28.04.1972
Sameinað þing: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í D-deild Alþingistíðinda. (4522)

221. mál, aðstoð við nýlenduþjóðir Portúgals

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur nú um nokkurt árabil samþykkt ályktanir, þar sem aðildarríkin eru hvött til að veita undirokuðum þjóðum og frelsishreyfingum þeirra siðferðilega og efnahagslega aðstoð. Á síðasta allsherjarþingi hinn 20. des. s.l. var með yfirgnæfandi meiri hl. afgreidd till. varðandi nýlendusvæði Portúgals í Afríku. Ísland greiddi henni atkv. Í ályktuninni er staðfestur stuðningur þingsins við sjálfsákvörðunarrétt íbúa þessara svæða og viðurkennt lögmæti baráttu þeirra til að ná þessum rétti. Þingið fordæmdi Portúgal fyrir að fara ekki eftir fyrri ályktun Sameinuðu þjóðanna um þessi mál og fyrir að halda uppi nýlendustríði gegn íbúum Angóla, Mósambik og Guineu. Í ályktuninni eru öll ríki innan Sameinuðu þjóðanna hvött til að veita íbúum portúgölsku nýlendanna siðferðilega og efnahagslega aðstoð í samráði við Einingarstofnun Afríkuríkja í þeim tilgangi að aðstoða þau við að ná rétti sínum til sjálfsákvörðunar og sjálfstæðis. Danir, Norðmenn og Svíar hafa tekið upp aðstoð við þjóðfrelsishreyfingarnar í portúgölsku nýlendunum í Afríku. En fram til þessa er ekki um að ræða neina skipulega samræmingu á aðstoð þeirra. Við það er miðað, að aðstoð sé grundvölluð á samþykktum allsherjarþingsins og eingöngu um að ræða aðstoð í formi matvæla, lyfja, fatnaðar, kennslubóka, kennsluáhalda og þess háttar, en ekki vopn.

Svíar hófu slíka aðstoð fyrstir og ég hef einna mestar upplýsingar um aðstoð þeirra. Á sænskum fjárlögum 1971 nemur aðstoð Svía við þjóðfrelsishreyfingarnar 15 millj. sænskra kr. Þar af munu um 7—10 millj. hafa runnið til þjóðfrelsishreyfinga í nýlendum Portúgals. Auk aðstoðar í matvælum og þess háttar hefur ungt fólk frá nýlendunum verið styrkt til náms í Svíþjóð, en reynslan er sú hjá Svíum, að árangur af slíkum námsstyrkjum sé mjög takmarkaður miðað við kostnaðinn.

Áður en Svíar hafa ákveðið stuðning við tilteknar þjóðfrelsishreyfingar, hafa þeir reynt að gera sér grein fyrir þörf aðstoðar annars vegar og hins vegar fyrir því, hve vel hreyfingin er skipulögð, þannig að vænta megi, að aðstoðin komi að gagni. Þau samtök, sem Svíar hafa stutt, eru MPLA í Angóla, Frelimo í Mósambik og PAIGC í Guineu. Hins vegar munu þeir lítið hafa stutt FLNA, sem aðsetur hefur í Zaire og talið er hafa sig lítið í frammi í sjálfri Angóla. Norðmenn beina aðstoð sinni ýmist um hendur Sameinuðu þjóðanna og Einingarsamtaka Afríkuríkja eða beint til þjóðfrelsishreyfinganna. Aðstoð Norðmanna mun t.d. hafa farið til Mósambík—stofnunarinnar í Tanzaníu, sem er í senn skóli, aðallega í félagsfræðum og einhvers konar aðlögunarstöð fyrir flóttamenn frá Mósambík. Þetta segi ég nú bara til upplýsinga um það, sem ég veit nýjast frá Norðurlöndunum í þessu efni.

Það er rétt, sem hv. 1. flm. sagði, að ríkisstj. lagði í málefnasamningi sínum áherzlu á frelsi og sjálfsákvörðunarrétt allra þjóða og fordæmdi því hvarvetna valdbeitingu. Hún telur, að Íslandi beri að styðja fátækar þjóðir til sjálfsbjargar og jafnréttis við efnaðar þjóðir. Í fjárlögum fyrir árið 1972 hafa verið hækkaðir talsvert fjárlagaliðir til alþjóðahjálparstarfsemi og til þróunarlandanna, eins og þessi upprifjun sýnir, þó að auðvitað sé hvergi nærri nægilega að gert. Það skal ég fyrstur manna játa.

Framlag til tækniaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, UNTAP, hefur hækkað úr 2.8 millj. kr. í 4 millj. á þessu ári. Til alþjóðabarnahjálparsjóðsins, UNICEF, hefur framlagið hækkað úr 1 millj. 33 þús. í 1.2 millj. Til flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna hefur framlagið hækkað úr 506 þús. í 556. Til flóttamannaaðstoðar við Palestínuflóttamenn hefur framlagið hækkað úr 880 þús. í 924. Til flóttamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna er óbreytt fjárveiting, 800 þús. Tillag til International Development Agency, sem er svipuð stofnun og hér er um að tefla, hefur hækkað úr l0 millj. 1971 upp í 16.4 millj. 1972 og nýr liður er á fjárlögum þessa árs, tillag til þróunarlandanna, 3 millj. kr.

Ísland hefur til þessa ekki veitt aðstoð til þjóðfrelsishreyfinga og fjárveiting til slíkrar aðstoðar er ekki í fjárlögum þessa árs. Það hefur verið talið heppilegra og hagkvæmara að veita fjárframlög til viðurkenndrar hjálparstarfsemi á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Fulltrúi MPLA á Norðurlöndum, Agostinho Neto, heimsótti Ísland 1.–10. marz s.l., eins og hér var á minnzt. Hann átti viðtal við mig og forsrh. og fór fram á siðferðilega, pólitíska og efnahagslega aðstoð Íslands við þjóðfrelsishreyfinguna. Ég tjáði honum, að ríkisstj. hefði samúð með málstað hinna undirokuðu þjóða í Afríku og mundi ég kanna, á hvaða hátt væri hægt að veita virkari aðstoð frá Íslandi til framdráttar málstað þessara þjóða. Við það mun ég reyna að standa, en til þess þarf kannske fyrst og fremst fjármagn.

Ég vil geta þess til skýringar á hækkun tillags til International Development Agency, að þar er um þriggja ára fjárframlag að tefla. Það var áætlað í fyrra 10 millj. kr., af því að endanlegar upplýsingar lágu ekki fyrir um það, hver talan ætti eða þyrfti að vera. Nú liggur það fyrir, að þriggja ára framlag þarf að vera 36 millj. 600 þús. kr. frá Íslandi og til þess að jafna metin, tók fjvn. og Alþ. ákvörðun um það að rétta af framlag s.l. árs og gera framlagið 1972 eins og það á að vera, þannig að hækkunin, 6.4 millj., er til þess að koma framlögum beggja þessara ára í það horf, sem þau eiga að vera.

Þá kemur það í ljós af þessu stutta yfirliti, sem ég hér gaf, að sú stofnun eða nefnd, sem Alþ. stofnsetti í fyrra og hefur það að verkefni að sjá um aðstoð til þróunarlandanna á Íslandi, hefur nú í fyrsta skipti fengið fjárveitingu, að vísu litla, aðeins 3 millj. kr. Hún sótti um 20 millj. kr., en það var skorið niður í 3 millj. við afgreiðslu fjárlaga hér á hv. Alþingi.

Í mörg horn er að líta varðandi aðstoð til bágstaddra og til hjálparstarfsemi vegna náttúruhamfara og af völdum stríðs. Skemmst er að minnast hörmunganna í Bangla Desh, sem enn er langt frá því að vera lokið. Ríkisstj. hefur lagt nokkra fjármuni af mörkum til aðstoðar þar, bæði núv. ríkisstj. og sú fyrrv. Auk þess hafa Rauði krossinn og Hjálparstofnun kirkjunnar safnað verulegum upphæðum í því skyni. Hjálparbeiðnum frá flóttafólki í Súdan hefur að nokkru verið sinnt. Hjálparbeiðnum frá Biafra var sinnt á sínum tíma og þannig gæti ég nefnt miklu fleiri tilvik um það, að hjálparbeiðnir berast hingað. Þær eru stöðugt að berast frá Flóttamannasjóðnum, frá Mannfjölgunarstofnuninni og fjölda annarra stofnana. Við höfum reynt að píra þessum takmörkuðu fjárveitingum í allar áttir nánast til þess að vera með, þó að öllum sé ljóst og engum ljósara en okkur, að um það munar því miður svo til ekki neitt. En það, sem þarf auðvitað fyrst og fremst til þess að sinna þessum hjálparbeiðnum og veita þessa aðstoð, er fjármagn og það vantar okkur. Ég hef ekki talið mér heimilt að fara langt út fyrir fjárlagaheimildir í því að styðja þær stofnanir og þær hreyfingar, sem þó vissulega ættu það skilið og væru þess verðar að okkar dómi. Ef hins vegar alþm. allra flokka hafa sérstakan áhuga fyrir því, sem ég ekki dreg í efa og till. lýsir raunar, að auka þessa aðstoð, þá skal ég taka fegins hendi á móti henni og afgreiða gegnum utanrrn. alla þá fjármuni, sem Alþ. telur, að Ísland geti við sig losað í þessu skyni.

Ég skal svo aðeins minnast á þær spurningar, sem hv. 9. landsk. þm. lagði fyrir mig út af afgreiðslu fordæmingar tillögu á aðgerðum Portúgals á fundum Sameinuðu þjóðanna og þá segja það, að ég varð ákaflega hissa, þegar ég sá það, er ég kom heim erlendis frá, að Agostinho Neto, fastafulltrúi þjóðfrelsishreyfingar Angóla í Stokkhólmi, hefði á blaðamannafundi haldið því fram, að fulltrúar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum hefðu ekki stutt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna till. um stuðning við sjálfstæðisbaráttu Angóla af ótta um saltfisksölu Íslendinga til Portúgals. Þessi ummæli fulltrúans, fastafulltrúa þjóðfrelsishreyfingar Angóla, herra Neto, voru þegar í stað leiðrétt af ríkisstj. og gefin út fréttatilkynning þann 6. marz, þar sem segir:

„Ummæli þessi eru á misskilningi byggð og voru þau m.a. leiðrétt, þegar Agostinho Alberto Neto átti í morgun viðræður við Ólaf Jóhannesson forsrh.

Það rétta í málinu er, að samkv. fyrirmælum ríkisstj. greiddi sendinefnd Íslands atkv. með till. um stuðning við sjálfstæðisbaráttu Angóla og nýlenda Portúgals, þegar skýrsla IV. nefndarinnar og till. var til endanlegrar afgreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Greiddu samtals 105 ríki atkv. með till., þ.á.m. Ísland og Norðurlöndin, átta voru á móti, en fimm fjarverandi. Þess skal enn fremur getið, að atkv. Íslands og Norðurlandanna hafa fallið þannig við atkvgr. um nýlendumál Portúgala á vettvangi Sameinuðu þjóðanna síðustu fimm árin: 1967, Ísland og Norðurlönd sátu öll hjá. 1968, Ísland og Norðurlönd greiddu atkv. með till. 1969, Ísland og Norðurlönd greiddu atkv. með till. 1970, Ísland og Norðurlönd sátu hjá við atkvgr. 1971, Ísland og Norðurlönd greiddu atkv. með till. Á þessu getur hv. 9. landsk. þm. séð það, að ríkisstjórn Íslands hefur breytt afstöðu sinni til fordæmingartillögu Portúgals frá því að fyrrv. ríkisstj. greiddi atkv. á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1970, því að þá sat Ísland hjá. Nú greiddi Ísland atkv. með.

Ég læt öllum áheyrendum eftir að geta sér til um það hugarfar, sem hafi staðið að baki hjásetunni á s.l. ári. Ég ætla ekki að vera með neinar getsakir uppi um það, en staðreyndin talar sínu máli.

Þá vil ég upplýsa út af málsmeðferðinni, að það er út af fyrir sig rétt, sem hv. 9. landsk. þm. sagði, að meðan till. var til meðferðar hjá IV. nefnd, þá höfðu stjórnendur Sambands ísl. fiskframleiðenda miklar áhyggjur af afstöðu okkar til till. á þingi Sameinuðu þjóðanna um fordæmingu á stefnu Portúgals, af markaðsástæðum, enda er saltfiskmarkaðurinn þýðingarmikill. Og stjórn Portúgals sendi okkur ýmsar orðsendingar um það, hvort við vildum ekki hugleiða okkar afstöðu. Ríkisstj. tók enga ákvörðun um atkvgr. í IV. nefnd. Hins vegar lét utanrrn. fulltrúana vita það, að bæði utanrrh. Portúgals og stjórn Sölusambands ísl. fiskframleiðenda hefðu komið í utanrrn. og lýst áhyggjum sínum út af fyrrgreindum málum. Um þessar áhyggjur lét ég fastanefndina vita, og með því að afgreiðslan í IV. nefnd var engan veginn endanleg afgreiðsla málsins, þá varð það að ráði, — og ég skal gjarnan bera ábyrgð á því og þarf ekki meðábyrgð eða uppáskrift annarra ráðh. um það, — að ég taldi, að það væri ekkert óeðlilegt, að málið væri athugað og það gæfist þá alltaf tími til þess að sýna hug sinn til till., þegar hún kæmi til allsherjarþingsins. Ríkisstj. tók hins vegar öll afstöðu með því að samþykkja till. í allsherjarþinginu og ég hef ekki fyrr orðið þess var, að vinnubrögð í nefndum væru talin ráða úrslitum um það, hver afstaða manna eða þjóða væri til till, heldur sú atkvgr., sem endanlega fer fram um till. Sú atkvgr. fór fram 10. des., minnir mig, og hún var eindregin á þá lund, að Íslendingar ásamt 105 öðrum þjóðum fordæmdu nýlendustefnu Portúgala og breyttu afstöðu sinni frá árinu áður.

Um þessa till. skal ég svo að öðru leyti ekkert nema svo sem allt gott segja. Það er sjálfsagt, að alþm. staðfesti þá skoðun íslenzku ríkisstj. og íslenzku þjóðarinnar, að fordæma beri nýlendustefnu Portúgala. Og ég endurtek það, að ef Alþ. vill bæta við þær fjárveitingar, sem það vill láta af hendi rakna til aðstoðar við vanþróaðar þjóðir eða til aðstoðar við frelsisbaráttu þjóðfrelsishreyfinga, þá skal ég með mikilli ánægju greiða því atkv. og koma því til skila í gegnum utanrrn. og sendiráðin.