21.10.1971
Sameinað þing: 5. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

1. mál, fjárlög 1972

Pálmason:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Ég tel víst, að hv. alþm. og kannske ekki síður almenningur í landinu telji það hyggilegt nýgræðingi á Alþ. að nota fyrstu vikur til þess eins að hlýða á mál hinna eldri og reyndari þm. og kynnast vinnubrögðum þessarar merku stofnunar. Þetta hafði ég líka hugsað mér, en margt fer öðruvísi en ætlað er. Þegar þess var óskað, að ég kæmi fram fyrir hönd SF í útvarpsumr. nú á fyrstu dögum þingsins, þá var vissulega úr vöndu að ráða hvað mig snerti. Mér var það ljóst, að mikil ábyrgð er lögð á herðar þm., sem er að stíga sín fyrstu spor hér í þinginu, að tefla honum fram sem málsvara síns flokks í útvarpsumr. um fjárlög ríkisins. En að vel athuguðu máli taldi ég þó rétt að verða við þessari heiðni. Í fyrsta lagi vegna þess, að ég vildi ekki bregðast því trausti, sem mér var með þessu sýnt, og í öðru lagi og kannske ekki síður vegna þess, að með þessari ákvörðun sýna SF hinni yngri kynslóð fyllsta traust, traust, sem ég er viss um, að mikill fjöldi þess unga fólks, sem kom til liðs við SF í síðustu kosningum, metur mikils. Hitt er svo ykkar, góðir tilheyrendur, í þessu sem öðru að dæma um, hvernig til tekst.

Frv. til fjárlaga fyrir árið 1972 hefur verið lagt fram og er nú til umr. Við skulum áður en lengra er haldið átta okkur rétt sem snöggvast á því, hvernig slíkt frv. um tekjur og gjöld alls ríkiskerfisins verður til. Stofnanir, fyrirtæki og sjóðir í ríkiskerfinu senda tillögur sínar til fjárlaga til viðkomandi tn., sem fer yfir tillögurnar og sendir þær síðar til fjárlaga- og hagsýslustofnunar, en hún framkvæmir athugun á tillögum allra rn. Að þeirri athugun lokinni fer hagsýslustjóri yfir tillögurnar með fjmrh. og formanni fjvn., en þeir gera síðan sínar tillögur til ríkisstj. Eftir að ríkisstj. hefur samþykkt endanlega gerð fjárlagafrv. eru allar breytingar, sem gerðar hafa verið á tillögum rn., kynntar ráðuneytisstjórum, en að því loknu er frv. prentað og lagt fyrir Alþ. sem frv. ríkisstj. Ljóst má vera, að sú margþætta undirbúningsvinna, sem hér hefur verið rakin, tekur langan tíma, enda mundi sízt hlýða, að svo þýðingarmikið mál, sem fjárlög ríkisins eru, fengju ekki vandaðan undirbúning. Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum 14. júlí í sumar, var undirbúningsverk að gerð fjárlagafrv. þess, sem hér er til umr., langt komið. Því var þess ekki kostur að gera neinar stórvægilegar breytingar, og frv. er því að verulegu leyti svipað fjárlagafrv. fyrri ára.

Um tekjuhlið frv. er það að segja, að hún er byggð á áætlun Efnahagsstofnunar um það, hvað hver tekjustofn samkv. gildandi lögum muni gefa af sér á næsta ári. Fyrirhuguð stefnubreyting ríkisstj. um skattheimtu kemur því á engan hátt fram í frv., þar sem þess er enginn kostur að byggja frv. til fjárlaga á væntanlegri lagasetningu, þó að fyrirhugað sé að leggja fram frv. í þá átt. Því má segja, og það er rétt, að menn geri sér grein fyrir því, að tekjuhlið frv. mundi væntanlega hafa orðið því sem næst eins án tillits til, hvaða flokkar ættu sæti í ríkisstj. Hins vegar er þess að vænta, að tekjuhlið frv. taki á sig verulega breytta mynd í meðförum þingsins jafnhliða því, sem ríkisstj. flytur frv. til l. um ýmsar breytingar á tekjuöflun ríkissjóðs í samræmi við málefnasamning stjórnarflokkanna, svo sem vikið verður að nánar hér á eftir. Í málefnasamningi stjórnarflokkanna segir svo um tekjuöflun ríkissjóðs:

Að endurskoðaðar verði tekjuöflunarleiðir hins opinbera með það fyrir augum, að skattbyrðinni verði dreift réttlátara en nú er gert. Slík endurskoðun skattakerfisins haldist í hendur við endurskoðun tryggingalöggjafar í því skyni, að öllum þjóðfélagsþegnum verði tryggðar lífvænlegar lágmarkstekjur. Tekjur, sem einungis hrökkva fyrir brýnustu lífsnauðsynjum, verði ekki skattlagðar. Skatteftirlit verði hert þannig, að réttlátari skattaframkvæmd verði tryggð betur en nú er. Stefnt verði að því, að persónuskattar eins og til almannatrygginga verði felldir niður, en teknanna aflað með öðrum hætti. Jafnframt verði gerð ítarleg athugun á rekstrarkostnaði ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja í þeim tilgangi að gera reksturinn einfaldari og draga úr kostnaði.

Hér er mörkuð skýr stefna í opinberum tekjuöflunarmálum. Mikilvægast er það markmið, að allir einstaklingar þjóðfélagsins búi við efnalegt sjálfstæði. Þeim, sem ekki geta unnið sér inn lágmarkstekjur, verði tryggður lágmarkslífeyrir og þær tekjur, sem aðeins hrökkva fyrir brýnustu lífsnauðsynjum, verði ekki skattlagðar. Með þessu er stefnt að því marki að jafna aðstöðu manna, en eitt meginmál í stefnu ríkisstj. er einmitt það að draga úr efnalegu misrétti. Það verður m.a. gert með því að beita skattalöggjöf og tryggingalöggjöf, eins og hér hefur verið lýst, en einnig með því að minnka launamun. Ríkisstj. hefur lýst yfir, að hún muni beita áhrifum sínum í þá átt. Unnið er nú að endurskoðun á opinberum tekjuöflunarleiðum og tryggingamálum af þremur nefndum, sem ríkisstj. skipaði, í samræmi við þá stefnu, sem hér hefur verið lýst. Fjallar ein nefndin um tekjuöflun ríkisins, önnur um tekjuöflun sveitarfélaga og sú þriðja um tryggingamál. Óhætt mun að fullyrða, að þetta sé í fyrsta sinn, sem slík heildarendurskoðun á sér stað á tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu. Hingað til hefur endurskoðun, sem framkvæmd hefur verið, verið takmörkuð við einn þessara þátta. En augljóst er, að endurskoða verður allt kerfið í einu, ef unnt á að vera að marka heildarstefnu í þessum málum. Því munu áðurnefndar þrjár nefndir starfa í nánum tengslum hver við aðra. Rétt er hins vegar að vara við of mikilli bjartsýni um, að slík endurskoðun geti gerzt á skömmum tíma. Hér er um slíkt stórmál að ræða að ætla verður töluverðan tíma til heildarendurskoðunar sem þessarar. Gert er þó ráð fyrir því, að verstu og augljósustu agnúarnir á kerfinu verði sniðnir af því fljótlega, og má því vænta frv. á þessu þingi um nokkra leiðréttingu á lögum um skatta og tryggingar, en hins vegar mun þess ekki að vænta, að heildarstefnumörkun geti legið fyrir, fyrr en á næsta þingi. Því má segja, að það verði ekki fyrr en með fjárlagafrv. fyrir árið 1973, sem stefna ríkisstj. í skattamálum kemur greinilega í ljós.

Hér verður nú rakið að nokkru, til hverra stefnubreytinga sú endurskoðun á skattalögum og tryggingamálum, sem rætt hefur verið um, geti leitt. Fyrsta grundvallaratriði í endurskoðun tryggingalaganna er, að greiðslur almannatrygginga til aldraðs fólks og öryrkja verði hækkaðar að því markí, að þær nægi til framfæris þeim bótaþegum, sem ekki styðjast við aðrar tekjur. Til þess að tryggja þetta þarf skilyrðislaust að greiða þeim lífeyrisþegum, setji ekki ná lágmarkstekjum, viðbótarlífeyri að því marki, sem á vantar til þess að þeir nái þessum lágmarkstekjum. Í þessu sambandi er rétt að minna á lífeyrissjóðina. d undanförnum árum hafa verið stofnaðir fjöldamargir lífeyrissjóðir um allt land, sem eiga að tryggja þeim, sem aðild eiga að sjóðunum, eftirlaun, eftir að þeir hafa látið af störfum, sem miðast þá við þær tekjur, sem þeir höfðu, er þeir hættu störfum. Það er hins vegar einkum eitt atriði, sem skiptir þessum sjóðum í tvo gerólíka hópa. Það er það, hvort eftirlaunin eru verðtryggð eða ekki. Sá mismunur, sem er á upphæð eftirlauna, sem eru verðtryggð, og þeirra, sem eru það ekki, er svo gífurlegur, að ljóst er, að það mál þarf sérstakrar athugunar víð. Ef reiknað er með 8% verðbólgu, sem er minna en verið hefur hér á langi síðasta áratug, fær maður, sem er í óverðtryggðum lífeyrissjóði, 15 árum eftir að hann byrjaði að fá greidd eftirlaun, minna en þriðjung eftirlauna á við annan mann, sem fær eftirlaun úr verðtryggðum sjóði. Þórir Bergsson tryggingafræðingur hefur gert sérstaka könnun á lífeyrissjóðum þeim, sem starfandi eru, og úttekt á þeim reglum, sem þeir starfa eftir. Lokaorð skýrslu hans um lífeyrissjóðina eru þessi:

„Í raun og veru er ekki um neitt kerfi að ræða. Aragrúi sjóða er starfandi og í þann veginn að taka til starfa. Þeir veita mismunandi réttindi og félagsleg uppbygging þeirra er mjög breytileg. Hér tel ég nauðsyn á samræmingu og einföldun. Í því sambandi vil ég benda á, að þó að gerðar séu breytingar á reglugerðum eldri sjóða og/eða þeir sameinaðir eldri sjóðum. þarf ekki að rýra réttindi sjóðsfélaga þeirra á neinn hátt. Ég tel einnig nauðsynlegt, að tekið sé tillit til laga um almannatryggingar og þau endurskoðuð. Aðalatriðið er, að gerð lífeyrissjóða og ákvæði laga um almannatryggingar séu þannig, að sjóðirnir og tryggingarnar gegni hlutverkum sínum svo vel sem framast er unnt. Það er hægt að bæta reglugerðir allra lífeyrissjóða og endurbæta lög um almannatryggingar.“

Þessi ummæli sérfræðingsins eru vissulega harðorð, en ég leyfi mér að efast um, að þar sé nokkuð ofsagt. Hér er vissulega þörf átaks. Ríkisstj. mun beita sér fyrir því átaki. Lausn þessa máls verður ekki fundin með neinni skyndivitrun. En meginmáli skiptir, að ríkisstj. hefur sett sér það mark að vinna að lausn vandamálsins, og að því mun verða unnið. Við endurskoðun tryggingalöggjafar munu menn fljótt rekast á önnur atriði, sem krefjast lagfæringar, svo sem að tryggja réttarstöðu ekkla, en þeir njóta nú alls ekki sömu réttinda og ekkjur. Varla er þó unnt að ímynda sér, að maður, sem missir konuna frá börnum þeirra, sé betur settur í lífinu en konan, sem missir mann sinn. Bæði eru auðvitað mjög illa sett í efnahagslegu tilliti og því full ástæða til þess, að þjóðfélagið létti þeim erfiðleikana.

Halda mætti lengi afram að telja upp dæmi þessum lík, sem sumum kunna að virðast léttvæg, en skipta þá aðila, sem hlut eiga að, miklu máli. En hér verður þó látið staðar numið í þessum málum. Eins og áður er drepið á, er nú unnið að endurskoðun skattalaga og allsherjar tekjuöflunarkerfis ríkis og sveitarfélaga. Skattalögum var nokkuð breytt á síðasta þingi, en þær breytingar, sem þá voru gerðar, miðuðust nær eingöngu við það að létta skattabyrði af atvinnurekstrinum. Við sköttum einstaklinga var hins vegar ekki hreyft.

Ein breyting snertir þó einstaklinga, skattfrelsi arðs af hlutafé. En samkv. þeirri breytingu var arður af hlutafé gerður skattfrjáls, allt að 60 þús. kr. á ári hjá hverjum hlutafjáreiganda. Þótti mörgum þessi lagasetning kynleg á sama tíma og persónufrádrætti til skatts var haldið í skefjum, þ.e. hann var ekki látinn hækka í samræmi við verðlagsþróun. Allir vita þó, að persónufrádráttur hefur tiltölulega mesta þýðingu fyrir þá, sem minnstar tekjur hafa, en hlutafjáreigendur eru almennt meðal hinna efnameiri í þjóðfélaginu. En þessi tilfærsla á skattabyrðinni af þeim, sem breiðust hafa bökin, yfir á þá, sem sízt mega sín, var alveg í samræmi við stefnu þáv. ríkisstj. Það er hins vegar yfirlýst stefna ríkisstj. nú að létta skattabyrðinni af þeim lægst launuðu. Þeirri stefnu verður m.a. framfylgt með því að skattleggja ekki brýnustu nauðþurftartekjur.

Skattakerfi og allt tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs þarf að vera þannig uppbyggt, að það geti verið virkt stjórntæki í höndum ríkisstj. Til þess að svo geti orðið, þarf kerfið að vera einfalt, en þó að búa yfir nægjanlegri fjölbreytni skatttegunda, þannig að unnt sé að ná mismunandi markmiðum. Það fer varla á milli mála, að íslenzkt skattkerfi er allsendis ófullnægjandi að þessu leyti. Það er nánast samansafn tilviljanakenndra skattlagninga, þar sem bætt hefur verið skattlagningu á skattlagningu ofan, án þess að þær séu í nokkru kerfi eða samhengi hver við aðra. Oftast hefur verið bætt við einhverri skattlagningu til þess að standa undir kostnaði við eitthvert verkefni eða framkvæmd. Slíka skattlagningu hefur oftast horið þannig að, að einhver hefur séð brýna þörf til þess að leysa eitthvert afmarkað verkefni og fundið einhvern tekjustofn til þess að standa straum af kostnaðinum og losna með því við þann erfiðleika að þurfa að berja fram fjárveitingu á fjárlögum til nýrra útgjalda. Slík tilviljanakennd stefna í skattlagningu er að sjálfsögðu algerlega óviðunandi. Ég tel athugandi, hvort ekki sé rétt að fækka hinum mörkuðu tekjustofnum. Samkv. því fjárlagafrv., sem hér er til umr., eru markaðir tekjustofnar, þ.e. tekjustofnar, sem ráðstafað er fyrir fram til ákveðinna þarfa, um fimmti hluti heildarútgjalda. Með því er fjárveitingavaldið bundið að því er varðar afgreiðslu fjárlaga að 1/5 hluta. Í flestum tilfellum er hinum mörkuðu tekjustofnum ætlað að renna til brýnna þarfa, en staðreynd er þó, að í sumum tilvikum er þörfin fyrir fjármagn e.t.v. ekki eins mikil og veitt er til verkefnisins með fyrir fram ákveðnum tekjustofni. Ég tel, að óæskilegt sé að binda hendur fjárveitingavaldsins svo mjög sem hér er gert. Þess í stað eigi að marka heildarstefnu í tekjuöflunarmálum ríkissjóðs, og síðan sé það Alþ. að meta fjárþörf hvers verkefnis og skiptingu teknanna á útgjaldaliði. Fjöldi þeirra skatta, sem ríkið heimtir nú af skattborgurum, er mikill. Sem dæmi um fjöldann má nefna, að tillögur hafa komið fram um að fella niður 30 tegundir gjalda. Upphæð þessara gjalda nemur um 500 millj. kr. á ári, og samanborið við heildartekjur fjárlagafrv. nú, sem eru um 14 milljarðar, nema tekjur af þessum 30 gjaldstofnum innan við 4% af heildartekjunum.

Ásamt því, að stefnt verði að réttlátari skiptingu skattbyrðarinnar, hlýtur eitt meginverkefni þeirrar nefndar, sem vinnur nú að endurskoðun tekjustofna ríkisins, að vera að fækka sköttum, sem leiðir eitt sér til nokkurrar einföldunar á kerfinu. Em drýgsta tekjuöflunarleið ríkisins undanfarin ár hefur verið söluskattur, sem skilar um fjórðungi ríkisteknanna. Þrátt fyrir vissa tilhneigingu til þess að draga úr vægi óbeinna skatta, hlýtur söluskattur eða annar svipaður tekjustofn að verða notaður töluvert enn um sinn. Söluskattur í því formi, sem hér er, hefur þó vissa ókosti. Nokkuð hefur verið rætt um að taka hér upp virðisaukaskatt í stað söluskatts, og virðist það vera skynsamlegt. Virðisaukaskattur byggist á því, að skatturinn er lagður á á öllum framleiðslu- og sölustigum, þar sem söluskattur er einungis lagður á á síðasta stigi, við lokasölu vörunnar. Virðisaukaskattur er þannig lagður á framleiðsluverð vörunnar hjá framleiðanda, á kostnaðaraukann, sem bætist við hjá heildsalanum, og að lokum á kostnaðaraukann hjá smásalanum. Helzti kostur við virðisaukaskatt umfram söluskatt er sá, að eftirlit með innheimtu hans er mun auðveldara en söluskatts. Einnig má segja, að virðisaukaskattur sé hæfari en söluskattur til þess að skila þeim tekjum, sem til er ætlazt, auk þess sem auðveldara er að sjá, hverja hann hittir. Flest rök virðast því mæla með því, að athugað sé nánar, hvort ekki sé rétt að taka upp virðisaukaskatt í stað söluskatts.

Nú standa yfir kjarasamningar milli Alþýðusambands Íslands og félaga þess og vinnuveitendasamtaka. Þessir kjarasamningar munu, eins og allir samningar um kaup og kjör, hafa áhrif á fjárlög og afkomu ríkissjóðs. Ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún telji sig vera ríkisstj. hinna vinnandi stétta og muni fyrst og fremst gæta hagsmuna þeirra. Í málefnasamningi stjórnarflokkanna er þýðingarmikil stefnumörkun á sviði kjaramála, þar sem því er lýst yfir, að stjórnin telji, að með nánu samstarfi launafólks og ríkisstj. sé mögulegt að auka í áföngum kaupmátt launa verkafólks, bænda og annars laglaunafólks um 20% á næstu tveimur árum, og mun stjórnin beita sér fyrir, að því marki verði náð. Hér er um að ræða grundvallarstefnuatriði stjórnarsáttmálans. Mikil aukning þjóðartekna og síbatnandi viðskiptakjör á síðustu árum hafa gert mögulegt, og þótt fyrr hefði verið, að hæta kjör láglaunafólks. Og stjórnin telur, að unnt sé að ná 20% kaupmáttaraukningu á tveimur árum með nánu samstarfi ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins. Því ber að fagna, að verkalýðshreyfingin hefur náð samstöðu í þeim samningum, sem nú standa yfir um það, að laun þeirra lægst launuðu beri að hækka meira en laun annarra. Hlutverk launþegasamtakanna hlýtur að vera það að tryggja meðlimum sínum raunhæfar kjarabætur. Því skal á það bent, að allsherjar launahækkanir geta leitt til verðbólguþróunar, ef þeim er ekki haldið innan hæfilegra takmarka. Hjá því verður aldrei komizt, að launahækkanir koma að einhverju leyti fram í verðlagi, en það er takmark ríkisstj., að raunverulegar kjarabætur láglaunafólks verði 20% á næstu tveimur árum, ekki aðeins hækkun tímakaups í krónutölu.

Verkalýðshreyfingin hefur á undanförnum árum sannað, að hún er nægilega sterk og samhent til þess að geta knúið fram umtalsverðar og oft miklar launahækkanir, og svo mun enn reynast í þeim samningum, sem nú eru hafnir. Á hitt hefur fremur skort, að löggjafarvald og ríkisstj. hafi talið það sitt hlutverk að verja eða vernda þá sigra, sem alþýðusamtökin hafa unnið, og því hefur oft eða jafnvel oftast svo farið, að launahækkanirnar hafa runnið út í sand verðhækkana og verðbólgu eða gengisfellinga og launafólk staðið litlu betur að vígi eftir en áður.

Nú er það hins vegar von allrar alþýðu manna, að í þessum efnum sé hrotið blað í kjarabaráttunni að því leyti, að stjórnvöld telji það sitt meginverkefni að hafa þá stjórn á efnahagskerfinu, sem til þarf til þess að hver kjarabót, hver launahækkun, sem um er samið af aðilum vinnumarkaðarins, verði haldgóð og varanleg. Þetta hyggjast stjórnarflokkarnir og ríkisstj. gera með því að hefja áætlunarbúskap, ná heildarstjórn á fjárfestingamálum og öðrum mikilvægustu þáttum efnahagslífsins með því að beita virkum verðlagstakmörkunum og verðlagseftirliti og siðast en ekki sízt með því að hafa forustu um skipulagða atvinnuuppbyggingu og þá aukningu þjóðarframleiðslunnar, sem ein er fær um að tryggja þann nauðsynlega grundvöll, sem hætt lífskjör alls almennings og þjóðarinnar í heild hljóta að byggjast á. Þetta eru að mínu viti þau meginumskipti, sem nú hafa orðið, að því er snertir hagsmuni launastéttanna, og hlýtur það að vera einlæg ósk allra, að takast megi að ná þeim markmiðum, sem hér er að stefnt. Fari hér allt að vonum, ætti fyllilega að vera mögulegt að bæta launakjör um allt að 10% á ári næstu árin eða tvöfalda rauntekjur á um það bil 7 árum. en í dag höfum við þá staðreynd fyrir augum, að rauntekjur hafa sem næst staðið í stað allan s.l. áratug, sem viðreisnin réði í landi, a.m.k. hvað snerti laun hinna lægra launuðu stétta, svo sem verkafólks og hænda. Sé þetta haft í huga, verða þau straumhvörf, sem orðið hafa í íslenzkum stjórnmálum, augljós hverjum manni.

Meginundirstaðan undir tekjuöflun ríkissjóðs er traust atvinnulíf. Leggja ber höfuðáherzlu á áætlunargerð um uppbyggingu atvinnuveganna. Í því efni ber að leggja sérstaka áherzlu á atvinnuuppbyggingu í hinum dreifðu byggðum landsins. Fólksflóttinn frá ýmsum landshlutum er nú svo geigvænlegur, að þar duga engin vettlingatök, ef ekki á að verða landauðn víða, þar sem hingað til hefur verið öflug sjósókn og landbunaður, sem skapað hefur drjúgan hluta þjóðarteknanna. Taka verður upp öfluga byggðastefnu, sem miðist að því að skapa traust og öruggt atvinnulíf ásamt félagslegu öryggi, sem er ein meginforsenda þess að stöðva fólksflóttann. Sjálfsagt er, að vandamál heilla landshluta, svo sem Vestfjarða, Norðurlands og Austfjarða, séu tekin fyrir út frá heildarsjónarmiðum og vinni sveitarfélög innan svæðanna, samtök þeirra og ríkisstj. ásamt hagsmunasamtökum sameiginlega að lausn vandamálanna. Jafnhliða því, sem atvinnulíf landshlutanna er treyst, þarf að mynda þjónustumiðstöðvar úti um landið. Í heilbrigðismálum, viðskiptum, samgöngum, skólamálum og ferðamálum, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Eitt megininntak þeirrar byggðastefnu er að hafa áhrif á staðarval fyrirtækja og stofnana í helztu byggðakjörnum landsins. Með því móti fær landsbyggðin sinn skerf af starfskröftum þeirra manna, sem þjóðin hefur menntað og sérhæft til að starfa í atvinnu- og menningarlífi. Þetta verður enn þýðingarmeira, þar sem úrvinnslu- og þjónustugreinar munu laða til sin stærstan hlut af aukningu á vinnumarkaði. Sem dæmi um áhrif, sem ríkisvaldið getur haft á þessa þróun, má nefna dreifingu stofnana ríkisins út um landsbyggðina, en því máli hefur oft verið hreyft á þingi. Í því máli mun ég sérstaklega beita mér. Ég tel fráleitt, að allar stofnanir séu staðsettar í Reykjavík og þar sitji menn með litla þekkingu á vandamálum landsbyggðarinnar. Hins vegar tel ég, að með staðsetningu þessara stofnana úti á landsbyggðinni megi komast hjá ýmsum erfiðleikum, sem eru samfara því, að menn eru að reyna að leysa vandamál, sem þeir þekkja ekki nægilega. En ég endurtek, að þessi mál verða ekki leyst nema með sameiginlegu átaki allra þeirra, sem hlut eiga að máli. Vandamálin eru hins vegar slík, að þar þarf að taka rösklega til hendinni. Áhugi núv. ríkisstj. á lausn þessara mála sést greinilega á fjárlagafrv., sem hér er til umr., þar sem flestar hækkanir á gjaldaliðum frv. frá frv. þessa árs eru tengdar uppbyggingu félagsmála landsbyggðarinnar. Sem dæmi má nefna hækkuð framlög til byggingar sjúkrahúsa um 48.8 millj., hækkun til skólamannvirkja um 44.9 millj„ hækkun til togaralána um 29.1 millj., hækkun til framleiðnisjóðs landbúnaðarins um 22 millj., hækkun til sveitarafvæðingar um 18 millj. og hækkun til framkvæmda í flugmálum um 19 millj. kr. Hér er að vísu ekki um neitt stórvægilegt átak að ræða, en þó spor í rétta átt, og ég fullyrði, að áfram mun verða haldið á sömu braut að treysta stöðu allra landshluta og stöðva fólksflóttann.

Við í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna teljum, að farsæl lausn þeirra þjóðfélagsvandamála, sem hér hefur verið drepið á, og annarra sé hins vegar að verulegu leyti undir því komin, að Samtökunum verði eitthvað ágengt í því meginmarkmiði sínu að sameina alla jafnaðar- og samvinnumenn í einum stjórnmálaflokki. Myndun núv. ríkisstj. var skref í átt til sameiningar, en aðeins stutt skref. Þar þarf að vinna ötullega að því lokatakmarki, að skipulagsleg sameining takist. Aðeins með því er unnt að tryggja varanleg áhrif vinstri stefnu á landsmálin. Aðeins öflugur flokkur allra þeirra, sem aðhyllast stefnu jafnaðar og samvinnu, getur tryggt vinstri stefnu varanlegan framgang og keppt við hægri öflin um völdin í þjóðfélaginu. Æ fleiri gera sér nú ljósa þessa meginstaðreynd stjórnmálanna, og því mun áfram verða knúið á um sameiningu. Við í SF munum áfram sem hingað til beita okkur af alhug fyrir því, að þessu takmarki verði náð. Úrslit alþingiskosninganna s.l. vor sýndu, að almenningur í landinu vill, að upp verði tekin raunveruleg vinstri stefna í stjórn ríkisins. Þau sýndu enn fremur og ekki síður, að það er krafa fólksins til forustumanna flokkanna að vinna af heilum hug að sameiningarmálinu.

Að lokum vil ég þakka kjósendum það mikla traust, sem þeir sýndu frambjóðendum SF, og þá alveg sérstaklega Vestfirðingum. Sá sigur, sem þar var unninn, var einstakur. Um leið og ég þakka traustið, persónulega og fyrir hönd SF, lýsi ég því yfir, að ég mun reyna eftir mætti að bregðast ekki því trausti, sem mér hefur verið sýnt.

Ýmis mikilvæg mál bíða úrlausnar þessa þings og á þeim mun verða tekið af festu. Ég veit, að Vestfirðingar líta ekki síður en aðrir landsmenn á sameiningarmálið sem höfuðmál íslenzkra stjórnmála í dag, og því máli mun ég leggja allt það lið, sem ég get.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. — Góða nótt.