21.10.1971
Sameinað þing: 5. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

1. mál, fjárlög 1972

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það er næsta sérkennileg aðstaða, sem við hæstv. fjmrh. erum í við þessa fjárlagaumr. Undanfarin 6 ár hefur það verið hlutskipti mitt að tala fyrir fjárlagafrv., en hann hefur öll þessi ár og raunar lengur verið höfuðtalsmaður stjórnarandstöðunnar. Það er því ekki ólíklegt, að hv. þm. og hlustendur geri í huga sínum nokkurn samanburð á okkur í þessum nýju hlutverkum og hversu okkur takist að haga málflutningi okkar í samræmi við fyrrí kenningar.

Skoðanir mínar og míns flokks á mikilvægi hallalauss ríkisbúskapar og ábyrgrar fjármálastjórnar eru óbreyttar, þótt Sjálfstfl. sé í stjórnarandstöðu. Þetta fyrsta fjárlagafrv. vinstri stjórnarinnar er raunar hvorki fugl né fiskur, því að þar er ekki að finna neina mótaða efnahagsmálastefnu og ótal fyrirvarar í grg. um veigamikil atriði, og ekki urðu menn fróðari af að hlusta á ræðu hæstv. fjmrh. hér í kvöld. Það er þó ljóst, að hæstv. fjmrh. hefur orðið að taka upp allt aðra starfshætti og málatilbúnað, eftir að hann settist í ráðherrastól, heldur en meðan hann í stjórnarandstöðu gat talað svo sem hann taldi vinsælast hverju sinni. En nú er ekki lengur hægt að verja aðgerðaleysi í alls konar umbótamálum með valdleysi. Nú er hætt við, að fólkið, sem treysti öllum umbótaloforðunum, krefjist efnda. Það var óheppilegt fyrir hæstv. fjmrh., en einkar góð lýsing á hans ástandi nú, þegar hann vitnaði í hinn orðsnjalla mann, Magnús Jónsson prófessor, að mikið liti veröldin öðru vísi út af tröppum Landsbankans en alþingishússins. Þetta hefur sannazt rækilega á hæstv. núv. fjmrh. Vandamálin líta allt öðruvísi út úr stóli fjmrh. en áróðursstóli Framsóknar á síðustu árum.

Vinstri stjórnin gamla hrökklaðist frá völdum vegna hreinnar óstjórnar og úrræðaleysis um lausn fjármála og efnahagsmála, svo sem forsrh. hennar hreinskilnislega játaði. Hún skildi við efnahagskerfið á hengiflugi, alla sjóði tóma og lánstraust erlendis þrotið. Þessi ósköp gerðust í miklu góðæri í landinu. Það féll í hlut samstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. að veita þjóðinni forustu samfellt þrjú kjörtímabil. Ekki aðeins tókst að leysa úr öngþveiti vinstri stjórnarinnar, heldur hefur þetta stjórnartímabil í heild verið mesta framfaraskeið í sögu þjóðarinnar og þjóðarauðurinn varð gífurlega, enda þótt miklir örðugleikar hafi dunið yfir fyrir örfáum árum, svo sem öllum er í fersku minni. Engin ríkisstj. hefur tekið við blómlegra þjóðarbúi en hin síðari og vonandi siðasta vinstri stjórn á Íslandi. Á örskömmum tíma hefur aftur skipazt svo veður í lofti, í senn vegna hagstæðra aflabragða og verðlags og þó eigi siður vegna markvissrar forustu fyrrv. ríkisstj. í efnahagsmálum og fjármálum, að núv. ríkisstj. fékk í hendur 4000 millj. kr. gjaldeyrisvarasjóð, meiri sparifjáraukningu en áður hefur þekkzt, myndarlegan stofn að verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, sem er grundvallarnauðsyn fyrir útgerðarmenn og sjómenn að eiga til þess að jafna hinar miklu verðsveiflur, sem ollu erfiðleikum áranna 1967–969, nær 500 millj. kr. greiðsluafgang ríkissjóðs, sem jafnaði að fullu hinn eðlilega hallarekstur erfiðleikaáranna 1967–1969, og fyrirsjáanlega myndarlegan greiðsluafgang hjá ríkissjóði á þessu ári, ef skynsamlega væri á málum haldið. Verðlag útflutningsvara er hærra en nokkru sinni. Iðnaðarframleiðslan hefur stóraukizt og þetta ár er eitt hið hagstæðasta fyrir landbúnaðinn. Til viðbótar hafði svo fyrrv. ríkisstj. komið á verðstöðvun með nauðsynlegri fjáröflun, sem gerði væntanlegri ríkisstj. auðið að fá nægilegt svigrúm til nauðsynlegra ráðstafana, til þess í senn að tryggja kaupmátt hinna miklu kjarabóta, sem launþegar fengu á s.l. ári, og gera viðeigandi ráðstafanir til efnahagslegs jafnvægis með því að stuðla að raunhæfum og skynsamlegum samningum launþega og vinnuveitenda nú í haust. Það er því sannarlega engin hrollvekja, sem fráfarandi ríkisstj. lét eftir sig, heldur blómlegt bú, sem gefur þjóðinni skilyrði til mikillar nýrrar framfarasóknar, ef skynsamlega er á málum haldið. Ljósust sönnun þess er sú yfirlýsta skýrsla Efnahagsstofnunarinnar um þróun efnahagsmála í ár og horfur á næsta ári, sem fylgir fjárlagafrv. En það eru hins vegar vissar blikur á lofti, sem geta orðið hrollvekjandi, ef vinstri stjórnin heldur áfram svo sem hún hefur stigið sín fyrstu spor. Hún þarf líka við að fást arf úr eigin búi, sem ekki er hugnanlegur. Í fyrsta lagi málflutning sinn undanfarin ár, í öðru lagi tillöguflutning á síðasta þingi, sem stjórnarandstöðuflokkarnir og þá fyrst og fremst Framsfl. lýstu yfir fyrir síðustu kosningar, að bæri að skoða sem kosningastefnuskrá, og í þriðja lagi stjórnarsáttmálann sjálfan, sem er einstæður að skrumi og sýndarmennsku og mun ekki áður hafa þekkzt við nokkra stjórnarmyndun hérlendis eða erlendis, en minnir fremur á óskalista sumra flokksþinga en ábyrga stefnu ríkisstj. Og hinir nýju valdamenn með loforðalistana vildu heldur ekki lengi láta sitja við orðin tóm. Nú var hrollvekjan, sem þeir prédikuðu fyrir fólki á síðasta vori, gleymd, og rósabjarmi kominn yfir allt, eftir að þeir sjálfir voru seztir í valdastóla. Þótt þeir hefðu í kosningabaráttunni talið það fásinnu hjá sjálfstæðismönnum að halda því fram, að auðvelt væri að halda áfram verðstöðvun til áramóta eða lengur án nýrrar fjáröflunar, þá framkvæmdi ríkisstj. eigi aðeins framlengingu verðstöðvunar, heldur ákvað, að ný almannatryggingalög skyldu nú þegar taka gildi, og með haustdögum voru niðurgreiðslur enn auknar, allt án nýrrar fjáröflunar, og hinn nýi fjmrh. samþykkti möglunarlaust að leggja fram úr ríkissjóði á þessu ári til viðbótar útgjöldum fjárlaga um 650 millj. kr. Vafalaust munu ríkistekjur fara mjög fram úr áætlun, en þó má telja víst, að þessi rausn fjmrh. muni leiða til töluverðs greiðsluhalla, einmitt þegar sízt skyldi á mestu velmegunartímum, þegar brýna nauðsyn ber til vegna efnahagsjafnvægis, að ríkisbúskapurinn sé hallalaus. Úthlutunin úr verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarms er mál út af fyrir sig og ákvörðunin um að eyða verðjöfnunarsjóði olíu, sem aðeins gat nægt til tæpra þriggja mánaða, nánast brosleg ráðstöfun.

Fjárlagafrv. hefur að vonum verið beðið með nokkurri eftirvæntingu, því að vafalaust hafa stuðningsmenn vinstri stjórnarinnar, ekki sízt framsóknarmenn, sem ár eftir ár hafa hlustað á núv. hæstv. fjmrh. lýsa sukkinu og óstjórninni, búizt við mikilli stefnubreytingu, þegar tækifæri gafst til að láta að sér kveða. Og nú er hin stóra stund sparnaðar og ráðdeildar runnin upp, — og hvað blasir við?

Í nál. minni hl. fjvn. á síðasta þingi, sem núv. hæstv. fjmrh. var frsm. fyrir, segir svo orðrétt: „Þessi hækkun er stórfelldari en dæmi eru til í sögu íslenzkra fjárlaga, og það svo, að öll fyrri met á því svíði hverfa sem dögg fyrir sólu.“ Fjárlagafrv. fyrir árið 1971, sem fær þennan harða dóm, hækkaði á rekstrarreikningi frá fjárlögum ársins 1970 um 1 608 millj. kr. eða 24.9%, þegar frá eru taldir tekjustofnar, sem ráðstafað er með sérlögum. En hvað gerir hinn harði dómari sjálfur? Fjárlagafrv. fyrir árið 1972 hækkar ekki um 1 608 millj., heldur um 2 431 millj. eða 27.5%, og þó að hæstv. fjmrh. reyni að verja þessi ósköp með því, að réttara sé að miða við hin endanlegu fjárlög, þá breytir það engu um þennan samanburð, því að viðurkennt er í grg. fjárlagafrv., að þrátt fyrir hina geigvænlegu hækkun vanti enn miklar fjárhæðir, því að enn sé ekki farið að framkvæma neitt af stefnumálunum, sem geta kostað geysilegar fjárupphæðir.

Í fjárlagafrv. nú er aðeins 48 millj. kr. greiðsluafgangur, sem Alþ. er ætlað til ráðstöfunar, en var í fjárlagafrv. í fyrra 313 millj. Tekið er fram í frv., að ekki sé gert ráð fyrir neinum launahækkunum og umbótamálin eigi öll eftir að sjá dagsins ljós. Það er næsta kynlegt, hversu rík áherzla er á það lögð í grg. frv., að meginhluti útgjaldahækkunarinnar stafi af launahækkunum opinberra starfsmanna, sem ákveðnar hafi verið í tíð fyrrv. ríkisstj„ og auknum framlögum til almannatrygginga, sem einnig hafi verið samkv. lögum, sem sett voru á síðasta þingi. Jafnframt er þó tekið fram, að hvort tveggja þetta hafi verið sjálfsagt. Hvað á þá að þýða að reyna að láta þessi útgjöld lita út sem sérstakan arf frá fyrrv. stjórn? Hitt hlýtur að vekja meiri athygli, að ekki er gert ráð fyrir neinum auknum bótum almannatrygginga í fjárlagafrv. Stórhækkun bóta almannatrygginga er þó eitt af helztu stefnumálum ríkisstj., og lýstu núv. ráðamenn því með mörgum orðum, hversu lítilfjörlegar þær bætur væru, sem fyrrv. ríkisstj. lét lögfesta á síðasta þingi, en nú virðist eiga að láta þar við sitja. Og gerir ríkisstj. ráð fyrir því jafnframt því, sem hún lofar opinberum starfsmönnum verkfallsrétti, að ekki þurfi að hækka laun þeirra, þótt talað sé um verulegar launahækkanir annarra stétta?

Í nál. um fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár komst núv. hæstv. fjmrh. svo að orði: „Fjárlagafrv. fyrir árið 1971 er undirlagt af áhrifum verðbólgunnar, eins og sjúklingur af skæðum sjúkdómi. Yfir 1 100 millj. kr. er varið til niðurgreiðslna á vöruverði.“ En hvaða ráðstafanir eru nú gerðar til að lækka hinn geigvænlega sótthita? Niðurgreiðslur eru hækkaðar úr 1 100 millj. í 1 635 millj., og vantar þó til víðbótar rúmlega 100 millj., ef halda á áfram á næsta ári þeim niðurgreiðslum, sem ákveðnar hafa verið eftir 1. sept. En nú hlýtur þó að hafa verið myndarlega tekið til höndum við að draga úr eða a.m.k. að stöðva útþensluna í ríkisbákninu, sem hæstv. núv. fjmrh. hefur ekki haft nógu sterk orð til að fordæma undanfarin ár. Hvað sýnir fjárlagafrv. og þegar unnin afrek ríkisstj. á því sviði? Þar er allt á eina bókina lært. Að vísu hefur ekki enn tekizt að skipa þær 40 nefndir og ráð, sem þessir flokkar lögðu til í þingmálum sínum á síðasta vetri, að skipaðar væru. En furðuötul hefur ríkisstj. verið í skipun nýrra nefnda, síðan hún tók við völdum. Og í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 33 millj. kr. launum til nýrra embættismanna til viðbótar eðlilegri aukningu, svo sem kennara. Ekki örlar á hinni gömlu tillögu um fækkun sendiráða. Og framlög til margumræddrar löggæzlu á Keflavíkurflugvelli hækkar nokkru meira en nemur hækkun á stuðningi við námsmenn, sem sækja skóla utan heimabyggðar, og ekkert bólar á hinni stórhuga hugmynd Sigurvins Einarssonar og Ingvars Gíslasonar, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu, um 100 millj. kr. til námskostnaðarsjóðs. Lánasjóður ísl. námsmanna, sem í stjórnarandstöðu var sérstakt óskabarn núv. stjórnarherra, er svo gersamlega látinn sitja á hakanum, að 80–90 millj. kr. fjárveitingu vantar til að fullnægja ákvörðunum fyrrv. ríkisstj. um eflingu þess sjóðs eða nær tvöfaldan allan greiðsluafgang frv. Hæstv. fjmrh. sagði að vísu, að mál lánasjóðsins þyrfti að athuga í Alþ. Þau hafa áreiðanlega skipt mörgum tugum atriðin, sem hann reyndi að afsaka, að ekki væru í fjárlagafrv., með því að þau ættu að lagfærast í Alþ. En hvar er peninga að fá til þeirrar lagfæringar? Á fjvn. að finna það út?

Þenslan í stjórnarráðinu hefur lengi verið vinsælt bitbein núv. ráðamanna. En nú kastar fyrst tólfunum um aukningu á kostnaði við stjórnarráðið. Hækkunin nemur 62 millj. kr. Talsmenn núv. stjórnarflokka töluðu oft síðustu árin um þreytta menn í fyrrv. stjórn, en sjálfir komast þeir ekki yfir störf sín þegar á fyrsta ári nema ráða aðstoðarráðherra.

Hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir, að hagsýslustofnunin verði efld, því að ógerlegt sé að koma við sparnaði nema með skipulögðum aðferðum. Mér er þessi yfirlýsing ánægjuefni, því að ég átti frumkvæðið að stofnun þessarar stjórnardeildar, einmitt með þeim rökum, að án slíkrar stofnunar fjmrn. verður ekki komið við kerfisbundnu aðhaldi og sparnaði. Mér þykir einnig vænt um að heyra, að hæstv. ráðh. ætlar að halda áfram því samstarfi fulltrúa allra flokka um athugun sparnaðarúrræða, sem hafið var með góðum árangri fyrir þremur árum. Ekki er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir neinum lækkunum fjárveitinga til ferðalaga eða risnu, sem oft hefur verið vinsælt bitbein, heldur er stefnt í hækkunarátt, enda hefur ríkisstj. bæði verið veizluglöð og óspör á ferðalög. Hæstv. núv. fjmrh. hefur oftlega haldið því fram, að afnám söluskatts af ýmsum nauðsynjum væri þjóðráð í baráttunni gegn verðbólgunni. Auðvitað hefur lækkun vöruverðs áhrif í þessa átt. En hvað varðar þessar vörur, sem flestar eru niðurgreiddar um miklu meira en söluskattinum nemur, þá skiptir sú niðurfelling engu máli og er sýndarmennska. Dæmigert fyrir þessa sýndarmennsku er sú ákvörðun ríkisstj. á s.l. sumri að fella niður söluskatt af smjöri, en lækka um leið níðurgreiðsluna þannig, að smjörkílóið var jafndýrt eftir sem áður. Á s.l. þingi fluttu framsóknarmenn tillögu um að fella niður á næsta ári alla tolla af vélum til atvinnuveganna og stórlækka tolla af ýmsum heimilisvélum. Nú er tækifæri til framkvæmda, en ekki gerir fjárlagafrv. ráð fyrir þessu tekjutapi. Í tíð fyrrv. ríkisstj. var lagður grundvöllur að kerfishundnum aðgerðum til byggðaþróunar með stofnun Atvinnujöfnunarsjóðs og byggðaáætlunum. Þessar ráðstafanir hafa framsóknarmenn talið allsendis ónógar og fluttu á síðasta þingi undir forustu Gísla Guðmundssonar frv. um byggðajafnvægisstofnun, sem skyldi fá hvorki meira né minna en 2% af árlegum tekjum ríkissjóðs til ráðstöfunar og í fyrsta sinn 1972. Nú eru ráðin í þeirra höndum til þessara stórátaka. Efndirnar eru þær, að fjárlagafrv. gerir ráð fyrir minni tekjum Atvinnujöfnunarsjóðs en á þessu ári, og framlag til uppbóta á línufisk er fellt niður. Stórfenglegust hefur þó verið sú kenning, sem einmitt ekki hvað sízt hæstv. fjmrh. hefur haldið fram ár eftir ár, að ríkissjóði bæri skylda til að afhenda allar tekjur sínar af umferðinni til Vegasjóðs. Hér mun vera um 6–700 millj. kr. að ræða. Hvar er þessa tillögu að finna í fjárlagafrv! Það þýðir ekki að reyna að tala sig með fallegum orðum frá þessari staðreynd, eins og hæstv. fjmrh. reyndi hér í kvöld. Það verða engir vegir lagðir með orðum einum.

Þá hefur það verið eftirlætisviðfangsefni hæstv. fjmrh. í stjórnarandstöðu, að heildarhækkun fjárveitinga til verklegra framkvæmda verði hlutfallslega til jafns við hækkun fjárlaga hverju sinni. Að vísu hafa þessi framlög í ýmsum greinum margfaldazt að raungildi síðasta áratug, þótt krafan um hlutfallslega hækkun sé auðvitað fráleit af rökum, sem ég hef oft vikið að. En hvernig efnir hann sjálfur þessa einbeittu kröfu sína í fyrsta fjárlagafrv. sínu, þegar ríkistekjur hækka meira á einu ári en nokkru sinni fyrr? Hafnargerðir eru meðal mikilvægustu framkvæmda fyrir fjölda byggðarlaga, og framlög til almennra hafna hækkuðu í ár um 21 millj. kr. En í fyrsta fjárlagafrv. vinstri stjórnarinnar er ekki gert ráð fyrir einnar krónu hækkun. Eftir engum framlögum ríkisins hefur verið jafnmikið sótt á Alþ. undanfarin ár og byggingarframlögum til barna- og gagnfræðaskóla. Þessi framlög hækkuðu í ár um 82 millj. kr., en aðeins um 7.3 millj. í fjárlagafrv. Þá hlýtur það að vekja sérstaka athygli, þegar miðað er við öll stóru orðin um áhuga á eflingu iðnaðarins, að framlög til byggingar iðnskóla hækka ekki um eina krónu, og ekki er heldur um að ræða neina hækkun á hinum ýmsu framlögum til eflingar á iðnþróun. Nú sýnist það eitt helzta úrræðið til að bæta heilbrigðisþjónustu víða um land að koma upp læknamiðstöðvum, og víða eru sjúkrahús í smíðum. Ríkisframlög í þessu skyni voru hækkuð í ár um rúmar 25 millj. kr., en í fjárlagafrv. er ráðgerð 5 millj. kr. hækkun. Hvernig skyldi fjvn. ganga að skipta þessu fé? Byggingarframlög til ríkissjúkrahúsa hækka að vísu um 34 millj., en um leið er með hækkun daggjalda felldur niður 24 millj. kr. rekstrarstyrkur, svo að raunveruleg hækkun til ríkissjúkrahúsanna er aðeins 10 millj. Í grg. frv. er þess getið með töluverðu stolti, að a.m.k. sé þó vel búið að flugmálunum með 19 millj. kr. hækkun framkvæmdafjár. Hér ber þess að gæta, að til flugöryggismála var varið 18 millj. kr. í framkvæmdaáætlun í ár, svo að hækkunin er ekki nema 1 millj. En hvað er að segja um stærsta og kostnaðarsamasta viðfangsefnið í flugvallamálunum, stækkun flugbrauta á Keflavíkurflugvelli, sem er forsenda þeirra miklu og vaxandi tekna, sem ráðgerðar eru á þeim flugvelli? Þar gagnar engin ein millj., heldur þúsund millj. Fyrrv. ríkisstj. hafði hafið samninga við Bandaríkjastjórn um að leggja fram allt að 1 400 millj. kr. til þessara mikilvægu framkvæmda. Hvað líður þeim samningum nú? Í stjórnarsáttmálanum er ákveðið að ljúka rafvæðingu sveitanna á þremur árum. Í fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir nægilegu fé í þessu skyni, svo að væntanlega á þá að afla lánsfjár í framkvæmdaáætlun. Hér er um mikið nauðsynjamál að ræða, en þó markar þessi ákvörðun engin tímamót, því að fyrrv. stjórn hafði þegar ákveðið að ljúka rafvæðingunni á fjórum árum, og ótrúlegt þykir mér í reynd, að það gerist á skemmri tíma.

Framsóknarmenn hafa í stjórnarandstöðu talið sig bera veðdeild Búnaðarbankans mjög fyrir brjósti og oft lagt fram tillögur um stóreflingu hennar. Nú bregður svo kynlega við, að fellt er niður 2.5 millj. kr. ríkisframlag til veðdeildarinnar, sem er í fjárlögum þessa árs og er bráðnauðsynlegt til að jafna rekstrarhalla deildarinnar, og úr því verður ekki hætt með lánsfé. Þá er og fellt niður jafnhátt framlag vegna sérstaks stuðnings við bændur vegna súgþurrkunar. Ég veit ekki, hvort þetta er í samræmi við þá yfirlýsingu hæstv. fjmrh., að hann hyggist byrja skipulegar sparnaðaraðgerðir við landbrn. Þá er ekki ósennilegt, að útflutningsuppbætur séu verulega vanáætlaðar, jafnvel um 100–150 millj. kr. Sem betur fer er ekki að finna í fjárlagafrv. þá tillögu hæstv. forsrh. frá síðasta þingi, að ríkissjóður leggi fram 150 millj. kr. óafturkræft framlag til ríkisútgerðar togara.

Vitanlega eru í frv. nokkrar hækkanir til verklegra framkvæmda, enda væri furðulegt, ef svo væri ekki, miðað við 3 milljarða tekjuhækkun ríkissjóðs. En flest er það af skornum skammti og í engu samræmi við fyrri kenningar núv. stjórnarflokka. Engin drög að framkvæmdaáætlun fylgja nú fjárlagafrv., svo sem verið hefur síðustu árin, og er því ógerlegt að fá nokkra heildarmynd af framkvæmdaáformum hæstv. ríkisstj. Ef ganga má út frá því, að hæstv. fjmrh. hafi ekki fallið frá öllum fyrri kenningum sínum, má þó gera ráð fyrir, að ekki verði um neinar teljandi lántökur að ræða til almennra ríkisframkvæmda, svo mjög hefur hann fordæmt það á fyrri árum, að fjármagnaðar skuli hafa verið með lánum ýmsar ríkisframkvæmdir, því þá væri aðeins verið að binda bagga á herðar framtíðarinnar.

Um stefnuna í skattamálum er enn ekkert vitað fremur en önnur atriði stjórnarsáttmálans, en í fjárlagafrv. er boðað, að allt bíði síns tíma. Endurskoðun skattalaga hefur nú staðið í tvö ár, og á síðasta þingi voru samþ. veigamiklar breytingar á skattalögum, einkum varðandi skatta fyrirtækja vegna aðildarinnar að EFTA, en einnig ýmsar umbætur á sköttum einstaklinga. Taka þau lög að öllu óbreyttu gildi um næstu áramót. Heildarendurskoðun allra helztu þátta skattamála hófst fyrir ári síðan og var í höndum nefndar hinna færustu sérfræðinga á sviði skattamála, enda er hér um stórflókin mál að ræða og margflækt. Á s.l. vori ákvað ég í samráði við starfsbræður mína í ríkisstj. að breikka grundvöll þessarar nefndar, með því að óska aðildar Sambands ísl. sveitarfélaga, samtaka vinnuveitenda, launþega og bænda í nefndina til þess að tryggja það, að öll sjónarmið kæmu þar fram. Er að mínu mati skattkerfið allt, bæði skattar ríkis og sveitarfélaga, verkaskipting þessara aðila og tegundir skatta, svo samtvinnað, að heppilegast er, að heildarathugun málsins sé í einni hendi, en síðan starfað í undirnefndum. Núv. ríkisstj. vildi hafa allt annan hátt á, kærði sig ekkert um það samstarf sérfræðinga ríkisins og heildarsamtaka, sem fyrir hafði verið, en skipti verkefninu á milli fleiri nefnda með pólitískari hlæ. Við skulum vona, að verkið sækist vel engu að siður, en ekki er ég viss um, að breyting þessi hafi verið til bóta. Enda þótt sérfræðingar eigi ekki að ráða of miklu, þá tel ég þó farsælla að byggja á sérmenntun þeirra heldur en láta brjóstvitið eitt ráða, sem sýndist í upphafi hafa verið metnaðarmál ríkisstj., þótt hún síðar hafi lært nokkuð af reynslunni. Undanfarin tvö ár hefur það verið stöðugt árásarefni á mig, að ég hafi hlunnfarið skattgreiðendur með því að ákveða skattvísitölu allt of lága, einkum á árunum 1969 og 1970, og þannig raunverulega stórhækkað tekjuskatt og útsvör. Ég hef aldrei reynt að leyna því, að skattvísitalan hefði átt að vera hærri þessi ár, þótt ég hafi talið málflutning gagnrýnendanna rangan. En ég hef bent á þá staðreynd, að á erfiðleikaárunum var gripið til þessa ráðs, því ella hefði orðið að afla ríki og sveitarfélögum tekna með öðrum hætti, og raunar hefðu flest sveitarfélög, sem fá meginhluta tekna sinna af útsvörum, komizt í algert greiðsluþrot, ef skattvísitalan hefði verið hækkuð í samræmi við framfærsluvísitölu, svo sem var krafa gagnrýnendanna. Ég taldi hins vegar sjálfsagt að reyna að jafna metin, þegar betur áraði, og á yfirstandandi ári var skattvísitalan ákveðin 29 stigum hærri en árið áður, eða mun hærri en nam aukningu framfærslukostnaðar á skattárinu. Höfuðgagnrýnendur á þessar ákvarðanir mínar voru einmitt hæstv. núv. fjmrh. og hv. núv. formaður þingflokks Framsfl. Maður skyldi því ætla, að myndarlega væri bætt fyrir ofsókn mína á skattgreiðendur á liðnum árum, þegar ríkisstj. hefur úr meira fé að spila en nokkur önnur ríkisstj. En hver er reyndin? Skattvísitalan er aðeins hækkuð um 6.5 stig eða nákvæmlega sem svarar framfærslukostnaðaraukningu síðastliðins árs, sem að hluta til var verðstöðvunarár. Þrátt fyrir allt peningaflóðið í peningakassann hefur fjmrh. ekki séð neina ástæðu til að bæta fyrir skattrán mitt, en gerir í frv. ráð fyrir 574 millj. kr. hækkun á tekjusköttum til ríkissjóðs. Nú má engan pening missa.

Hæstv. fjmrh. hefur lagt áherzlu á það, að nú eigi að gera ný átök í skattrannsóknum og verði ráðinn hópur nýrra starfsmanna að skattrannsóknadeildinni. Gott og blessað er að heyra þetta, enda hef ég lagt ríka áherzlu á nauðsyn réttra framtala og upprætingu skattsvika í öllum þeim sex fjárlagaræðum, sem ég hef flutt undanfarin ár. Á það er þó rétt að benda, að það voru ekki framsóknarmenn, sem áttu frumkvæðið að kerfishundnum skattrannsóknum, heldur var skattrannsóknadeildin fyrst sett á laggirnar í fjármálaráðherratíð Gunnars Thoroddsen og hún síðan efld frá ári til árs, eftir því sem ástæða hefur þótt til og forstöðumenn hennar hafa óskað eftir. Árangur slíkra rannsókna fer ekki eingöngu eftir fjölda starfsmanna, heldur eftir skipulegu starfi, sem þróast smám saman, og eftir nægilega sérhæfðu starfsliði. Til þess að tryggja rétt framtöl fyrirtækja þarf t.d. að vera nægilega fullkomið bókhald og því voru ný bókhaldslög sett fyrir fáum árum. Höfuðatriði þessa mikla máls er líka það að reyna að tryggja rétt framtöl. en ekki að refsa fyrir skattsvik. Og á það legg ég að lokum áherzlu, að frá því að rannsóknadeildin tók til starfa hefur aldrei verið synjað um mannaráðningar til hennar.

Í grg. fjárlagafrv. og ræðu hæstv. fjmrh. er lögð sérstök áherzla á, að útgjaldaaukning þessa fjárlagafrv. sé einkum arfur frá fyrri tíð. Auðvitað eru fjárlög hverju sinni spegilmynd ríkjandi efnahagsþróunar og löggjafar Alþ., en hvaða veigamikil útgjaldaaukning skyldi það vera, sem núv. stjórnarflokkar og núv. hæstv. fjmrh. hafa verið andvígir, og muna menn eftir því, að núv. valdhafar hafi verið sérstakir baráttumenn gegn kauphækkunum undanfarin ár, og sé svo, því þá ekki að reyna að fikra sig aftur niður brattann, og séu útgjöldin slæmur arfur, hvað segir þá hæstv. fjmrh. um hinn hluta arfsins, 3 milljarða kr. tekjuauka án nýtra skatta? Nei, sannleikurinn er sá, að bæði á sviði ríkisfjármála og varðandi ástand þjóðarbúskaparins í heild er betur búið í haginn fyrir þessa ríkisstj. en nokkra aðra. Sé einhverja hrollvekju við að fást, þá er hún því —heimatilbúið vandamál vegna ráðleysis ríkisstj., — ef ekki gerast einhver sérstök óhöpp varðandi útflutningsframleiðsluna.

Ég hef hér dregið upp nokkra mynd af mismuninum á orðum og verkum eftirmanns míns í embætti fjmrh. og fylgdarliðs hans. Það er spegilmynd af já, já, nei, nei-stefnu Framsfl., já í stjórnarandstöðu, nei í ríkisstj. Ég er ekki að ásaka hæstv. fjmrh. fyrir að skoða málið raunsætt og segja nú nei við mörgu því, sem áður var flaggað með í von um vinsældir og fylgisaukningu, sem kannske hefur nægt til þess að ná í ráðherrastólana, heldur hef ég samúð með honum í þeirri baráttu, sem hann á fram undan við margs konar vofur, sem á hann hljóta að sækja í mynd fyrri orða og tillagna. Enn hefur ríkisstj. í meginefnum ekki gert annað í efnahagsmálum en að fylgja stefnu fyrrv. ríkisstj., sem fyrir síðustu kosningar var talin fjarstæða og kosningablekking. Verðstöðvunin hefur verið framlengd með sams konar tekjuöflun, og það er ekki aðeins til áramóta, heldur að verulegu leyti næsta ár. Og á það er lögð hm ríkasta áherzla, að allt velti á kjarasamningunum í haust, nákvæmlega eins og við sjálfstæðismenn sögðum fyrir kosningarnar. Munurinn á vinnubrögðunum er aðeins sá, að við treystum á skilning launþega og vinnuveitenda í frjálsum samningum, á mikilvægi þess ekki sízt fyrir launþega til tryggingar kjarabóta og atvinnuöryggis, að kjarasamningarnir yrðu miðaðir við raunverulega greiðslugetu atvinnuveganna, en ekki nýja verðþenslu. Núv. ríkisstj. hefur hins vegar þann háttinn á að segja verkalýðsforingjum sínum, hvers þeir eiga að krefjast og þetta megi þeir fá og ekki meira. Vonandi tekst, vegna þjóðarhagsmuna, að ná skynsamlegum kjarasamningum. En furðulegt má teljast, ef það er leiðin til farsællar lausnar, að ríkisstj. segi verkalýðsforingjunum fyrir verkum. Þetta er að vísu rökstutt með því, að núv. ríkisstj. sé launþegunum svo vinveitt. Þessi kenning er fjarstæða. Fyrrv. ríkisstj., ekki sízt Bjarni heitinn Benediktsson forsrh., lagði ríka áherzlu á sem nánast samstarf við launþegasamtökin, einkum í því skyni að bæta kjör hinna lægst launuðu. Og enn sem komið er hefur vinsemd núv. ríkisstj. ekki birzt í öðru en því að láta taka gildi einum mánuði fyrr en ella tvö vísitölustig, taka áfengi og tóbak og almannatryggingagjöld aftur inn í vísitölu, sem er næsta hæpin ráðstöfun, en skiptir litlu máli, og greiða til sjómanna og útgerðarmanna nokkur hundruð milljónir úr sjóði, sem þeir áttu sjálfir. Boðskapurinn um lengri frítíma, þegar alls staðar vantar fólk til framleiðslustarfa, er næsta hæpinn og raunverulega engin kjarahót, svo sem kunnur verkalýðsleiðtogi úr stjórnarliðinu hefur bent á, nema ætlunin sé, að menn vinni þennan frítíma. Sjálfstfl. mun í stjórnarandstöðu hafa sömu afstöðu til efnahags- og ríkisfjármála og í ríkisstjórn. Hann telur brýna nauðsyn bera til að stuðla að jafnvægi í efnahagskerfinu og væri í því sambandi fróðlegt að vita, hvort stjórnin ætti á hættu bindingu sparifjár í Seðlabankanum, sem núv. ráðherrar hafa fordæmt harðlega, en mundi nú valda slíkri óðaverðbólgu, að við ekkert yrði ráðið, eyða gjaldeyrisvarasjóðnum á skömmum tíma og leiða til nýs haftakerfis, sem ríkisstj. hefur kannske ekki svo mikið á móti en sem við sjálfstæðismenn fordæmum.

Í grg. fjárlagafrv. er að finna þessa setningu: „Eins og lýst er í málefnasamningi ríkisstj. mun hún kosta kapps um fjárveitingar til verklegrar og félagslegrar uppbyggingar í landinu, þó að slíkt framkvæmdafé takmarkist að sjálfsögðu alltaf af fjárhagslegri getu ríkissjóðs og útliti um efnahagsmál og atvinnumál þjóðarinnar.“ Ef hv. þáv. stjórnarandstæðingar hefðu mótað fjármálakenningar sínar og tillöguflutning á síðustu árum eftir þessari ákvörðun, hefði það orðið á annan veg. En betra er að vita seint en aldrei. Svo mikil þensla er nú í efnahagskerfinu, að hallalaus ríkisbúskapur er óumflýjanleg nauðsyn. Því vona ég fastlega, að hæstv. fjmrh., sem ég treysti að vilji vinna verk sitt vel, láti ekki við afgreiðslu fjárlaga nú samstarfsmenn sina hrekja sig svo af réttri leið, sem hann því miður gerir á þessu ári, að reka ríkisbúskapinn með halla í mesta góðærinu. Það lofar hins vegar ekki góðu, þegar hæstv. ráðh. nefnir í ræðu sinni hér í kvöld ótal útgjaldaliði, sem þurfi að hækka í fjárlagafrv., án þess að ræða eitt orð um fjáröflun á móti. Það verður þó í lengstu lög að vona, að ábyrgðartilfinningin verði lýðskruminu yfirsterkari hjá hæstv. ríkisstj. við endanlega afgreiðslu fjárlaganna. — Góða nótt.