11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í D-deild Alþingistíðinda. (4553)

232. mál, vegagerð yfir Sprengisand

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Þau eru ekki orðin fá málin á þessu hv. Alþ., sem fjalla um vegamál. Það er nú víst ekkert nýtt í þingsögunni, því að ég hygg, að ef blaðað væri í þskj. liðinna ára, þá kæmi það í ljós, að um fá einstök málefni hefðu verið flutt fleiri þingmál þing eftir þing, en um samgöngumál og alveg sérstaklega vegamál. Þetta er náttúrlega ekkert einkennilegt, þegar þess er einfaldlega gætt, hvernig aðstæður eru í okkar landi, vegalengdirnar, strjálbýlið og margháttaðir samgönguerfiðleikar.

Ég held nú samt, að það sé ekki að bera í bakkafullan lækinn, þegar hv. 6. þm. Norðurl. e. flytur þessa till. um að skora á ríkisstj. að láta fara fram athugun á hagkvæmni vegagerðar yfir Sprengisand. Eins og hv. þm. tók fram, þá er þetta ekki nýtt mál. Sprengisandsleiðin er náttúrlega fyrst og fremst einhver elzta leiðin á milli landsfjórðunga frá örófi alda. Og þegar menn byrjuðu hér fyrst á vegagerð, þá var strax hugað að þessum háfjallaleiðum jafnhliða byggðavegunum. Hér á Alþ. hefur þetta mál einnig verið til meðferðar áður. Ég minnist þess, að árið 1955 fluttum við tveir þm. Austurlands, Halldór Ásgrímsson, sem þá var þm. N.-- Múlasýslu og ég, till. um athugun á vegarstæði yfir Sprengisand, því þótt í till. væri talað um athugun á vegarstæði milli landsfjórðunga, þá kom það fram í framsögu og víðar við meðferð málsins, að fyrst og fremst beindust þessar hugmyndir að Sprengisandi.

Vegamálastjóri sendi þá fjvn. ítarlega umsögn um þetta mál og greindi frá frumathugunum. sem höfðu farið fram á leiðinni og hvernig ástatt var þá, en það var aðeins byrjað að fara yfir hálendið á bílum, sem þá voru ferjaðir yfir verstu vatnsföllin.

Þessi till. var samþ. þá og athugun fór fram á þessu á þeim tíma . Síðan í framhaldi af því, verður svo það, að þarna eru brúuð verstu vötnin og þessi leið er nú orðin æði fjölfarin ferðamannaleið, þó að ekki sé hún uppbyggð.

Ég man eftir því, þegar þetta mál var flutt á sínum tíma og e.t.v. gera svipaðar hugrenningar vart við sig nú, að manni finnst þetta kannske mikið í fang færzt að stefna inn á hálendið með vegagerð, meðan stór verkefni eru alls staðar annars staðar.

En þróun þessa hálendisvegar er eiginlega táknræn fyrir það, hvernig þörfin kallar á og hvernig verkefnin þrýsta sér að, þannig að undan þeim verður ekki komizt. Þetta er brotizt fyrst sisvona, eins og gert hefur verið víða og síðan fara menn að huga að því að gera meira. Á þessu tímabili hefur verið opnuð greiðfær slóð fyrir ferðamenn yfir sumartímann. Það er óhætt að segja það og annað hefur einnig gerzt, að það er kominn uppbyggður vegur á æði löngum kafla á syðri hluta leiðarinnar eða inn undir Þórisvatn, vegna mannvirkjagerðarinnar þar. Mér finnst það þess vegna eðlilegt, að menn taki að hugleiða, hversu það megi takast og hvað það muni kosta og hvernig verði hagkvæmast að því unnið að byggja upp veg á þessari leið.

Nú eins og ævinlega eru verkefnin í vegamálunum gífurleg í öllum áttum og við höfum nú ákveðið það Íslendingar, að hefjast handa um eina alveg afmarkaða stórframkvæmd, sem opnar hringveginn umhverfis landið með því átaki, sem fyrirhugað er að gera á Skeiðarársandi á næstu þremur árum. En þrátt fyrir þetta, þá held ég, að skynsamlegt sé að taka nú að gera sér nokkru nánari grein, en áður hefur verið fyrir vegagerð yfir hálendið, það sé skynsamlegt að ætla sér til þess góðan tíma. Það er vonandi af sú tíð, þegar vegir voru valdir á líkan hátt og gert var, þegar vegurinn var ákveðinn í Vopnafjörðinn. Það gerðist með þeim hætti, að ungir menn ákváðu að brjótast yfir heiðarnar niður í Vopnafjörð, áður en vegur var lagður. Þeir lentu í þoku og villtust fram á brún Burstafells og brutust þar niður við enda fellsins. En síðan var tínt í þessa slóð, í verstu holurnar, og byrjað að fara hana, og þannig var þetta vegarstæði ákveðið.

En þó að svona vegagerð eða ákvarðanir um vegarstæði séu nú úr sögunni, þá held ég, að það sé ágætt að ætla sér góðan tíma til þess að undirbúa stórframkvæmdir eins og það verður, þegar ráðizt verður í vegagerð yfir hálendið, sem auðvitað verður gert á sínum tíma. Það er áreiðanlega hafið yfir allan efa, að uppbyggður vegur þvert yfir hálendið verður ekki einasta þýðingarmikill fyrir ferðamálastarfsemi alla, heldur einnig fyrir aðra þætti atvinnulífsins, því eins og raunar liggur í augum uppi og 1. flm. tók fram. þá styttir sá vegur stórkostlega landleiðina milli mjög fjölmennra og þýðingarmikilla byggðarlaga. Ég er þess vegna mjög hlynntur því, að þessi till. fái jákvæða afgreiðslu.