13.04.1972
Sameinað þing: 56. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í D-deild Alþingistíðinda. (4502)

207. mál, endurskoðun bankakerfisins

Flm. (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að færa hæstv. forsrh. þakkir fyrir það, hversu vel hann tók undir þá megin hugmynd, sem kemur fram í þáltill. Það er að sjálfsögðu megin atriðið. Hins vegar vænti ég þess, að hann virði mér til vorkunnar, þó að ég flytji þetta þrátt fyrir það, að það standi í málefnasamningnum, vegna þess að þingheimur gerir sér ljóst, að þetta er ólítill vandi við að fást. Einnig vil ég þakka hv. 1. landsk. þm. fyrir góðan skilning og undirtektir við þetta mál. Það var kannske eitt smáatriði, að hv. þm. taldi, að hefði komið fram hjá mér kannske einhver misskilningur eða ónákvæmni í sambandi við starfstíma bankastarfsmanna og má vel vera, að það sé rétt. Hins vegar var það að sjálfsögðu ekki ætlun mín, heldur hitt, að vekja athygli á því, hversu undarlega væri með þessi mál farið og ég hef ekki sannfærzt um það, að eðlilegt sé að greiða jafnvel fólki, sem vinnur kannske ekki mikla eftirvinnu, ómælda eftirvinnu, í samanburði við vinnu þeirra, sem skila svo mikilli vinnu, að það er sanngjarnt að greiða þeim heil mánaðarlaun í viðbót. Ég vil taka það skýrt fram, að það er alls ekki ætlun mín að telja, að bankastarfsmenn séu oflaunaðir, síður en svo, heldur mætti hafa þar annað fyrirkomulag á.

Að öðru leyti vil ég þakka hv. þm. fyrir góðar undirtektir. Hins vegar verð ég að segja það, að tveir hv. stjórnarandstæðingar tóku til máls og ræddu ekkert um þáltill. og má þá heita, að þeir séu ekki svara verðir. Reynt var að gera málflutning þennan, sem ég hef uppi, ómerkan með því að benda á, að ég hafi eða minn flokkur, stutt stofnun Framkvæmdastofnunar ríkisins. Í fyrsta lagi er þetta heldur ómerkilegur málflutningur, því að í stað þess, að þessir hv. þm. hefðu átt að ræða um, hvort þörf væri á endurskoðun bankakerfisins, þá er reynt, eins og ég sagði áðan, að gera þetta mál ómerkilegt með útúrsnúningum, en ég vil í þessu sambandi benda á, að ég greiddi ekki því atkv., að þrír yrðu kommissarar Framkvæmdastofnunarinnar.