16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í D-deild Alþingistíðinda. (4592)

247. mál, fiskvinnsluskóli í Vestmannaeyjum

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég flutti hér fyrr á þinginu fsp. til hæstv. menntmrh. um stofnun fiskiðnskóla í Vestmannaeyjum í samræmi við 6. gr. laga frá 2. apríl 1971. Ég lýsti því þá, að ég hefði orðið fyrir nokkrum vonbrigðum af svari hæstv. ráðh., og eftir að ég hafði ítarlega lesið svar hans, sá ég, að þar komu fram atriði, sem ég tel, að nánari athugunar þurfi við, og gáfu mér tilefni til að vera 1. flm. að þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir. En í svari hæstv. ráðh. segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Áður en stofnaður verði fiskvinnsluskóli í Vestmannaeyjum og aðrir þeir, sem gert er ráð fyrir í lögunum, þarf að athuga, hver raunveruleg þörf er fyrir starfsfólk með þá menntun, sem gert er ráð fyrir að þessir skólar veiti, og hver þörf kann að vera á fólki í fiskiðnaði með aðra menntun, en engin slík athugun hefur farið fram.“

Þetta gaf mér tilefni til að kynna mér nokkru nánar, hver aðstaða fiskiðnaðarins væri raunverulega í sambandi við fræðslukerfið, miðað við aðrar atvinnugreinar og fræðslukerfið í heild. Ég fékk um þetta skýrslu, og kemur þá í ljós, að í menntaskólum landsins eru samtals 3 255 nemendur, og er þar talin með framhaldsdeildin við Hamrahliðarskóla, þar sem í eru 230 nemendur. Í háskólum eru samtals 2 849 nemendur, þar af 874 erlendis. Í Kennaraskólanum og Kennaraháskólanum eru samtals 701 nemandi. Það virðist því, að á þessu almenna fræðslustigi, menntaskólum og framhaldsskólum og háskólum, séu um 6 800 nemendur. Í þeim skólum, sem ekki verða beint taldir til neinnar sérstakrar atvinnugreinar, svo sem Tækniskólanum o.fl., þar eru 683 nemendur, þar af 453, sem stunda nám erlendis og starfslána eða starfsstyrkja njóta. Það vill því segja, að í menntaskólum og framhaldsskólum, æðri skólum, eru um 7 500 nemendur samtals. Þegar komið er að atvinnugreinunum, þá skiptist þetta þannig, að í iðnaði eða í iðnskólunum eru 2 050 nemendur, í verzlunarskólunum eru 802 nemendur, í landbúnaðarskólum eru samtals 136 nemendur, þar með eru taldir garðyrkjuskólar, sem í eru 23 nemendur. Þegar að sjávarútveginum kemur, þá eru í fiskimannadeild stýrimannaskólanna tveggja um 120 nemendur, og í Vélstjóraskólanum eru 303 nemendur. Ég hygg, að bæði í iðnaði og verzlun og reyndar kannske landbúnaði líka sé þetta eðlilegt, að þessir skólar fullnægi þeirri þörf, sem þessar atvinnugreinar krefjast í sambandi við æðri menntun í þessum starfsgreinum. Þegar aftur kemur að fiskiðnaðinum, þá er aðeins um að ræða 30 nemendur, sem nú eru í undirbúningsdeild fiskiðnskólans, sem hér tók til starfa á s.l. hausti. Ég hygg, að hv. alþm. geti verið sammála um þessa atvinnugrein, fiskiðnaðinn, að það hefur allt of lengi dregizt að veita þeim aðilum, sem vilja afla sér frekari menntunar í sambandi við þessa iðngrein, aðstöðu til þess.

Vegna þess að það kom fram í svari hæstv. ráðh., að hann var ekki viss um, hver þörf raunverulega væri fyrir starfsfólk með aukna menntun í þessu sambandi, þá hygg ég, að við getum verið um það sammála, að þörfin er þarna mjög rík. Ég tel ekki, að það geti verið eðlilegt um þennan annan undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, að ekki séu nema 30 nemendur í skóla, sem ætti að veita þar frekari menntun.

Ég vil ekki tímans vegna hafa um þetta öllu fleiri orð, en ég hygg, að öllum hljóti að vera ljós nauðsyn á því, að þarna verður að verða breyting á, og ég tel, að það megi ekki draga það helzt deginum lengur að skapa þá aðstöðu, sem nauðsynleg er, til að veruleg breyting geti þarna á orðið. Ég vil í því sambandi benda á það, sem öllum er reyndar kunnugt, að verið er að gera síauknar kröfur til þessarar atvinnugreinar, fiskiðnaðarins, í ýmsu sambandi, bæði með hreinlæti og annað, vélvæðing hefur orðið þar mikil, og því eðlilegt, að ungu fólki, sem vill hasla sér völl í þessum iðnaði, verði veitt aðstaða til frekara náms en nú er.

Ég get ekki verið á sama máli og hæstv. menntmrh. um, að það beri að skilja lög um fiskvinnsluskóla frá 2. apríl 1971 á þann veg, að ekki beri að setja upp fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum, því að ég tel, að 6. gr. kveði alveg skýrt á um það, og ég hygg, að engum hafi dottið það í hug, þegar verið var að ræða málið hér á s.l. vetri. Þá hefur engum dottið annað í hug en að til skóla yrði stofnað í Vestmannaeyjum samtímis og skóli yrði stofnaður á Suðvesturlandi, eins og lögin gera ráð fyrir, því að það er beinlínis tekið fram í þessari sömu grein, að á árunum 1972–1975 skuli unnið að undirbúningi að stofnun fiskvinnsluskóla annars staðar á landinu. Ég tel, að það sé kveðið alveg skýrt á um það, að ætlazt hafi verið til, að þegar á árinu 1972 yrði stofnað til fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum, eins og nú hefur verið gert hér í Reykjavík eða á Suðvesturlandi. Og 7. gr. þessara sömu laga mælir fyrir um það, hvernig skólanefnd skuli skipuð og hvenær hún skuli skipuð, og tel ég, að það sé samkv. lögunum þegar orðið tímabært að skipa skólanefnd fyrir fiskvinnsluskólann í Vestmannaeyjum, og það er það, sem við flm. þessarar till. viljum leggja áherzlu á, að það verði undinn að því bráður bugur að skipa skólanefndina og að til fiskvinnsluskóla verði stofnað þegar á næsta hausti, eins og við teljum að lögin frá 2. apríl 1971 geri ráð fyrir.