og leit út yfir borgina, varð honum að orði: Ja, mikið lítur nú veröldin öðru vísi út frá dyrum Landsbankans en alþingishússins. Og mikið lítur verðbólgan öðru vísi út frá dyrum blaðamanna fyrrv. stjórnarliðs 1971 heldur en á árunum þar á undan, þó að vöxtur hennar sé frá þeim árum og áhrifin þau sömu. En því er ekki að neita, að verðbólgan er sem fyrr alvarlegasta vandamál þessa þjóðfélags í efnahagsmálum og hún er alvarlegasta vandamálið, sem við er að fást nú í sambandi við ríkisfjármálin. Hún er hrollvekja, eins og Ólafur Björnsson prófessor lýsti réttilega í ræðu í fyrravetur, hrollvekja, sem þjóðin stendur enn þá andspænis. Með þeirri ákvörðun, sem tekin var með verðstöðvunarlögunum í fyrtahaust, var vandi efnahagsmálanna færður á ríkissjóð. Þar með var mörkuð sú stefna, að ríkissjóður skyldi annast þau útgjöld, sem þyrfti til að verðbólgan væri ekki meiri en svo, að viðráðanleg væri. Góðæri er nú í landinu, verðlag á útfluttum afurðum er betra en oftast nær áður, allt selst, er úr landi er flutt, en þrátt fyrir þetta bera atvinnuvegirnir ekki fulla greiðslu á verðlagsvísitölu. Þar við bætist, að nú miðar að gerð nýrra kjarasamninga og öllum er ljóst, að þeir, sem lægst eru launaðir, búa við þau kjör, að við þau verður ekki unað. Þrátt fyrir þetta ástand, er ég hef nú lýst, verður ríkissjóður að verja af tekjum sínum 1635 millj. kr. á þessu fjárlagafrv. eða 12% til niðurgreiðslna, svo að efnahagskerfinu sé haldið í skefjum. Ég held, að þjóðinni hljóti að vera það ljóst, að þetta ástand í efnahagsmálum er arfur frá fyrrv. ríkisstj., og af arfi þeim er enginn öfundsverður. Rétt er einnig að hafa það í huga, að fyrrv. ríkisstj. hafði haldið svo á kjaramálum ríkisstarfsmanna, að launakjör þeirra voru svo fjarri réttu lagi, að kjarasamningar, sem gerðir voru 19. des. s.l., leiða af sér 780 millj. kr. hækkun á þessu fjárlagafrv. frá gildandi fjárlögum og vísitalan er 130 millj. kr. Engan þarf að undra, þegar þannig hefur verið að staðið, þó að fjárlagafrv., sem er hið fyrsta frá þessum kjarasamningum og virðir verðbólguna eins og hún raunverulega er, hækki verulega frá fjárlögum, þar sem þessir útgjaldaliðir eru ekki virtir nema að takmörkuðu leyti.

Ég vil líka vekja athygli á því, að samanburður útgjalda á fjárlögum 1971 og fjárlagafrv. nú er í alla staði óraunhæfur og gefur alveg ranga mynd af raunverulegri hækkun, nema gefnar séu skýringar á útgjöldum fjárlaga 1971, eins og ég mun nú sýna fram á.

Ef heildarútgjöld ríkissjóðs á fjárlögum 1971 eru ekki talin nema 11 023 millj. kr., þá er hækkunin frá þeirri tölu til heildarútgjalda fjárlagafrv. 2 947.9 millj. kr. eða 26.7%. En þetta er rangur samanburður. Til þess að samanburðurinn sé raunhæfur verður að telja til útgjalda á yfirstandandi ári þær hækkanir, er ég hef greint frá hér fyrr í ræðu minni. Það er í fyrsta lagi launahækkun og hækkun á daggjöldum ríkisspítalanna, sem eru samtals 605 millj. kr. Auk þessa eru vantalin ríkisútgjöld árið 1971, 235 millj. kr., ef markaðir tekjustofnar eru teknir með í samanburðinn. Það eru útgjöld Vegasjóðs vegna þeirra hækkana, sem gerðar voru á tekjustofnum hans, bensínskatti og þungaskatti. Breyting á vegalögunum, eða ákvörðun um hækkun á þessum tekjustofnum Vegasjóðs, var afgreidd frá Alþ. í fyrra um svipað leyti og fjárlögin, þó að áætlun Vegasjóðs væri ekki breytt í þeim. Ef sleppa á þeirri fjárhæð, er af skatthækkuninni leiðir, 235 millj. kr., úr útgjöldum ríkissjóðs 1971 í samanburði við fjárlagafrv. 1972, þá hækkar fjárveiting til vegaframkvæmda um 267.4 millj. kr. árið 1972 í samanburði við fjárlög 1971. Ég efast ekkert um, að fyrrv. samgrh. telji þá túlkun á útgjöldum Vegasjóðs óheiðarlega og hún væri það, af því að við vitum betur. Hvorki núv. samgrh. né ég leyfum okkur slíkan samanburð. En við ætlumst einnig til þess af þeim, sem bezt eiga að vita, að þeir leyfi sér ekki, í samanburði á ríkisútgjöldum á árinu 1971 og fjárlagafrv. 1972, að gleyma ákvörðun sinni um aukin launaútgjöld vegna kjarasamninga við ríkisstarfsmenn, dag gjaldahækkun sjúkrahúsanna og aukin útgjöld Vegasjóðs vegna hækkunar á tekjum hans, eins og komið hefur fram í þeim umr. um þetta fjárlagafrv., sem hafa farið fram á síðustu dögum. Slík högg til pólitískra andstæðinga munu reynast vindhögg. Og það er ekki sök núv. ríkisstj., þótt nákvæmni væri ekki meiri hjá fyrrv. ríkisstj. en svo við fjárlagaafgreiðslu ársins 1971, að það skortir um 840 millj. kr. á, að útgjöld fjárlaga væru í samræmi við þeirra eigin ákvarðanir um ríkisútgjöld á árinu 1971. Þegar þessi sjálfsagða leiðrétting hefur verið gerð, er réttur samanburður þessi: Útgjöld á rekstrarreikningi fjárlagafrv. nú eru 13 milljarðar 971 millj. kr., en 1971 11 milljarðar 863 millj. kr. Mismunurinn eða hækkun nú er 2 milljarðar 108 millj. kr. eða 17.8%. Ef mörkuðum tekjustofnum er sleppt bæði árin, sem venja er, þar sem útgjöld þeirra vegna eru háð áætlunum um tekjubreytingu á þeim tekjustofnum, enda eru þeir bundnir ákveðnu verkefni, en ekki háðir ákvörðun í hvert sinn, þá er hækkunin 1 826 millj. kr. eða 19.3%. Um skiptingu á þeirri fjárhæð er það að segja, að um 900 millj. kr. er varið til þess að mæta launahækkunum vegna kjarasamninganna frá 19. des. s.l., en þær koma til framkvæmda á árinu 1972, og til útgjalda, er leiða af lagasetningu frá síðasta Alþ. Enda þótt ekki verði deilt um réttmæti kjarasamninga, verðlagsuppbót á laun né lagasetningu frá síðasta Alþ., þá leiða þær ákvarðanir til þess, að segja má með réttu, að þær hækkanir hefði hvaða ríkisstj. sem var orðið að taka til greina og áætla á fjárlagafrv. útgjöld vegna þeirra. Það, sem þá er eftir, er hækkun um rúmar 900 millj. kr., en það eru ákvarðanir núv. ríkisstj. og er það 6.4% af heildarútgjöldum fjárlagafrv. Þessari fjárhæð hefur samkv. ákvörðun ríkisstj. verið þannig varið:

Vegna aukinna niðurgreiðslna hækkar fjárlagafrv. um 508 millj. kr. eða rúml. 50% af þessari fjárhæð. Vegna fjárfestingarframkvæmda og til atvinnumála um 250 millj. kr. Launaliðir hækka vegna nýrra starfa um 53 millj. kr. og þá eru eftir ýmsir rekstrarliðir, um 120 millj. kr.

Með þessari frásögn tel ég mig hafa gert raunhæfan samanburð á milli ársins 1971 og fjárlagafrv. og skýrt ástæðu fyrir hækkun fjárlagafrv. Útgjöld fjárlagafrv. skiptast svo í höfuðþáttum sem hér segir:

Ef miðað er við A-hluta fjárlagafrv., þá eru launagreiðslur alls 3 104 millj. kr. Önnur rekstrargjöld eru 783 millj. kr., viðhaldsliðir eru 377 millj. kr. og vextir 93 millj. kr. Gjaldfærður stofnkostnaður er 1 015 millj. kr. Af þessu framkvæmdafé fer mest til skólanna. Undir þennan lið koma einnig framkvæmdir eins og tollstöðin í Reykjavík, lögreglustöðin og aðrir þættir, er ríkið kostar að mestu eða öllu leyti.

Til fyrirtækja B-hluta er veitt 5 701 millj. kr. Hér er fyrirferðarmest fjárveiting til Tryggingastofnunar ríkisins, sem er 3 795 millj. kr., og til Atvinnuleysistryggingasjóðs 221 millj. kr. Í þessum hópi útgjalda er einnig Lánasjóður íslenzkra námsmanna og ýmsar stofnanir, eins og Þjóðleikhús, Sinfóníuhljómsveit o.fl.

Sá útgjaldaliður, sem næst kemur, er til sveitarfélaga, en það eru 512 millj. kr., og það eru fjárveitingar til ýmissa framkvæmdaliða, sem eru kostaðir sameiginlega af sveitum og ríkinu, svo sem hafnir, sjúkrahús, læknabústaðir, vatnsveitur, landgræðsla o.fl. Til fyrirtækja og atvinnuvega er varið 2 306 millj. kr. og eru niðurgreiðslur þar fyrirferðarmestar eða 1 635 millj. kr. Framlag til togaralána er 59 millj. kr. og hækkar á þessu fjárlagafrv. um 29 millj. kr. Til Fiskveiðasjóðs 35 millj. kr., Iðnþróunar- og Iðnlánasjóðs 26 millj. kr. Þá kemur fjárveiting til einstaklinga og heimila og samtaka, ýmsir styrktarliðir, en samtals eru þessir liðir upp á 251 millj. kr. Hér er samansafn margs konar framlaga og styrkja, sem veittir eru af ríkinu. Á þessum lið er framlag til þess að styrkja nemendur úr strjálbýli til framhaldsnáms, sem nú eru hækkaðir úr 15 millj. kr. í 25 millj. kr. Er það sú fjárveiting, sem menntmrn. fór fram á. Gerð verður nú athugun á því, á hvern hátt verður heppilegast að greiða niður kostnað hjá nemendum, er búa í heimavist, svo að þeir njóti samsvarandi stuðnings og aðrir nemendur, er ekki geta sótt skóla heiman frá sér. Framlag til alþjóðastofnana, 36 millj. kr., er einnig á þessum útgjaldalið.

Í ræðu minni hér að framan hef ég gert grein fyrir höfuðatriðum í skiptingu á útgjöldum fjárlagafrv. til málaflokka. Ég mun því ekki gera frekari grein fyrir breytingum á útgjöldum einstakra stofnana eða útgjaldaliða, að því er rekstur varðar frá fjárlögum 1971, enda er sá samanburður óraunhæfur, þar sem verulegur hluti launanna er ekki færður á þessum liðum í fjárlagafrv., svo sem áður er greint. Ég mun því fyrst og fremst greina frá útgjöldum, er varða framkvæmdir og framlög til atvinnuveganna. Af heildarútgjöldum fjárlagafrv. 1972 er varið 3 152.8 millj. kr. til framkvæmda og til atvinnuvega. Þetta er hækkun frá núgildandi fjárlögum um 523 millj. kr. eða 20%. Samkv. till. fjárlagafrv. leggur ríkissjóður 507 millj. kr. til skólabygginga á næsta ári. Til sjúkrahúsa, læknamiðstöðva og læknabústaða 231 millj. kr. Til Byggingarsjóðs ríkisins og verkamannabústaða 476 millj. kr. Til hafnargerðar og til uppbyggingar á samgöngum á sjó 186 millj. kr. og til vegagerðar 905 millj. kr. Um tillögur að fjárveitingu til einstakra stofnana vil ég segja þetta:

Framlög til framkvæmda eru fyrst og fremst miðuð við að ná vissum áföngum eða ljúka verki, svo að nýting fjárins verði sem bezt. Til Menntaskólans á Laugarvatni er varið 18 millj. kr. og er hækkunin 8.5 millj. kr. Þar er um að ræða byggingu á kennsluhúsnæði og er gert ráð fyrir, að með þessari fjárveitingu muni vera hægt að ljúka byggingunni á næsta ári. Til Menntaskólans við Hamrahlíð er varið 20.1 millj. kr. og er þá miðað við að ljúka byggingu skólahúsnæðisins, og 19 millj. kr. verður varið til að hefja byggingu á íþróttahúsi. Til Menntaskólans á Ísafirði er varið 21 millj. kr. og er hækkunin 13.5 millj. kr. Er miðað við að ljúka við fyrsta áfanga heimavistarbyggingar skólans og gera fokheldan annan áfangann, en í honum er einnig mötuneyti. Fjárveiting til menntaskóla á Austurlandi er tvöfölduð og verður 5 millj. kr. Verður þá til um 17 millj. kr. heildarfjárveiting til byggingar þess skóla, svo mögulegt er að fara að hefja þar framkvæmdir. Fjárveiting til íþróttahúss Kennaraháskólans er 16.2 millj. kr. og hefur verið tvöfölduð. Með þessari fjárveitingu og því fjármagni, sem fyrir hendi er, er hægt að ljúka byggingu fyrsta áfanga íþróttahússins, en áætlað er, að það kosti 32 millj.

Fjárveiting til barna- og gagnfræðaskólabygginga er lítið eitt hærri en hún var á yfirstandandi fjárlögum. Framkvæmdafé til héraðs- og húsmæðraskóla hækkar heldur ekki. Talið var eðlilegt að fylgja þeirri venju, að Alþ. meti þörf einstakra skóla í þessum málaflokki til fjárveitinga. Ekki var talin minni ástæða til þess nú en áður, þar sem nýkjörið Alþ. fjallar um þetta fjárlagafrv.

Í sambandi við fjárveitingar til barna-, unglinga- og gagnfræðaskóla skal það tekið fram, að fjárveiting er miðuð við að greiða framkvæmdir á fjórum árum, enda hefur þriggja ára reglan aldrei tekið gildi, og hæpið er, að sveitarfélög gætu fjármagnað svo fjárfrekar framkvæmdir sem skólahyggingar á þremur árum, jafnvel þó að ríkissjóður gæti það, sem ekki hefur heldur verið.

Byggingarframlag til Heyrnleysingjaskólans er meira en tvöfaldað og verður 14 millj. kr. Með þeirri fjárveitingu er gert ráð fyrir að ljúka byggingu heimavistar.

Fjárveiting til Háskóla Íslands hækkar nú um 64.7 millj. kr. auk þess, sem þar er um verulegar hækkanir að ræða vegna launahækkana. Þessi aukning á fjárveitingum er vegna fjölgunar stúdenta svo og framkvæmda á nýjum reglugerðum, sem miða bæði að hættum kennsluháttum og nýjum námsleiðum. Auk þessa hækka fjárveitingar til ýmissa stofnana, sem tengdar eru Háskólanum, t.d. til Handritastofnunar um 1.6 millj. kr. Þegar frá fjárlagafrv. var gengið, lá ekki fyrir áætlun Lánasjóðs ísl. námsmanna um fjárþörf á næsta ári, en hækkunin, sem hér er gerð, er gerð án tillits til þess. Áætlun sjóðsstjórnarinnar var lögð fram síðar og verður lögð fyrir fjvn. Alþ. Verður málið þá tekið til athugunar og mun fjárveitingin hækka þar. Í þessu fjárlagafrv. eru áætlaðar 15 millj. kr. til byggingar þjóðarbókhlöðu. Alþ. samþykkti ályktun þess efnis, að stefnt yrði að því, að henni yrði komið upp eigi síðar en 1974. Unnið er nú að undirhúningi og framkvæmd málsins.

Framlög til félags- og íþróttamála eru verulega aukin á þessu fjárlagafrv. frá því, sem áður hefur verið. Fjárveiting til Ungmennafélags Íslands hækkar úr 900 þús. í 1.2 millj„ eins og um var sótt, og til Íþróttasjóðs, sem lengi hefur verið 5 millj. kr., er hækkunin í 13 millj. eða 160%. Þó að hér sé um verulega hækkun að ræða, er þó langt frá því, að náð sé því marki að koma sjóðnum úr þeirri fjárhagskreppu, sem hann er nú í. En með þessari fjárveitingu er. stefna mörkuð í þá átt, að Íþróttasjóði gefist tækifæri til þess að rétta við fjárhag sinn og hann verði aftur virkur í þeim verkefnum, sem honum var samkv. lögum ætlað að vinna. Fjárveiting til Íþróttasambands Íslands hækkar í 1.3 millj. kr. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að tekjur ISÍ af seldum vindlingum muni lækka um 540 þús. Vonazt er til, að með auknum fjárveitingum til ÍSÍ geti það í ríkara mæli en verið hefur stutt sérsambönd og ýmis félagasamtök innan sinna vébanda. Nauðsyn ber til að vinna að því að gera áætlun um fjárþörf íþróttahreyfingarinnar, svo að ekki verði með rökum sagt, að samfélagið sinni ekki þessum áhugamálum æskunnar, og fjárveitingar af þess hendi séu svo við nögl skornar, að það dragi verulega úr þessari hollu og nauðsynlegu starfsemi. Þá er aukin fjárveiting til starfsemi Skíðaskólans í Kerlingarfjöllum. Á yfirstandandi fjárl. var tekin upp 100 þús. kr. fjárveiting til skólans, m. a. vegna raflýsingar. Sú fjárhæð er nú hækkuð í 300 þús. Ekki orkar það tvímælis, að hér er um nauðsynlega og ánægjulega starfsemi að ræða, sem rétt er að styðja. Starfsemi þessa skóla getur hvatt til vetrarferðalaga útlendinga hingað til Íslands.

Eins og kunnugt er, voru á síðasta Alþ. sett lög um æskulýðsmál og ber ríkissjóði að standa straum af æskulýðsráði samkv. þeim lögum, og er áætlað að verja til þess 100 þús. kr. á þessu fjárlagafrv. Þá eru, eins og venja er, felldir niður úr frv. ýmsir styrkir, sem ríkissjóður hefur innt af hendi á undanförnum árum til ýmissar félags- og hjálparstarfsemi á vegum menntmrn. Þetta er m.a. gert til þess, að Alþ. geti á hverjum tíma krafizt grg. um, hvernig með fjárveitinguna hefur verið farið, og ber nauðsyn til að svo sé, og meti fjárþörfina og réttmæti fjárveitinganna.

Framlag til náttúruverndarráðs er aukið um 500 þús. kr. Þegar frá því máli var gengið, lá ekki fyrir áætlun frá ráðinu. Einnig vil ég geta þess, að Þjóðleikhúsið hefur nú horfið frá því að vera aðili að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar og ríkissjóður tekur þar af leiðandi meiri þátt í rekstri hennar eða um 50%.

Í sambandi við utanrrn. hefur það komið í ljós, að vanáætlun hefur átt sér stað á fyrri árum á færslu á ferðakostnaði hjá sendiráðsmönnum. Gerð er nú tilraun til þess að leiðrétta þetta og gera áætlunina raunhæfari. Þá eru fjárveitingar til sendiráða. Gert er ráð fyrir nokkrum breytingum, þannig að greint er nú á milli fastra launa og staðaruppbótar, barnalífeyris og risnu. Er með þessu stefnt að því að taka aukið tillit til fjölskylduaðstæðna sendiráðsfólks og raunverulegs framfærslukostnaðar í hverju landi, enda var eldra kerfið orðið óraunhæft að þessu leyti. Við ákvörðun þessara liða í framtíðinni mun verða tekið tillit til verðlagsþróunar í viðkomandi landi, og þar með horfið frá því, að launabreytingar hér á landi hafi sjálfkrafa áhrif á fjárveitingar til sendiráða. Risna er nú færð af launalið og á önnur rekstrargjöld og mun utanrrn. með sérgreiningu á þessum lið gefast tækifæri til þess að líta eftir, hvernig þessu fé er raunverulega varið á hverju ári.

Gert er ráð fyrir nokkurri hækkun hjá lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli, m.a. vegna þess, að þar á að ráða tvo nýja tollverði. Á síðari árum hefur það orðið æ ljósara, að þetta embætti fæst nú meira og meira við tollgæzlu, en upphaflega var embættið hugsað aðeins vegna dvalar varnarliðsins á vellinum.

Eins og kunnugt er, voru lög um um Landnám ríkisins tekin til endurskoðunar á síðasta Alþ. og koma nú til framkvæmda. Hækkar fjárfestingarliðurinn eftir ákvæðum þeirra um 17.7 millj. kr.

Af öðrum framkvæmdaliðum, er landbúnað varða, vil ég geta þess, að fjárveiting til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins verður 22 millj. kr., en hún var ekki í síðustu fjárl. Með löggjöf, sem samþ. var á síðasta Alþ., var gert ráð fyrir 10 millj. kr. framlagi til sjóðsins, en auk þess er bætt við 12 millj. til aðstoðar við byggingu sláturhúsa, til að verða við auknum kröfum um bætta aðstöðu og aukið hreinlæti við matvælaframleiðsluna. Þessi aðstoð hefur að sjálfsögðu áhrif til að lækka sláturkostnaðinn, sem er orðinn tilfinnanlega hár í þessum nýju og vönduðu sláturhúsum.

Niður hefur verið felld fjárveiting, sem var til aðstoðar við bændur vegna harðæris og eldgosa á yfirstandandi fjárlögum, 29 millj. kr. Hins vegar er nú tekin upp 10 millj. kr. fjárveiting til aðstoðar við þá bændur, sem verst eru settir fjárhagslega eftir þessi miklu áfallaár og ekki gátu notið þess að breyta lausaskuldum sínum í föst lán, svo sem þeir bændur gátu, er betur voru settir. Tekin er upp fjárveiting til endurbóta á íbúðarhúsinu á Skriðuklaustri. Það hefur lengi staðið til, að unnið yrði að endurbótum á því húsi, er Gunnar Gunnarsson skáld byggði, en fé hefur skort til þess. Nú er veitt til þess 1 millj. kr.

Við Bændaskólann á Hvanneyri hefur alllengi verið í byggingu nýtt skólahús, en oftast við lága fjárveitingu. Í ár eru 5 millj. veittar til framkvæmda á Hvanneyri, en með þessu fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að hækka þá fjárveitingu upp í 15 millj. kr. Með þeirri fjárveitingu ætti að vera hægt að komast langt eða jafnvel ljúka byggingu eldhúss eða matsalar fyrir nemendur og nauðsynlegri starfsaðstöðu fyrir þjónustufólk. Niður fellur af þessu fjárlagafrv. fjárveiting til veðdeildar Búnaðarbankans, 2.5 millj. kr., og til súgþurrkunar sama upphæð, þar sem samningar þar um voru niður fallnir. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að á þessu þingi verði málefni veðdeildar Búnaðarbankans tekin til sérstakrar meðferðar og aðstoð ríkisins vegna fjárútvegunar til veðdeildarinnar verði tekin til athugunar, áður en fjárlagaafgreiðslan fer fram hér á hv. Alþ.

Fjárveiting til byggingarframkvæmda við vinnuhælið á Litla-Hrauni er 3 millj. kr. Gert er ráð fyrir því, að með þessari fjárveitingu verði hægt að ljúka þeirri byggingu, sem nú er unnið að. Lagt er til að fjárveiting verði tekin upp að nýju til fangelsisins í Síðumúla í Reykjavík. Á fjárlögum 1970 var fjárveiting til þess, en var felld niður á fjárl. 1971. Áætluð fjárveiting nú er 3.5 millj. kr.

Um Landhelgisgæzluna er það að segja, að gert er ráð fyrir, að úthald á skipum hennar verði með svipuðum hætti fyrri hluta næsta árs eins og það var á yfirstandandi ári. Tekin er upp 15 millj. kr. fjárveiting, sem nota á til aukinnar gæzlu eftir 1. sept. 1972. Nú nýlega hafa forráðamenn Landhelgisgæzlunnar skilað áliti og tillögum um fjárþörf til Landhelgisgæzlunnar, sérstaklega síðara hluta ársins 1972, og verður hún til meðferðar og afgreiðslu hjá fjvn.

Fjárveiting til almannavarna lækkar um 1 millj. 600 þús., enda var fjárveitingin hækkuð mjög á árinu 1971, m.a. til tækjakaupa, svo að ekki mun verða þörf sömu fjárhæðar á næsta ári. Fjárveiting til umferðarráðs er hér meira en tvöfölduð. Þegar gengið var frá fjárlagafrv., lá ekki fyrir áætlun frá umferðarráði um fjárþörf á næsta ári. En með hliðsjón af hinum miklu umferðarslysum þótti rétt að hækka fjárveitinguna til ráðsins. Gert er ráð fyrir, að umferðarráð skili tillögum sínum og grg. um fjárþörf til fjvn., svo að hægt verði að hafa hliðsjón af því, áður en fjárlög verða afgreidd.

Bætt er við einu nýju prestsembætti í Kópavogi til útgjalda á kirkjumálum í ár, og fjárveiting til Hallgrímskirkju er tvöfölduð og verður 2 millj. kr. Framlag til Kirkjubyggingasjóðs hækkar um 500 þús. kr. Kostnaður við biskupsbústaðinn lækkar um 118 þús. og framlög til minningarkapellu um Jón Steingrímsson og til Kirkjuvogskirkju í Höfnum, sem voru 400 þús. kr. samtals, falla niður.

Framlag til Húsnæðismálastofnunar ríkisins hækkar um 48.7 millj. kr. Hluti Byggingarsjóðs af launaskatti er þar 36.4 millj. og byggingarsjóðsgjöld 11.7. Framlag til Lánasjóðs sveitarfélaga hækkar um 2.5 millj. eða 55%, en framlag til sjóðsins hefur verið óbreytt frá upphafi að öðru leyti en því, að það var lækkað um 500 þús. fyrir nokkrum árum.

Um framlög til vatnsveitna er það að segja, að þau eru ákveðin í frv. 10 millj. kr. og er það í samræmi við tillögur félmrn. En það fór fram á, að varið yrði til annarra vatnsveitna en Vestmannaeyjaveitu 10 millj. kr., og er þá komið langleiðina í að greiða upp þær skuldir, sem ríkissjóður stendur í samkv. lögum við þá aðila, sem hafa verið í vatnsveituframkvæmdum fram til þessa, að áætlunin var gerð. Fjárveiting til annarra vatnsveitna en Vestmannaeyjaveitu var 5 millj. á árinu 1971, og er því hér um 100% hækkun að ræða. Stuðning við vatnsveitu Vestmannaeyja verður að ákveða við afgreiðslu fjárlaga.

Þá hækkar framlag til heimilishjálpar samkv. lögum frá 1952 um 3 millj. kr. Hins vegar lækkar framlag til Atvinnujöfnunarsjóðs um 15.7 millj. kr. Það er annars vegar vegna þess, að gert er ráð fyrir, að tekjur af álgjaldi lækki um 5.7 millj. og lagt er niður sérstakt framlag úr ríkissjóði, 10 millj. kr., er var á fjárlögum 1971. Gert er ráð fyrir því, að frv. að nýrri löggjöf, er varðar sjóðinn, verði lagt fram snemma á þessu þingi og mun staða sjóðsins breytast verulega þá. Er talið eðlilegt, að fjárveiting til hans verði ákveðin, eftir að frá þeim nýju lögum hefur verið gengið. Enn fremur eru ekki með ýmsir byggingarstyrkir til styrktarfélaga, svo sem Gerðverndarfélagsins, Sjálfsbjargar, Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra o.fl., en þessir styrkir hafa yfirleitt ekki verið teknir inn í fjárlagafrv., heldur farið eftir till. fjvn. Alþ. þar um. Ekki er gert ráð fyrir því, að þessir styrkir falli niður úr fjárlögum, þó að þeir séu ekki í frv. Hins vegar er ætlazt til þess, að þeir, sem að þessum samtökum standa, skili fjvn. grg. um starfsemi sína og hvernig þeir hafa notað fjárveitingar á undanförnum árum, svo að hún geti metið það um leið og hún afgreiðir tillögur um mál þeirra við fjárlagaafgreiðsluna.

Framlag ríkisins til almannatrygginga hækkar samkv. frv. um 617.2 millj. kr. Skiptist sú hækkun þannig, að 246.7 millj. kr. koma á lífeyristryggingar og 370.5 á sjúkratryggingar. Meginorsök hækkunarinnar á framlagi til lífeyristrygginga á rætur að rekja til breytingar á lögum um almannatryggingar, sem samþ. var á síðasta þingi, og fól í sér verulega hækkun bóta almennt, annarra en fjölskyldubóta. Þá varð og sú breyting, að fávitaframfærsla var sameinuð almannatryggingakerfinu, en framlag ríkissjóðs hefur til þessa verið á sérstökum fjárlagalið og nam 61.4 millj. kr. á fjárlögum 1971. Fjárveiting til fjölskyldubóta er áætluð á sama grundvelli og gildir í dag. Hækkunin er 70 millj. kr., vegna þess að fjárlagatala ársins í ár er miðuð við 8 mánaða gildistíma, þar til verðstöðvuninni lyki 1. sept., svo sem stefnt var að, en nú er hins vegar miðað við heilt ár.

Framlag til sjúkratrygginga er áætlað 1 milljarður 438.8 millj. kr., en var áætlaður 1 milljarður 68.3 millj. kr. í fjárl. 1971. Hækkunin nemur því, eins og fyrr segir, 370.5 millj. kr., og stafar mest af því, að eftir samþykkt fjárlaga ársins 1971 voru daggjöld á sjúkrahúsum almennt hækkuð verulega, og í frv. 1972 er, eins og á undanförnum árum. áætluð nauðsynleg kostnaðaraukning á ríkisspítölunum, sem felur í sér hækkun daggjalda. Með hliðsjón af því er síðan áætlað framlag ríkissjóðs til sjúkratrygginga, og verður aukning þessa framlags 189.2 millj. kr.

Sú bráðabirgðaáætlun, sem gerð hefur verið um daggjöld á ríkisspítölum og ég hef áður greint frá, er miðuð við, að daggjöld standi að fullu undir rekstri þeirra, og er því hvergi um að ræða rekstrarframlög til þeirra úr ríkissjóði á fjárlagafrv. Ríkissjóðsframlög, er fram koma í A-hluta fjárlagafrv., eru því eingöngu til byggingar og tækjakaupa. Rekstrarkostnaður ríkisspítalanna er miðaður við þær launabætur, sem fram eru komnar, er frv. var lagt fram, kaupgjaldsvísitölu 107.19 stig. Í þessum áætlunum er hvergi gert ráð fyrir fjölgun starfsfólks, nema vegna nýrra sjúkradeilda á Landsspítalanum. þar sem opnuð verður endurhæfingardeild í byrjun marz 1972. Það er hins vegar ljóst, að við meðferð fjárlagafrv. verður nauðsynlegt að taka áætlun stjórnarnefndar ríkisspítalanna til nákvæmrar athugunar í þeim tilgangi að heimila nokkra fjölgun, þar sem þörfin er brýnust. Skal í því sambandi sérstaklega getið um Kleppsspítalann, en samkomulag hefur orðið milli fjármála- og heilbrigðisyfirvalda um að stuðla að því, að á þeim spítala verði starfsliði fjölgað eftir fastri áætlun, sem lögð mun verða fyrir fjvn. Alþ. Fjárveiting til framkvæmda við fæðingardeild Landsspítalans er tvöfölduð og verður um 60 millj. kr. Gert er ráð fyrir, að með þessari fjárveitingu verði hægt að vinna að framkvæmdum af fullum krafti á árinu 1972 og ljúka þeim á árinu 1973. Í þessu fjárlagafrv. er tekin upp ný fjárveiting til Landsspítalans, 4.5 millj. kr., til að undirbúa byggingu geðdeildar. Þessi fjárveiting er við það miðuð, að hægt verði að ljúka undirbúningi á næsta ári, a.m.k. um svipað leyti og lokið er byggingu fæðingardeildarinnar, og geti þessi framkvæmd þá strax hafizt. Til framkvæmda við Landsspítalann er veitt 51.4 millj. kr. Gert er ráð fyrir því að halda áfram við þær framkvæmdir, sem nú er unnið að, og endurbæta gamla húsið verulega, svo að það geti nálgazt þær kröfur, sem nú eru gerðar til góðra sjúkrahúsa. Fjárveitingar til Kristness og Vífilsstaða eru tæpar 4 millj. samtals, og lækkar fjárveiting til Vífilsstaða nokkuð frá fyrra ári, vegna þess að því verkefni, sem þá var unnið að, er að miklu leyti lokið. Fjárveiting til byggingar og tækjakaupa í ríkisspítölunum hækkar um 34.2 millj. kr.

Framlag til byggingar annarra sjúkrahúsa og læknahústaða hækkar um 5.1 millj., og styrkir til heilsuverndarstöðva hækka um 3.5 millj. kr. Hins vegar lækkar styrkur til St. Jósepsspítalans um 2.8 millj. kr.

Upp er tekinn nýr liður, 3 millj. kr. vegna mengunarmála. Gert er ráð fyrir því, að heilbrmrn. ráði yfir þessari fjárveitingu. Nánari reglur munu verða settar síðar um framkvæmd þessa máls.

Þá eru framlög til Gæzluvistarsjóðs hækkuð um 8 millj., úr 12 í 20 millj. kr. Gert er ráð fyrir, að á vegum sjóðsins verði hafin bygging lokaðs gæzluvistarhælis, og er þessi fjárveiting miðuð við það.

Tillögur um fjárveitingu til embættis ríkisskattstjóra og kostnað við skattstofur eru miðaðar við sama starfsmannahald að mestu leyti og nú er. Hækkunin er því eingöngu vegna launahækkana og rekstrarkostnaðar. Hins vegar hefur síðan fjárlagafrv. var samið verið tekin ákvörðun um að hæta við starfsmönnum hjá skattrannsóknarstjóra. Nú er auglýst eftir fimm nýjum starfsmönnum. Hér er um að ræða hið mesta nauðsynjamál, því að veruleg breyting hefur ekki verið gerð á þessum málum nú síðustu árin, enda þótt t.d. söluskatturinn hafi verið hækkaður verulega. Eftirlit með skilum á honum verður að sjálfsögðu nauðsynlegra, eftir því sem hann verður hærri. Ríkisstj. gaf í stjórnarsamningi sínum fyrirheit um aukið skatteftirlit og er þetta upphaf að framkvæmd á því fyrirheiti. Þessi ákvörðun mun að sjálfsögðu hafa kostnað í för með sér, og hækkar fjárveiting til embættisins við fjárlagaafgreiðsluna. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að þessi kostnaður eigi eftir að skila sér í betri skattheimtu. Nauðsyn ber til, að búið sé að undirbúa aukið skatteftirlit, áður en þau skattalög taka gildi, sem nú er unnið við að semja. Skattrannsóknarstjóri hefur í auknum mæli beitt nýjum vinnubrögðum, m.a. þar sem sú framkvæmd er komin á að velja nokkur rannsóknarefni með vélrænum úrdrætti úr skattframtölum, og mun verða aukinn sá þáttur í starfsemi skattstofanna.

Hækkun verður nú á bótum á eftirlaunum og lífeyri, 80.6 millj. kr. eða 142.6%. Þessi mikla hækkun stafar af því, að ríkissjóður stendur að fullu undir öllum hækkunum frá þeim tíma, sem einstakir lífeyrisþegar fara á eftirlaun, hvort sem það stafar af verðlagsuppbótum, flokkahækkun eða öðru.

Á þessu ári tók til starfa við Innkaupastofnun ríkisins framkvæmdadeild. Er hún byggð á 18. gr. laga nr. 63/1970 um skipan opinberra framkvæmda. Gert er ráð fyrir, að kostnaður við rekstur þessarar deildar, að því leyti er byggingareftirlitsmenn varðar, færist á viðkomandi framkvæmdir, er þeir hafa eftirlit með. Hins vegar mun ríkissjóður greiða 1.7 millj. kr. vegna yfirstjórnar og annars þess, sem ekki verður heimfært á sérstakar framkvæmdir.

Framlag til Ríkisábyrgðasjóðs lækkar um 8 millj. kr., og gert er ráð fyrir, að tekjur hans lækki um 2 millj. miðað við árið 1971. Er þessi lækkun gerð með tilliti til þess, að afkoma atvinnuveganna ætti að vera góð á þessu ári og þeir að geta staðið undir sínum lánum sjálfir.

Einn greiðsluliður hjá fjmrn. nefnist „ýmis lán“, og er þar um að ræða vaxtagreiðslur af ýmsum lánum ríkissjóðs. Sá háttur hefur nú verið tekinn upp að verulegu leyti, að vextir af flestum lánum, er ríkissjóð varða, er áður voru greiddir hjá ýmsum stofnunum, eru nú færðir á þennan lið. liðurinn í heild hækkar um 15.6 millj. kr., en raunveruleg hækkun vegna þessara breytinga er 35.9. Þar á móti kemur vaxtalækkun vegna yfirdráttarláns Seðlabankans, sem hefur verið greitt niður meira en gert er ráð fyrir, og nemur sú lækkun 15.3 millj. kr.

Liðurinn „ýmislegt“ hjá fjmrn. hækkar um 39.3 millj. kr. Hér er um að ræða 29.1 millj, kr. fjárveitingu vegna togaralána, sem áður er getið. 12.5 millj. kr. eru til lífeyrissjóðs verkalýðsfélaganna, en áður var sá liður færður hjá félmrn. Ýmsir smærri liðir eru þarna hækkaðir, eins og framlag til framkvæmda á vegum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja um 800 þús.

Á fjárveitingum til samgöngumála vil ég geta fyrst um hækkun á fjárframlögum til flugmála. Liðurinn í heild hækkar um 41.2 millj. kr., en ríkissjóðsframlag til framkvæmda um 24 millj. Hins vegar fellur niður á fjárlagafrv. 5 millj. kr. fjárveiting til þess að greiða af tækjakaupaláni, svo að raunveruleg aukning framkvæmdafjárins er 19 millj. eða 61%. Hækkun vegna afborgana af lánum er tæpar 2.5 millj. kr. og rekstrarhækkanir aðrar eru eðlilegar miðað við launa- og verðlagshækkanir. Enda þótt hér sé um verulega fjárhæð að ræða og mikla hækkun til flugvalla og flugöryggistækja, frá því sem áður hefur verið, er ríkisstj. það ljóst, að betur má ef duga skal í þessum efnum, og mun þetta mál verða athugað betur með tilliti til þess að auka þessa fjárveitingu í meðferð fjárlaganna á Alþ. Það er öllum ljóst, að þessum málum hefur ekki verið svo staðið að sem skyldi á síðustu árum, og er því þörfin nú miklu meiri en nokkur leið er að fullnægja í svipinn.

Framlag til byggingar og tækjakaupa hjá Veðurstofunni hækkar um 12 millj. kr. og skortir þá 10 millj. kr., til að hægt sé að fullgera byggingu þá, sem Veðurstofan stendur að. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að með þessari fjárveitingu verði hægt að koma því verki svo langt, að hægt verði að taka húsið að einhverju leyti í notkun í árslok 1972 og ljúka því að öllu leyti með fjárveitingunni 1973.

Sérstök fjárveiting er til landmælinga, til að kaupa loftljósmyndavél, og er þar um fyrstu greiðslu að ræða af þremur, 1.3 millj. Þá er einnig fjárveiting til þríhyrningsmælinga umhverfis jörðina í samvinnu við aðrar þjóðir og er ætluð til þess 1 millj. kr.

Fjárframlög til strandferða hækka um 13.2 millj. kr., og er það til að mæta auknum rekstrarhalla Skipaútgerðar ríkisins vegna kostnaðarauka, en þá er líka reiknað með óbreyttum farmgjöldum.

Um aðra liði samgangna, eins og hafnamál. vil ég segja, að fjárveitingar í frv. eru þær sömu og á yfirstandandi fjárlögum. Er því sama til að svara og með skólamálin, að eðlilegt þótti að bíða með auknar fjárveitingar til þeirra eftir störfum Alþ., enda er þar um að ræða fjárveitingar til vissra hafnarframkvæmda og eðlilegt, að Alþ. fjallaði þar um. Áætlun um fjárþörf Hafnabótasjóðs barst fjmrn. ekki fyrr en eftir að fjárlagafrv. hafði verið samið og bíður því einnig ákvörðunar Alþ.

Um vegamálin er það að segja, að ekki er ný fjárveiting til þeirra í þessu fjárlagafrv., en ég mun síðar í ræðu minni víkja að þeim, um leið og ég geri grein fyrir tekjuáætlun fjárlagafrv.

Heildarfjárveiting til Orkusjóðs hækkar um 31 millj. kr. Af því fara 13 millj. til að greiða af lánum og 18 millj. kr. til framkvæmda við rafvæðingu í sveitum. Framlag þetta hækkar úr 32 millj. kr. í 50, eða 56%. En jafnhliða þessu er svo gert ráð fyrir lánsfjáröflun á framkvæmdaáætlun, sem nemur rúmlega þessari fjárhæð. Gert er ráð fyrir, að 109 millj. kr. þurfi til að ljúka einum þriðja af sveitarafvæðingunni á næsta ári, sem ríkisstj. hefur ákveðið. Með þessu móti mun nást það fjármagn, sem þörf er á til að halda þeirri áætlun.

Niðurgreiðslur á vöruverði hækka á fjárlagafrv., Eins og áður er greint, um 508 millj. kr. Er miðað við að halda sömu niðurgreiðslum áfram allt árið 1972 og búið var að ákvarða fyrir 1. sept. s.l. Eins og fram kemur í grg. fjárlagafrv., hafa ekki enn þá verið teknar ákvarðanir um, hvort jafnmiklum fjármunum skuli til niðurgreiðslna varið eins og hér er gert ráð fyrir. Unnið er nú að því að endurskoða allt niðurgreiðslukerfið, og til þess ber brýna nauðsyn. Ekki er því að leyna, að veruleg áhætta og galli fylgir svo stórfelldum niðurgreiðslum, sem hér eru í framkvæmd nú. Auk kostnaðarins, sem er óhugnanlega mikill, bætist það við, þegar niðurgreiðslan er orðin meiri en kostnaður frá framleiðenda til neytanda, að þá situr framleiðandinn við lakara borð en neytandinn, auk þess sem áhættan er veruleg hjá framleiðandanum, ef skyndiákvarðanir yrðu teknar um að hverfa frá niðurgreiðslum. Við þá endurskoðun, er nú fer fram, ber nauðsyn til að hafa þessi atriði í huga og skipuleggja framkvæmdirnar, svo að dregið verði úr áhættu og göllum í framkvæmd niðurgreiðslna svo sem auðið er, því að ljóst er, að þær verða við lýði að verulegu leyti um nokkra framtið a.m.k. Hér læt ég staðar numið um að greina frá útgjöldum fjárlagafrv. og sný mér þá að tekjuhlið þess.

Ég vil taka það fram, að áætlaðar ríkistekjur á árinu 1972 eru að sjálfsögðu byggðar á núverandi lögum og reglum, enda þótt nú sé unnið að því að endurskoða tekjustofna ríkisins og að því stefnt, að byggja tekjuöflun ríkisins fyrir árið 1972 á þeim lögum, sem sett verða að þeirri endurskoðun lokinni. Höfuðatriðið í endurskoðuninni er skipting skattabyrðanna, þar sem stefnt verður að því að létta byrðum af þeim, sem minna mega sín fjárhagslega í þjóðfélaginu. Í því sambandi verða persónuskattarnir sérstaklega athugaðir, en þeir eru eins og kunnugt er lagðir á án tillits til tekna. Skattvísitala er lögbundin 100 á þessu ári, en látin fylgja verðlagsþróuninni í þessari tekjuáætlun og verður því, ef miðað er við áætlaða breytingu ársmeðaltals vísitölu framfærslukostnaðar milli áranna 1970–1971, 106.5107 stig. Þessar skýringar tel ég nauðsynlegt að gefa í sambandi við tekjuáætlunina, en skal að öðru leyti greina frá henni, eins og hún er í frv.

Tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 1972 er, eins og á undanförnum árum, unnin af Efnahagsstofnuninni. Grundvallast áætlunin á þjóðhagsspá stofnunarinnar fyrir það ár, eins og gerð er grein fyrir í fskj. með þessu frv. Meginþættir þjóðhagsspárinnar eru þessir: Gert er ráð fyrir, að verðmæti útflutningsframleiðslunnar aukist í heild um 8%. Gert er ráð fyrir, að almennur vöruinnflutningur aukist að verðmæti um 14%, og hefur þá verið gert ráð fyrir erlendri verðhækkun um 3–4%. Þessar spár um þróun eftirspurnar fela í sér 7–8% aukningu almennrar innlendrar verðmætaráðstöfunar, og spáð er 6% aukningu þjóðarframleiðslu og 5% aukningu þjóðartekna.

Heildartekjur á rekstrarreikningi eru áætlaðar 14 milljarðar 270 millj. kr. á móti 11 milljörðum 534.7 millj. kr. í fjárlögum 1971. Nemur hækkunin því 2 millj. 735.3 millj. kr., eða 23.7%. Af heildartekjum eru markaðir tekjustofnar á rekstrarreikningi og lánahreyfingum samtals 2 761.4 millj. kr., en voru 2 210.5 í fjárlögum 1971, og er hækkunin 550.9 millj. kr. eða 24.9%. Samkvæmt þessu hækka eiginlegar ráðstöfunartekjur ríkissjóðs um 2 milljarða 184 millj. kr., eða 23.4%.

Áætlað er, að persónuskattar hækki um 215.5 millj. kr. frá fjárlögum 1971. Er þar um að ræða gjöld til almannatrygginga, þ. á m. atvinnuleysistrygginga, sem hækka samtals um 234.8 millj. vegna áorðinna gjaldahækkana og fjölgunar gjaldskyldra aðila, en frá því dregst, að námsbókagjald, sem var áætlað 193 millj. í fjárlögum 1971, hefur nú verið fellt niður.

Áætlað er, að 574.4 millj. kr. hækkun verði á tekjusköttum, og er þá gert ráð fyrir, að nettótekjur hækki í heild um 23% á árina 1971 frá 1970, og er það svipuð breyting og áætlað er að verði á heildaratvinnutekjum milli sömu ára.

Áætlað er, að gjöld af innflutningi hækki um 1 294 millj. kr. Þessi áætlun er byggð á framangreindri spá um 7–8% aukningu ráðstöfunartekna á árinu 1972 og 14% aukningu almenns vöruinnflutnings. Meðaltollhlutfall er áætlað 23.3%, óbreytt frá áætlun í fjárlögum 1971. Af heildarhækkuninni nemur tekjuhækkun ríkissjóðs af almennum aðflutningsgjöldum 1 milljarði 73.4 millj. kr., en innflutningsgjald af bensíni 210 millj. kr. og nettóhækkun á öðrum liðum er 10.6 millj. kr.

Gert er ráð fyrir lækkun skatta af innlendri framleiðslu um 4.7 millj. kr. frá fjárlögum 1971. Þarna er reiknað með 5.7 millj. kr. lækkun á álgjaldi vegna sölutregðu á áli á heimsmarkaðinum, en hækkun á öðrum sköttum í þessum flokki er 1 millj. kr.

Gert er ráð fyrir því, að tekjur af söluskatti hækki um 252 millj. vegna þeirrar veltuaukningar, sem felst í þjóðhagsspánni. Þá eru tekjur af launaskatti áætlaðar 277 millj. hærri en í fjárlögum 1971, einkum vegna mun hærra launastigs og þess, að hækkun skattsins um 11/2%, sem var hluti verðstöðvunaraðgerðanna, gildir nú allt árið í stað tveggja þriðju hluta ársins í fjárlögum 1971, og hækkunarinnar gætir nú í innheimtu allt árið. Söluhagnaður Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins er hins vegar áætlaður um 20 millj. kr. lægri en í fjárlögum 1971 vegna minni sölu á tóbaki en áður hefur verið og hækkandi verðlags á áfengi og tóbaki í innkaupum erlendis frá.

Aðrir óbeinir skattar hækka um 93.3 millj. kr., og munar þar mest um hækkun tekna af bifreiðaskatti 78.7 millj. kr. Hluti af umboðsþóknun og gengismun gjaldeyrisbankanna hækkar um 17.5 millj. kr., en niður fellur bifreiðaskattur vegna hægri umferðar, 17.5 millj., sem var í fjárlögum 1971. Aðrir liðir hækka samtals um 14.6 millj. kr.

Áætlað er, að arðgreiðslur frá fyrirtækjum og sjóðum í B-hluta hækki um 28.5 millj. Er þar fyrst og fremst um að ræða aukningu umferðar og viðskipta á Keflavíkurflugvelli. Þannig aukast tekjur frá flugmálastjórn um 17.6 millj. og frá fríhöfninni um 10.7 millj. kr.

Um lánahreyfingar er það að segja, að sú breyting hefur verið gerð á færslu lánahreyfinga út, þ.e. afborgana af teknum lánum, í A-hluta, að mun fleiri greiðslur af þessu tagi en áður eru nú færðar á liðinn „Ýmis lán“ í fjmrn. t stað þess að færa þær á hlutaðeigandi stofnanir. Er unnið að því í ríkisbókhaldinu að skrá þat öll þau lán, sem endurgreiðast af beinum fjárveitingum, en í nokkrum tilvíkum eru afborganir þó færðar á hlutaðeigandi stofnun, þar sem sérstaklega stendur á, einkum ef viðkomandi stofnanir standa undir endurgreiðslu lána með eigin tekjum. Lánahreyfingar út nema 254.4 millj. kr. en lánahreyfingar inn samtals 3.8 millj., þannig að hallinn verður á lánahreyfingunni 250.6 millj. kr. Miðað við fyrra ár eru lánahreyfingar inn óbreyttar, þ.e. afborganir af veittum lánum eru þær sömu á árinu 1972 og þær voru á árinu 1971, hins vegar hækka lánahreyfingar út, þ.e. greiðslur af lánum ríkissjóðs, um 9.6 millj. kr.

Sú breyting er tekin upp með þessu fjárlagafrv., að látin er fylgja grg. frá Efnahagsstofnuninni um þróun efnahagsmála árið 1971 og spá stofnunarinnar um þróun efnahagsmála á árinu 1972. Það er bæði rétt og skylt, að þessi grg. fylgi sem fskj. með fjárlagafrv. Þar er komið á framfæri ýmsum upplýsingum stofnunarinnar um þróun efnahagsmála á árinu 1971 og spá hennar um afkomu næsta árs. Það kemur svo í ljós, hvernig sú spá reynist, þegar raunveruleikinn sýnir sig. Enn fremur er með þessum hætti lagður fram grundvöllur sá, sem stofnunin byggir á, er hún gerir tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 1972. Á það hefur skort áður fyrr, að þessi grundvöllur væri birtur með fjárlagafrv. Í frásögn stofnunarinnar af afkomu ársins 1971 er gert ráð fyrir því, að þjóðarframleiðslan muni aukast um 9% og viðskiptakjörin út á við muni þannig batna verulega. Útflutningsverðlag sjávarafurða mun sennilega hækka um 22–23% að meðaltali frá 1970. Innflutningsverðlag mun væntanlega hækka um a.m.k. 5%. Vegna þessara hættu viðskiptakjara getur aukning þjóðartekna orðið mun meiri en þjóðarframleiðslan, eða allt að 12%. Samkvæmt þessari frásögn stofnunarinnar er gert ráð fyrir, að heildaraukning verðmætaráðstöfunarinnar verði á árinu um 23% að magni. í þessari frásögn er gert ráð fyrir því, að í heild verði aukning vöruinnflutnings rúm 30% að magni og 36–37% að verðmæti. Almennur vöruinnflutningur eykst samkvæmt frásögninni um 23–24% að magni og 30% að verðmæti. Þetta leiðir til þess, að verulegur halli hlýtur að verða á viðskiptajöfnuði gagnvart útlöndum. Þá má hins vegar telja víst, að gjaldeyrisstaðan batni verulega, eða a.m.k. um 1100 millj. kr. á árinu 1971, vegna þess að mjög mikill innflutningur verður á fjármagni, þ.e. lánum, m.a. vegna kaupa á flugvélum og skipum og til stórframkvæmda. Einnig mun Íslenzka álfélaginu nauðsynlegt að flytja inn fjármagn til þess að standa straum af framleiðslukostnaði ársins auk fjármagns til fjárfestingar. Kemur það fram í þessari grg. Efnahagsstofnunarinnar, að útflutningur áls á þessu ári mun engan veginn verða nægjanlega mikill til þess að greiða óhjákvæmilegan kostnað og framleiðslunauðsynjar álversins. Niðurstöður af grg. um efnahagsþróunina á árinu 1971 eru þær, að viðskiptajöfnuður á verðlagi þessa árs verði óhagstæður um 3 milljarða 570 millj. kr. Jöfnuður fjármagnshreyfinga er hagstæður hins vegar um 4 milljarða 670 millj. kr. Samkvæmt þessu er breytt gjaldeyrisstaða til batnaðar um ca. 1100 millj. kr.

Í efnahagsspánni fyrir árið 1972 er gert ráð fyrir því, að sjávarafli aukist um 4%. Einnig er gert ráð fyrir því, að útflutningsverðlag sjávarafurða muni hækka um 11/2% að meðaltali ársins í ár. Reiknað er með heldur auknum útflutningi á áli, þannig að birgðaaukningin verði álíka á þessu ári, en framleiðsluaukningin geti orðið aukinn útflutningur. Enn fremur er gert ráð fyrir auknum útflutningi iðnaðarvara á næsta ári sem nemur um 100 millj. kr. eða 16–17%. Í heild er spáð, að aukning útflutningsvöruframleiðslunnar verði 61/2-7% að magni, en rúmlega 8% að verðmæti.

Í spánni um fjármunamyndun er gert ráð fyrir, að innflutningur á kaupskipum og flugvélum muni dragast saman á næsta ári miðað við yfirstandandi ár, enda var hann verulegur þá. Gert er ráð fyrir því, að fjármunamyndun að frátöldum skipum og flugvélum muni aukast um 9% á árinu 1972, sem skiptist þannig, að aukning í atvinnuvegunum verði 13%, til nýbygginga 8%, til byggingarmannvirkja hins opinbera 6%. Á árinu 1972 er gert ráð fyrir mikilli fjármunamyndun í fiskveiðum, eða um 11/2 milljarði á verðlagi ársins 1970, sem er rúmlega tvöföldun frá fyrra ári. Gert er ráð fyrir, að fjármunamyndun í almennum iðnaði aukist um 20%. Niðurstöðutölur af þessari spá Efnahagsstofnunarinnar fyrir árið 1972 eru, að viðskiptajöfnuður á verðlagi þessa árs verði óhagstæður um 3 milljarða 625 millj. kr. Hins vegar er gert ráð fyrir, að jöfnuður fjármagnshreyfinga verði hagstæður um 3 milljarða og 50 millj., en gjaldeyrisstaðan mundi samkvæmt þessari spá rýrna í heild um 575 millj. kr. Frekari frásögn af þessu fskj. frá Efnahagsstofnuninni sé ég ekki ástæðu til að gefa. Hins vegar tel ég, eins og áður er sagt, að slík grg. um efnahagshorfur í þjóðarbúinu eigi að fylgja fjárlagafrv., því að ljóst er, að afkoma ríkissjóðs hlýtur alltaf að spegla afkomu þjóðarinnar á hverjum tíma. Þess vegna er það nauðsynlegt, að gerð sé grein fyrir því, hverju spáð er um afkomu þjóðarinnar í heild, þegar lögð er fram áætlun um tekjur og gjöld ríkissjóðs.

Til viðbótar því, sem hér kemur fram í áætlun Efnahagsstofnunarinnar, vil ég minna á það, sem upp hefur komið í sumar og haust um þá óvissu, sem nú er í alþjóðagjaldeyrismálum, er kann að hafa áhrif á afkomu íslenzku þjóðarinnar, eins og annarra þjóða, og þá einnig á afgreiðslu þessa fjárlagafrv.

Einn er sá þáttur í sambandi við tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir næsta ár, sem ég vil gera að sérstöku umtalsefni, áður en ég lýk við þennan kafla í ræðu minni, en það eru tekjur þær, sem ríkissjóður fær af umferðinni, sem oft hefur verið til umr. hér á hv. Alþ. Þegar fyrrv. ríkisstj. kom til valda, var hún svo lánsöm að koma að tekjustofnum, svo sem bensínskatti, gúmmígjaldi og þungaskatti af bifreiðum, sem lítið eitt var þá farið að nota, en voru æskilegir tekjustofnar til þess að veita fjármagn til vegagerðar í landinu. Ríkisstj. notaði sér þessa möguleika óspart allt það tímabil, sem hún sat að völdum, og það verður að segjast eins og er, að stjórnarandstaðan gekk óhikað fram í því að styðja hana í þessari skattlagningu. Svo almennur áhugi var fyrir hættum samgöngum og þá fyrst og fremst fyrir bættum vegum í landinu. Siðast á síðasta þingi gekk stjórnarandstaðan jafnhliða ríkisstjórnarliðinu fram í því að hækka þessa tekjustofna verulega, svo að aukningin nam á þessu ári 235 millj. kr. Það gerðist hins vegar á sama tíma, að framlög af hendi ríkissjóðs til vegamála af öðrum tekjum en þessum voru alveg felld niður um nokkurra ára skeið. Nokkur deila var hér á hv. Alþ. um þessa þróun. Bent var á, að aðstoð þm. almennt við þessa hækkun tekjustofna hefði ekki átt að leiða til þess, að ríkissjóður drægi úr beinum framlögum til vegagerðarinnar í landinu, heldur ættu hækkanirnar að koma þar til viðbótar. Ekki sízt þótti þetta öfugþróun, þegar tekjur ríkissjóðs jukust á sama tíma vegna þessara aðgerða að verulegu leyti með auknum innflutningi á bifreiðum. Höfuðdeilan hér á hv. Alþ., sem ég tók þátt í ásamt öðrum stjórnarandstæðingum, stóð um það, hvort sérskattarnir, sem af bifreiðum væru teknir, yrðu allir látnir ganga í vegasjóðinn eða ekki. Með vegalögunum frá 1963 var gert ráð fyrir því, að tekjur af bensinskatti, þungaskatti og gúmmígjaldi gengju í Vegasjóð, en leyfisgjald, sem var tekið af innfluttum bifreiðum um nokkurra ára skeið, var hins vegar látið ganga beint sem tekjustofn í ríkissjóð. Eftir gengisbreytingarnar 1968 stöðvaðist svo að segja allur bílainnflutningur til landsins vegna þeirrar verðhækkunar, sem gengisbreytingarnar leiddu af sér. Það endaði með því, að á árinu 1970 var leyfisgjaldið allt fellt niður, en áður hafði það verið lækkað nokkuð. Segja má því, að Vegasjóður væri þá farinn að njóta allra sérskatta af umferðinni, eftir að leyfisgjaldið vat fellt niður. Hins vegar er það ljóst, og það varð ljóst við afgreiðslu vegáætlunar á s.l. vori, að þrátt fyrir geysilega hækkun á tekjustofnum Vegasjóðs, sem búið var að gera og gerð var um s.l. áramót, 1970–1971, þá mundi það ekki nægja sem tekjur í Vegasjóð þegar á árinu 1972. Jafnhliða þessari hækkun á sköttum af umferðinni, bensínskatti og þungaskatti, var í baráttunni fyrir því knúið fram á árinu 1969 og 1972, að ríkissjóður lagði fram heinar fjárveitingar til Vegasjóðs, sem eru nú 47 millj. kr., sama fjárhæð og var, þegar vegalögin tóku gildi. Jafnhliða þessu var því komið í gegn, að ríkissjóður tók að sér að greiða vexti og afborganir af nokkrum vegalánum, sem Vegasjóður hafði gert áður. Hins vegar er enn þá vegalán, sem Vegasjóður var látinn standa undir eða útvegaði nýtt lánsfé til þess að greiða vexti og afborganir af, eins og gert hefur verið með skuld Keflavíkurvegarins. Efnahagsstofnunin gerði fyrir mig, jafnhliða tekjuáætluninni, sérstaka grg. um tekjur af umferðinni á yfirstandandi ári og áætlun fyrir 1972. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að innflutningur bifreiða hefur verið geysilega mikill á þessu ári, og er gert ráð fyrir því í þessari áætlun, að úr honum dragi á næsta ári nokkuð verulega frá því, sem nú er. Í áætlun Efnahagsstofnunarinnar eru teknar með tekjur af innfluttum bifreiðum umfram meðaltollprósentu 22%. Með því er gert ráð fyrir því, að tekjur af umferðinni verði 1 673.3 millj. kr. á yfirstandandi ári, þ.e.766 millj. umfram það, sem til Vegasjóðs mun ganga. Er þar innifalið í þeirri tölu frá Vegasjóði 47 millj. kr. úr ríkissjóði. Hins vegar er ekki tekið hér tillit til þeirra afborgana af vöxtum og lánum, sem ríkissjóður greiðir nú vegna Vegasjóðs. Á árinu 1972 er gert ráð fyrir því, að tekjur af umferðinni verði eftir sömu reglum 1 599 millj. kr., eða lækki um 75 millj. Hins vegar er þá gert ráð fyrir því, að Vegasjóður fái tekjur upp á 972 millj., en eftir er þá hjá ríkissjóði 627 millj. kr. Fjárlagafrv. getir ekki ráð fyrir því að auka framlög úr ríkissjóði til Vegasjóðs. Hins vegar er mér það ljóst og ríkisstj. allri, að eitt af þeim verkefnum, sem hún verður að leysa áður en vegáætlun verður gerð í vetur, er að útvega Vegasjóði meira fjármagn en hann getur fengið samkvæmt þeim tekjustofnum, sem hann hefur nú. Enn þá hefur ekki verið ákveðið, hvernig með það mál skuli farið. Enda þótt segja megi með réttu, að Vegasjóður hafi nú aflað sérskattanna, þá má einnig gera dæmið upp eins og hér hefur verið gert og taka tekjur ríkissjóðs af bifreiðunum umfram meðaltollprósentu. Ástæðan til þess, að þetta mál er ekki til meðferðar hér á fjárlagafrv., er ekki sú, að því hafi verið gleymt eða neinu af því, sem áður hefur verið sagt í þessu sambandi, heldur sú, að enn þá hefur ekki verið gert upp, hvort tekjuáætlun ríkissjóðs leyfir það, að gerbreyting geri það að verkum, að hægt verði að sinna fjárframlögum til vegasjóðsins með beinni fjárveitingu, eða hvort það verður gert með ríkislánum, sem Vegasjóður nyti. en ríkissjóður annaðist að öllu leyti. Ég get ekki á þessu stigi málsins um það fullyrt, hver niðurstaðan kann að verða. En augljóst er, að málið verður tekið til meðferðar og fundin niðurstaða til að auka tekjur Vegasjóðs áður en frá vegáætlun verður gengið hér á hv. Alþ. Hins vegar er þess fastlega vænzt, að hv. stjórnarandstæðingar verði okkur hollráðir í þessu máli, eins og við vorum þeim áður fyrr og leiddum þá þá til betri vegar með ráðum og dáð.

Ég gerði mér grein fyrir því, að það mundi koma fram í umr. um þetta fjárlagafrv., að litillar sparnaðarviðleitni gætti af hálfu hinnar nýju ríkisstj. Enda þótt sá tími, sem ríkisstj. hafði til undirbúnings þessa fjárlagafrv., væri innan við 2 mánuðir, frá því að hún kom til starfa og þangað til það var tilbúið til prentunar, þá vissi ég vel, að þessu yrði hampað. Ég vil hins vegar benda á, að í umr. mínum um þetta atriði sem stjórnarandstæðingur hef ég alltaf haldið því fram, að það væri ekki hægt að gera neinar verulegar tillögur í sparnaðarátt í ríkisrekstrinum nema með nákvæmri athugun og í flestum tilfellum lagabreytingu, því að megnið af þeim útgjöldum, sem máli skipta og kostnaði valda í ríkiskassanum, eru bundin í lögum. Ég vil líka benda á það, að þegar hagsýslustofnunin og ríkisstj. fóru að vinna að undirbúningi fjárlagafrv., þá kom það á daginn, að í tillögum rn., sem voru tilbúnar, þegar ríkisstjórnaskiptin urðu, var gert ráð fyrir samanlögðum hækkunum, sem námu á annan milljarð fram yfir það, sem tekið var til greina. Með mikilli vinnu og góðu samstarfi hagsýslustofnunar, tn. og ríkisstj. tókst það. Mér er hins vegar ljóst, að æskilegt hefði verið að sinna fleiri verkefnum með fjárveitingum en gert er. Þessar aðgerðir sýna, að verulega var að því unnið að forðast útþenslu í ríkiskerfinu og það hefur tekizt. Mér er einnig ljóst, að til þess að ná þarna verulegum árangri verður að leggja fram mikla vinnu og gera ýmsar skipulagsbreytingar, sem líka þýða lagabreytingar. Þessi vinna verður lögð fram og er þegar hafin. Í sambandi við þau atriði, sem nú er verið að taka til endurskoðunar, vil ég nefna lög nr. 48 frá 1958, svo kallaða bremsunefnd, sem hlaut það nafn vegna þess valds, sem henni var gefið með lagasetningunni, Í raun og veru má segja, að þessi lagasetning hafi verið upphaf að þeirri hagsýslu, sem nú er einn hluti fjmrn. Vald þessarar nefndar var m.a. það, að ekki mátti fjölga starfsliði í ríkisstofnunum nema með leyfi hennar. Þetta verkefni er í raun og veru það eina, sem eftir er nú hjá nefndinni, annað er komið til hagsýslunnar. Nú hefur verið ákveðið að taka þessi lög til endurskoðunar. M.a. hefur það sýnt sig, að þrátt fyrir ákvæði laga um, að ekki megi fjölga í ríkisrekstrinum án samþykkis hennar, og þó að nefndin hafi yfirleitt verið talin íhaldssöm, þá er reyndin sú, að hjá mörgum stofnunum í ríkisrekstrinum er orðið fullt af lausráðnu fólki, sem sumt hefur starfað árum saman. Þannig hefur verið komizt fram hjá þessu ákvæði laganna um, að nefndin samþykkti starf til þess að hægt væri að ráða mann í það. Þessi fjölgun starfsfólks veldur að sjálfsögðu verulegum útgjaldaauka hjá ríkissjóði. Ljóst er, að með þessum hætti hefur verið farið fram hjá því eftirliti, sem átti að vera með þessu lagaákvæði um þessa nefnd. Annað er það, að þetta fólk, sem þannig starfar, nýtur takmarkaðra réttinda og staða þess í starfi hjá ríkinu er þess vegna með öðrum hætti heldur en annarra starfsmanna þar. Brýna nauðsyn her því til nú að endurskoða þessa löggjöf, fella hana að hagsýslustofnuninni, sem nú er fyrir hendi, og þeim hreyttu viðhorfum, sem skapazt hafa. Um leið yrði þá að byggja á þeirri reynslu, sem fengizt hefur, bæði af þessari lagasetningu og hagsýslunni sjálfri. Það verður að tryggja það með endurbættri löggjöf og starfi hagsýslunnar, að inn í ríkiskerfið geti ekki bætzt fólk til starfa, sem í raun og veru hefur aldrei verið samþykkt, að þangað kæmi, nema um stundar sakir.

Á sínum tíma tók ég þátt í vinnu undirnefndar fjvn. á vegum fyrrv. ríkisstj., og ég var stuðningsmaður þess að taka þau vinnubrögð upp. Ég er sannfærður um, að það var rétt ákveðið, og hugsa mér að efla þau og gera þátttöku undirnefndar fjvn. virkari en verið hefur til þessa. Geri ég þó ekki lítið úr þeim verkum, sem þegar hafa verið unnin, og ég mun leita eftir því að fá þingsköpum breytt þannig, að starfsemi undirnefndar fjvn. verði fest í lög um þingsköp, enda ber nauðsyn til þess, m.a. vegna ákvæða ýmissa laga, svo sem hafnalaga, þar sem samþykki fjvn. þarf, til að eðlilegar afgreiðslur geti fengizt.

Unnið er áfram að því, að greiðslur ríkisins vegna bílanotkunar starfsmanna verði við það eitt miðaðar, að þar sé um að ræða greiðslur vegna notkunarinnar en ekki sem tekjuviðbót. Þetta þýðir það, að eftir að ríkið hefur komið þessum málum þannig fyrir verður einnig að taka tillit til þess hjá öðrum fyrirtækjum, ef slíkar greiðslur hjá þeim eru orðnar tekjuvíðbót eða hlunnindi, þá verður að meta það, t.d. í skatti. Þá hefur verið ákveðið, að nefndin taki til endurskoðunar aukatekjur innheimtumanna ríkissjóðs og samræmi það við launakjör þeirra. Þegar til kom að framkvæma kjarasamninginn frá 19. des. gagnvart þeim, kom það í ljós, sem að vísu var kunnugt áður, að margir af þeim höfðu það miklar aukatekjur, að dregið var að láta kjarasamning koma til framkvæmda. Þetta hefur svo verið gert með því, að kjarasamningur hefur ekki komið til framkvæmda hjá þeim, sem mestar höfðu aukatekjurnar. Hjá þeim, sem næstir voru að aukatekjum, hefur hann komið til framkvæmda með skertum greiðslum, en hjá þeim, sem engar aukatekjur höfðu, hefur hann hins vegar komið til fullra framkvæmda.

Það er ljóst, að ekki er hægt að halda þannig á þessu máli og þess vegna er endurskoðun hafin á lagaákvæðunum og reglum, er lúta að aukatekjum þessara embættismanna, sem ekki falla eðlilega að því launakerfi, sem nú hefur verið sett upp. Eftir stjórnarskiptin varð það í umr. milli mín og ríkisendurskoðenda að samkomulagi, að gerð yrði allsherjar endurskoðun hjá öllum innheimtumönnum ríkisins um landið allt. Þetta hefur ríkisendurskoðunin gert, og hefur nú að mestu lokið því verki. Mjög hefur verið brýnt fyrir innheimtumönnum að herða nú á innheimtu, enda óeðlilegt í slíku árferði, sem nú er, ef innheimtan verður ekki betri en verið hefur. Jafnhliða þessu hefur svo verið lagt fyrir, að starfsmenn megi ekki skulda við stofnanir, sem þeir starfa við, þar með taldir skattar, og verði þeirri ákvörðun fylgt mjög fast eftir. Þá hefur einnig verið tekin ákvörðun um það, að framkvæmdir á vegum ríkisstofnana og embætta verði ekki undir umsjón forstöðumanna viðkomandi stofnana, þegar um verulegar endurbætur eða nýbyggingu er að ræða, heldur mun slík framkvæmd verða fyrst og fremst á vegum hinnar nýju deildar Innkaupastofnunarinnar, byggingardeildarinnar, og hagsýslu ríkisins. Eins og kunnugt er, ákváðu yfirskoðunarmenn ríkisreiknings með aths. við ríkisreikning fyrir árið 1968 að gera kröfu til þess, að á árinu 1969 fylgdi skrá yfir nefndir, sem störfuðu á vegum ríkisins það ár, og kostnað við starf þeirra. Með ríkisreikningnum, sem nú hefur nýlega verið úthýtt hér á hv. Alþ. fyrir árið 1969, fylgir þessi skrá yfir nefndir og kostnað við þær. Ég vil taka það fram, að með ríkisreikningi fyrir árið 1970, þegar hann verður lagður fram endurskoðaður af yfirskoðunarmönnum, mun skrá yfir nefndir verða látin fylgja og framvegis mun hún fylgja ríkisreikningi. Ég tel, að hér sé um mjög góða lausn á þessu vandamáli að ræða. Með þessu móti verður það tryggt, að nefndir verða ekki taldar að störfum lengur en þær raunverulega starfa að þeim verkefnum, sem þeim hafa verið falin.

Á þeim tíma, sem núv. ríkisstj. hefur starfað, hefur hún að sjálfsögðu skipað nefndir til að vinna að einstökum verkefnum, en þegar dæmið er gert upp í heild, mun nefndum ekki hafa fjölgað, því að jafnhliða hafa aðrar verið lagðar niður. Ríkisstj. hefur samþ. reglur um kostnað við utanfarir ráðh., en áður hafa slíkar reglur ekki verið í gildi fyrir ríkisstj. í heild, þó að einstakir ráðh. hafi e.t.v. farið að ákveðnum reglum þar um. Einnig hefur ríkisstj. samþykkt að fella niður þau hlunnindi ráðh., sem þeir höfðu, um innkaup á áfengi og tóbaki til einkanota. Ákveðið er að sameina verkstæði og vélaeign ríkisins, en tillögur þar að lútandi voru gerðar af nefnd, sem fyrrv. fjmrh. hafði skipað. Mun áhaldahús og viðgerðaverkstæði Vegagerðar ríkisins verða kjarni í þeirri sameiningu. Ákveðið hefur verið, að hagsýslan og undirnefnd fjvn. vinni áfram að athugun á rekstri mötuneyta ríkisstofnana, en þessu máli verður að ljúka sem fyrst. Framkvæmd á rekstri þeirra hefur verið mjög breytileg hjá hinum einstöku stofnunum og kostnaður einnig verið breytilegur. Ákveðið er, að fjárlaga- og hagsýslustofnunin hafi samstarf við hin einstöku rn. og ríkisstofnanir um endurskoðun og endurskipulagningu í ríkisrekstrinum yfirleitt.

Mér er það ljóst, að hér er um mikið starf að ræða, en það er líka starf, sem nauðsyn ber til, að verði af hendi leyst. Eitt af því, sem ég hef haldið fram í sambandi við ríkisreksturinn, er það, að til þess að hægt verði að koma fyrir nýjum verkefnum, sem alltaf verða að komast að, án þess að gera ríkiskerfið allt of fyrirferðarmikið, verði að hreyta skipulagi, leggja niður eða sameina eitthvað af stofnunum, sem fyrir eru. Meðal þeirra verkefna, sem nú er unnið að, er slík athugun á sameiningu stofnana og hagræðingu á verkefnum, sem heyra undir landbrn. og mun verða haldið áfram á þeirri hraut hjá fleiri rn. og yfirleitt í ríkisrekstrinum. Ég ætla mér ekki að fara að þylja hér langan lestur með sparnaðarfyrirheit, en ég vil endurtaka það, að sú skoðun mín er óbreytt frá því, sem áður hefur verið, að nauðsyn ber til að taka ríkiskerfið til gagngerrar endurskoðunar. Og það er vonlaust að ná nokkrum árangri í því, sem sparnaður heitir, nema með slíkum vinnubrögðum. Þess háttar vinnubrögð verða viðhöfð, og mun forustan verða hjá fjárlaga- og hagsýslustofnuninni, en jafnhliða verður þetta gert í fullu samstarfi við Alþ. í gegnum undirnefnd fjvn., eins og ég hef áður greint frá. Ég er sannfærður um það, að með því að rn. og ríkisstofnanirnar taka þátt í þessu starfi, þá tekst að gera skipulag ríkisrekstrarins betra en nú er og að því mun verða unnið.

Herra forseti. Mál mitt er nú orðið það langt, að þörf er á, að því fari að ljúka, enda liður nú að því. Eitt af því, sem verið hefur til umr. í hópi stjórnarandstæðinga í sumar, er, að ríkisstj. hafi við valdatöku sína boðið til veizlu. Þá er átt við ákvarðanir hennar um að hækka laun til aldraðra og öryrkja um 1000 kr. á mánuði og það að virða kjarasamninga og lækka söluskatt á mestu nauðþurftum. Rétt mun það, að hér munu þeir aðilar eiga hlut að máli, sem ekki eiga venjulega kost á veizlu af hendi stjórnvalda. Hitt mun einnig, að ekki mun hafa verið mikið um veizluhöld að ræða hjá þeim, sem njóta nú 6000 kr. launa á mánuði í stað 5000. En það mun heldur aldrei táða útslitum um afkomu ríkissjóðs, þótt bætt verði kjör ellilaunþega, öryrkja, einstæðra foreldra og þeirra, sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Það er hins vegar þeim, er betur eru settir, til litillar sæmdar að telja slíka stjórnarathöfn eiga skylt við veizluglaum og óráðsíu. Ég endurtek, að þessi ákvörðun veldur litlu um í fjármálum ríkissjóðs og efnahagsmálum þjóðarinnar.

Það vandamál, sem mest áhrif hefur á fjárlagagerðina og kemur í veg fyrir, að hægt sé að nota meira af tekjum ríkissjóðs til nauðsynlegrar og æskilegrar uppbyggingar vegna framtíðarinnar, er verðbólgan, sem hér hefur ráðið ríkjum um langt árabil og er enn þá ógnvaldur. Hún hirðir kúfinn af ríkistekjunum í gegnum niðurgreiðslur, mikinn rekstrarkostnað og launagreiðslur, þó að enginn telji sig þar ofhaldinn. Þetta gerist, þrátt fyrir það þó að tekjuáætlun sé nú miðuð við það, að góðærið haldist. Þessi staðreynd er hrollvekja, sem ríkisstj. tók í arf frá fyrirrennurum sínum.

Það er skoðun núv. ríkisstj., að til þess að ná árangri í að hafa hemil á verðbólgunni og því takmarki, sem ríkisstj. hefur sett sér, að hér verði ekki meiri verðbólga en gerist með þeim þjóðum, sem við eigum viðskipti við og eru okkar nágrannar, þarf að ná samstarfi við fólkið í landinu, launþegana og framleiðendurna um þessa ákvörðun. Meðal þess, sem þarf til þess að því verði náð, er, að vinnufriður haldist í landinu. En ef vinnufriður á að haldast, verður að ríkja skilningur, ekki sízt á kjörum þeirra, sem verst eru settir. Það verður að vera full atvinna, því að ef atvinnuleysi heldur innreið sína hér á ný, þá er voði fyrir dyrum. Ríkisvaldið verður að leggja sig fram um það, að þátttaka þess í félagslegu átaki og uppbyggingu sé svo sem geta þjóðarinnar frekast leyfir. Það verður að vera skilningur á þörfum æskunnar, bæði til mennta og leikja og alls konar íþrótta- og æskulýðsstarfsemi. Það verður að vera skilningur stjórnvalda á því, að tekjur ríkissjóðs á ekki að sækja til þeirra, sem minnstu hafa úr að spila. Það verður líka að vera skilningur á því, að til þess að ná þessu marki er ekki hægt að sleppa verðhólgunni lausri, heldur verður að gefa rólega eftir á tauginni og þoka sér þannig inn á annað svið, sem betur hentar til þess að treysta efnahagsmál þjóðarinnar. Það verður að taka upp skipulagða stjórn á fjárfestingu og forustu í atvinnumálum og styðja atvinnureksturinn m.a. með betri lánakjörum en hann býr nú við. Til þess að ná þessu marki, verður að skapa trú á gjaldmiðli þjóðarinnar og að eiga peninga. En þjóðin trúir því ekki, að gjaldmiðill hennar sé einhvers virði, ef hún trúir því ekki, að sparisjóðsbókin sé einhvers virði, ef hún trúir því ekki, að sparsemi og hyggindi í fjármálum séu einhvers virði, þá getur hún ekki notið þess að bæta efnahag sinn og öðlast betri lífskjör eða skapa festu í efnahagskerfinu. Allt þetta þarf að vinna upp. Allar aðgerðir verða að miðast við þetta, því að þetta er undirstaðan undir festu og öryggi í efnahagsmálum okkar litlu þjóðar. Mér er ljóst, að það hefði verið ánægjulegt að geta varið meiri fjárhæð til ákveðinna verkefna, sem löngun er til að leysa og þörf er að leysa og ríkisstj. mun beita sér fyrir lausn á. Hins vegar ákvað ríkisstj. að fara með gætni við gerð þessa fjárlagafrv., svo sem gert er af hennar hendi, enda liggur ekki fyrir nú, hvaða möguleika endurskoðun á tekjustofnum ríkisins gefur ríkissjóði í tekjum né hvaða áhrif væntanlegir kjarasamningar kunna að hafa á þjóðarbúskap með tekjuþörf ríkissjóðs fyrir augum. Þess vegna er fjárlagafrv. byggt upp af hendi ríkisstj. með þeim hætti, að virtir eru samningar og lagasetning frá fyrri árum, verðbólgunni er haldið í skefjum, en að öðru leyti er fjárveitingunum varið til þess að ná árangri í framkvæmdum í þeim þáttum þjóðfélagsins, sem mesta nauðsyn ber til. og til að afgreiða fjárlög greiðsluhallalaus. Það er von mín, að þau vinnubrögð, sem Alþ. mun hafa á fjárlagaafgreiðslunni, verði í þessum anda og þau verði til þess að treysta betur það höfuðatriði í efnahagsmálum okkar að skapa festu og trú á efnahagskerfi þjóðarinnar.