11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í D-deild Alþingistíðinda. (4547)

230. mál, flutningur fólks til þéttbýlis við Faxaflóa

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Á mörgum undanförnum þingum hefur mjög verið talað um jafnvægi í byggð landsins hér í sölum Alþingis. Þm. eru allir sammála um það, að eðlilegt og nauðsynlegt sé að gera einhverjar ráðstafanir til þess að reyna að stöðva fólksflutninga utan úr dreifbýlinu og hingað til þéttbýlisins, eins og þeir hafa átt sér stað á undanförnum árum. Allmargar till. hafa verið fluttar í þessu sambandi, en árangur hefur lítill orðið og Alþ. aldrei tekið þetta mál neinum föstum tökum. Hvort vísindaleg athugun á þessu máli ræður þar nokkrum úrslitum, dreg ég mjög í efa, því að ég hygg, að flestum þm. séu nokkuð kunnar þær ástæður, sem liggja til þess, að þannig hefur farið, að meiri fólksflutningar hafa átt sér stað hingað til þéttbýlisins, en almennt er talið æskilegt. Það, sem ég hygg, að flestir þm. séu sammála um, að sé í höfuðdráttum ástæða fyrir þessu, það er nokkuð margþætt kannske. En eitt atriðið eru samgöngumálin, því að með þeim hraða, sem í dag er orðinn á öllum hlutum, liggur það ljóst fyrir. að fólk vill ekki búa úti í dreifbýlinu, ef það á ekki þess kost að geta flutt sig til eða ferðazt eins og það telur eðlilegast og telur henta nútíma aðstæðum. Það er mjög hætt við því, að það flytji sig þá til þeirra staða, sem það vill kannske hafa nánara samband við, en það getur haft, ef það á ekki kost á greiðum samgöngum. Þetta mun vera ein af ástæðunum fyrir því, að fólk flytur utan af landsbyggðinni. Það telur samgöngumálin víða ekki vera í því ástandi, sem það telur sér henta.

Þá er það vitað, að mjög er algengt, þar sem svo hefur þróazt, að menntastofnanir almennt eru staðsettar hér í höfuðstaðnum og þéttbýlinu, að það hefur beinlínis dregið fólk hingað til höfuðstaðarins og faxaflóabyggðarinnar, þegar það þarf að koma börnum sínum til framhaldsskólamenntunar. Það ber að harma, að mjög hefur borið á því nú í vetur, að ekki virðist vera eins mikill áhugi hjá ráðamönnum þjóðarinnar fyrir því að breyta þarna um stefnu og maður gat þó ætlað að verið hefði áður. Hér hafa komið bæði till. og ábendingar um, að ýmsar menntastofnanir yrðu staðsettar utan þéttbýlissvæðanna og ýmsar opinherar stofnanir, ef því yrði við komið, en mér finnst þetta hafa fengið ákaflega daufar undirtektir. Ég tel, að það geti ráðið nokkrum úrslitum. hvaða stefna verður mörkuð í þessu sambandi, um það, hvort áframhaldandi fólksflutningar verða í jafnríkum mæli frá strjálbýlinu og hingað til þéttbýlisins.

Félagsleg aðstaða hefur auðvitað sín áhrif. Ef fólki finnst, að félagsleg aðstaða sé betri í þéttbýlinu, en úti í strjálbýlinu, þá hefur það auðvitað áhrif í þá átt, að fólk flyzt frá sínum heimabyggðum og þangað sem það telur, að félagsleg aðstaða sé betri. Einnig er það eitt atriði, sem er mjög eðlilegt, að fólk vegi og meti, þegar það er með hugmyndir um að flytjast búferlum, en það er það, að vitað er, að það er mun dýrara að lifa úti í strjálbýlinu, en hér í þéttbýlinu við Faxaflóann. Flutningur á öllum nauðsynjavörum, byggingarefni og því, sem fólk almennt þarfnast daglega og þarfnast til að geta reist heimili og búið úti í strjálbýlinu, mæðir eingöngu á þeim, sem þar eiga hlut að máli. Aðilar í strjálbýlinu verða bæði að kaupa dýrari nauðsynjavöru og byggingarefni og margt fleira. Nú er verið að samræma vinnulaun um land allt. Það hefur að vísu verið um nokkurn tíma þannig, að vinnulaun hafa verið samræmd, en nú er verið að stefna að því í ríkara mæli, en áður að gera heildarsamninga fyrir landið allt. Menn hafa sömu laun og sömu kjör um land allt, jafnhá í dreifbýlinu og hér í þéttbýlinu og þá auðvitað segir það sig sjálft, að ef fólk getur lifað ódýrara, fær nauðsynjar sínar á lægra verði á einum stað, en öðrum og kannske ódýrari byggingarefni, þá hvetur það fólk til búflutninga til þeirra staða, þar sem það hyggur, að ódýrara sé að framfleyta sér og fjölskyldu sinni.

Þá er það eitt atriði, sem áður hefur borið hér á góma, sem ég tel, að stangist mjög á við þær hugmyndir og þann yfirlýsta vilja, sem er almennt hjá þm. um það að reyna að stöðva flutningana frá strjálbýlinu og hingað til þéttbýlisins. En það er í sambandi við hinar geysilega miklu húsnæðisbyggingar, sem eiga sér stað aðallega hér í höfuðborginni, þar sem ríkið er beinn aðili að, eins og t.d. Breiðholtsbyggingarnar. Það er vitað, að smærri sveitarfélög og jafnvel kaupstaðir hafa miklu veikari fjárhagsaðstöðu og þeir hafa ekki getað notfært sér þetta kerfi, eins og hefur verið gert hér í höfuðborginni. Ég vil minna þar á Breiðholtsbyggingarnar, sem ríkið hefur á undanförnum árum staðið fyrir að reisa og að mínum dómi hafa verið mjög ríkur þáttur í því að draga fólk utan af landsbyggðinni hingað til þéttbýlisins. Ég held, að allt þetta sé samverkandi og það liggi nokkuð ljóst fyrir í höfuðdráttum, hvað það er, sem skilur þarna á milli og hvað það er, sem hvetur fólk beinlínis til þess að taka sig upp úr dreifbýlinu og flytja hingað til þéttbýlisins. Ég tel það illa farið, þegar vitað er um hinn almenna vilja alþm. til að reyna að gera þarna breytingu á og reyna að stöðva það, sem við köllum flóttann úr strjálbýlinu, að þá skuli Alþ. samtímis á undanförnum árum hafa stuðlað mjög að því í gegnum húsnæðismálakerfið að skapa hér forgangsaðstöðu, má segja, það er alveg rétt að orði komizt, það hefur skapazt hér forgangsaðstaða um að komast yfir húsnæði, sem ríkið hefur lagt mikla og beina fjármuni í. Þetta verkar beint á móti því, sem við allir erum sammála um, að sé rétt, að reynt sé að spyrna þarna við fæti eða reynt sé að draga úr þeim fólksflutningum, sem átt hafa sér stað úr strjálbýlinu hingað til þéttbýlisins á undanförnum árum. Þetta er mjög stórt mál og ég tel það eitt af stærri málum Alþingis, að við þessu verði fundin ráð og gerðar ráðstafanir til þess að hefta fólksflóttann úr dreifbýlinu hingað til þéttbýlisins við Faxaflóa. Ég vil mjög vel unna Reykjavíkurborg og kaupstöðunum hér í kring og því fólki, sem hér vill búa, þess að það búi hérna, en þjóðhagslega séð er full nauðsyn á því, að búseta dragist ekki meira saman en orðið er úti á landsbyggðinni. Þaðan kemur framleiðslan í mjög stórum stíl. Þær útflutningsafurðir, sem þjóðarbúið byggir afkomu sína mjög á, koma einmitt í mjög stórum stíl utan úr strjálbýlinu. Þar er sjávarfangs aflað og þar er í stórum stíl gjaldeyrisöflunin á fyrsta stigi, þannig að ég tel, að Alþ. þurfi mjög að leggja sig fram um það að marka þarna aðra stefnu í raun, en nú á sér stað. Ég held, að þm. allir geri sér þetta ljóst og við erum allir sammála um, að þetta þurfi að gerast, en einhvern veginn hefur það farið svo, að þarna hafa verið mótverkandi aðgerðir frá hendi hins opinbera, sem hafa orðið þess valdandi, að aðgerðir hafa engar orðið í þessa átt, heldur aðeins umtal um það, að ráðstafanir væru nauðsynlegar í þessu sambandi.