13.04.1972
Sameinað þing: 56. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í D-deild Alþingistíðinda. (4504)

207. mál, endurskoðun bankakerfisins

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Erindi mitt í ræðustól að þessu sinni var nú eingöngu það að undirstrika, að í byrjun ræðu minnar hér áðan tók ég svo til orða, að það væri sjálfsagt að endurskoða bankakerfið. Allt íslenzkt þjóðlíf er í mótun og við þurfum að endurskoða og endurskoða alla mögulega hluti. Annars er hætt við stöðnun og ég held, að enginn hv. þm. sé á móti því að endurskoða hlutina.

Ég vil aðeins vekja athygli á því, fyrst ég er kominn hér í ræðustól, að það er eitt atriði í sambandi við þessa þáltill., sem mér finnst dálítið merkilegt og lýsir stefnubreytingu af hálfu hv. stjórnarsinna hér á Alþ. og það er það, að nú eru þeir farnir að flytja þáltill. um efni, sem stendur í stjórnarsamningnum. Þetta átti að vera óalandi og óferjandi hér í haust í byrjun þings. Þegar við stjórnarandstæðingar vorum að reyna að flytja till. um hin og þessi mál sem drepið var á í stjórnarsamningnum, þá komu hér bæði ráðh. og stjórnarsinnar í pontuna og lýstu vanþóknun sinni á þessu athæfi okkar, því að þetta stæði í málefnasamningnum og enginn gæti efazt um, að það yrði framkvæmt. Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni yfir þessari stefnubreytingu, sem orðin er. Nú geta menn gengið að því vísu, að þeim verður ekki svarað þannig hér eftir, að það sé óþarfi að minnast á ein eða önnur mál vegna þess að þau standi í stjórnarsamningnum.

Svo vil ég aðeins árétta það, sem ég sagði hér í fyrri ræðu minni, að ég tel, að í ræðu hv. 3. landsk. þm. hafi hann ráðizt allharkalega á það, sem hann hefur áður bæði í blöðum og opinberlega kallað pólitíska spillingu, þ.e. hvernig farið er að því að kjósa í bankaráð og hvernig farið er að því að velja hankastjóra íslenzka bankakerfisins. Þetta hefur hann í ræðu og riti sagt, að væri pólitísk spilling. En ég var að benda honum og flokksmönnum hans á það, að þeir hafi ekki verið fyrr setztir á Alþ. en þeir hefðu gert slíkt hið sama og meira að segja bætt gráu ofan á svart með því að taka upp þessi vinnubrögð og bæta ýmsum ágöllum við, því að ríkisstj. á að skipa svokallað framkvæmdaráð. Og það er ríkisstj. ein, sem gerir þetta. Það eru stjórnarsinnar, sem sitja þar, þrír kommissarar, valdir sinn úr hverjum þingflokki, sem styður ríkisstj. Þetta er að mínum dómi margfalt meiri pólitísk spilling, en þau vinnubrögð, sem hafa verið viðhöfð í sambandi við val á bankastjórum, ef að því hefur mátt finna.

Ég benti líka á það, að hv. þm. hefði gagnrýnt harkalega, hvernig valið er í bankaráðin. Hæstv. forsrh. hefur tekið upp hanzkann fyrir það og lýst sinni skoðun á því. Mín skoðun er sú sama. En skoðun hv. 3. landsk. þm. virðist vera allt önnur. Hans ræða hér um þetta var í raun og veru einn allsherjar áfellisdómur um vinnubrögð ríkisstj. við að lögfesta svokölluð lög um Framkvæmdastofnun ríkisins, sem eins og ég segi eru nákvæmlega að eðli sínu hliðstæð því, sem hefur gerzt um bankaráð og bankastjóra íslenzka bankakerfisins, nema þar er bætt við mörgum ágöllum. Þess vegna var ég að benda á það, að hv. þm. hefði bæði flengt sjálfan sig og ríkisstj. í heild fyrir þessi lög.