25.04.1972
Sameinað þing: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í D-deild Alþingistíðinda. (4561)

234. mál, vísitölu- og gengistryggð lán Ferðamálasjóðs

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 497 hef ég leyft mér að leggja fram till. til þál. um rannsókn á áhrifum vísitölu— og gengistryggðra lána Ferðamálasjóðs á greiðslugetu lántakenda og sérstaka aðstoð, þar sem þörf reynist.

Sá háttur hefur verið á hafður á lánum Ferðamálasjóðs, að þau hafa ýmist verið vísitölu— eða gengistryggð. Það er óþarft að lýsa hér þeim áhrifum, sem verðhækkanir og gengisfellingar hafa haft á vísitölu— og gengistryggð lán. Víða er nú svo orðið með vísitölutryggð lán, að afborganir eru orðnar langtum lægri, en vísitöluálagið. Og með gengistryggð lán er það algengt, að þrátt fyrir miklar afborganir er skuldin enn töluvert hærri en lánið upphaflega var. Út af fyrir sig getur slík vísitölu– eða gengistrygging lána verið eðlileg og út af fyrir sig geta ýmsir lántakendur auðveldlega haft þær auknar tekjur með hækkuðu verðlagi og breyttu gengi, sem gerir þeim kleift að standa undir greiðslu afborgana og vaxta af slíkum lánum. Ég hygg þó, að svo sé fyrst og fremst í þéttbýlinu, stöðum eins og Reykjavík og nágrenni Reykjavíkur og yfirleitt þar sem ferðamannastraumur er mikill og þar sem nýting gistihúsa er sæmileg mikinn hluta af árinu. En á mörgum smærri stöðum hefur gistihúsum verið komið á fót af nauðsyn fyrir ferðamenn, sem þar fara um og eiga ekki annars staðar gistingar von en e.t.v. á einum stað á stóru svæði eða jafnvel í heilli sýslu. Á mörgum slíkum stöðum, sem afviknir eru, er það algengt, að vegir lokast snemma og opnast seint og ferðamannatíminn þar er oft ekki meira en 4—5 mánuðir. Ég þekki dæmi um slíkt og tek dæmi í þeirri grg., sem fylgir þessari þáltill., dæmi þar sem mér sýnist algerlega ljóst, að lántakendur geta ekki staðið undir þeim álögum. sem vísitölu— og gengistrygging þeirra lána, sem þeir höfðu fengið, leggur á þá. Ég veit, að á öðrum staðnum blasir við, að lántakandi þurfi jafnvel að hætta sínum rekstri af þessum ástæðum og eingöngu dugnaður hans og fjölskyldu hans hefur gert honum kleift að halda þó áfram enn. Mér sýnist því vera rík ástæða til þess að skoða áhrif þessara skilyrða, þessara vísitölu— og gengistrygginga, á greiðslugetu lántakenda. Ég hygg, að sú skoðun muni leiða í ljós það, sem ég hef nú sagt, að áhrifin eru mjög breytileg og víða þannig, að þau eru ekki réttlætanleg. Ég hygg, að það muni einnig koma í ljós, og það hefur raunar þegar orðið svo, að þeir, sem rekið hafa gistiheimili á afskekktum stöðum, hafa orðið eða eru við það að gefast upp, ef ekki kemur hér nokkur leiðrétting til. Í trausti þess, að slík athugun verði gerð og ég er sannfærður um að hún muni leiða þetta í ljós, sem ég hef rakið, legg ég til, að ríkisstj. hlutist til um einhverja sérstaka fjárhagsaðstoð við þá lántakendur, sem í ljós kemur, að þannig er ástatt fyrir, eins og ég hef nú minnzt á.

Ég hef ekki gert tilraun til þess að benda á leiðir, ef lánum þessum yrði breytt. Það getur verið erfitt, en ég læt hæstv. ríkisstj. um að finna leið til lausnar á þessum vanda, sem er tiltölulega mjög lítill miðað við fjölmargt annað, sem orðið hefur að leysa vegna erfiðleika af verðhækkunum og gengisfellingu.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vísa til grg. til nánari skýringar á þessari þáltill., en vil leyfa mér að leggja til, að till. verði vísað til hv. fjvn.