13.04.1972
Sameinað þing: 56. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í D-deild Alþingistíðinda. (4503)

207. mál, endurskoðun bankakerfisins

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ekki verður það nú sagt, að hv. 3. landsk. þm. sé neitt stór í sér eða stórbrotinn, þegar hann kemur hér í ræðustól og flytur hæstv. forsrh. þakkir fyrir það, sem hann sagði hér. En það var nú aðallega það, að þetta stæði í málefnasamningnum og það mundi verða framkvæmt, þegar hann teldi það tímabært. Hins vegar sagði hæstv. forsrh. annað, sem ég hygg nú, að hv. þm. hljóti að hafa tekið eftir. Hann sagði, að fullyrðingar þessa hv. þm. væru mjög vafasamar. Ég hygg nú, að þetta sé nægjanlegt til þess að slá botninn úr öllum þeim stóryrðum, sem hv. þm. hafði hér áðan í sambandi við þetta mál í framsöguræðu sinni og þurfi ekki að ræða það frekar, því að þetta er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði. Ég hygg, að bæði það, sem þessi hv. þm. sagði nú og hefur reyndar oft sagt hér áður við ýmis tækifæri, að ýmsar fullyrðingar hans séu vægast sagt mjög vafasamar.

Hann sagði, að við værum ekki svara verðir, vegna þess að við hv. stjórnarandstæðingar, sem hérna tókum til máls, ég og hv. 5. þm. Norðurl. e., við hefðum ekki rökrætt efni till. En hann gaf sannarlega sjálfur tilefni til þess í ræðu sinni, að farið væri út í aðra sálma, þegar hann er að gagnrýna nákvæmlega það sama sem hann hefur staðið að hér sjálfur á Alþingi að samþykkja, en það var í sambandi við Framkvæmdastofnunina. Hv. 5. þm. Norðurl. e. rakti það rækilega, að fyrirkomulagið á stjórn þeirrar stofnunar, sem þessi hv. þm. samþykkti hér fyrir áramót, væri nákvæmlega það sama og á yfirstjórn bankanna. Þar er sjö manna stjórn og þar eru þrír undirmenn, sem samsvara bankastjórum, en eru bara kallaðir kommissarar í þessari stofnun, þannig að það fer ekkert á milli mála, að það þýðir náttúrlega ekki að vera að gagnrýna það, sem maður samþykkir sjálfur og nær fram að ganga á Alþ. Það er alveg út í hött hjá þessum hv. þm. og sýnir það, sem hæstv. forsrh. sagði og staðfestir, að það ber að taka allar hans fullyrðingar með mjög mikilli varúð.

Ég beindi tiltekinni spurningu til þessa hv. þm. eða hæstv. forsrh. og hæstv. ráðh. sagðist ekki hafa þessar tölur sem ég bað um, á reiðum höndum. Við því er ekkert að segja. Ég ætlaði að spyrjast fyrir um þetta, en ég hélt nú satt að segja, að yfirmaður þessara mála, efnahagsmálanna, þar sem hér er um stórt mál að ræða eins og Framkvæmdastofnunina, að hann hefði nú eitthvað fylgzt með því og eitthvað vitað um kostnaðarhliðina á málinu, því að þetta hlýtur að skipta milljónum, ef ekki tugum milljóna, þannig að maður hefði ætlað, að hæstv. forsrh. hefði nú vitað um þetta. Hann hafði þá venjulegu aðferð, sem hér hefur oft verið beitt áður, að benda okkur á að snúa okkur til eins eða annars til að fá upplýsingar. Ég hef ekki aðstöðu, vegna þess að ég get ekki aflað mér þessara upplýsinga. Ég vil bara knýja hér fram á þingi frá þeim aðila, sem ekki verður vefengdur, sem er sjálfur hæstv. forsrh., hvað sé rétt í málinu. Ég vil kannske ekki fara eftir því, sem maður heyrir í bænum! Ég vil ekkert vera að hafa eftir fulltrúum, sem flokkurinn hefur kosið í stjórnir eða nefndir. Þm. eiga kröfu á því, að yfirmenn þeirra málaflokka, sem undir þá heyra, upplýsi þingheim um bæði kostnaðarhlið og það, sem kann að verða spurt um í sambandi við málið. Þetta tel ég, að við eigum alveg skýlausa heimtingu á og ætlast til þess, að hæstv. forsrh., ef hann verður spurður um það síðar við annað tækifæri, sem ég efast ekki um, að muni gefast, hafi þessar tölur á reiðum höndum og þær komi hér inn í skjöl Alþingis.

Ég skal nú ekki fara að karpa við hv. 3. landsk. þm. um þessi mál frekar og tel þess ekki þurfa með, því að hæstv. forsrh. hefur gefið honum þá áminningu, sem honum dugir alveg í sambandi við málflutning sinn, að það sé ákaflega lítið að marka það, sem hann kemur með hér á Alþ.

Ég hefði nú kannske vænzt og haldið, að hæstv. forsrh. kæmi eitthvað inn á það, sem ég ræddi hér, en það var það, sem hv. 3. landsk. þm. upplýsti okkur um. Hann nefndi nú ekki orðið óðaverðbólga, en hann sagði, að öll efnahagsmálin væru að fara úr skorðum. Hans orð lágu beint til þess. Þetta er nákvæmlega það, sem ég sagði áðan. Þetta eru að heita má nákvæmlega sömu orðin og hæstv. forsrh. fyrrv. vinstri stjórnar viðhafði, þegar hann sagðist sjá sig tilneyddan til að segja af sér og slíta stjórnarsamstarfi. (Gripið fram í.) Ég þarf nú satt að segja að vekja athygli hæstv. forseta á því, hvort ekki þurfi að skoða heilsufar þessa hv. þm. Í hvert einasta skipti, sem hann kemur inn í umr., ég vil segja, að það gildi um flest mál og hefur verið sérstaklega áberandi í sambandi við varnamálið, þá virðist hann eiga ákaflega erfitt með að sitja kyrr í sæti sínu. Hann iðar þar allur og tifar og kallar fram í og mér sýnist hann satt að segja haga sér ákaflega líkt og óþekktarstrákur, sem ekki getur setið kyrr í sæti sínu, vegna þess að hann er búinn að bleyta stólinn, sem hann situr í.